Morgunblaðið - 09.02.2012, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 09.02.2012, Blaðsíða 29
MINNINGAR 29 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. FEBRÚAR 2012 undir morgun og málin rædd, enn fremur kom sú hefð að mér var boðið á gamlárskvöld að vera með fjölskyldunni. Þessar hefðir hafa í gegnum tíðina fengið meira vægi í lífi mínu, verið eitt- hvað jarðfast og óbreytanlegt, vinátta og tryggð eins og hún sýnir sig best, vinátta sem ég fæ seint fullþakkað fyrir. Ég tel mig vera afar lánsaman að hafa kynnst Sæma og verður það skarð sem fráfall hans skilur eft- ir lífi mínu vandfyllt. Elsku Snæa mín, ég sendi þér og börnum og fjölskyldu þeirra mínar dýpstu samúðarkveðjur. Megi góður guð gefa ykkur styrk í sorginni. Þorgeir Ísfeld Jónsson. Látinn er góður félagi og kær vinur, Sæmundur Sigurðsson, eftir snörp veikindi, langt fyrir aldur fram. Kynni okkar hófust fyrir tæp- um fjörutíu árum er við eign- uðumst sumarbústaðalönd í Vað- nesi sem hafa orðið okkur kær dvalastaður enda dvaldi Sæmi þar löngum stundum. Sæmi tók þátt í og beitti sér fyrir öllum þeim framkvæmdum sem þetta litla samfélag okkar stóð fyrir okkur til framfara og þæginda fyrir okkur öll, t.d. að fá rafmagn á svæðið, heitt og kalt vatn og varanlegt slitlag á vegi o.fl. o.fl. Í öllu þessu var Sæmi öflugur með sín góðu ráð og vin- gjarnlega framkomu við alla. Það þróaðist með okkur vin- átta enda Sæmi vel gerður og mikill vinur vina sinna, áttum við margar góðar stundir saman sem geymast í reynslubankan- um. Það er því með miklum sökn- uði sem við kveðjum Sæma en um leið með miklu þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast honum og hans góðu konu henni, Snæju. Í lífi hvers manns er eitt það mikilverðasta að eignast sanna vini og umgangast gott fólk, það lærir maður að meta en ekki síst er þeir kveðja. Með þér leið mín lá um liljum skrýdda grund. Já, þér muna má ég marga glaða stund, þú ert horfinn heim, ég hvorki græt né styn, en aldrei hef ég átt né eignast betri vin. (K.N.) Við Gilla sendum þér, Snæja mín, og fjölskyldunni allri inni- legar samúðarkveðjur. Gíslína og Guðjón. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum.) Stórt skarð hefur verið höggv- ið í traustan og góðan vinahóp þegar vinur okkar og félagi, Sæ- mundur Þ. Sigurðsson, eða Sæmi eins og hann var ávallt kallaður, hefur fallið frá á 69. aldursári. Við höfum verið svo lánsöm að hafa átt hann að í ríflega hálfa öld og á þeim tíma hefur ekki hefur borið skugga á vináttu- bönd hópsins. Sæmi var ávallt hrókur alls fagnaðar hvort held- ur í okkar árlegu ferðalögum eða í sumarbústað þeirra hjóna í Vaðnesinu. Þá var mikið hlegið og rifjaðar upp skemmtilegar stundir frá unglingsárunum eða frá þeim tíma þegar hópurinn var að kynnast og framtíðin var óskrifað blað. Á þessum árum kynntist hann líka sínum betri helmingi, henni Snæju, sem hef- ur verið hans stoð og stytta í lið- lega 40 ár. Sæmundur var bakari að mennt og rak um árabil bakaríið í Austurveri sem faðir hans, Sig- urður Ó. Jónsson, stofnaði. Sæma var margt til lista lagt. Á sínum yngri árum stundaði hann danslistina af krafti og var lengi í sýningarhópi hjá