Morgunblaðið - 29.03.2014, Blaðsíða 6
SVIÐSLJÓS
Ingveldur Geirsdóttir
ingveldur@mbl.is
Álagið á Landspítalanum hefur ver-
ið gríðarlegt síðustu daga og allt lít-
ur út fyrir að svo verði eitthvað
áfram. Rúmanýting var enn yfir
100% um miðjan dag í gær þótt allt
stefndi í að það næðist að létta að-
eins á fyrir helgina.
Ólafur Baldursson, framkvæmda-
stjóri lækninga á Landspítalanum,
sagði stöðuna í gær aðeins skárri en
á fimmtudaginn. Vel gekk að út-
skrifa sjúklinga í gær og stefnt er að
talsverðum útskriftum í dag. „En
sjúklingarnir halda áfram að
streyma til okkar og núna um há-
degið [í gær] biðu sex sjúklingar
innlagnar af bráðadeildinni. Okkur
hefur hins vegar tekist í bili með
ákveðnum ráðstöfunum að koma
hlutunum þannig fyrir að þetta
gengur betur núna,“ segir Ólafur.
„Þegar þessi staða kemur upp, eins
og hefur verið undanfarna tvo sólar-
hringa, þá er spítalinn í mjög erfiðri
stöðu og ekki síst hvað varðar mót-
töku stórra slysa. Einnig erum við
knúin til að seinka svokölluðum val-
aðgerðum sem eru skipulagðar fyr-
irfram. Það er aðallega af þessum
tveimur ástæðum og vegna álags á
starfsfólk sem við kölluðum eftir
stuðningi frá kragasjúkrahúsunum,
heilsugæslunni og Læknavaktinni.
Þessir aðilar allir brugðust afskap-
lega vel við.“
Kragasjúkrahúsin svonefndu eru
Heilbrigðisstofnanir Suðurlands,
Suðurnesja og Vesturlands. Á síð-
ustu tveimur dögum hafa fimm
sjúklingar verið fluttir á þær frá
Landspítalanum til að létta álagið.
Ólafur segir þetta ekki háar tölur en
það muni um hvert pláss.
Óviðunandi ástand
Síðustu daga hafa fimm til tíu
manns þurft að liggja frammi á
göngum spítalans og segir Ólafur
það óviðunandi ástand.
Legurúmunum hefur fækkað um
rúmlega 200 frá því árið 2007 og eru
nú 680 með Vífilsstöðum. Ólafur
segir ekki hægt að fjölga þeim auð-
veldlega þegar slík staða kemur
upp, það sem hamli því sé aðallega
mannafli, fjármagn og húsakostur
sem sé af skornum skammti.
„Rúmanýtingin er núna yfir 100%
en við teljum að eftir því sem flensu-
tilfellunum fækkar muni ástandið
skána svo við komumst í rúmanýt-
ingu kringum 90 til 95%, en sú tala
er líka of há. Það er ekki sjálfbært
til lengri tíma að reka spítala þann-
ig, eðlilegt væri að miða rúmanýt-
ingu við 80 til 85%. Þetta ástand
vekur auðvitað alla til umhugsunar
um framtíðarstefnuna. Spítalinn er
of lítill fyrir þá þjónustu sem honum
er ætlað að veita núna,“ segir Ólaf-
ur.
Þótt Ólafur nefni flensuna sem
einn orsakaþátt fyrir þessu mikla
álagi er hún ekki mjög alvarleg
þetta árið og er heldur að hjaðna.
