Morgunblaðið - 04.05.2012, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 04.05.2012, Blaðsíða 34
34 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. MAÍ 2012 Yndislegur drengur er fallinn frá, langt um aldur fram. Ótal minningar streyma fram, allar hlýjar, notalegar og góðar, ná- kvæmlega eins og Einar Þór var. Allir okkar fundir hófust á faðm- lagi og kossi á kinn. Þannig per- sóna var Einar. Það var algerlega útilokað að finna eitthvað nei- kvætt í fari Einars. Hann var allt- af jákvæður, ráðagóður, traustur og hrókur alls fagnaðar þar sem hann kom. Allt varð að gulli í höndunum á Einari. Hann byggði upp heilu fyrirtækin af ósérhlífni og dugnaði og allt starfsfólkið elskaði hann. Seldi þau síðan allt- af með góðum hagnaði og lék sama leikinn aftur og aftur. Snill- ingur í viðskiptum. Margar veiði- ferðir höfum við farið í saman í gegnum tíðina og þá vorum við Einar alltaf saman á stöng og deildum herbergi, en sváfum ekki saman, heldur myndi betri lýsing vera hlógum saman, því það var alltaf gleði í kringum Einar Þór. Aðrar minningar eru úr utan- landsferðum okkar sem voru ófá- ar og eins vorum við duglegir að hittast í hádegis- eða kvöldverði á veitingastöðum. Einar var síðan algjör höfðingi heim að sækja en hann hefur ásamt Andreu konu sinni haldið ófá boðin fyrir vina- hópinn. Alltaf stuð og stemning heima hjá þeim hvar sem þau bjuggu. Nýverið höfðum við sest saman í stjórn fyrirtækja og urðu því samskipti okkar enn meiri en áður höfðu verið. Hlakkaði ég mikið til að starfa með Einari á þessum nýja vettvangi en því mið- ur verður ekki meira úr því. Einar var mikill fjölskyldumaður og bar hag eiginkonu og barna sinna ávallt fremst í brjósti. Mjög stórt skarð hefur myndast í vinahópinn við fráfall Einars. Skarð sem aldr- ei verður fyllt. Þessi drengur var engum líkur og það mun aldrei neinn koma í hans stað. Það hefur verið algjör heiður fyrir okkur hjónin að hafa verið samferðafólk Einars öll þessi ár. Og fyrir þau þökkum við kærlega. Andreu og Sunnu og Stefáni sendum við okk- ar innilegustu samúðarkveðjur og einnig systkinum Einars sem eiga nú öll um sárt að binda. Blessuð sé minning einstaks drengs, hans verður ævinlega sárt saknað. Elvar og Guðrún Lilja. Bugast mátt ei Björgin blíð björt öll ljós þín loga þú veist þín bíður betri tíð við enda regnsins boga. (Björgin 1964) Elsku hjartans Einar. Þín verður sárt saknað og ekki er hægt að trúa því að þú sért fallinn frá. Hvíldu í friði og ró og megi englarnir vaka þér hjá. Sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur til Andreu, Sunnu og Stefáns. Ástarkveðja, Andrea Þorbjörg Sigurðardóttir, Kaupmannahöfn. Mig langar að minnast vinar míns Einars Þórs Þórhallssonar sem kvaddi samferðamenn sína allt of snemma, óvænt og fyrir- varalaust, þegar hann veiktist al- varlega erlendis og náði ekki að landa sigri í þeirri baráttu. Einari kynntist ég á mennta- skólaárunum fyrir um 35 árum. Þau kynni reyndust mér farsæl og gefandi. Einar var í senn skemmtilegur í viðmóti, mikill húmoristi, maður gleðistundanna, hjálplegur, seigur íþróttamaður, ólseigur í viðskiptum og einstakur eiginmaður og faðir. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að líf Einars með samferðafólki sínu hafi verið sannkölluð veisla sem lauk allt of fljótt. Aldrei bar skugga á vináttu okkar Einars. Ég hef enda aldrei hitt nokkurn mann sem gengið hefur ósáttur frá kynnum sínum af þessum einstaka dreng sem Einar var. Við hjónin færum innilegar samúðarkveðjur til Andreu, eig- inkonu Einars, sem sér nú á eftir eiginmanni og félaga til fjölda ára, og til barna þeirra sem hafa misst svo mikið. Einars Þórs verður sárt sakn- að af fjölda fólks sem var svo heppið að fá að kynnast hinum