Morgunblaðið - 24.11.2012, Blaðsíða 48
Morgunblaðið/Kristinn
Rithöfundurinn „Ég hef verið að lesa upp, tala um bókmenntir og kynna bækur í meira en þrjátíu ár. Þetta er ferli sem er alltaf í gangi. Bara eins og skriftirnar,“ segir Einar Már.
K
annski er eðlilegra að
spyrja lesendur frekar
en mig um efni bók-
arinnar nýju. Ef ég
hefði svar á hraðbergi
þyrfti ég líklega ekki að skrifa sög-
una,“ segir Einar Már Guðmunds-
son. Hann er meðal hundraða rithöf-
unda sem blanda sér í leikinn fyrir
þessi jól, nú með skáldsöguna Ís-
lenskir kóngar.
Svo sem vera ber verður Einar
Már, líkt og aðrir sem nú eru að
senda frá sér bækur, á ferðinni víða
um landið á næstunni. Les þá um
kónga Íslands, sem komu úr prent-
smiðjunni í fyrri viku.
Alltaf ferð út í óvissuna
Um þrjátíu ár eru frá því Einar
Már sendi frá sér sína fyrstu bók. Á
þeim tíma eru upplestrarferðirnar
að öllu samanlögðu orðnar margar,
bæði hér heima og í útlöndum.
„Nei, ég hef ekki lent í neinum
hrakningum á þessum þvælingi.
Ekki svo orð sé á gerandi. Bara ein-
hverjum töfum og svona, lenti jú
einu sinni í flóðum í Svíþjóð og missti
af flugvél. Svaðilfarir nútímans eru
einkum seinkanir á flugvélum. Það
er frekar að rithöfundar lendi í
mannraunum þegar þeir eru að
skrifa eða viða að sér efni,“ segir
Einar Már og heldur áfram:
„Ég á trygga lesendur víða. Mað-
ur kemur ekki með svo reglulegu
millibili á staði að ég hafi einhverja
sýn á hvar undirtektirnar eru bestar
eða tilteknir áheyrendur sem alltaf
mæta. Sum andlitin eru þó kunn-
uglegri en önnur. Ég hef verið að
lesa upp, tala um bókmenntir og
kynna bækur í meira en þrjátíu ár.
Þetta er ferli sem er alltaf í gangi.
Bara eins og skriftirnar. Ég gæti
jafnvel skrifað svona „On the Road“
um upplestrarferðir mínar. Sú saga
myndi gerast hér á Íslandi en líka
erlendis,“ segir Einar sem kveðst í
raun hafa ferðast um Ísland í smá-
bitum.
„Það minnisstæða er nú oftast það
sem maður tekur með sér frá stöð-
unum; andrúmsloftið, sögur, upplýs-
ingar um stöðu mála og þar fram eft-
ir götum. Upplestrarferðir eru
aldrei eins, þetta er alltaf ferð út í
óvissuna, samt er einhver kjarni sem
ekki breytist.“
Mikið hlutverk í samtímanum
Rithöfund skiptir miklu að eiga
samtal við lesendur sína. Fara út á
meðal fólksins og kynnast daglegum
aðstæðum þess. Þannig hefur Einar
til dæmis heimsótt fanga og fólk sem
glímir við andlega erfiðleika. Hefur
Einar, sem kunnugt er, sótt söguefni
til beggja þessara hópa – það er í
bókunum Rimlum hugans og Engl-
um alheimsins.
„Ég hóf kynningu á Íslenskum
kóngum hjá Geðhjálp. Við vorum
sammála um að það væri ágætis
byrjun.“
Einar Már segir sér mikilvægt að
vera úti á meðal lesenda. Þannig nái
hann að vera með fingurinn á slagæð
samfélagsins.
„Fyrir mér eru upplestrarferðir í
senn að gefa af mér og þakka fyrir.
Mér finnst annars mikilvægt að texti
bókar geti staðið hvar sem er –
þannig að þú lesir ekki bara fyrir
þann hóp sem er þér sammála. Text-
inn verður að spjara sig alls staðar.
Hafa hvarvetna tilsvörun. Og skáld-
skapurinn hefur ótrúlega mikið hlut-
verk í samtímanum. Sögur, leikrit,
pistlar, ritgerðir, ljóð og tónlist eru
allt form sem eru í stöðugu samtali
sín í millum – og því er ég með mörg
járn í eldinum sem eru hvert á sínu
sviði,“ segir Einar Már.
Oftast vegna Englanna
Af mörgum bókum segist Einar
líklega oftast vera kallaður til að lesa
upp úr Englum alheimsins; sögu
bróður síns Pálma sem glímdi við
erfiðan geðsjúkdóm. Einnig hafi
hann farið víða, lesið upp og rætt
efni Bankastrætis núll og Hvítu bók-
arinnar, en sú síðarnefnda er safn
pistla og greina um efnahagshrunið
og orsakir þess.
„Sennilega eiga Englar alheims-
ins vinninginn; ég hef ekki verið kall-
aður jafn oft til vegna neinnar bókar
sem þeirrar. Ég sinni þessu eftir
megni og þegar kallað er til mín –
jafnt fyrir jól sem í annan tíma. Hef
farið mikið í skóla í gegnum tíðina og
mér hafa alltaf þótt unglingar
skemmtilegir, opnir, hugmyndaríkir.
