Morgunblaðið - 10.11.2012, Qupperneq 48
48 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. NÓVEMBER 2012
✝ HallfríðurMargrét Magn-
úsdóttir fæddist í
Hringverskoti í
Ólafsfirði 21. ágúst
1922. Hún lést á
heilbrigðisstofnun
Fjallabyggðar,
Siglufirði, 27.októ-
ber 2012.
Foreldrar henn-
ar voru hjónin
Magnús Sigurður
Sigurðsson, f .25. ágúst 1891, d.
26. ágúst 1974, Ása Ingibjörg
Sæmundsdóttir, f. 7. nóvember
1891, d. 4. desember 1984.
Systkini Hallfríðar: 1) Guðrún,
f. 1914, d. 1914, 2) Guðmundur,
f. 1915, d. 1991, 3) Særún Árný,
f. 1916, d. 1984, 4) Jón, f. 1918,
d. 1976, 5) Sigmar, f. 1920, 6)
Kristinn Albert, f. 1923, 7) Sig-
ursveinn Stefán, f. 1925, d.
1951, 8) Friðbjörg, f. 1927, lát-
in, 9) Marinó, f. 1928, d. 1995,
10) Margrét, f. 1929, 11) Unnur,
f. 1933, 12) Anna Jóna, f. 1934.
Hallfríður giftist 11. janúar
1947 Ragnari Kristóferssyni, f.
1. ágúst 1916, d. 26. júní 2005
frá Klúku í Ketildalahrepp.
Börn þeirra eru: 1) Kristinn
sinnar Hallfríðar Jóhönnu Sæ-
mundsdóttur og manns hennar
Árna Friðrikssonar á Kálfsá í
Ólafsfirði. Uppeldissystkini
hennar eru 1) Sigurlaug Mar-
grét, f. 6. ágúst 1928, 2) Guð-
rún, f. 27. september 1929, 3)
Sveinbjörn Ferdinand, f. 18.
september 1933, 4) Jón Trausti,
f. 4. mars 1939, d. 2. desember
2008.
Hallfríður var 15 ára þegar
hún fór fyrst að heiman til að
vinna fyrir sér, hún vann meðal
annars á Siglufirði, Hrísey og á
Kristneshæli, síðan lá leið
hennar til Keflavíkur og starf-
aði hún sem ráðskona, þar
kynnist hún Ragnari. Það var
svo árið 1945 sem Hallfríður
flytur vestur í Arnarfjörð með
manni sínum og bjuggu þau þar
í 16 ár, fyrst á Klúku í Ket-
ilhrepp og síðar á Selárdal. Ár-
ið 1961 flutti fjölskyldan til
Ólafsfjarðar, fyrst að Bakka og
svo 1967 keyptu þau Garð II.
Árið 1996 flytja Hallfríður og
Ragnar í Ólafsveg 14 í Ólafs-
firði, frá áramótum dvaldist
Hallfríður á dvalarheimilinu
Hornbrekku. Hallfríður var
mikil handverkskona og var
handverkið alltaf ofarlega í
hennar huga, allt fram á síð-
asta dag.
Útför Hallfríðar fer fram frá
Ólafsfjarðarkirkju í dag, 10.
nóvember 2012, og hefst at-
höfnin kl. 14.
Kristófer Ragn-
arsson, f. 17. febr-
úar 1946, 2) Ása
Jóhanna Ragn-
arsdóttir, f. 17.
ágúst 1948, maki
Ingi Vignir Gunn-
laugsson, f. 29.
mars 1950, þau
eiga tvo syni Ragn-
ar Kristófer og
Guðlaug Magnús,
3) Sigríður Anna
Ragnarsdóttir, f. 3. september
1955, gift Hauki Friðrikssyni, f.
21. desember 1956, þau eiga
fjögur börn a) Fríða Dögg,
maki hennar Micah Kerwin
Nicholls, barn þeirra er Tína
Naómí, b) Katrín Sjöfn, synir
hennar, Kristófer Gabríel Jóns-
son og Óðinn Jónsson, c) Eyrún
Ösp, maki hennar, Andri Fann-
ar Helgason, dætur þeirra, Ísa-
bella Sól og Dagbjört Lind, d)
Ólafur, 4) Sveina Guðbjörg
Ragnarsdóttir, f. 15. júní 1957,
gift Braga Arasyni, f. 16. maí
1954, d. 21. nóvember 2001,
þau eiga Örnu Rós.