„Sá hópur sem flensan hefur mest
áhrif á hefur stækkað mjög mikið á
undanförnum 10 til 15 árum og það
er miðaldra og eldra fólk með marg-
víslega langvinna sjúkdóma. Það
hefur fjölgað í þeim hópi og það er
sá hópur sem er viðkvæmastur fyrir
flensunni. Það er þetta samspil sem
eykur fjölda innlagna mest.“
Spurður hvort gripið verði til
frekari aðgerða á spítalanum til að
sporna við ástandinu segir Ólafur að
þau fylgist vel með frá degi til dags
og búið sé að gera ráðstafanir fyrir
helgina. „Við höfum tryggt að
ákveðnar deildir sem eru venjulega
ekki opnar um helgar verði opnar,
eins og hjartagáttin. Starfsfólki á
vakt hefur verið fjölgað og þá verð-
ur fylgst vel með hvort við þurfum
að hætta við valaðgerðir á mánu-
daginn. Þær ákvarðandi koma í ljós
um helgina, það fer eftir því hvernig
málin þróast,“ segir Ólafur.
Skánar á bráðamóttökunni
Framkvæmdastjórn spítalans
beindi því til fólks fyrr í vikunni að
leita fremur til heilsugæslunnar og
Læknavaktarinnar en á bráðamót-
töku Landspítalans. Bára Bene-
diktsdóttir, mannauðsráðgjafi
bráðasviðs, segir að sú ábending
virðist hafa skilað sér því aðstreymi
á bráðamóttökuna hafi aðeins farið
að dragast saman á fimmtudags-
kvöldið. Hún segir ástandið ekki
vera gott þótt það hafi aðeins skán-
að.
Bára segir upp undir 200 manns
koma á bráðamóttökuna á degi
hverjum og margir komi þangað
með vandamál sem megi leysa bæði
á heilsugæslunni og á Læknavakt-
inni. „Fólk kemur hingað með
vandamál sem geta ekki talist bráð.
Það lítur svolítið á bráðavaktina
sem þjónustu sem er opin allan sól-
arhringinn, eins og klukkubúðir, en
næturþjónustan er neyðarþjón-
usta,“ segir Bára. Innlagnarhlutfall
þeirra sem koma á bráðamóttökuna
er um 25%.
Bára segir ekkert eitt umfram
annað hrjá þann mikla fjölda sem
leitar til bráðamóttökunnar en álag-
ið hafi verið nokkuð þétt alveg frá
því um áramótin, jafnvel fyrr.
Sjúklingarnir streyma inn
Enn yfir 100% rúmanýting á Landspítalanum og álagið mikið Allt að tíu manns liggja á göngunum
dag hvern „Spítalinn er of lítill fyrir þá þjónustu sem honum er ætlað að veita núna“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Landspítalinn Slæmt ástand hefur verið á spítalanaum undanfarið en yfir 100% rúmanýting hefur verið.
6 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. MARS 2014
Viltu selja eða
kaupa fyrirtæki?
Firma Consulting, Þingaseli 10, 109 Reykjavík,
GSM: (+354) 820 8800 og (+354) 896 6665,
Fax: (354) 557 7766, Veffang: firmaconsulting.is
Magnús Hreggviðsson viðskiptafræðingur og lög-
giltur fyrirtækja-, fasteigna- og skipasali. Magnús er
með áratuga reynslu af endurskoðunarstörfum, sem
rekstrarráðgjafi, fyrirtækja- og fasteignasali, útgef-
andi, fasteignarekandi, „land-developer“ í Smára-
hvammi og starfandi stjórnarformaður í nokkrum
fyrirtækjum. Er aðalráðgjafi hjá Firma Consulting.
(magnus@firmaconsulting.is)
Firma Consulting (www.firmaconsulting.is) er
ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf við
kaup og sölu millistórra og stórra fyrirtækja.
Viðar Guðjónsson
vidar@mbl.is
Bæjarstjórnin í Seltjarnarnesbæ
hefur samtals fundað í 56 mínútur á
fimm fundum það sem af er þessu
ári. Ásgerður Halldórsdóttir, bæjar-
stjóri í Seltjarnarnesbæ, segir að
fundirnir taki gjarnan stuttan tíma
sökum þess hve góð samvinna er í
nefndum bæjarins. Lengsti fundur
ársins var 22. janúar og tók hann 22
mínútur. Sá stysti var 26. febrúar og
tók fjórar mínútur.