Stundum hef ég líka verið í upplestr-
arferðum með öðrum, höfundum en
líka með tónlistarmönnum,“ segir
Einar. Nefnir þar m.a. að þegar
Bítlaávarpið kom út fyrir jólin 2004
hafi hinir keflvísku hljómar verið
honum til fulltingis. Einnig hafi hann
starfað með Tómasi R. Einarssyni,
Gunnari Bjarna Ragnarssyni, Berki
Hrafni Birgissyni, Hafdísi Bjarna-
dóttur og nú síðast hljómsveitinni
Blágresi.
Malbikið blandað á staðnum
„Sviðið hefur alltaf verið að víkka
út; bókmenntir, þjóðfélagsumræða,
tónlist. Þetta er alltaf eins og gaur-
inn sagði um malbikið í gamla daga;
blandað á staðnum. Svo fæ ég stund-
um með mér góða gesti, til dæmis
Bjartmar Guðlaugsson. Mér finnst
einna skemmtilegast að fara svona
yfir sviðið, um víðan völl, tengja
verkin saman,“ segir Einar – og bæt-
ir við að þessi blanda sé nokkuð sem
eigi sér sterkan grundvöll.
Það er í skáldskapnum sem
augnablikin lifna og öðlast gildi, seg-
ir Einar Már. Kveðst fyrir vikið leita
eftir bitastæðum sögum í mannlífinu
öllu, megi færa þær í letur. „Málið
fjallar um varðveislu á minningum
mannkyns. Og ef þær kvikna í skáld-
skap lifa þær áfram. Þetta eru í raun
stöðugar lífgunartilraunir á minn-
ingunum. Rithöfundar eru að því
leyti ekki ólíkir björgunarsveit-
armönnum,“ segir Einar Már.
Fingur á púlsi tímans
Rithöfundi er mikilvægt, segir
Einar, að geta skrifað liðugan texta
og setja mál sitt þannig fram að sag-
an sé frístandandi. Hafi raunveru-
legt erindi til fjöldans en ekki bara
þeirra sem eru hugsanlega sammála
eða í hópi tryggra lesenda.
„Ég kann vel við bækur sem hafa
fingurinn á púlsi tímans. Á okkar
tímum mega og þurfa bókmenntir
raunar að vera svolítið djarfar – og
þá er ég ekki að meina pornó. Þjóð-
félagið er allt í djörfum leik þessi
misserin. Það má líka segja að bar-
áttan í dag snúist að nokkru leyti um
íslenska tungu og orðfæri,“ segir
Einar Már. Segir að fyrir hrun hafi í
raun sprottið upp nýtt afbrigði í
tungumálinu; samtóna mállýska
fjármálavalds og stjórnmála. Með
hruninu hafi þessi tunga misst
marks. Við slíkar aðstæður sé ein-
mitt mjög eðlilegt að þeir sem hafa
vald á tungumálinu frá öðru sjón-
arhorni stígi fram.
Jafn helg og leirtöflur Móse
„Þegar ég fór að skrifa og tala eft-
ir hrunið beitti ég þeirri málýsku
sem ég kann best til að lýsa veru-
leikanum. Ég og fleiri fórum að kall-
ast á við sérfræðinga og orð þeirra.
Við hjóluðum í þeirra tungumál. Allt
í einu misstu tilskipanir svonefndra
auðmanna merkingu sína. Úrvals-
vísitala hlutabréfa, sem hafði verið
jafn helg og leirtöflur Móse í frétta-
tíma sjónvarpsins. Þessu varð að
svara og þar höfðu rithöfundar og
bókmenntirnar mikilvægu hlutverki
að gegna – eins og þær raunar jafn-
an gera. Skáldskapurinn er alltaf í
andstöðu við ríkjandi viðhorf, eilíf
stjórnarandstaða og hálfgerð and-
spyrnuhreyfing,“ segir Einar Már
Guðmundsson að síðustu.
sbs@mbl.is
Augnablikin lifna og öðlast gildi
Hundruð bóka koma út fyrir jólin. Mikilvægt er að vera úti á meðal
lesenda, segir Einar Már Guðmundsson. Kynnir kónga Íslands um
allt land á næstu vikum. Skáldskapurinn er andspyrnuhreyfing.
’Ég kann vel við bækur
sem hafa fingurinn á
púlsi tímans. Á okkar
tímum mega og þurfa
bókmenntir raunar að
vera svolítið djarfar – og
þá er ég ekki að meina
pornó.
48 Jólablað Morgunblaðsins
Kóngar Íslands er drepfyndin
saga um íslenska ættarveldið,
segir í kynningu Forlagsins
sem gefur bókina út undir
merkjum Máls og menningar.
Í bókinni segir frá Knudsenum
sem hafa búið í Tangavík í
meira en tvær aldir og verið
jöfnum höndum í útgerð og
verslunarrektri. Fulltrúar
ættarinnar hafa setið í bæj-
arstjórn og stjórnað lúðra-
sveitum, karlakórum og kven-
félögum. Ættin hefur átt
stórveldistíma og farið á haus-
inn. Horfið, komið aftur, verið
vinsæl og óvinsæl sitt á hvað,
eins og gengur og gerist með
kóngaættir.
„Knudsenarnir í Tangavík
eru skrautleg og flokksholl
ætt með dugandi útgerð-
armönnum, ættræknum
bankastjórum, drykkfelldum
sjoppueigendum, ástsælum al-
þingismönnum, skapmiklum
fegurðardrottningum og jafn-
vel elskulegum þorps-
hálfvitum. Saga þeirra er sam-
ofin sögu alþýðunnar því hana
hafa þeir ráðskast með frá
ómunatíð,“ segir Forlagið.
Skrautleg og
flokksholl
Saga ættarveldis og
kónga Íslands