Hallfríður ólst upp hjá for-
eldrum sínum til 5 ára aldurs,
fór svo í fóstur til móðursystur
Í dag verður til moldar borin
frá Ólafsfjarðarkirkju móðir mín,
Hallfríður Margrét Magnúsdótt-
ir, sem lést á Heilbrigðisstofnun
Fjallabyggðar á Siglufirði 27.
október síðastliðinn.
Mamma varð 90 ára 21. ágúst í
sumar, og þegar við systkinin
spurðum hana hvort hún ætlaði
ekki að halda uppá afmælið þá
sagði hún „Ég er orðin svo gömul
og léleg, get ekkert gert“, þannig
var mamma, vildi geta gert hlut-
ina sjálf, ekki láta aðra hafa fyrir
sér. Hún féllst svo á að halda upp
á afmælið sitt laugardaginn 18.
ágúst í húsi eldriborgara með
vinum og vandamönnum sem
voru lengra að komnir og ekki má
gleyma ömmu- og langaömmu-
börnunum sem hún dýrkaði og
dáði. Síðan á afmælisdaginn 21.
ágúst í Hornbrekku með vist-
mönnum þar og fjölskyldu. Það
tókst vel til með afmælið og hún
var ánægð. Hún fór oft yfir það
með okkur systkinunum hverjir
komu og hver gaf henni þetta eða
hitt, ég er viss um að þessar
stundir með henni verða okkur í
fjölskyldunni dýrmætar í fram-
tíðinni.
Mamma er fædd í Hringver-
skoti í Ólafsfirði í hópi margra
systkina. 5 ára fer hún í fóstur til
móðursystur sinnar Hallfríðar og
Árna í Kálfsá, þar eignaðist hún 4
fóstursystkin. Mamma hélt alltaf
góðu sambandi við öll sín systkin.
15 ára að aldri fer hún fyrst að
heiman til að vinna fyrir sér,
kemur heim í Kálfsá og hjálpar til
við heimilis- og bústörfin. Svona
gekk tilveran í þá daga. Mamma
fór í vist til Siglufjarðar, þar fór
hún á saumanámskeið, ég held að
það hafi hjálpað henni mikið þeg-
ar hún þurfti að sauma á okkur í
fjölskyldunni. Hún naut þess að
vinna við hverskonar handverk.
Mamma fór á vertíð til Kefla-
víkur og vann þar í verbúðareld-
húsi, þar kynntist hún pabba og
flytur með honum að Klúku í
Arnarfirði þar sem afi og amma
bjuggu, síðar flytja þau að Sel-
árdal í sömu sveit. Mamma og
pabbi bjuggu í 16 ár í Ketildöl-
unum. 1961 flytur fjölskyldan að
Bakka í Ólafsfirði, 1967 kaupa
þau Garð II í Ólafsfirði og búa
þar til 1996 er þau kaupa neðri
hæðina í Ólafsvegi 14.
Pabbi deyr 26. júní 2005 en
manna býr áfram í Ólafsveginum
þar til hún flytur í litla herbergið
í Hornbrekku í janúar 2012. Hún
var ekki alveg sátt við litla her-
bergið, hún kæmi svo litlu af
dótinu sínu inn í það. Það var svo
í haust þegar ég var í heimsókn
hjá henni að hún sagði við mig ég
er orðin ánægð með litla herberg-
ið mitt, þið börnin mín eruð búin
að koma með svolítið af dótinu
mínu, ég þarf ekki meira. Mér líð-
ur vel hér, það eru allir góðir við
mig hér, ég vil eiga hér heima.
Þarna þekkti ég nægjusemi
mömmu, búin að fá svolítið af
dótinu sínu og starfsfólkið sýndi
henni nærgætni og hlýju. Í litla
herberginu sínu býr hún í tæpa
10 mánuði.
