Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.05.2014, Síða 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.5. 2014
Menning
S
igurþór Jakobsson situr í sófa á
vinnustofu sinni, berfættur og af-
slappaður. Honum á hægri hönd
er Ríkharður Jónsson borinn á
gullstól eftir einn frækilegasta sig-
ur íslenska landsliðsins í knattspyrnu og á
vinstri hönd brosir landsfaðirinn sjálfur, Sig-
mundur Davíð Gunnlaugsson, kumpánlega við
gestum enda nýbúinn að ganga yfir Evrópu-
sambandið – á skítugum skónum. Við fætur
hans eru fimm hænur, fjórar brúnleitar og ein
hvít. Athygli vekur að sú hvíta liggur örend á
bakinu. Hverju sætir það?
„Hún er útlensk, hitt eru allt landnáms-
hænur,“ segir Sigurþór sposkur á svip. „Ég
hef miklu meira yndi af portrettmyndum sem
segja eitthvað.“
Ekki svo að skilja að málarinn sé endilega
að viðra eigin skoðanir en verkið byggist á
grein sem Haraldur Ólafsson veðurfræðingur
ritaði í Morgunblaðið fyrir fjórum árum undir
yfirskriftinni „Sannleikur ungra bænda og
Evróputrúboðsins um hermál“.
Hún lætur ekki að sér hæða, andagiftin.
Hægt verður að berja þetta verk og önnur,
gömul og ný, augum á vinnustofu Sigurþórs á
Skólavörðustíg 1 a, 3. hæð, nú um helgina,
laugardag og sunnudag, milli klukkan 13 og
17. Og á sama tíma 17. júní.
Hjer skeði hið ólíklega
Málverkið af Ríkharði á gullstólnum byggist
líka á efni úr Morgunblaðinu, frægri ljósmynd
sem Ólafur K. Magnússon tók eftir sögulegan
sigur Íslendinga á Svíum, 4:3, vestur á Melum
29. júní 1951. Ríkharður gerði sér þá lítið fyr-
ir og skoraði öll mörk Íslands. Myndin birtist
á baksíðu blaðsins daginn eftir. Á öðru mál-
verki á vinnustofu Sigurþórs sést Ríkharður
leggja knöttinn í mark Svía.
„Þúsundir áhorfenda sáu Íslendinga sigra
Svía í fyrsta landsleik þessara þjóða í knatt-
spyrnu sem fram fór á Íþróttavellinum í
Reykjavík í gærkvöldi. – Ekki munu miklar
sigurvonir hafa verið bundnar við þennan leik
af Íslendinga hálfu, þar sem við eina sterk-
ustu knattspyrnuþjóð í Evrópu var að etja.
En hjer skeði hið ólíklega,“ segir í umfjöllun
Morgunblaðsins um leikinn 30. júní 1951. Sig-
urþór man vel eftir afrekinu en var of ungur
til að fara á leikinn.
Sjálfur lék hann síðar fyrir landsliðið í
knattspyrnu, sex leiki, og kynntist Ríkharði
persónulega. „Þegar ég kom inn í landsliðið
var Rikki fyrirliði og tók afskaplega vel á
móti mér. Lét líka vel um mig mælt í blöð-
unum. Ég er mjög þakklátur fyrir kynni mín
af þessum mikla afreksmanni,“ segir hann.
Eins og í kúrekamyndunum
Ríkharður lék með ÍA á þessum árum og Sig-
urþór minnist þess sem barn þegar það gull-
aldarlið kom í bæinn. „Skagamenn voru eins
og hetjurnar í kúrekamyndunum. Komu í bæ-
inn, gengu frá okkur og fóru svo aftur. Að-
dáunin var mikil og þar var Rikki fremstur
meðal jafningja.“
Sigurþór rifjar upp að 29. júní 1951 sé lík-
lega einn merkasti dagurinn í sögu íslenskra
íþrótta en fyrr um daginn hafði frjálsíþrótta-
landsliðið, með Örn Clausen og Gunnar Hus-
eby í broddi fylkingar, unnið frækilega sigra á
bæði Norðmönnum og Dönum í Ósló.
„Þetta var makalaus sigurdagur fyrir Ís-
lendinga og mér fannst tilvalið að rifja hann
upp í tilefni af lýðveldisafmælinu. Lyfta mér
upp og vonandi öðrum í leiðinni. Það hefur
verið svo mikil neikvæðni undanfarin ár.“
Sigurþór er fæddur árið 1942 og þar af
leiðandi hér um bil jafn gamall og lýðveldið.
„Líf mitt er lýðveldistíminn og ég finn að
hjartað slær með þessu afmæli,“ segir hann.
Fleiri boltaverk eru á sýningunni, stórt
málverk af mönnum að henda hnettinum á
milli sín. Nei, þetta er ekki prentvilla. Hnett-
inum en ekki knettinum. „Sumir kappleikir
eru upp á líf og dauða,“ segir málarinn.
Þá er þarna Landsbankabolti – hvell-
sprunginn. „Landsbankinn styrkti Íslands-
mótið í knattspyrnu fyrir hrun og gaf börnum
þá hundruð bolta. Dóttursonur minn fékk
einn og við æfðum okkur stíft á Landakots-
túninu. Boltinn sprakk á sama tíma og banka-
kerfið.“
Hann þagnar.