Dans- skóla Hermanns Ragnars. Ekki þótti okkur konunum í vinahópn- um amalegt að ná Sæma út á dansgólfið og taka með honum eins og einn tangó eða jive svo ekki sé talað um gömlu dansana. Undir handleiðslu hans svifum við um gólfið í réttum takti eins og við hefðum aldrei gert annað. Hann var afbragðs sundmaður og keppti í sundi með ÍR og eru verðlaunapeningar á skrifstofu hans til vitnis um frábæran ár- angur. Sæmi var líka lunkinn laxveiðimaður og naut þess að vera úti í náttúrunni. Hann var mikill fagurkeri og áhugamaður með bíla. Nú seinni árin hefur hann var- ið miklum tíma í sumarbústað sínum í Vaðnesi ásamt Snæju sinni, börnum og fjölskyldum þeirra. Þeirra er söknuðurinn mestur. Við vottum þeim okkar dýpstu samúð og biðjum almætt- ið að veita þeim styrk til að tak- ast á við missinn. Við sjáum á eftir góðum vini sem við kveðjum í dag en vitum að minningarnar um Sæma munu sefa sorgina í hjörtum okkar allra. Hvíl í friði kæri vinur. Kom, huggari, mig hugga þú, kom, hönd, og bind um sárin, kom, dögg, og svala sálu nú, kom, sól, og þerra tárin, kom, hjartans heilsulind, kom, heilög fyrirmynd, kom, ljós, og lýstu mér, kom, líf, er ævin þver, kom, eilífð, bak við árin. (Vald. Briem.) Kolbrún og Þorgeir, Elsa og Haraldur, Erla og Garðar, Arna og Svein- björn, Ólafía og Hermann, Gerður og Gunnar. Í dag kveðjum við kæran vin, Sæmund Þ. Sigurðsson, sem lést eftir erfið veikindi föstudaginn 27. janúar sl. Þegar horft er til baka og ljúf- ar minningar streyma fram er ótrúlegt en satt að við hjónin höfum átt samleið með Sæma og Snæju, eiginkonu hans, í hart- nær hálfa öld og mestan hluta þess tíma deilt sælureit með þeim hjónum í Vaðneslandi í Grímsnesinu. Þetta land keyptu þeir félagarnir nokkru áður en sumarbústaðaeign varð eins al- menn og í dag og áður en vegur var lagður að landinu. Á þeim tíma sáum við Snæja það varla fyrir okkur að við ættum eftir að reisa þarna hús, hvað þá að sjá gróðurinn vaxa okkur yfir höfuð. Rafmagn og heitt vatn var ekki inni í myndinni á þeim árum og varð rigningarvatn og olíulamp- ar að duga fyrstu árin. En sælureiturinn varð að veruleika snemma á áttunda ára- tugnum og þar höfum við séð ungviðið okkar vaxa og þroskast og átt óteljandi sælustundir sam- an. Í byrjun gátum við horft á dætur okkar beggja trítla á milli bústaðanna og einu hætturnar á leiðinni voru hraunsprungur sem litlir fætur stigu oft í. Sæmi var sem hluti af tilveru okkar í Vaðnesi. Fyrsta spurn- ingin þegar við fjölskyldan kom- um austur var: „Eru Sæmi og Snæja komin?“ Sæmi og Snæja voru sem eitt. Ef nafn annars var nefnt fylgdi hitt sjálfkrafa á eftir. Það var eitthvað traust- vekjandi við að vita af honum í bústaðnum og þá sérstaklega í svartasta skammdeginu. Hann var öllum hnútum kunnugur, vissi við hvern átti að tala ef raf- magnið eða vatnið fór af eða ef eitthvað fór úrskeiðis. Auk þess var hann hagleikssmiður sem gott var að leita til. Hann var mikið snyrtimenni og ræktaði og snyrti landið án þess að yfir- keyra það með gróðri. Sæmi var hvers manns hug- ljúfi. Hann var sælkeri af guðs náð, léttur í lund og þótti ekki leiðinlegt að borða góðan mat, fá sér fínan vindil eftir matinn og