Það var 16. október sem ég fæ
upphringingu frá Hornbrekku að
mamma hafi veikst um nóttina og
það eigi að flytja hana á Siglu-
fjörð. Mamma var mikið veik, það
bráði af henni annað slagið svo
datt hún niður. 25. október er far-
ið með hana til Akureyrar í rann-
sókn og heim í Hornbrekku, 26.
október er hún svo flutt mikið
veik til Siglufjarðar. Það var svo
kl. 15.15 þann 27. október að
hennar lífstími var allur.
Kristinn Kristófer
Ragnarsson.
Nú er hún elskuleg tengda-
móðir mín látin, níræð að aldri.
Ég sá hana síðast í lok sept-
ember þegar við hjónin skrupp-
um norður í heimsókn. Við hjónin
skruppum þá fram í Garð og fór-
um inn í gömlu íbúðina þeirra
Fríðu og Ragnars. Það var gam-
an að rifja upp stundirnar sem
við áttum þar á þeirra hlýja heim-
ili. Ég ósjálfrátt kíkti í búrið þar
sem kökurnar og kleinurnar
hennar Fríðu voru alltaf geymd-
ar og tók einn kökudunkinn og
hristi hann til að vita hvort ekki
leyndist í honum nýbökuð kleina.
Ég rifjaði upp stundirnar sem við
sátum í litla eldhúsinu og rædd-
um um allt á milli himins og jarð-
ar, þrefað var um pólitík, lands-
málin rædd, tekið í spil á hátíðum
og alltaf átti Fríða eitthvað ný-
bakað í búrinu. Á sumrum var
það heyskapur og fjárrag á
haustin. Við hjónin dvöldum sum-
arlangt í Garði árið 1980, þá með
fyrsta barnið okkar og þá var
mannmargt og fjör í Garði. Ragn-
ar hafði einstaklega gaman af því
að segja frá og sérstaklega frá
fólkinu að vestan, en hann var
uppalinn í Arnarfirði á Vestfjörð-
um og bjuggu þau Fríða þar sínu
fyrstu búskaparár.
Það sem einkenndi þau hjónin
svo vel var hógværðin og æðru-
leysið og að gera það besta sem
hægt var úr litlum efnum og erf-
iðum aðstæðum. Þau bjuggu ekki
stórbúi og var aðdáunarvert hvað
þau náðu að komast vel af þrátt
fyrir lítil efni. Fríða og Ragnar
voru afar gestrisin og var ávallt
mikill gestagangur á heimili
þeirra. Alltaf var tími til að sinna
gestum, ávallt matur og kaffi á
borðum, tími til að spjalla og hús-
rými fyrir næturgesti. Ég held
mér sé óhætt að segja að mikill
gestagangur hafi ætíð verið á
heimili þeirra hjóna. Mikið
reyndi þá á Fríðu í störfum hús-
móðurinnar.
Þegar Fríða var á fimmta ári
flutti hún úr Hringverskoti til
móðursystur sinnar og nöfnu hin-
um megin dalsins að Kálfsá.
Nafna hennar hafði þá misst sitt
fyrsta barn og var Fríða send yfir
til hennar í fóstur. Nafna hennar
reyndist henni afar vel og hefur
Fríða ávallt talað hlýtt til hennar,
en því var ekki að leyna að þessir
flutningar úr stórfjölskyldu
hennar og frá foreldrum í
Hringverskoti og yfir á næsta bæ
höfðu djúpstæð áhrif á hana alla
ævi. Það var fimm ára gömlu
barninu þungbært að flytjast
þannig um set.
Á sumrum var barnmargt á
heimili þeirra hjóna þar sem
mörg börn komu í sumardvöl eða
lengri dvöl. Börnin voru frá ætt-
ingjum, vinum og kunningjum.
Sum dvöldu sumar eftir sumar,
en önnur styttra. Mikið reyndi þá
á Fríðu í heimilishaldinu og voru
vinnudagarnir langir og strangir.