einstæða persónuleika sem Einar Þór hafði að geyma. Blessuð sé minning hans. Jónas Ólafsson. Sagt er að sannur vinur sé sá sem veit allt um þig en elskar þig samt. Eitt mesta lán mitt í lífinu var að eignast Einar Þór Þór- hallsson að trúnaðarvini fyrir 35 árum. Síðan hefur líf okkar verið samofið, gleði- og sorgarstundir jafnt og hversdagsleiki hins venjulega dags. Einar var heiðursmaður; barst ekki á, hafði enga þörf fyrir slíkt. Greiðvikinn; eitt símtal, óskin uppfyllt, aldrei rætt um það meira, einskis krafist, aldrei. Íhaldssamur, vinafastur, þraut- seigur, heiðarlegur og hógvær. Minningarnar streyma; próf- alestur í MS, saltfiskur hjá Bubbu og Þórhallur á píanóinu, Þingvell- ir og Ollinn, fótbolti og veiði. Golf og Gautaborg, útilegur og útlönd og hádegin á Jómfrúnni. Þegar Andrea birtist fyrst varð ekki aftur snúið, Einar kolféll. Hans mikla gæfa í lífinu, Stebbi og Sunna og einstakt heimilið. Ég man Einar sigurvegara á tuttugasta og áttunda golfmótinu okkar, glæsilegur í græna jakkan- um skínandi af gleði. Opnaði faðminn fyrir öllum heiminum, ör- láti stemningsmaðurinn. Það var gott að veiða með Ein- ari. Liggja á árbakkanum og leysa lífsgátuna, líka gott að þegja og hlusta á móann þagna. Nýverið uppgötvuðum við fá- gæta náttúruperlu á afviknum stað fyrir vestan. Ætluðum að veiða þar áfram næstu árin. Sum- arið var á næsta leiti. Um það fjallaði okkar síðasta samtal. Guð blessi þig, kæri vinur. Hallgrímur Tómas Ragnarsson. Elsku Einar, við kveðjum þig með söknuði um leið og við minn- umst góðra stunda með þér. Þær hefðu átt að verða miklu fleiri. Minning þín mun lifa með okkur. Sjá, dagarnir líða, í leiðslu vér hlustum á laufið, sem hrynur um aldanna skóg og leggst yfir stofnana sterku, sem stormur og dauði til jarðar sló. En þó að þeim visni hvert bjarkarblað þá blómgast oss önnur í þeirra stað. Því áfram skal haldið og aldrei þagnar hin eilífa hrynjandi lífsins, sem ymur um aldanna skóg. (Tómas Guðmundsson) Elskan er sterk eins og dauðinn. (Ljóðaljóð Salómons) Hinsta kveðja, Jónína og Guðmundur. Það er ekki einleikið hve lífið getur sífellt komið manni á óvart. Eins og á augnabliki breytist allt og það sem áður var verður ei meir. Upp koma atvik sem minna á að enginn er eilífur. Við fráfall atorkusams samferðamanns set- ur mann hljóðan og áleitnar spurningar um tilverunnar innstu rök leita á hugann og erfiðlega getur reynst að koma reglu á hugsanirnar. Þegar frá líður rennur upp fyrir manni að lífið er aðeins að láni og mestu skiptir að lifa vel. Gleðjast á góðum stund- um og njóta hvers augnabliks. Þetta kunni Einar Þórhallsson vel. Gleðin alltaf skammt undan þó viðfangsefni hversdagsins væru sjálfsagt misánægjuleg eins og hjá öllum. Kynni mín af Einari hófust fyrir milligöngu konu Ein- ars, Andreu, fyrir tveimur ára- tugum eða svo. Við Andrea vorum samstarfsmenn um árabil og við ýmis tækifæri hittumst við Einar. Hann tók mér opnum örmum og margoft naut ég afburðagestrisni á heimili þeirra í Garðabæ. Og í hvert sinn með tilhlökkun í brjósti. Betri gestgjafar eru vand- fundnir en þau hjón Andrea og Einar. Ávallt umhugað um gesti sína og samferðafólk. Maður fór alltaf betri maður af þeirra fundi, Einar ávallt bjartsýnn og með ráðagerðir á prjónunum. Margar þeirra sá ég svo verða að veru- leika. Hann var farsæll í viðskipt- um. Hann var einnig lánsamur í sínu einkalífi. Gríðarstór vinahóp- ur sýnir líka hversu vel hann var gerður og hversu traustur hann var. Einar var heldur aldrei einn á ferð því þau Andrea stóðu þétt saman og börn þeirra tvö, Stefán og Sunna, aldrei langt að baki. Ég kveð Einar Þórhallsson með söknuði. Allt of fljótt er hann farinn. Hann er öllum harmdauði. Jón Þórisson. Sannarlegt mikilmenni