Morgunblaðið - 09.02.2012, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 09.02.2012, Blaðsíða 25
því stundum að vera fjarverandi á kvöldin. Það var því ánægjulegt að líta eftir börnum þeirra, sem voru sérstaklega þæg og vel uppalin börn. Þegar ég var búin að vera nokk- ur ár hjá Svanlaugu og Jóni eign- aðist ég dóttur. Þetta var um miðja síðustu öld og þá voru ekki komin lög um fæðingarorlof og dagmæður ekki teknar til starfa. Ég átti engan að sem gat hjálpað mér með barnið. Þá bauð Svan- laug mér að líta eftir barninu á daginn á meðan ég var í vinnunni. Svanlaug og Jón áttu sumarhús á fallegum kjarrvöxnum stað við Laugarvatn þar sem Svanlaug dvaldi með börnin á sumrin og árið sem dóttir mín var á öðru ári tók Svanlaug hana með sér. Þegar dóttir mín var tveggja ára gat ég komið henni á leikskóla og stuttu seinna flutti ég frá þess- um góðu hjónum. Þegar börn Svanlaugar og Jóns voru orðin stálpuð fór Svanlaug að vinna í verslun og vann þar meðan kraftar leyfðu en fyrir allmörgum árum fékk Svanlaug ólæknandi sjúkdóm sem hún bar með miklu æðruleysi til dauðadags. Við Svanlaug höfðum alltaf samband og alltaf fórum við Svana dóttir mín í heimsókn til hennar á aðfangadag. Þá var mikil veisla hjá Svanlaugu því þá átti hún af- mæli. Með sorg og söknuði kveð ég þessa góðu vinkonu mína og vel- gjörðarmann. Steingerður (Gerða). Svo mikil voru harðindin, að enn þann dag í dag er talað um frostaveturinn mikla 1918, þá var einnig Kötlugos í gangi og hin mannskæða spánska veiki gekk. Gott ef það voru ekki líka stóru brandajól, en þá er hætt sjófar- endum og sængurkonum. Inn í þessar aðstæður fæddist Svanlaug Böðvarsdóttir á aðfangadag jóla, 13. barn foreldra sinna og tólfta dóttirin. Fátt er meira gleðiefni en barnsfæðing, þegar allt gengur vel og móður og barni heilsast vel, ég efast ekki um að það hefur verið mikil gleði á Laugarvatni þessi jól. Það fyrsta sem mér dettur í hug, þegar ég minnist Svanlaugar, er hvað góð og falleg hún var. Hún var líka skemmtileg og í hlýju fasi hennar var glæsileiki og þokki sem gleymist ekki þeim er þekktu. Svanlaug stundaði nám í Hér- aðsskólanum að Laugarvatni, á Reykjum í Hrútafirði og Hús- mæðraskólanum á Ísafirði. Á Reykjaskóla var mágur hennar, sá góði skólastjóri Guðmundur Gísla- son. Kona hans Hlíf er ein eftir af þeim Laugarvatnssystkinum, hún er að verða 103 ára og ber aldurinn ótrúlega vel. Svanlaug var gæfumanneskja í sínu lífi, hún giftist ung ágætum manni, Jóni Leós, og eignuðust þau fjögur góð börn, en elsti sonur þeirra Leó Már lést í vetur langt um aldur fram. Við eldri systurnar á Búfelli minnumst þess frá bernsku og unglingsárum okkar hversu gam- an það var að heimsækja þau hjón á Reynimelinn, þar var tekið á móti okkur með kostum og kynj- um.Við höfðum aldrei séð eins fal- legt heimili og það var sama sagan þegar þau bjuggu í Blönduhlíðinni. Nokkur síðustu ár Ingunnar móður Svanlaugar bjó hún hjá þeim hjónum, og átti þar notalegt ævikvöld en Ingunn var 96 ára þegar hún lést. Það var venja hjá Jóni að lesa fyrir tengdamóður sína það sem markverðast var í blöðunum þegar hann kom heim úr vinnunni. Eftir að Svanlaug var orðin ein bjó hún í fallegri