Morgunblaðið - Sunnudagur - 06.10.2013, Blaðsíða 49
þurfti að skríða inn í á fjórum fótum,“
segir Þórður.
Eigi að síður sáu sumir fortíðina í hill-
ingum. „Allt var betra í gamla daga, sólin
var meira að segja bjartari. Það vekur
óneitanlega upp spurningar um sjónina í
þessu fólki.“
Hann glottir.
Eins og 17. júní-blaðra
Þórður var staðráðinn í að verða bóndi.
Vann fyrst hjá foreldrum sínum á Þverlæk
en snemma á níunda áratugnum hóf hann
búskap í Köldukinn. Bjó þar í um tvo
áratugi.
„Þetta gekk ágætlega til að byrja með,“
segir hann. „En síðan fjaraði hratt undan
sauðfjárbúskap á Suðurlandi. Það var eins
og að horfa á loftið fara úr 17. júní-
blöðru. Ég þrjóskaðist við og upp úr 2000
fór ég að vinna með búskapnum til að
halda mér á floti en þegar það dugði ekki
til heldur gekk ég út úr þessu.“
– Var það ekki erfitt?
„Treginn var liðinn hjá þá.“
Eftir að Þórður brá búi vann hann um
tíma við torf- og grjóthleðslu á Hellu.
Þaðan lá leið hans til höfuðborgarsvæð-
isins, þar sem hann starfaði fyrst við
smíðar og síðan á lager hjá fyrirtæki í
matvælaframleiðslu.
„Ég upplifði það ekki sem neitt sérstakt
sjokk að flytja suður enda lít ég á höf-
uðstaðinn sem úthverfi frá Köldukinn,“
segir hann sposkur.
Í þessu samhengi rifjar hann upp sög-
una af því þegar Einar Benediktsson at-
hafnamaður og skáld, sem þá bjó á herra-
garði skammt frá Lundúnum, kom heim
til að kaupa tvo reiðhesta. Klárarnir fóru
utan með skipi og fullorðinn íslenskur
sveitamaður með þeim. Vegna misskilnings
kom enginn að taka á móti þeim og reið
maðurinn því bara sem leið lá heim á
herragarð skáldsins. Varð þar mikill pilsa-
þytur og manninum bornar góðgjörðir. Að
því búnu kom upp heimsborgarinn í skáld-
inu sem spurði:
„Hvernig leist þér nú á Lundúnaborg,
maður minn?“
Maðurinn tók í nefið og sagði rólega:
„Séð hefur maður nú annað eins.“
Skólaball breytist
í ballettsýningu
Eftir sjö ár á mölinni neyddist Þórður til
að hætta lagervinnunni vegna slæmsku í
baki. Þá flutti hann aftur austur í Köldu-
kinn, þar sem Margrét Eggertsdóttir, fyrr-
verandi eiginkona hans, stýrir nú búi.
Á veturna er hann aðallega í hrossa-
vinnu fyrir austan og tvö síðustu sumur
hefur hann unnið hjá Íshestum. Það eru
fjallaferðir, nema hvað? Farið er frá Kjóa-
stöðum í Biskupstungum, yfir Auðkúluheiði
að Mælifellsrétt í Skagafirði og aftur til
baka. Mest tuttugu manns í hóp. Vika í
það heila.
Þórður segir Íslending varla sjást í
þessum ferðum. Mest er um fólk frá meg-
inlandi Evrópu en líka Breta, Bandaríkja-
menn og Norðurlandabúar. Allt vant
hestafólk. „Annað væri óðs manns æði,“
segir Þórður. „Það er ekkert grín fyrir
óvana að hossast á hestum í sex daga á
íslenskum fjöllum.“
Margt af þessu fólki er þó í fyrsta sinn
að koma á bak íslenskum hestum. „Allir
byrja rólega en Hjalti Gunnarsson á Kjóa-
stöðum hefur algjöra náðargáfu þegar
kemur að því að sjá reiðmanninn í hverj-
um og einum. Á öðrum eða þriðja degi
setur hann fljúgandi töltara undir þá
bestu og þeir sitja eins og elstu karlarnir
sem ég reið út með í gamla daga. Það er
ótrúlegt að horfa upp á venjulegt skólaball
breytast í ballettsýningu.“
Hann brosir.
Lifir sér til gamans
Þórður segir hina erlendu gesti umgangast
hrossin af aðdáunarverðri virðingu. „Það
hefur verið mjög gaman að kynnast þessu
fólki. Margir safna jafnvel lengi fyrir
svona ferð og eru staðráðnir í að njóta
hverrar mínútu. Lifa sér til gamans, eins
og Björn á Löngumýri sagði. Það eru for-
réttindi að umgangast slíkt fólk og vera
með því á fjalli.“
Spjallinu er lokið og Þórður býðst til að
fara með mig að skoða gömlu Landrétt-
irnar sem lögðust af við Heklugosið 1980.
Þaðan á hann margar góðar minningar.
Því miður verð ég að afþakka gott boð.
Þannig er nefnilega mál með vexti að ég
á brúðkaupsafmæli og verði ég ekki kom-
inn í bæinn fyrir kvöldmat til fundar við
frúna gæti ég átt á hættu að sofa um
sinn á sófanum í stofunni.
Þórður sýnir þessu að vonum skilning
og fer í kveðjuskyni með þessa gömlu
vísu:
Eftir kjag um kirkjugólf,
klukkan átta fóru að hátta.
Vöknuðu aftur tíu og tólf,
tvö og fjögur, sex og átta.
2009. Þórður staldrar við og lítur yfir farinn veg.
2012. Fínkemba þarf afréttinn. Kvíslarnar meðtaldar.
6.10. 2013 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 49