Morgunblaðið - 04.05.2012, Blaðsíða 30
30 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. MAÍ 2012
✝ RagnheiðurGuðjónsdóttir
fæddist á Starmýri
í Álftafirði 12. maí
1920. Hún lést á
Hjúkrunarheim-
ilinu Holtsbúð á
Vífilsstöðum 21.
apríl 2012.
Ragnheiður var
dóttir Guðjóns
Brynjólfssonar
bónda á Starmýri,
síðast búsettur á Kaldaðarnesi í
Árnessýslu, f. 16.12. 1878 á
Geithellum, Geithellnahreppi,
d. 5.12. 1958, og k.h. Halldóru
Ásmundsdóttur, f. 4.2. 1882 á
Flugustöðum, Geithellna-
hreppi, d. 1.11. 1930. Ragnheið-
ur var yngst fjögurra systkina.
Hinn 2. nóvember 1946 gift-
ist Ragnheiður Oddi Helgasyni,
f. 10. júlí 1922 á Syðra-Seli,
Hrunamannahreppi, Árnes-
sýslu, sölustjóra og síðar fram-
kvæmdastjóra markaðs-
rannsókna og vöruþróunar hjá
Mjólkursamsölunni í Reykjavík.
Eiðssyni, börn þeirra eru:
Eygló Helga, Jón Hilmir og
Halldór Hrafn. b) Jórunn, í
sambúð með Sigurði Sveinbirni
Gylfasyni, hún á börnin Silju
Sól og Darra Dór, Sigurður á
dótturina Helgu Kristínu. c)
Guðrún Björg.
Ragnheiður var aðeins 10
ára gömul þegar móðir hennar
lést úr berklum og í kjölfarið
leysti faðir hennar upp heimilið
að Starmýri. Ragnheiður lenti
þá hjá vandalausum á Stöðv-
arfirði sem reyndust henni vel.
Á unglingsárum dvaldist hún
hjá föðurbróður sínum, Jörundi
Brynjólfssyni alþingismanni og
bónda í Skálholti þar sem hún
naut góðs atlætis og gekk í
Héraðsskólann á Laugarvatni.
Um tvítugt flutti hún sig um set
og fór til höfuðborgarinnar þar
sem hún vann fyrsta kastið á
saumastofu í Vesturbænum.
Ragnheiður starfaði síðan á
skrifstofu Mjólkursamsölunnar
í Reykjavík þar sem hún kynnt-
ist eiginmanni sínum. Síðar var
hún heimavinnandi húsmóðir
auk þess sem hún sinnti ýmsum
líknarmálum.
Útför Ragnheiðar fer fram
frá Kópavogskirkju í dag, 4.
maí 2012 og hefst athöfnin kl.
15.
Foreldrar hans
voru Helgi Ágústs-
son, f. 6.2. 1891 á
Gelti, Gríms-
neshreppi, d. 3.12.
1977 og Anna Val-
gerður Oddsdóttir,
f. 22.10. 1894 á
Sámsstöðum,
Fljótshlíðarhreppi,
d. 6.1. 1965. Börn
þeirra eru: 1) Anna
Valgerður kenn-
ari, f. 22.9. 1947. Maður hennar
er Steinar Friðgeirsson raf-
magnsverkfræðingur, f. 18.8.
1947. Börn þeirra eru: a) Odd-
ur, giftur Brynju Kristínu Þór-
arinsdóttur, börn þeirra eru:
Anna Valgerður, Þórunn Edda
og Steinar Þór. b) Auður Ýr,
gift Geir Þórhallssyni, börn
þeirra eru: Hjördís Lilja og
Helgi Þór. 2) Halldóra leik-
skólakennari, f. 17.8. 1951.
Maður hennar er Jón Björgvin
Björgvinsson skipstjóri, f. 14.1.
1949. Börn þeirra eru: a) Ragn-
heiður, gift Haraldi Guðna
Kæra tengdamamma.