íbúð við Hvassa- leiti, á heimili hennar ríkti sama smekkvísi og fyrr, þar var gott að koma. Börnum hennar og afkomend- um hennar votta ég samúð mína. Blessuð sé minning Svanlaug- ar. Ingunn Pálsdóttir. MINNINGAR 25 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. FEBRÚAR 2012 ✝ Vilborg HelgaKristjánsdóttir var fædd í Fagra- dalstungu, Saurbæj- arhreppi, Dalasýslu 20. september 1930. Hún lést á Grund, dvalar- og hjúkr- unarheimili, mið- vikudaginn 1. febr- úar. Foreldrar hennar voru þau Loftur Kristján Haraldsson f. 3. apríl 1894, d. 11. ágúst 1980 og kona hans Sigurást Sturlaugsdóttir f. 16. september 1894, d. 17. nóv- ember 1986. Systkini hennar eru Rannveig Hanna f. 25. mars 1926, d. 31. janúar 2006, Ingibjörg f. 11. ágúst 1927, Björn Ingiberg f. 12. janúar 1933, d. 31. janúar 2004 og Kristinn Herberg f. 12. apríl 1936. Vilborg Helga giftist Gunnlaugi Einarssyni 17. júní 1954. Þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Einar f. 17. desember 1955, 2) Geir f. 9. mars 1962, maki Sigríður Anna Ellerup f. 1. júní 1965, börn þeirra eru: a) Andri f. 2. ágúst 1986, b) Sigrún Helga f. 6. október 2002, c) Gísli Gunnlaugur f. 6. október 2002. 3) Már f. 17. febrúar 1964. Sonur Más er Gauti Þeyr f. 17. nóvember 1989. Móðir hans er Arnhildur Rannveig Árnadóttir. Sambýliskona Más er Dögg Árna- dóttir f. 28. ágúst 1964, synir hennar eru Bergur Rún- arsson og Björn Rúnarsson. Vinur og samferðamaður frá 1998 er Haukur Pálsson f. 9. janúar 1928. Vilborg Helga ólst upp hjá fjöl- skyldu sinni á Skarðsströnd í Dala- sýslu, lengst af á bænum Barmi. Eins og tíðkaðist á þeim tíma stundaði hún nám við farskóla sem fór um sveitina. Síð- ar fór hún ásamt systrum sínum í Húsmæðraskólann á Staðarfelli. Um tvítugt flutti hún til Reykja- víkur og vann þar ýmis störf. Eft- ir að börnin fæddust var hún að mestu heimavinnandi þar til hún hóf störf í Hampiðjunni um 1970. Áratug síðar ákvað hún að breyta til, sótti námskeið og hóf störf sem læknaritari í Domus Medica og síðar sem deildarritari á Klepps- spítala. Hún var virk í fé- lagsstörfum og starfaði m.a. í MÍR í áratugi. Hún vann tvö sumur sem fararstjóri í Búlgaríu. Hún var fagurkeri og hafði yndi af allri tónlist og söng meðal annars í kór. Útför Vilborgar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 9. febrúar 2012 kl. 13. Þótt móðir mín sé nú aðeins minningin ein mun ég ávallt minnast hennar með glöðu geði og dýpstu virðingu, hugheilu þakklæti og hjartans hlýju, fyrir allt og allt. (Sigurbjörn Þorkelsson) Þinn sonur, Geir. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífsins nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. (Þórunn Sigurðardóttir) Í dag kveð ég kæra tengda- móður mína, Vilborgu Helgu Kristjánsdóttur, með hjartans þökk fyrir ánægjulegar samveru- stundir, vináttu og stuðning. Bogga var fædd þann 20. sept- ember 1930 á Skarðsströnd. Þar ólst hún upp í foreldrahúsum ásamt systkinum sínum fjórum, þeim Rannveigu og Birni sem bæði eru látin og Ingibjörgu og Herberg, sem í dag kveðja systur sína hinstu kveðju. Þó lífsbarátt- an í Dölunum hafi oft verið hörð og fjölskyldan búið við kröpp kjör voru systkinin alin