Fríða bar það með sér hvað hún
hafði unnið mikið alla ævi og dáð-
ist ég að þessari konu fyrir æðru-
leysið og létta lund.
Hún og Ragnar nutu þess að
sjá barnabörnin vaxa úr grasi og
Fríða að kynnast barnabarna-
börnunum fimm að tölu. Ég kveð
þessa elskulegu og hjartahlýju
konu með söknuði og þakka
henni fyrir þau ár sem ég fékk að
kynnast henni. Minning þín lifir í
hjarta okkar.
Haukur Friðriksson.
Elsku amma.
Mér þótti svo sárt að ná ekki
að kveðja þig þegar þú fórst. En
ég get þó huggað mig með því hve
stutt er síðan ég sá þig seinast, á
90 ára afmælinu, sem þú varst
svo ánægð með. Þá sagði ég þér
margsinnis þegar við töluðum
saman í síma hvað þú varst góð
amma og hve mikið ég elskaði
þig. Þá á ég auðvitað allar góðu
minningarnar um þig, sem eru
svo margar. Ég man eftir öllum
sumrunum í Garði hjá þér og afa,
ýmist í fjárhúsunum, í berjamó,
úti að leika, inni að lesa eða í eld-
húsinu með þér að baka. Það var
alltaf svo gaman í sveitinni. Svo
margar góðar minningar. Þú
varst svo merkileg kona og þú
kenndir mér svo margt. Ég man
þegar þú kenndir mér að lesa
sem barn, þá sýndir þú þvílíka
þolinmæði og kænsku því þú
þóttist alltaf sofna og ég staul-
aðist áfram við að lesa því að ég
vildi klára bókina. En það besta
sem ég tel að ég hafi lært af þér
var umbyrðarlyndi þitt og for-
dómaleysi gagnvart öðrum.
Þrátt fyrir að hafa aldrei
ferðast langt, sýndirðu ótrúlega
víðsýni og visku líkt og sá sem
hefur séð og upplifað margt. Þú
varst svo skilningsrík og sást allt-
af góðu hliðarnar á öllu og öllum.
Ávallt svo hjartagóð. Þessa kosti
hef ég reynt að temja mér frá
þér. Ég er þakklát pabba og
mömmu að hafa nefnt mig í höf-
uðið á þér. Ég er og verð ávallt
stolt af því. Verst þykir mér til-
hugsunin um að ég muni aldrei
geta talað við þig eða séð þig aft-
ur. En þetta er gangur lífsins. Þú
náðir 90 ára aldri, og varst ótrú-
lega vel stödd miðað við þann ald-
ur. Ég er þakklát fyrir það. En ég
sakna þín samt sem áður sárt.
Ég efast ekki um að þú skilir
kveðju til afa frá okkur öllum.
Ég elska þig ávallt.
Þín
Fríða.
Elsku amma mín.
Nú ert þú farin frá okkur og
langar mig að kveðja þig hér með
nokkrum vel völdum orðum beint
frá hjartanu, því þar átt þú sér-
stakan stað. Þú varst einstök
amma, hlý, góð, jákvæð, hógvær
og yndislegt að vera hjá þér. Þú
naust þess að vera með okkur
barnabörnunum og síðar líka
barnabarnabörnunum og við nut-
um þess að vera með þér. Hjá þér
var alltaf nóg um að vera og hægt
að finna endalaust af hlutum að
gera. Heimili og umhverfi ykkar
afa var ævintýri líkast, og á ég
endalaust af góðum minningum
þaðan. Þær minningar hlýja mér
um hjartarætur og munu ávallt
gera.
Mér finnst skrítið að þú sért
farin frá okkur og hef ég satt að
segja kviðið þess dags í langan
tíma, mér þótti svo óendanlega
vænt um þig. En mér finnst það
líka skrítið að ég kveð þig líka
með bros á vör og er það vegna
þess hversu þakklát ég er fyrir að
hafa átt þig og afa að. Ég er
nokkuð viss um, vegna þess
hversu hógvær þið bæði voruð, að
þið gerðuð ykkur ekki grein fyrir
hversu mikil og góð áhrif þið
höfðuð á mig. Þið fylltuð hjarta
manns af kærleika og jákvæðni.
