Morgunblaðið - 03.10.2012, Blaðsíða 20
20 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 3. OKTÓBER 2012
Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Yfirvöld í Noregi og Danmörku segj-
ast hafa orðið vör við aukna njósna-
starfsemi á norðurslóðum af hálfu
erlendra ríkja sem vilji styrkja stöðu
sína á norðurskautssvæðinu. Ríkin
hugsa sér gott til glóðarinnar vegna
hugsanlegrar nýtingar náttúruauð-
linda og opnunar siglingaleiða á
norðurslóðum.
Jakob Scharf, yfirmaður
dönsku öryggislögreglunnar PET,
segir í viðtali við Berlingske að þótt
kalda stríðinu hafi lokið fyrir rúmum
23 árum sé ekkert lát á njósnastarf-
semi sem beinist gegn fyrirtækjum,
stofnunum og yfirvöldum í Dan-
mörku. Helsta breytingin sé sú að
leyniþjónustur erlendra ríkja hafi
vaxandi áhuga á norðurslóðum, með-
al annars Grænlandi.
Efla þarf varnir
gegn tölvunjósnum
„Nokkur lönd hafa í auknum
mæli beint sjónum sínum að norður-
skautssvæðinu vegna þess að lofts-
lagsbreytingar og þróunin á svæðinu
hafa áhrif á möguleikann á að fá
meiri aðgang að því. Og þar með til
að geta nýtt auðlindirnar á norður-
skautssvæðinu, til að mynda sjald-
gæf jarðefni, málma og hráefni,“ hef-
ur Berlingske eftir Scharf.
„Hættuna, sem stafar af njósnastarf-
semi gegn Danmörku, þarf að taka
alvarlega og hún er alltaf að þróast.
Markmiðin með henni breytast. Og
aðferðirnar, sem notaðar eru til að
afla upplýsinga, breytast líka,“ sagði
hann.
Scharf bætti við að ríkin stund-
uðu tölvunjósnir í auknum mæli og
Danir þyrftu því að efla varnir sínar
gegn njósnum á netinu, meðal ann-
ars gegn innbrotum í tölvukerfi.
Kristian Søby Kristensen, sem
hefur stundað rannsóknir á öryggis-
málum á norðurslóðum við Kaup-
mannahafnarháskóla, segir það ekki
koma á óvart að öryggislögreglan
telji að leyniþjónustur erlendra ríkja
hafi aukinn áhuga á norðurslóðum.
Hafa mikinn áhuga
á Grænlandi
„Stórveldin hafa hafið dæmi-
gerða keppni um auðlindirnar á
norðurskautssvæðinu,“ hefur Berl-
ingske eftir Kristian Søby Kristen-
sen. „Þess vegna verður það líka
áhugavert fyrir þátttakendurna, allt
frá Bandaríkjunum til Evrópusam-
bandsins, Rússlands, Kína og Suður-
Kóreu, að fá upplýsingar um það
sem er að gerast og um stefnu og
stöðu annarra ríkja í þessum efnum.
Í því samhengi er hægt að ganga út
frá því að nokkur ríkjanna beiti ekki
aðeins stjórnarerindrekum sínum,
heldur einnig leyniþjónustu,“ segir
Kristensten.
Hann bætir við að að áhugi
ríkjanna á olíuvinnslu á norður-
skautssvæðinu virðist hafa minnkað
nokkuð að undanförnu en þau beini
sjónum sínum í auknum mæli að
vinnslu jarðefna á Grænlandi. „Kín-
verskt fyrirtæki með aðsetur í Lond-
on vill til dæmis opna járnnámu ekki
langt frá Nuuk. Ennfremur er mikill
áhugi á sjaldgæfum málmum sem
eru notaðir í farsíma og önnur raf-
eindatæki. Tiltölulega marga þeirra
er að finna í Kína. Til að tryggja sér
nægar birgðir af þessum málmum er
því mikilvægt að hafa aðgang að
þessum auðlindum.“
Reyna að styrkja stöðu sína
Upplýsingafulltrúi norsku ör-
yggislögreglunnar PST, Martin
Bernsen, hefur einnig staðfest að
hún hafi orðið vör við aukna njósna-
starfsemi á norðurslóðum. „Við höf-
um séð að einstök ríki reyna að
styrkja stöðu sína á norðurslóðum,“
hefur fréttavefur Aftenposten eftir
Bernsen. „Almennt hefur verið mikil
njósnastarfsemi gegn Noregi og við
sjáum að hún er að aukast. Sérstaða
Noregs felst í hátækninni sem hér
er. Landfræðileg staðsetning Nor-
egs og orkulindir okkar hafa gert
Noreg að sérlega áhugaverðu við-
fangsefni fyrir leyniþjónustumenn.“
AFP
Eftirsótt Ilulissat-ísfjörðurinn á Grænlandi. Nokkur ríki, meðal annars
Kína, hafa sýnt mikinn áhuga á vinnslu jarðefna í landinu.