Ég er búinn að þekkja ykkur
tengdaforeldra mína í yfir 40 ár
og hefur aldrei borið skugga á
okkar samskipti. Alltaf varstu í
góðu skapi og sást spaugilegu
hliðarnar á lífinu og varst boðin
og búin að hjálpa til. Ég bjó hjá
ykkur einn vetur þegar við Dóra
mín vorum að klára skólana okk-
ar og þú dekraðir svo við mig að
ég kom 10 kílóum stærri út í vor-
ið. Gaman var að vera með þér í
okkar árlegu veiðiferðum í 25 ár í
Hítará. Þegar tregt var og veiða
átti fisk í soðið þá var eina ráðið
að senda þig út með stöngina og
það brást ekki að þú komst til
baka með fisk, þó að það væru
miklir veiðimenn með þér að eig-
in sögn.
Þið Oddur áttuð margverð-
launaðan garð á Digranesvegin-
um. Ég hafði ekki nokkurn
áhuga á garðrækt þegar ég
kynntist ykkur en það tók ekki
langan tíma að snúa mér til betri
vegar. Þið voruð einstök hjón
sem alltaf var gott að koma til og
þakka ég þér samferðina í gegn-
um árin. Mér finnst ég vera betri
maður eftir að hafa kynnst þér.
Við pössum tengdapabba vel.
Þinn tengdasonur,
Jón B. Björgvinsson.
Það voru bjartir og fallegir
vordagar þegar hún Ragnheiður
tengdamóðir mín kvaddi þetta líf
einmitt þegar landið skartaði
sínu fegursta. Það var sérlega
falleg og góð kona sem var að
kveðja þegar hillti undir 92. af-
mælisdaginn hennar. Löng og
farsæl ævi var að renna sitt skeið
á enda og löngu dagsverki að
ljúka.
Aðeins 10 ára að aldri missti
Ragnheiður móður sína úr berkl-
um. Það var örugglega ekki auð-
velt fyrir hana barn að aldri að
þurfa að fara til ókunnugra eftir
að faðir hennar leysti heimilið
upp. Á unglingsárunum tók Jör-
undur föðurbróðir hennar hana
til sín að Skálholti þar sem hún
fékk gott atlæti og gat stundað
nám á Laugarvatni. Það hefur
því verið gott fyrir móðurlausa
unglingsstúlkuna að komast í
gott skjól og að fá að taka út
þroska meðal vandaðra skyld-
menna sem læknuðu eflaust sár-
in frá barnsárunum að einhverju
leyti.
Ég kynntist Önnu eiginkonu
minni fyrir fjörutíu árum og í
kjölfarið Ragnheiði og Oddi sem
tóku mér strax með opnum örm-
um. Þegar Oddur sonur okkar
fæddist var enginn natnari við
kornabarnið en stolt amman sem
naut sín aldrei betur heldur en
með ungum barnabörnum sínum
og síðar langömmubörnunum.
Eftir ferðalög erlendis eða úti á
landi gat verið erfitt fyrir okkur
foreldrana að fá börnin með okk-
ur heim eftir pössun hjá ömmu
og afa því slíkur var kærleikur-
inn og umhyggjan hjá þeim. Þeg-
ar börnin uxu úr grasi og erfiður
próflestur stóð yfir var hvergi
betra athvarf að fá heldur en hjá
ömmu og afa á Digranesveginum
í Kópavogi sem báru þau á hönd-
um sér um leið og þau voru um-
vafin kærleika og hlýju. Það var
mín gæfa í lífinu að kynnast dótt-
ur þeirra og eignast með henni
tvö mannvænleg börn sem hafa
komist til góðs þroska í lífinu.
Um árabil voru Oddur og
Agnar Kofoed-Hansen með Hít-
ará á Mýrum á leigu ásamt öðr-
um. Þar var oft dvalið um helgar
frá því á vorin og fram á haust
við margvísleg verk sem fylgja
rekstri veiðiár. Undirbúningur
að vori og síðan frágangur að
hausti auk þess sem veiðigyðjan
var dýrkuð á stundum ásamt því
að leiðsögn var veitt. Hvort sem
fjölskyldan var ein á ferð eða er-
lendir veiðimenn áttu í hlut var
Ragnheiður ávallt miðpunktur
félagslífsins. Með glæsileik sín-
um og persónutöfrum heillaði
hún fólk sem naut návistar henn-
ar. Kvæði og ljóð voru hennar ær
og kýr sem hún flutti oft af ör-
yggi og ótrúlegu minni. Þau
hjónin eignuðust fjölda vina á
þessum árum vestur við Hítará.