gleðjast með góðum vinum. Og vinahópurinn okkar var traustur. Sæmi naut þess að vera með í okkar árlegu ferðum, hvort held- ur í sumarbústaðinn eða í lengri ferðum um landið. Skarð er fyrir skildi og verður hans sárt sakn- að. En mestur er söknuðurinn hjá Snæju okkar, börnum, tengda- börnum og barnabörnum. Við biðjum góðan guð að veita þeim styrk til að takast á við sorgina. Við leiðarlok streyma minn- ingar í gegnum hugann sem munu ylja okkur um ókomin ár og viðhalda minningunni um Sæma. Við kveðjum kæran vin og þökkum honum samfylgdina í gegnum árin. Blessuð sé minning hans. Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi, hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér. Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi, og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér. (Ingibjörg Sigurðardóttir) Erla og Garðar. Í dag kveðjum við góðan vin okkar og félaga, Sæmund Þ. Sig- urðsson bakarameistara eða Sæma eins og hann var kallaður. Sæmi varð hluti af vinahópnum þegar hann giftist Snæju æsku- vinkonu okkar og glöddumst við vinkonurnar í saumaklúbbnum yfir ráðahagnum. Sæmi var glaðlyndur, með næma kímnigáfu, ljúfur í allri umgengni, félagslyndur og naut sín vel í vinahóp en gat þó jafn- framt notið þess að vera einn með sjálfum sér. Hann var mikill náttúruunnandi og naut sín ekki síst við stangveiði þar sem hann átti fjölda góðra stunda svo sem við Norðurá, Laxá í Aðaldal og Grímsá. Oft var Snæja með í þessum ferðum. Fallega heimilið þeirra að Heiðarbæ var opið börnum og fjölskyldum þeirra að ógleymd- um sumarbústað fjölskyldunnar í Grímsnesi, paradís þeirra allra og ekki síst Sæma. Við vinkon- urnar áttum þar ógleymanlegar stundir og iðulega sá Sæmi um móttökurnar sem voru ekki af verri endanum. Sæmi og Snæja ferðuðust mikið og einu sinni gerðu þau það sem marga dreymir um, þau héldu til Spánar og dvöldu þar í eitt ár ásamt börnunum. Sæmi minntist þessa tíma með mikilli ánægju. Það var glatt á hjalla þegar saumaklúbburinn hittist ásamt mökum og var Sæmi hrókur alls fagnaðar. Haustið 2004 lögðum við land undir fót og fórum til Rómaborgar. Þar kom enn einu sinni í ljós hvað Sæmi naut sín vel í vinahóp og brölluðu strák- arnir ýmislegt saman. Undanfarna mánuði átti Sæmi við vanheilsu að stríða og dró mjög úr þreki hans síðustu vik- una þegar ekki tókst að snúa þróuninni við. Gat hann lengst af dvalið heima þar sem hann naut góðrar umönnunar fjölskyldu sinnar og stóð Snæja sem klettur við hlið hans. Þarna sýndi sig enn og aftur sú gagnkvæma virð- ing, umhyggja og ást sem var á milli Snæju og Sæma. Sæmi hlaut hægt andát á Landspítal- anum við Hringbraut í faðmi fjölskyldunnar að kvöldi 27. jan- úar. Við vottum Snæju, börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð. Megi guð og góðar vættir gæta þeirra. Blessuð sé minning góðs vin- ar. Guðrún, Hildur, Birna, Sigríður Halldóra, Gyða og makar. Andlát Sæmundar bar nokkuð brátt að og því fylgdi sársauki og harmur. Kynni okkar Sæma, eins og við félagarnir kölluðum hann alltaf, tókust fyrir 35 árum þegar ég og fjölskylda mín hófum byggingu á sumarhúsi í landi Vaðness í Grímsnesi. Sæmi og Snæja eins og þau voru