reisir á traustum grundvelli og fer ekki eftir yfirborðsgljáa. Hann hirðir ávöxtinn, en ekki blómið. Hann fleygir hisminu, en hirðir kjarnann. (Lao Tse) Þessi spakmæli lýsa vel vini okkar Einari sem nú er fallinn frá langt um aldur fram. Einar var farsæll hvort heldur í viðskiptum sem og einkalífi. Andrea og Einar voru eitt, traust og samheldin. Meistarar í að halda skemmtileg- ar veislur sem voru ófáar og við svo heppin að fá að njóta. Við kveðjum í dag ljúfan og kæran vin sem sárt verður saknað af öllum þeim sem hann þekktu. Mestur er þó missirinn hjá And- reu, Sunnu, Stefáni og systkinum sem við biðjum blessunar á þess- um erfiðu tímum. Hanna Lára og Jónas. Fallvaltleiki lífsins birtist í allri sinni mynd fimmtudaginn 26. apr- íl þegar ég frétti af andláti Einars. Fréttin var lamandi, hvernig gat þetta verið? Hver hefði trúað því þegar við hittumst fyrir örfáum vikum og borðuðum saman að eitt okkar yrði fallið frá innan mánaðar? Allt vinir á svipuðum aldri sem höfum fylgst að í yfir þrjá áratugi. Einar Þór, hrókur alls fagnaðar, var að segja okkur frá því að hann væri orðinn ræðismaður Tyrkja á Ís- landi. Hann lýsti Tyrklandi fyrir okkur af miklum sannfæringar- krafti og eldmóði, talaði hratt eins og hans var von og vísa og hlakk- aði til að takast á við ný verkefni á þeim slóðum. Einar var hreinskiptinn maður, afar snjall í viðskiptum og sá við- skiptatækifæri alls staðar. Hann var alla tíð mikill dugnaðarforkur og vildi sjá vel fyrir sér og sinni fjölskyldu og leti og lognmolla voru ekki til í hans orðabók. Einar og Andrea lögðu sig fram um að hafa heimilið sitt fallegt og nota- legt og voru samtaka í því að hlúa að gleðigjöfunum sínum þeim Sunnu og Stefáni, sem auðgað hafa líf þeirra og tilgang. Ótal samverustundir höfum við hjónin átt í gegnum árin með Ein- ari og Andreu og sérlega minn- isstæð er stundin með þeim á Þingvöllum síðasta sumar í sum- arhúsi foreldra Einars. Umhverf- ið var ævintýri líkast, himinhá tré sem pabbi hans og systkini höfðu gróðursett fyrir yfir 50 árum af ýmsum tegundum og gerðum. Maður skynjaði strax að staður- inn skipaði sérstakan sess í huga Einars enda æskusporin á hverri þúfu og margar dýrmætar minn- ingar hans tengdust staðnum og naut hann þess að segja okkur frá því sem fyrir augu bar. Endurminningin merlar æ í mánasilfri hvað sem var, yfir hið liðna bregður blæ blikandi fjarlægðar, gleðina jafnar, sefar sorg; svipþyrping sækir þing í sinnis hljóðri borg. (Grímur Thomsen) Einar Þór var drengur góður, vinur vina sinna og maður með stórt hjarta. Í ástríkum og hlýjum faðmi æskuástar sinnar og lífs- förunautar til 36 ára kvaddi Einar þennan heim á sjúkrahúsi í Ist- anbúl eftir örstutt og óvægin veik- indi. Fráfall Einars hefur nú höggv- ið skarð í vinahópinn og jafnframt minnt okkur á að lífið er dýrmæt gjöf sem ekki varir að eilífu. Ég bið allar góðar vættir að umfaðma og styrkja Andreu vinkonu mína, börnin þeirra Sunnu og Stefán, systkini Einars, Þorbjörgu tengdamóður hans og aðra að- standendur í sorginni. Minningin um góðan dreng lifir. Guðrún Ó. Blöndal. Elskulegur vinur okkar, Einar Þór Þórhallsson, er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Einar var einstakur maður, mikill gleðigjafi og mátti ekkert aumt sjá. Hann hafði næmt auga fyrir viðskiptum og var virtur maður og snjall á því sviði. Einar var hvers manns hug- ljúfi, var maður sátta og kunni illa við ósætti og ágreining. Hann var íþróttamaður frá náttúrunnar hendi og átti ótrúlega auðvelt með að tileinka sér og ná árangri í hin- um ýmsu íþróttum, sem lágu bara einhvern veginn svo vel fyrir hon- um. Gestrisni var Einari í blóð borin og standa jólaboðin, sem þau hjón stóðu fyrir á hverju ári, þar upp úr. Í gegnum