Fallegt heimili tengdaforeldra
minna og margverðlaunaður
garðurinn voru samkomustaðir
fjölskyldunnar þar sem ávallt var
mikil reisn yfir öllu og gleði. Þar
var heilagt vé sem gott var að
koma til og dveljast í um stund
með fjölskyldunni.
Far í friði, kæra Ragnheiður,
og hafðu þökk fyrir allt í lífinu.
Það voru forréttindi að kynnast
þér og tengjast þinni fjölskyldu.
Steinar Friðgeirsson.
Elsku, hjartans amma mín.
Þrátt fyrir að hafa búið mig
undir það að missa þig einn dag-
inn þá lá við að ég væri farin að
halda að þú myndir bara lifa að
eilífu. Þú hristir af þér hver veik-
indin á fætur öðrum og varst allt-
af svo kát og lífsglöð. Þú hafðir
frábæran húmor og áttir safn af
skemmtilegum frásögnum sem
þú hlóst alltaf jafn dátt að og
smitaðir alla í kringum þig. Þeg-
ar ég rifja upp eftirminnilegustu
stundirnar með þér og afa koma
sérstaklega tveir staðir í hugann:
Digranesvegurinn góði og veiði-
húsið Lundur vestur á Mýrum.
Sumrin á Digranesveginum voru
töfrum líkust í fallega garðinum
sem þið afi höfðuð ræktað svo
vel. Þar gat maður farið í skóg-
arferð innan um háu trén og
ímyndað sér að þar myndi maður
rekast á Rauðhettu eða Gullbrá
og birnina þrjá en það voru ein-
mitt ævintýrin sem þú last oft
fyrir mig. Þar var líka hægt að
háma í sig rifsber, sólber og jarð-
arber á meðan þið afi sátuð úti í
sólbaði eða dyttuðuð að garðin-
um. Rólan góða var líka upp-
spretta skemmtilegra leikja og
einnig fórum við systurnar ásamt
frændsystkinum oft í spennandi
leiðangra um garðinn í leit að
ormum og ýmsum skordýrum.
Jólin á Digranesveginum
vekja margar góðar minningar.
Sérstaklega fannst mér það
spennandi þegar ég bjó í Þor-
lákshöfn og við fjölskyldan kom-
um og gistum á Digranesvegin-
um yfir jólin. Fyrir utan það að
hlakka til sjálfrar jólahátíðarinn-
ar með stórfjölskyldunni fannst
mér fátt betra en að gista hjá
ykkur. Ég sá alltaf fyrir mér að
svona hlyti prinsessan á bauninni
einmitt að sofa; nýstraujuð
sængurver, sæng undir lakinu,
dúnsæng og hnausþykkur koddi.
Þið afi voruð ekki bara snillingar
í að rækta garðinn ykkar heldur
lögðuð þið einstaka rækt við fjöl-
skylduna ykkar. Þær voru ófáar
góðu stundirnar með ykkur og
stórfjölskyldunni fyrir vestan í
veiðihúsinu Lundi. Ég man að ég
kvaddi Lundinn góða alltaf með
söknuði en huggaði mig við það
að ég gat farið að telja niður dag-
ana til næstu ferðar. Hápunkt-
urinn var ekki að fá að veiða í
Hítaránni, enda hefur mér alltaf
verið meinilla við að rota aum-
ingjans fiskana, heldur að fá að
eyða tíma með ykkur afa og öll-
um hinum. Bílferðin vestur var
ekki síðri en oft fengum við Odd-
ur frændi að sitja í aftursætinu á
Volvonum með ykkur afa. Þú
kunnir margar sögur sem þú
sagðir okkur af stöðum sem við
keyrðum framhjá á leiðinni. Sag-
an af tröllskessunni Hít sem
breyttist í stein ásamt sögunni af
Helgu sem synti út í eyju með
börnin sín á bakinu eru sögur
sem ég segi börnunum mínum.
Ég er afar þakklát fyrir að börn-
in okkar Halla hafi fengið að
kynnast þér, elsku amma. Við
munum ávallt minnast þín með
hlýju og söknuði.
Hvíl í friði, elsku amma.
Þín
Ragnheiður Jónsdóttir.
Elsku besta amma eða „langa“
eins og barnabarnabörnin köll-
uðu þig. Nú ertu búin að kveðja
okkur og söknuðurinn er mikill.