„Þegar maður eldist verður það smáa svo
verðmætt.“
Hestar eru einnig fyrirferðarmiklir á sýn-
ingunni og í sérstöku rými í stiganum á leið
upp á vinnustofuna, Nonpareille Art Gallery,
eru þeir á fyrsta farrými.
„Ég er enginn hestamaður – eignaðist að
vísu einu sinni folald þegar ég var strákur í
sveit – en hesturinn er afskaplega falleg
skepna. Við mennirnir getum lært margt af
hestinum. Hann setur bakhlutann bara upp í
élin og bítur þau af sér. Kvartar aldrei.“
Annars er Sigurþór til þess að gera nýbyrj-
aður að sýsla með fígúruna. Var meira í af-
strakt áður. „Ég hef fiktað við margt gegnum
tíðina. Fyrsti myndlistarkennarinn minn var
Ragnar Kjartansson, afi alnafna síns sem nú
er að gera garðinn frægan erlendis. Ragnar
var frábær leiðbeinandi og hans mottó var, að
við hefðum gaman af því sem við værum að
gera. Hann var duglegur að fara með okkur
nemendur í ferðir og lét okkur teikna hér og
þar í náttúrunni eða inni á söfnum. Þessi
mynd var teiknuð í einni slíkri ferð,“ segir
Sigurþór og bendir á kotroskna geit á veggn-
um. Ártalið er 1964. Fyrstu sýningu sína hélt
Sigurþór á Mokka 1971.
Þrír gestir eiga verk á sýningunni, börn
listamannsins, Þuríður og Þór, og tengdason-
ur, Ryan Blair Sullivan frá Bandaríkjunum.
„Ég er þeim þakklátur, fyrir að hafa verkin
sín hér,“ segir Sigurþór.
Snýst allt um peninga
Sigurþór lærði myndlist í Bretlandi á sjöunda
áratugnum og mótaði sú dvöl hann. „Ég fór
mikið á söfn og nærðist á myndlist fyrri alda.
Það er besti skóli sem maður getur fengið.
Þess utan var mikil gerjun í menningarlífinu í
Bretlandi á þessum tíma, ekki síst í tónlist-
inni. Þar fóru Bítlarnir fremstir í flokki.“
Í seinni tíð hefur Sigurþór dvalist talsvert í
New York og sækir þangað innblástur. Hann
segir marktækan mun á afstöðu Íslendinga og
Bandaríkjamanna til listarinnar. „Þegar ég
segi frá því úti að ég sé í myndlist er ég
spurður hvernig verk ég sé að gera. Hér
heima er fyrsta spurningin iðulega: Selurðu
eitthvað? Það snýst allt um peninga. Ekki
bara í myndlistinni, heldur almennt. Í frétt-
unum um daginn var einhver maður að viðra
háleita hugmynd en fréttamaðurinn skaut
pælinguna strax niður með þessari spurningu:
En kostar þetta ekki gríðarlega mikinn pen-
ing?“
Hann þagnar.
„Ef til vill hafði Vilmundur heitinn Gylfason
rétt fyrir sér? Okkur var ágætlega til vina og
einu sinni rakst ég á hann fyrir utan Alþing-
ishúsið eftir að hann var sestur á þing. „Jæja,
Vimmi minn,“ sagði ég. „Er ekki gaman að
vinna með mestu gáfumönnum þjóðarinnar?
Vilmundur sparkaði þá létt í húsið og ráðlagði
mér að halda ekki eitt augnablik að þar ynnu
gáfuðustu menn þjóðarinnar. „En Dúddi,“
sagði hann. „Samt eru fréttamenn ennþá vit-
lausari.“ Hann var skemmtilegur karakter,
Vilmundur.“
Sigurþór þykir ekki gott hversu lágt mynd-
listinni sé gert undir höfði í samfélaginu. „Það
byrja allir og enda á því að teikna og skapa.
Komirðu inn á barnaheimili eða elliheimili eru
allir að dunda sér við sköpun af einhverju
tagi. Það gefur fólki svo mikið. Það er líka svo
skemmtilegt við börnin að maður segir þeim
ekkert hvað þau eigi að teikna eða mála. Þau
vita það alveg sjálf. Síðan er lokað fyrir þessa
sköpunarþörf. Þegar þeir komast á unglings-
aldur hætta alltof margir að teikna og mála.
Skynsemin drepur sköpunina.“
Skynsemin drepur sköpunina
SIGMUNDUR DAVÍÐ GUNNLAUGSSON OG RÍKHARÐUR JÓNSSON VERÐA Í ÖNDVEGI Á SÝNINGU SEM
SIGURÞÓR JAKOBSSON MYNDLISTARMAÐUR HELDUR Á VINNUSTOFU SINNI Á SKÓLAVÖRÐUSTÍG UM HELGINA OG 17. JÚNÍ.
TILEFNIÐ ER SJÖTÍU ÁRA AFMÆLI LÝÐVELDISINS.
Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Myndir: Kjartan Þorbjörnsson golli@mbl.is
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og landnáms-
hænurnar ganga broshýr yfir Evrópusambandið.
Ríkharður Jónsson skorar eitt af fjórum
mörkum sínum gegn Svíum.
Sigurþór Jakobsson myndlistarmaður innan um verk sín á vinnustofunni. Í bakgrunni myndin fræga af Ríkharði Jónssyni bornum af velli á gullstól.
Morgunblaðið/Golli