Svo að ekki sé minnst á að þið
gerðuð alltaf það besta úr öllu
sem þið höfðuð og kvörtuðuð
aldrei. Þessa hluti tileinka ég
mér.
Með þessum orðum kveð ég
þig, elsku amma mín, og þín verð-
ur sko sárt saknað. En ég veit
líka að þú munt alltaf fylgja mér
og mun ég ávallt vera litla ömmu-
stelpan þín.
Takk fyrir allt sem þú gafst
mér.
Þín
Eyrún.
Föðursystir mín hún Fríða er
látin 90 ára gömul. Hún var ein 13
systkina og eru nú fimm á lífi.
Hún bjó lengst af á Ólafsfirði fyr-
ir utan árin sem hún bjó með fjöl-
skyldu sinni í Selárdal í Arnar-
firði. Hún var fædd í Ólafsfirði en
dvaldi mest af æsku sinni hjá
móðursystur sinni sem bjó hinum
megin við ána hjá Fríðu á Kálfsá
en foreldrar hennar voru í Hring-
verskoti. Börn Fríðu töluðu alltaf
um ömmu á Kálfsá. Ég kynntist
Fríðu fyrst þegar fjölskylda mín
flutti til Ólafsfjarðar 1963 en þá
hafði hún flust með sína fjöl-
skyldu að Bakka árið áður. Ég
lék mér oft við Sveinu og Siggu,
dætur Fríðu, en þær voru á svip-
uðum aldri og ég en Ása og Kiddi
voru eldri. Seinna fluttu þau svo í
Garð í Ólafsfirði og síðan flutti
hún í bæinn (Ólafsfjarðarbæ).
Hún var því lengst af húsmóðir í
sveit með öllu sem því fylgir en
einnig vann hún í frystihúsi tals-
verðan hluta af ævi sinni.
Fríða var ákaflega léttlynd
kona og hafði gaman af að grínast
líkt og margt af mínu föðurfólki.
Þó kom fyrir að henni fannst gal-
gopahátturinn farinn út yfir öll
mörk og hafði orð á því en gat þó
ekki varist brosi. Hún tók okkur
börnunum alltaf vel og talaði við
okkur á jafnréttisgrundvelli.
Okkur þótti ákaflega vænt um
hana og mátum hana mikils.
Fríða var gríðarlega dugleg
kona og sívinnandi. Hún þurfti að
sinna stóru heimili og oft voru
börn í sveit hjá henni. Einnig var
mjög gestkvæmt hjá henni enda
átti hún stóran systkinahóp og
Ragnar maður hennar líka. For-
eldrar hennar dvöldu gjarnan hjá
henni á sumrin eftir að þau fluttu
suður. Hún settist sjaldan niður
en stóð við að hella uppá kaffi eða
vaska upp meðan hún ræddi við
fólkið sem gjarnan sat í eldhús-
inu.
Hún var afar hjálpsöm og
mátti ekkert aumt sjá. Hún var
tilbúin að rjúka til og hjálpa og
var fundvís á hvar aðstoðar henn-
ar væri þörf.
Þegar við vorum unglingar
vinkonurnar komum við oft í kaffi
til Fríðu og töldum hana vera vin-
konu okkar, því þó henni líkaði
ekki alltaf það sem við sögðum
eða vorum að bralla var allt í lagi
að ræða það við hana.
Fríða var mikil hannyrðakona
og prjónaði mikið, peysur, kjóla
úr eingirni og annað og seinna
málaði hún m.a. dúka. Það var
eins og allt léki í höndum hennar
og hún var gríðarlega fljót að
vinna sitt handverk en að sama
skapi var það vel unnið og fallegt.
Ég á ennþá gimbaðan trefil sem
hún gaf mér.
Nú er hún dáin háöldruð. Hún
var ekki svo ýkja gömul þegar
hún fór að verða slæm í skrokkn-
um, með gigt sem eflaust mátti
rekja til mikillar vinnu. Hins veg-
ar var hún andlega hress.