upp á kær- leiksríku og góðu heimili. Þau voru voru alla tíð mjög náin, sam- heldin og studdu hvert annað á lífsins vegferð. Þannig stóð heim- ili tengdamóður minnar ávallt op- ið öllu hennar skyldfólki og voru það ófáir sem nutu þar skjóls um lengri eða skemmri tíma. Bogga kom inn í líf mitt fyrir rúmum aldarfjórðungi þegar ég og Geir sonur hennar byrjuðum að vera saman. Hún var heillandi kona, grönn og létt á fæti og hafði góða nærveru. Heimili hennar bar smekkvísi hennar merki og fallegir munir prýddu það. Hún tók mér opnum örmum, af hlýhug og innileika, eins og henni var einni lagið. Sá hlýleiki og innileiki hélst alla tíð. Hún hafði unun af því að ferðast og naut þess að kynnast ólíkum menningarheimum. Á ferðalögum var hún í essinu sínu og geislaði af gleði og hamingju. Hún var virkur félagi í MÍR og ferðaðist hún með félaginu vítt og breitt um fyrrum ríki Sovétríkj- anna. Þar heimsótti hún staði sem flestir höfðu einungis lesið um í sögubókum. Margvíslega muni bar hún heim úr þessum ferðalög- um sem settu svip sinn á hennar fallega heimili. Fjölskyldan átti þó hug hennar og hjarta og var hún óendanlega stolt af strákunum sínum. Af ást- úð studdi hún þá heilshugar í öllu því sem þeir tóku sér fyrir hend- ur. Þá veittu barnabörnin hennar fjögur henni ómælda gleði og ánægju og hún þeim. Fátt var henni óviðkomandi um velferð þeirra og velgengni og sinnti hún þeim af umhyggju og ræktar- semi. Hún var viðræðugóð og næm á líðan fólks og átti auðvelt með að setja sig inn í ólíkar að- stæður. Góðar minningar eru tengdar fjölskylduboðum í Hjaltabakkanum þar sem málefni líðandi stundar og önnur hugðar- efni voru rædd í þaula. Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um hana Boggu mína og skiptust þar á skin og skúrir, sem settu mark sitt á lífshlaup hennar. Síðustu árin átti hún við verulega vanheilsu að stríða og var hvíldin henni því kærkomin. Við trúum því að nú líði henni vel, létt í spori, geislandi af gleði og hamingju. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Guð blessi minningu tengda- móður minnar. Sigríður Anna (Anna Sigga). Elsku amma mín. Þó ég þurfi engan texta til að sýna þér hversu mikið mér þótti vænt um þig, þá finnst mér skemmtilegt að endurtaka setn- ingarnar með pennanum. Þú ert yndisleg. Mér þykir vænt um þig. Ég skrifa þetta í nútíð því þó þú sért fallin frá, þá veit ég að það er partur af þér sem lifir með okkur. Þú varst okkur öllum svo kær og ég vil að þú vitir að þú skiptir okkur mjög miklu máli. Síðustu árin voru kannski ekki hinir mestu gleðitímar, en sama hvernig lá á þér fann ég alltaf fyr- ir sterkri hamingjutilfinningu þegar þú tókst utan um mig og brostir til mín. Veikindin voru farin að hafa mikil áhrif á líkamlega og andlega heilsu og þó svo að það sé sárt að segja það þá var það fyrir bestu að þú fékkst að fara. Ég er ekki alveg viss hvað ég á að skrifa í þessa minningargrein en ég veit að þú fyrirgefur mér það. Ég elska þig. Ég sakna þín. Þú varst ein æðisleg kona, Vil- borg Helga. Gauti Þeyr. Elsku besta systir mín, nú er komið að kveðjustund okkar í bili. Við sjáumst aftur hjá ástvinum okkar þar sem ég er viss um að vel verður tekið á móti þér. Það er svo margs að minnast þegar ég hugsa til baka sem ekki er skrítið þar sem við vorum svo nánar á okkar uppvaxtarárum. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífsins nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir.) Gleðin og sorgin eru systur sem fylgja okkur gegnum lífið. Orð eru til lítils megnug en þá er gott að eiga góðu minningarnar um þig sem munu lifa áfram. Guð geymi þig, elsku systir. Ingibjörg Kristjánsdóttir. Frænka mín, Vilborg Krist- jánsdóttir, er fallin frá. Minningar frá æskuárum leita á hugann, aftur til sjötta áratug- arins þegar amma mín og ég heimsóttum Reykjavík utan af landi og dvöldum þá tíðum hjá Boggu og Gulla. Heimili þeirra á Grettisgötu og síðar á Hjalta- bakka var eins konar samkomu- staður ættarinnar í Reykjavík á meðan Ásta, móðir Boggu og ömmusystir mín, lifði, en Bogga annaðist móður sína einkar vel á efri árum hennar. Bogga var gestrisin og fjölskyldurækin og hélt nánu sambandi við sína nán- ustu. Hún var glaðvær að eðlisfari og hláturmild. Ég minnist þess hvað hún var alltaf hlýleg í við- móti, barngóð, hreinskiptin og hafði ríka réttlætiskennd. Í ungdómi sínum hafði Bogga alist upp á Skarðsströnd, en við Breiðafjörðinn átti hún stóran ættgarð. Hún var dugnaðarsöm, kvik í hreyfingum og lagleg kona útlits. Hún fékk snemma áhuga á ferðalögum og gerðist virk í MÍR, ásamt þáverandi manni sínum, Gunnlaugi Einarssyni. Kom þá ekki á óvart að flestar voru ferð- irnar farnar í austurveg. Þegar árin liðu, fækkaði tæki- færunum til að koma saman og hittumst við þá, eins og oft vill verða, aðallega í stærri fjöl- skylduboðum. Mér fannst Bogga ennþá ungleg þegar ég sá hana síðast, brosandi að vanda, en veikindin höfðu þá þegar byrjað að gera harða hríð að henni. Ég mun alltaf minnast þessar- ar elskulegu frænku minnar með hlýhug og þakklæti. Fjölskylda mín og ég sendum sonum Boggu, Einari, Geir og Má, ásamt fjöl- skyldum þeirra, og systur Boggu, Ingu, okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Gunnar Pálsson. Ég minnist Boggu þegar þær systur, hún og Inga, komu fyrst til Reykjavíkur í atvinnuleit vest- an af Skarðsströnd. Bráðlaglegar og myndarlegar og ekki vitund sveitó þótt þær hefðu alið allan aldur sinn í sveitinni. Þær voru ungar, kátar og hressar og horfðu björtum augum til framtíðarinn- ar. Þær fengu leigt í húsinu þar sem ég og mamma, móðursystir þeirra Ragnheiður, bjuggum og milli okkar skapaðist vinátta sem varað hefur æ síðan. Báðar fóru þær út á vinnu- markaðinn og ekki leið á löngu þar til tilvonandi eiginmenn komu til sögunnar. Bogga giftist Gulla, heimili þeirra stóð framan af við Grettisgötuna og þar slitu dreng- irnir þeirra þrír barnsskónum. Húsakynnin voru ekki stórbrotin en gestagangur var mikill enda hjónin með afbrigðum gestrisin og skemmtileg heim að sækja. Auk stórfjölskyldunnar litu inn fjölmargir vinir og kunningjar. Oft furðaði ég mig á hvernig úti- vinnandi húsmóðir fann tíma til að sinna börnum og heimili með allan þennan gestagang en Bogga var fyrirmyndarmóðir, rösk til allra verka og lífsglöð að eðlisfari. Fjölskyldan flutti síðar upp í Breiðholt og þar eignuðust þau fallegt heimili. Bogga