Minningarnar eru margar og
góðar, en það sem stendur upp
úr er væntumþykjan og hlýjan
sem streymdi alltaf frá þér, þú
varst alveg nákvæmlega eins og
ömmur eiga að vera.
Góðu minningarnar eru ótelj-
andi, frá árunum við Hítará og
frá fallega heimilinu ykkar afa á
Digranesveginum með stóra
garðinum sem var eins og æv-
intýraheimur fyrir barnabörnin
og síðar barnabarnabörnin.
Það var svo yndislegt að fá
ykkur afa í heimsókn á páska-
dag, en okkur óraði ekki fyrir að
þetta væri ein af síðustu stund-
unum sem við fengjum með þér.
Þú varst sjálfri þér lík, tókst
Helga Þór í fangið um leið og þú
komst og faðmaðir Hjördísi Lilju
að þér og spjallaðir við hana. Við
eigum svo fallega mynd af þér
frá þessu kvöldi þar sem þú og
Helgi Þór horfist í augu og eruð
bæði skælbrosandi.
Þú varst ávallt vel tilhöfð og
brosandi. Þú varst blíð og góð
manneskja, skemmtileg og
hnyttin í tilsvörum og laðaðir að
þér fólk hvert sem þú fórst. Þú
hafðir einstakt yndi af því að
vera með börnum og við erum
svo þakklát fyrir að börnin okkar
hafi fengið að njóta nærveru
þinnar og hlýju.
Við erum mjög þakklát fyrir
að hafa verið svo lánsöm að hafa
átt þig að og munum varðveita
minningu þína í hjörtum okkar
um ókomna tíð.
Hvíl í friði, elsku amma.
Þín
Auður Ýr, Geir, Hjördís
Lilja og Helgi Þór.
Í dag kveðjum við Ragnheiði
ömmu. Það er sárt að kveðja, því
þó líkaminn hafi verið orðinn
hrumur var hún alltaf ung í anda
og lífsglöð. Amma og afi gáfu
mér ómetanlegt veganesti út í líf-
ið og alltaf höfðu þau nægan tíma
fyrir okkur barnabörnin. Fjöl-
skyldan var alltaf í fyrsta sæti
hjá ömmu. Hún naut þess svo
innilega að fylgjast fyrst með
okkur barnabörnunum og síðan
langömmubörnunum vaxa úr
grasi. Alltaf var hún með alla af-
mælisdaga á hreinu, dekraði við
okkur og passaði sérstaklega
upp á að enginn yrði útundan.
Amma var mikill húmoristi,
snögg í tilsvörum og átti oftar en
ekki síðasta orðið. Þegar hún og
afi áttu 50 ára brúðkaupsafmæli
spyrja tengdasynir hennar í gríni
hvort þetta hafi ekki verið erfið
50 ár með Oddi. Þá svarar hún
um hæl: Nei, við áttum yndisleg
ár allt þar til tengdasynirnir
komu til sögunnar.
Amma var lunkinn veiðimaður
og sérstaklega með maðk. Hún
kenndi mér að veiða á maðk og
þannig veiddi ég mína fyrstu
laxa, en síðar kenndi afi mér að
veiða á flugu. Amma og afi voru
eitt sinn að veiðum í Norðurá
með holli frá Tetra Pak. Um
morguninn deildu karlarnir út
veiðistöðum og ömmu var úthlut-
að frekar óspennandi stað þar
sem ekkert hafði veiðst, en þó
var vitað að þar væri lax. Svo hún
fer þangað og laxinn lítur ekki
við neinu. Amma ákvað að láta
ekki fara svona með sig, svo að í
þetta eina skipti á ævinni notaði
hún aðferðir ónefndra lands-
þekktra maðkaveiðimanna og
veiddi 4 laxa í beit. Í hádegis-
hléinu þráttuðu karlarnir síðan
um hver fengi þennan gjöfula
stað eftir hádegi.
Við Brynja, Anna, Þórunn og
Steinar þökkum fyrir samfylgd-
ina og allar þær yndislegu stund-
ir sem við áttum með ömmu.
Minningin um hana mun fylgja
okkur alla tíð.
Oddur.