„Þetta er vegna góðs samstarfs á
milli minni- og meirihluta allt kjör-
tímabilið. Það er búið að ræða málin
mjög vel í nefndum. Bæjarstjórn fer
yfir fundargerðir nefnda og í flestum
tilvikum hefur ekki þótt ástæða til
að ræða það frekar þar sem umræð-
an hefur farið fram áður,“ segir Ás-
gerður.
Allar upplýsingar liggi fyrir
Í bæjarstjórn sitja fimm fulltrúar
frá Sjálfstæðisflokki, einn frá Sam-
fylkingu og einn frá Bæjarmála-
félagi Seltjarnarness. „Þegar kemur
að fjárhagsáætlun þá er búið að fara
yfir hana að hausti og ljóst að menn
eru sammála um það hvernig eigi að
byggja hana upp. Hún er svo rædd í
bæjarráði og þar er farið aftur yfir
hlutina. Því liggja allar upplýsingar
fyrir þegar kemur að fundum bæjar-
stjórnar,“ segir Ásgerður.
Ekkert óeðlilegt
Bæjarstjórn fundar tvisvar í mán-
uði, annan hvern miðvikudag. „Það
er ekkert óeðlilegt við þetta og sýnir
að meiri- og minnihluti geta unnið
saman. Þetta eru flott vinnubrögð
hjá okkur, þau eru skilvirk og allir
eru með. Það gerir það að verkum að
þegar málin koma fyrir bæjarstjórn
þá er búið að leysa úr ágreiningi ef
hann er fyrir hendi. Ég vil hafa gott
samstarf við minnihlutann og ná
samkomulagi áður en málin fara fyr-
ir bæjarstjórn. Fleiri mættu taka
upp þessi vinnubrögð,“ segir Ás-
gerður. Fyrir vikið hafa allar
ákvarðanir á árinu fengið samhljóma
samþykki á bæjarstjórnarfundum.
Bæjarfulltrúar fá greidd mán-
aðarlaun frá Seltjarnarnesbæ. Ekki
er greitt sérstaklega fyrir nefnd-
arsetu að sögn Ásgerðar.
Stysti fundur 4 mínútur
Seltirningar
eru samtaka í
bæjarstjórninni
Samvinnufús Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar hefur samtals fundað í 56
mínútur á fimm fundum frá áramótum. Stysti fundurinn var 4 mínútur.
Stefán B. Matthíasson, settur
framkvæmdastjóri lækninga hjá
Heilsugæslu höfuðborgarsvæð-
isins, segist ekki vita til þess að
það sé aukið flæði á heilsugæsl-
una eins og á LSH. „Aðsóknin á
heilsugæsluna virðist ekki óvenju-
leg miðað við árstíma. Við tvöföld-
um stundum mannskap á síðdeg-
isvaktinni ef flensa er í gangi en
við höfum ekki þurft þess núna,“
segir Stefán.
Heilsugæslan er með dagvakt,
síðdegisvakt og svo tekur Lækna-
vaktin við á kvöldin og um helgar.
Stefán segir að eðlilegast sé að
fólk hringi fyrst á heilsugæsluna
ef það er óvíst um hvert það á að
fara til að leita sér hjálpar. „Fólk
getur haft samband beint við okk-
ur og við leiðbeinum því um hvort
við getum sinnt erindinu eða hvort
viðkomandi þarf að leita annað.“
Á Læknavaktinni fengust þær
upplýsingar að það væri drjúgt að
gera en allt gengi vel og biðtíma-
markmið héldust. Á virkum degi á
þessum árstíma koma 140 til 200
manns á Læknavaktina. Álagið á
vaktina hefur ekki aukist sérstak-
lega þessa vikuna og engin sér-
stök veikindi standa upp úr.
Ekki óvenjuleg aðsókn
HEILSUGÆSLAN OG LÆKNAVAKTIN