var mikill fagurkeri, hafði ánægju af því að vera vel til fara og hafa notalegt í kringum sig. Ásta móðir hennar var hjá þeim í ellinni og naut mik- illar umhyggju og ástúðar. Eftir að um hægðist ferðaðist Bogga víða og gerðist meira að segja aðstoðarfararstjóri til Búlg- aríu í nokkur skipti. Fyrir 20 ár- um fórum við frænkurnar tvær einar til Mallorka og ég á góðar minningar úr þeirri ferð. Bogga hafði mikla ánægju af því að vera innan um fólk, fannst gaman að dansa, hafði fallega söngrödd og fólk laðaðist að henni. Þarna kynntist ég alveg nýrri hlið á frænku minni. Ég á þeim Gulla mikið að þakka því eftir að við fluttum út á land stóð heimili þeirra opið fjöl- skyldunni minni. Börnin mín eiga fallegar minningar um Boggu frænku sína. Þau Gulli skildu og ósagt skal látið hvort draumarnir sem Bogga kom með í farteskinu að vestan rættust. Eitt er víst að þeir sem kynntust Boggu gleyma henni ekki. Fjölskyldunni send- um við innilegar samúðarkveðjur Blessuð sé minning hennar. Ragnheiður Jónsdóttir (Dadda). Horfin er sjónum okkar elsku- leg vinkona mín, Vilborg Krist- jánsdóttir, hún Bogga mín. For- eldrar hennar fluttu á næsta bæ við okkur þegar við vorum ungar stelpur en það var stutt á milli Nípur og Heinabergs. Fljótlega kom í ljós að þær systur höfðu gaman af söng líkt og við systur. Þá var gítarinn tekinn og sungið. Við höfum átt samleið í meira en hálfa öld, unnum saman í verk- smiðju, fórum saman í hús- mæðraskólann á Staðarfelli og brölluðum margt. Boggu þótti mjög gaman að ferðast til heitari landa. Við fórum meðal annars saman til Kanaríeyja. Þá var sól á lofti allan tímann. Þá fann ég hennar ljúfa geðslag. Við vorum alltaf sammála um það hvað okk- ur langaði að gera. Á Kanaríeyj- um voru þá kvöldvökur. Á einni slíkri fengum við Bogga þessa vísu: Léttar í spori læðast inn, laumast í hugann vísa. Með bros á vör og bjarta kinn Bogga og Daladísa. Að leiðarlokum þakka ég langa samfylgd og vináttu, þú góða kona sem öllum vildir vel. Megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveita elsku Boggu mína. Þín Brandís (Dísa frá Heinabergi). Vilborg Helga Kristjánsdóttir HINSTA KVEÐJA Í dag minnumst við Boggu ömmu sem dó 1. febrúar 2012. Til minningar um hana skrifa ég ljóð. Þú sem varst svo blíð og góð þurfti þetta að enda svona ligg ég nú og hugsa þú blíða amma góða. Þín Sigrún Helga. ✝ Elskulegur bróðir okkar, ÞÓRÐUR GUÐNASON, áður til heimilis að Efstasundi 53, lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð föstu- daginn 3. febrúar. Útförin fer fram frá Áskirkju þriðjudaginn 14. febrúar kl. 15.00. Systkini hins látna, María Guðnadóttir, Magnús Guðnason. ✝ BJÖRGVIN GESTSSON andaðist á hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi sunnudaginn 22. janúar. Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna. Börn, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og afi, JAKOB ÓLAFSSON, Foldahrauni 37h, Vestmannaeyjum, lést sunnudaginn 5. febrúar. Útförin fer fram frá Landakirkju laugardaginn 11. febrúar kl. 11.00. Elsa Pálsdóttir, Ólafur Jakobsson, Lovísa Inga Ágústsdóttir, Elsa Rún og Birkir Freyr.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.