Langamma mín var ljúf og
skemmtileg kona. Á nánast
hverju kvöldi tala ég við hana og
minni hana enn og aftur á það að
ég elska hana og segi henni hvað
ég sakna hennar mikið. Ég segi
henni það sem hefur gerst yfir
daginn og frá því hvernig öllum
líður. Fyrir rúmu ári skrifaði ég
ritgerð um langömmu og fékk að
heyra um lífið hennar í gamla
daga. Hér kemur brot úr ritgerð-
inni. Langamma mín fæddist á
Starmýri í Álftafirði. Hún átti
tvær systur og einn bróður. Hún
bjó ásamt fjölskyldu sinni í stein-
húsi ásamt þremur öðrum fjöl-
skyldum. Í húsinu var lítið hjóna-
herbergi, lítil stofa,
gestaherbergi og baðstofa. Í bað-
stofunni svaf langamma með
systkinum sínum. Þegar
langamma mín var lítil voru ekki
til tölvur, sjónvörp, útvörp né
bílar. Fólk ferðaðist um á hestum
og þurfti að ná í vatn í fötur úr
brunni. Það var heldur ekkert
rafmagn þannig að lýst var upp
með olíulömpum og kertum.
Klæðnaður var öðruvísi en nú
til dags. Stelpur voru alltaf í kjól-
um sem stundum voru saumaðir
úr gömlum fötum, svo voru þær í
ullarsokkum og sauðskinnsskóm.
Hjá langömmu var borðaður alls-
kyns fiskur, til dæmis silungur,
smáþorskur og lúra. Það var
borðað mikið af mjólkurmat því
það voru tvær kýr á heimilinu.
Rófur og kartöflur voru einnig
ræktaðar. Langamma sagði að
alltaf hafi verið nóg að borða og
góður matur. Pabbi hennar fór
stundum á selveiðar og selurinn
var mikið borðaður. Langömmu
þótti kjötið vont en spikið gott,
harðfiskur og soðinn fiskur var
hafður með spikinu.
Sér til skemmtunar hittist
fólk, spilaði, söng og dansaði.
Áhugamál langömmu var að
syngja og hún var í Samkór
Reykjavíkur. Á veturna léku
krakkarnir sér á tréskautum og
heimasmíðuðum sleðum. Á jólun-
um fengust engin jólatré þannig
að jólatré var smíðað úr spýtum,
þær voru skreyttar með eini og
heimatilbúið skraut fest á þær.
Það voru ekki til jólaseríur en
notuð voru kerti sem voru úr
tólg. Á hverjum jólum fékk
langamma kerti og spil, spilin
voru notuð þangað til að hún
fékk ný spil á næstu jólum.
Þegar langamma var fimm ára
flutti hún á Djúpavog og fór þar í
tvo vetur í barnaskóla. Þegar
hún var átta ára missti hún bæði
mömmu sína og tvær systur sem
dóu úr berklum. Þá flutti hún í
tvö ár til læknishjóna í Djúpa-
vogi. Þar á eftir flutti hún á
Stöðvarfjörð og var þar hjá ætt-
ingjum og fór þar í skóla. Hún
fermdist í lítilli kirkju á Stöðv-
arfirði og svo var haldin lítil
veisla og þar var boðið upp á
kökur og kaffi. Hún fékk mjög
fáar gjafir en hún fékk ferming-
arfötin, lítið veski og sálmabók.
Þegar hún var 16 ára flutti
hún suður í Skálholt og bjó þar
hjá frændfólki. Hún bjó á Laug-
arvatni í tvo vetur þar sem hún
var í skóla og þá var hún búin
með skólagönguna. Langamma
mín var mjög ung þegar hún
byrjaði að vinna, fyrsta vinnan
hennar var á saumastofu, svo
vann hún í allskyns fiskvinnu og
á skrifstofu. Á skrifstofunni hitti
hún langafa minn, Odd Helga-
son, þegar hún var 26 ára. Þau
giftust og eignuðust tvær stelp-
ur.
Ég elska langömmu mína út af
lífinu og ég mun aldrei gleyma
henni.
Eygló Helga Haraldsdóttir.