ætið kölluð af vinum sínum voru þá ein af frumbyggjunum á sumarhúsum þar, þetta voru góðir nágrannar sem gott var að leita til og kynnin urðu náin eftir því sem árin liðu. Eftir að Sæmundur hætti að starfa dvaldi hann mikið í sveit- inni sinni og sagði oft við mig að þar kynni hann best við sig enda dvaldi hann þar hin síðari ár eig- inlega allt árið eftir að rafmagn og heitt og kalt vatn var komið í húsin okkar. Eitt sameiginlegt áhugamál áttum við, laxveiðar. Við töluðum oft saman um veiði og veiðistaði og sögðum hvor öðrum veiðisög- ur og hvaða flugur lónbúinn tók í það og það skiptið, en Sæmi var góður fluguveiðimaður og hnýtti sínar flugur sjálfur. Þau hjónin fóru árlega til Spánar eða Kanarí og nokkrum sinnum áttum við þess kost að hitta þau á Kanaríeyjum ef það hittist svo á að við vorum þar á ferð á sama tíma. Sæmundur kom til liðs við okkur í stjórn Hitaveitu Vað- ness, fyrst sem varamaður árið 1998 og síðar sem aðalmaður ár- ið 2002. Þá sat hann í stjórn Hvítárbrautarveitu frá upphafi. Sæmundur var drengur góður í þess orðs fyllstu merkingu, hjálpfús og bóngóður er til hans var leitað. Við stjórnarmenn í hitaveitunni og makar fórum ár- visst í ferðir saman og héldum í mörg ár þorrablót í sveitinni okkar hvert hjá öðru. Þetta var mjög samstilltur hópur og Sæmi og Snæja voru ætíð með, kát og hress að vanda. Sæma verður sárt saknað af nágrönnum sínum í sveitinni því margir höfðu samband við hann til að athuga með færð og veður, sérstaklega yfir vetrarmánuðina, áður en lagt var af stað úr bæn- um. Það verður því tómlegt fyrir okkur að koma í sveitina og sjá ekki hjálparhelluna Sæma með bros á vör og veit ég að þar mæli ég fyrir munn margra vina og kunningja. Ég vil fyrir hönd okkar félaga og maka í Hitaveitu Vaðness og Hvítárbrautarveitu þakka Sæ- mundi fyrir það fórnfúsa starf sem hann vann þar og þær skemmtilegu stundir sem við átt- um saman. Ég og fjölskylda mín viljum að leiðarlokum þakka Sæmundi fyr- ir allan þann trúnað, hlýju og traust sem hann ætíð sýndi okk- ur og aldrei brást. Elsku Snæja, megi algóður Guð styrkja þig og fjölskylduna á þessari erfiðu stundu. Minningin um góðan dreng mun lifa. Magnús Tryggvason. Þegar einn besti vinur manns fellur frá eru fyrstu hugsanir bundnar við sorg og trega. En þegar farið er að rifja upp lífs- hlaupið og samverustundirnar, kemur svo margt jákvætt fram í hugskotið að sorgin verður létt- bærari. Sæmundur Sigurðsson var í eðli sínu gleðinnar barn, léttur í skapi og bjartur á svip. Hann var drengur góður, trúr og traustur að eðlisfari. Hann kunni vel að umgangast fólk, var skilningsrík- ur og framúrskarandi velviljað- ur. Sæmi hafði einstaklega góða nærveru. Hann stráði hlýju og léttleika á veg samferðamanna sinna með því einu að vera bara sá sem hann var og eins og hann var. Sæmi var því óvenju vin- margur, enda félagslyndur með afbrigðum og áhugasamur um hag annarra. Hann átti bara vini. En þótt Sæmi hafi fengið góða skapið og ljúfmennskuna í vöggugjöf var hann langt frá því að vera skaplaus. Og stundum hvessti svo um munaði, en svo sjaldan að allir hlustuðu og tóku mark á. Samt hafði hann lag á að koma sínu þannig á framfæri að