Auknar njósnir á norðurslóðum
Yfirmenn öryggislögreglunnar í Danmörku og Noregi segja að önnur ríki hafi aukið njósnastarfsemi
sína á norðurslóðum Njósnirnar taldar liður í keppni stórvelda um auðlindir á norðurskautssvæðinu
Aðstoðaði leyniþjónustu
» Timo Kivimäki, fyrrver-
andi prófessor í alþjóðastjórn-
málum við Kaupmannahafnar-
háskóla, var fyrr á árinu
fundinn sekur um að hafa að-
stoðað rússnesku leyniþjón-
ustuna eftir að danska öryggis-
lögreglan handtók hann.
» Kivimäki sagði í viðtali við
Weekendavisen að hann hefði
m.a. rætt málefni norðurslóða
við rússneska leyniþjón-
ustumenn. Rússarnir hefðu
haft áhuga á rökum sem gætu
„styrkt stöðu þeirra í við-
ræðum um siglingaleiðir á
norðurslóðum“.
Þingmenn úr norska Verka-
mannaflokknum eru nú í fyrsta
skipti meðflutningsmenn tillögu um
að konungdæmið verði lagt niður og
konungurinn víki fyrir þjóðkjörnum
þjóðhöfðingja. Fréttavefur TV2 seg-
ir að þingmenn Sósíalíska vinstri-
flokksins hafi í tólfta skipti lagt fram
tillögu um að stjórnarskránni verði
breytt og stofnað verði lýðveldi í
Noregi. Þetta sé hins vegar í fyrsta
skipti sem tillagan sé lögð fram með
stuðningi þingmanna úr Verka-
mannaflokknum.
„Ég tel að eitthvað mikið sé að ef
Stórþingið, sem þjóðin kýs, á ekki að
ræða grundvallarmál eins og það
hvers konar stjórnarfyrirkomulag
eigi að vera í Noregi í framtíðinni,“
hefur fréttavefur norska ríkis-
útvarpsins eftir Eirin Sund, einni af
fjórum þingmönnum Verkamanna-
flokksins sem styðja tillöguna.
„Konungsfjölskyldan er ótrúlega
glæsileg og konungurinn frábær en
ég er eindregið þeirrar skoðunar að
landið eigi að vera undir stjórn fólks
sem er þjóðkjörið,“ sagði Sund.
Flutningsmenn tillögunnar vilja
að þingið ræði hvers konar þjóðhöfð-
ingja Noregur eigi að hafa og hversu
mikil völd hans eigi að vera. Tillagan
verður tekin fyrir í stjórnskipunar-
nefnd þingsins. Til að breyta stjórn-
arskránni þarf þingið að samþykkja
breytinguna tvisvar sinnum með
kosningum á milli. bogi@mbl.is
Vilja norskt lýðveldi
Þingmenn úr Verkamannaflokknum í fyrsta skipti með-
flutningsmenn tillögu um að konungdæmið verði lagt niður
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Settur af? Haraldur V. Noregskon-
ungur og Sonja drottning.
Makakí-ungi sýgur móðurmjólk í einu úthverfa Kuala
Lumpur, höfuðborgar Malasíu. Makakíapar eru út-
breiddasta prímatategundin í heiminum, að manninum
undanskildum, og þeir lifa á svæði, sem nær frá Japan
til Afganistans, og í Norður-Afríku. Þeir hafa verið
flokkaðir í 22 tegundir og vísindamenn hafa oft notað
makakíapa af nokkrum tegundum í tilraunum sínum,
meðal annars á sviði taugavísinda.
AFP
Öruggur í faðmi mömmu sinnar
Ráðstefnu- og fundarstóll
Notaðu tækifærið og tryggðu þér vandaðan
og þægilegan stól á góðu verði.
Síðumúla 16 ~ 108 Reykjavík ~ Sími: 580 3900 ~ fastus.is
Fastus til framtíðar