tíðina höf- um við hjónin farið í margar utan- landsferðir með Einari og And- reu. Fyrst í stað í sumarfrí með börnunum okkar til ýmissa landa og síðar í helgarferðir til ýmissa borga Evrópu. Alltaf var líf og fjör í þessum ferðum og hafði Ein- ar gaman af að setja upp keppni í billjard eða tennis, þar sem spilað var upp á bjórglas eða tvö, enda Einar mikill keppnismaður. Við hjónin eigum yndislegar minning- ar um óteljandi matarboð og góð- ar samverustundir með Einari og Andreu. Við þökkum Einari ynd- islega vináttu, hans er sárt sakn- að. Andreu, Sunnu og Stefáni sendum við hugheilar samúðar- kveðjur og biðjum góðan Guð að veita þeim styrk á þessum erfiðu tímum. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum) Björn Erlingsson, Heiða og börn. Einar Þór Þórhallsson Þú hvarfst inn í nóttina á miðjuvori Þegar grasið og krókusarnir gægðust upp úr moldinni Eins og fuglar vorsins varstu gleðigjafi Sál þín var hrein sem spegill vatnsins Drengskapur þinn tær sem lindin í skógarjaðrinum Og nú hefur haustað að vori Og hrollkalt hretið umlykur okkur Meðan fuglarnir drúpa höfði við hreiðurgerðina Stjörnurnar á næturhvelfingunni fella glitrandi tár sem falla hljóðlaust í vatnið sem þú unnir heitast Og gjálfur vatnsins verður í eyrum okkar eilíft saknaðarljóð um þig. Þorsteinn Ólafsson. ✝ Innilegar þakkir til allra þeirra sem auðsýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför okkar ástkæru móður, tengdamóður, ömmu og langömmu, HRAFNHILDAR GRÍMU THORODDSEN. Þökkum starfsfólki Skjóls góða umönnun. Tryggvi Viggósson, Snjólaug Anna Sigurjónsdóttir, Guðmundur Viggósson, Líney Þórðardóttir, Regína Viggósdóttir, Gunndóra Viggósdóttir, Ásgeir Arnoldsson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Elskulegur sonur okkar og bróðir, SÆVAR ÞÓR KRISTÞÓRSSON, Krókamýri 54, Garðabæ, lést á Landspítala Fossvogi laugardaginn 28. apríl. Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju miðviku- daginn 9. maí kl. 13.00. Erna Þórðardóttir, Kristþór Sveinsson, Sigríður Guðbjörnsdóttir, Guðmann Kristþórsson. ✝ Innilegar þakkir til þeirra sem sýndu okkur samúð og hlýju við andlát og útför elsku- legrar eiginkonu minnar, móður, tengda- móður, ömmu og langömmu, RÖGNU JÓNSDÓTTUR, Hlöðufelli, Eyrarbakka. Sérstakar þakkir fær starfsfólk hjúkrunarheimilisins Ljósheima Selfossi. Jóhann Jóhannsson, Unnur Jóhannsdóttir, Guðmundur Stefánsson, Ingibjörg Jóhannsdóttir, Jón Guðmundsson, Sólrún Jóhannsdóttir, Jóhannes Þorgeirsson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Við þökkum innilega auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför elskulegrar móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, KRISTÍNAR HALLDÓRSDÓTTUR. Sérstakar þakkir til starfsfólks hjúkrunar- heimilisins Sunnuhlíðar í Kópavogi. Haukur Högnason, Hildur Högnadóttir, Hildigunnur Davíðsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma, ELÍN ELÍSABET GUÐMUNDSDÓTTIR húsfreyja frá Ófeigsfirði, verður jarðsungin frá Fossvogskirkju mánu- daginn 7. maí kl. 13.00. Bára Guðmundsdóttir, Ragnar I. Jakobsson, Pétur Guðmundsson, Margrét Ó. Eggertsdóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir, Torfi Þorkell Guðmundsson, Helga V. Rósantsdóttir, Ásgeir Guðmundsson, Inga A. Waage, Böðvar Guðmundsson, Hrönn Valdimarsdóttir, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, JÓNA SIGRÍÐUR JÓNSDÓTTIR frá Goðdölum, lést á dvalarheimilinu Hlíð, Akureyri, sunnu- daginn 29. apríl. Jarðarförin fer fram frá Ríkissal Votta Jehóva Sjafnarstíg 1, Akureyri, mánudaginn 7. maí kl. 14.00. Ingimar Adólfsson, Lutzy Adolfsson, Reynir Adólfsson, Halldóra Helgadóttir, Friðrik Adólfsson, Kolbrún Stefánsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.