enginn lá særður eftir. Ég kynntist Sæma sem ungur maður, og höfum við ferðast gegnum lífið nánast hlið við hlið, í vináttu sem aldrei hefur borið skugga á. Á kveðjustundu hrannast minningarnar upp: heimsóknir, skemmtanir, útileg- ur, áramótagleði og ferðalög bæði utanlands og innan. Og ógleymanleg eru grillpartíin í sumarbústöðum okkar í Vaðnes- inu þar sem Sæmi dvaldi oft langdvölum síðustu árin og undi sér vel og var óumdeilanlega kóngurinn á svæðinu. Einum sona minna varð að orði þegar hann heyrði hina óvæntu and- látsfrétt: hann var alltaf svo rosa töff hann Sæmi, hann kenndi mér að hlusta á Freddy Mercury með græjurnar í botni! Sæmi hafði yndi af stangveiði, áhugamál og íþrótt sem hann kynnti mig fyrir. Og ég var svo lánsamur að vera í áratugi háseti með honum á stöng í mörgum bestu laxveiðiám landsins. Á vetrarkvöldum í sumarbústaðn- um hnýtti hann gjarna veiðiflug- ur fyrir komandi sumar sem ég naut góðs af, þar á meðal uppá- haldsfluguna sína, stóran Þing- eying streamer. Sæmundur gekk ungur til liðs við Frímúrararegl- una. Þar nýttust hæfileikar hans vel við starfið og innan reglunn- ar voru Sæmundi falin margvís- leg trúnaðarstörf sem hann gegndi með hollustu og sam- viskusemi. Sæmundur lærði bakaraiðn í Hlíðabakaríi hjá föður sínum og stundaði framhaldsnám í iðn sinni í Danmörku og Sviss. Síðar rak hann um áratugaskeið eitt þekktasta og virtasta bakarí í Reykjavík, Bakaríið Austurver við Háaleitisbraut, fyrst með föð- ur sínum og síðar einn að honum gengnum. Ef til vill mun þó orðstír Sæma bakara lengst lifa fyrir hans sérstæða og einlæga per- sónuleika, hjartahlýju og höfð- ingslund sem allir hrifust af sem kynntust. Í dag kveð ég Sæmund Þ. Sig- urðsson, vin minn og félaga, með virðingu og miklum söknuði. Að fá að vera samferða Sæma allan þennan tíma á lífsins braut eru forréttindi, þótt sú vegferð hefði mátt vera snöggtum lengri. Við Lóa og fjölskylda okkar sendum Snæju, börnum þeirra, tengda- börnum og barnabörnum okkar dýpstu og innilegustu samúðar- kveðjur. Sigfús Þór Elíasson. Í ljósinu lifi ég minningu á, í hjarta mér, vinurinn minn, með hjarta þitt skínandi fallegt og tært, mig kvaddir í síðasta sinn. Loftur Gunnarsson ✝ Loftur Gunn-arsson fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 11. sept- ember 1979. Hann lést á gjörgæslu- deild Landspítalans í Fossvogi 20. jan- úar 2012. Loftur var jarð- sunginn frá Garða- kirkju 31. janúar 2012. Núna þig fegurð og farsæld umvefur, á himnum er fallegt og tært, þú ert fegursti engillinn friðsæll nú sefur, elsku vinur minn, sofðu vært. Elsku Loftur minn, ég veit að núna ertu á falleg- um og friðsælum stað þar sem allt er fallegt og gott. Þú sýndir mér heiminn í nýju ljósi. Þín vinkona, Alma Rut. ✝ Okkar innilegustu þakkir fyrir auðsýnda samúð og vinarhug vegna fráfalls ástkærrar móður, tengdamóður, ömmu og langömmu, UNNAR ELÍSDÓTTUR. Sérstakar þakkir til starfsfólksins á Hrafnistu í Hafnarfirði. Guðrún Ásta Kristjánsdóttir, Ísleifur Tómasson, Elín Hrefna Kristjánsdóttir, Friðþór Kr. Eydal, Auður Kristjánsdóttir, Snorri Pálmason, Bára Kristjánsdóttir, Bergþór Karlsson, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.