Ég og mín fjölskylda vottum
börnum, barnabörnum, barna-
barnabörnum og tengdabörnum
samúð okkar.
Kristín Halla Marinósdóttir.
Hún Fríða í Garði er dáin. Hún
var þeirrar kynslóðar þar sem
nægjusemin var allsráðandi.
Fríða tók því sem að höndum bar
með jafnaðargeði. Sjaldan féll
henni verk úr hendi og aldrei
voru prjónarnir langt undan.
Hún gekk í öll verk úti sem inni,
skilaði sínu og vel það.
Líf Fríðu var ekki alltaf auð-
velt. Þegar Fríða var ung að ár-
um fór hún í fóstur til móðursyst-
ur sinnar og nöfnu á Kálfsá. Þá
var hún eina barnið þar. Bæirnir
Hringverskot og Kálfsá stóðu
hvor sínum megin Fjarðarárinn-
ar þannig að vel sást á milli bæja.
Systkini hennar í Hringverskoti
voru mörg og sannarlega engin
lognmolla á því heimilinu. Fríða
sagði frá minningu sem hún átti
þegar hún horfði einhverju sinni
yfir í Hringverskot af hlaðinu á
Kálfsá. Systkinin voru að leika
sér og hún heyrði hlátrasköllin
yfir ána. Þá langaði hana heim en
lét á engu bera. Eftir að börnin á
Kálfsá fæddust eitt af öðru
breyttist þetta.
Það var alltaf gott að koma í
Garð til Fríðu og Ragnars og allir
voru velkomnir. Ósjaldan vorum
við systkinin í pössun í Garði þeg-
ar foreldrar okkar þurftu að
bregða sér frá. Fríða rifjaði oft
upp einstök atvik frá þessum
stundum og skellihló eins og
henni einni var lagið. Þröngi
hringstiginn í Garði var einstak-
lega spennandi fyrir litla krakka
sem þekktu ekki slíkt fyrirbæri
heima hjá sér. Ekki gáfust þó
mörg tækifæri til leikja í stigan-
um því Fríða setti gjarnan eitt af
sínum börnum til að standa vörð
um stigann. Hún gætti þess að
enginn færi sér að voða.
Þegar við eltumst og þurftum
ekki lengur pössunar við héldum
við áfram að koma við í Garði.
Það einfaldlega tilheyrði að
heilsa upp á fólkið þar og alltaf
var jafn gaman að ræða lífið og
tilveruna. Fríða gaf sér ævinlega
tíma til að spjalla við okkur.
Henni var umhugað um hvað við
værum að gera og hvernig fjöl-
skyldan hefði það. Nú síðasta ár-
ið var Fríða komin á Dvalarheim-
ilið á Hornbrekku. Þar var
gaman að ræða við hana í góðum
félagsskap frændfólks og vina. Á
þessum stundum voru gjarnan
rifjuð upp skemmtileg atvik frá
liðnum dögum.
Að leiðarlokum þökkum við
kærri frænku fyrir samfylgdina
og vottum börnum hennar og
fjölskyldum innilegustu samúð.
Systkinin frá Kálfsá,
Björgvin, Árni, Sveinbjörn,
Stefanía, Hallfríður og
Guðrún Björk
Sveinbjarnarbörn.
Hallfríður Margrét
Magnúsdóttir
MOSAIK Hamarshöfða 4 • 110 Reykjavík
sími 587 1960 • www.mosaik.is
Legsteinar og fylgihlutir
Í tilefni af 60 ára starfsafmæli okkar bjóðum
við fría uppsetningu á höfuðborgarsvæðinu og
fría pökkun á legsteinum sem fara út á land
Mikið úrval - Vönduð vinna - Gott verð ✝
Elskuleg systir mín og mágkona okkar,
INGE JENSDÓTTIR,
Skeiðarvogi 37,
lést þriðjudaginn 6. nóvember.
Útförin fer fram frá Langholtskirkju
föstudaginn 16. nóvember klukkan 13:00.
Vagn Laursen, Inge Laursen,
Henni Laursen,
Bryndís Þorsteinsdóttir,
Þorsteinn Þorsteinsson, Helga Hansdóttir.