Morgunblaðið - 24.11.2012, Blaðsíða 94
A Charlie Brown Christmas
(1965)
Þessi hugljúfa teiknimynd er hlaðin
öllu því sem gerði Smáfólkið hans
Charles M. Schultz að eftirlæti barna
sem og fullorðinna um heim allan.
Lúmskur húmor, óborganlegar erki-
týpur og Snoopy fer á feiknarlegum
kostum sem endranær. Kalli Bjarna
er á sínum hefðbundnu mörkum
þunglyndis en að loknum þónokkrum
jólahremmingum fer allt á besta veg
og hinn lágstemmda gamansemi hitt-
ir alla beint í hjartastað. Betra meðal
við jólastressi er ekki til.
Love, Actually (2003)
Óviðjafnanlegur leikhópur kemur hér
saman í fléttu frásagna af mismun-
andi fólki í desember þar sem ástin
leiðir fólk saman á mismunandi for-
sendum – með mismunandi árangri.
Bill Nighy er frábær sem útvatnaður
rokkari, Rowan Atkinson er í essinu
sínu sem búðarlokan sem elskar að
pakka inn og þungavigtarmenn á
borð við Liam Neeson, Alan Rickman
og Colin Firth eiga flotta spretti. En
spurt er – hvar er hin hrífandi Mart-
ine McCutcheon í dag?
The Snowman (1982)
Það gengur allt upp í þessari 30 ára
gömlu dásemdarteiknimynd, hvort
heldur litið er til nostursamlegrar
teiknivinnslu (hver rammi er blýants-
teiknaður, bæði persónur og bak-
grunnur), ógleymanlegrar tónlistar-
innar eða sögunnar hreyfir það
svikalaust við öllum sem myndina sjá.
Þar sem hún er ekki nema um hálf-
tími að lengd eru hæg heimatökin að
finna tíma til að sjá hana. Í mynd-
arlok hafa meira að segja hörkutólin
fengið eitthvað í augað …
Die Hard (1987)
Þessi sígilda mynd er allt í senn;
myndin sem kom Bruce Willis á kort-
ið, ein besta hasarmynd sögunnar og
ómissandi jólamynd fyrir þá sem ald-
ur hafa til. Þegar hópur þungvopn-
aðra glæpamanna tekur völdin í jóla-
boði í háhýsi einu í Los Angeles
reynist lögreglumaðurinn John
McClane eina von gíslanna. Hann er
einn síns liðs og vansvefta en engu að
síður býsna drjúgur gegn ofureflinu
enda útsjónarsamur með afbrigðum.
Tímalaus og hressandi snilldarmynd.
The Muppets Christmas Carol
(1992)
Jólasaga Dickens er líklega það jóla-
ævintýri sem oftast hefur verið fært á
hvíta tjaldið og sjónvarpsskjáinn, en
þessi útfærsla Prúðuleikaranna svík-
ur engan enda krydduð húmor að
hætti Kermits, Fossa, Gunnsa og
allra hinna í bak og fyrir. Í hlutverki
Skröggs er enginn annar en goðsögn-
in Michael Caine og nærvera hans
ljær myndinni vigt og stíl. Sígild saga
með sígildum fjölskylduvinum sem
heldur öllum hugföngnum.
White Christmas (1954)
Þar sem Bing Crosby og Danny Kaye
koma saman, þar er gaman. Fé-
lagarnir fara á sínum alþekktu kost-
um í hlutverki fyrrverandi hermanna
sem hafa lagt fyrir sig söng og dans
að stríði loknu. Þeir leggja leið sína til
yfirmannsins úr hernum og hyggjast
setja upp sýningu á gistiheimili hans
og rétta þannig hjálparhönd. Stjörn-
urnar skína sínu skærasta, músíkin
er úr smiðju Irvings Berlins og jólin
hreinlega geisla af hverjum ramma.
Hvað viljiði meira?
Polar Express (2004)
Margir fundu þessari leiknu teikni-
mynd úr smiðju Roberts Zemeckis
flest til foráttu þegar hún kom út, og
mestanpartinn er það að ósekju.
Tæknilega er hún stórvirki, Tom
Hanks er traustur í öllum sínum hlut-
verkum og atburðarásin á nokkur
býsna spennandi augnablik. Það má
vel hafa gaman af ferðinni með norð-
Jólabíó við
allra hæfi
Það fylgir atganginum á aðventunni að setjast í
sófann, kasta mæðinni og gleyma sér um stund
við að horfa á eina af hinum óteljandi teikni-,
brúðu- og kvikmyndum sem gerðar hafa verið
um jólin – eða hafa jólahátíðina í bakgrunn-
inum, með einum eða öðrum hætti. Hér á eftir fer
upptalning sem ætti að dekka velfestar óskir les-
enda um mynd til áhorfs um hátíðirnar.
Lífshætta Bruce Willis er á tæpasta vaði í Die Hard.
Smáfólk Kalli Bjarna og félagar kunna að halda jólin hátíðleg.
Sígild Teiknimyndin um Snjómanninn er hugljúf á að horfa.
Rómantík Love, Actually er fyrirtaks jólamynd fyrir þá sem kjósa rómantískt bíó.
94 Jólablað Morgunblaðsins
Litla
Jólabúðin
Laugavegi 8, sími 552 2412
101 Reykjavík • lindsay@simnet.is
Fallegar
jólavörur