Oddur kallaði hana Heiðu. Hjá
okkur á Digranesvegi 66 var hún
Ragnheiður úti í húsi. Kær ná-
granni og vinkona fjögurra kyn-
slóða sem hér hafa búið. Oddur
og Ragnheiður byggðu sitt hús
uppúr 1950, á sama tíma og afi
minn og amma (Frímann og Mál-
fríður). Þau voru ung hjón með
tvær dætur, Önnu og Halldóru,
en afi og amma komin á miðjan
aldur og með uppkomin börn,
Ragna og Birna móðir mín flutt-
ar að heiman en Jónas var enn í
foreldrahúsum. Með frumbýling-
unum tókst strax góð vinátta,
þau hjálpuðust að, ferðuðust
saman og það leið vart sá dagur
sem amma eða Ragnheiður
smeygðu sér ekki í gegnum Kerl-
ingarskarðið og fengu sér kaffi-
sopa saman, og alltaf var skipst á
blöðum. Ragnheiður og Oddur
keyptu Moggann en afi og amma
Tímann. Þegar ég kom í bæinn
var ég oft að sniglast úti í húsi
hjá Ragnheiði, og þegar amma
var með skötu eða siginn fisk í
matinn þá fór ég einfaldlega yfir
og fékk að borða þar.
Þegar við Siggi komum heim
úr námi 1985 fengum við að taka
yfir afahús, en þá var amma látin
og afi fór skömmu síðar. Við
gengum beint inn í það vinasam-
band sem fyrir var, bæði við
Ragnheiði og Odd og nágrann-
ana vestan við okkur, Ármann og
Björgu. Heppnari með nágranna
var ekki hægt að vera. Ragnheið-
ur og Oddur tóku okkur opnum
örmum og aðstoðuðu á alla lund.
Lánuðu verkfæri, leiðbeindu við
garðræktina, gáfu okkur plöntur
og Oddur smíðaði meira að segja
fyrir okkur vermireit sem hefur
séð okkur fyrir grænmeti árum
saman. Blaðaskiptin héldu áfram
en nú fengu þau bara „Illvilj-
ann“, og voru það frekar léleg
býtti að mati Ragnheiðar. Kerl-
ingarskarðið gréri ekki saman,
áfram var hlaupið á milli húsa í
spjall og kaffi. Þegar ég kom yf-
ir, þreytt eftir vinnu eða barna-
stúss, þá settumst við gjarnan í
sólstofuna og Ragnheiður kall-
aði: „Oddur, viltu ekki færa okk-
ur sérrí.“ Svo spjölluðum við og
skemmtum okkur og ég fór end-
urnærð heim. Ragnheiður var
nefnilega svo skemmtileg, fylgd-
ist vel með og sá spaugilegu hlið-
arnar á mönnum og málefnum.
Hún kunni ógrynni af vísum,
margar eftir afa, sumar vart
prenthæfar. Minni hennar var
ótrúlegt og því hélt hún ásamt
skopskyninu fram að síðustu
stundu.
Börnin okkar, Anna Diljá og
Birnir Jón fóru heldur ekki var-
hluta af gæsku okkar góðu ná-
granna, þar áttu þau alltaf
öruggt skjól sem gott var að vita
af. Ég hafði á tímabili áhyggjur
af því hvað krakkarnir voru
gleymnir, þau voru alltaf að fá
lánaðan hjá þeim lykil, en skýr-
ingin var náttúrlega sú að lyk-
illáni fylgdi kex eða nammi. Eftir
að afi lést fann ég í litlu Olivetti-
ritvélinni hans nokkrar vísur á
blaði, sem höfðu yfirskriftina:
„Við andlátsfregn P.S.“ Mér
finnst við hæfi að láta tvær
þeirra vera lokaorðin í þessum
kveðjuorðum til hennar Ragn-
heiðar úti í húsi sem okkur þótti
öllum svo undurvænt um.
Þegar él með þys og snjó
þeystu um háa gnúpa,
hvíldir þú í hljóðri ró
heiðarvatnið djúpa.
Þreytan kemur, þrýtur yl
þyngjast draumafarir.
Leggur hem á lygnan hyl
ljúkast saman skarir.
Málfríður K. Kristian-
sen, Sigurður R.
Gíslason, Anna Diljá
og Birnir Jón.
Ragnheiður
Guðjónsdóttir
Vaktsími:
581 3300 & 896 8242
www.utforin.is
Allan sólarhringinn
ÚTFARARSTOFA ÍSLANDS
Sverrir Einarsson Kristín Ingólfsdóttir Hermann Jónasson
Flatahraun 5a • www.utfararstofa.is Símar: 565 5892 & 896 8242
ÚTFARARSTOFA HAFNARFJARÐAR