Morgunblaðið - 24.07.2014, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 24.07.2014, Blaðsíða 24
24 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. JÚLÍ 2014 ✝ Andri FreyrSveinsson var fæddur á Selfossi 2. apríl 1996. Hann lést af slysförum á Spáni 7. júlí 2014. Foreldrar hans eru Sveinn Albert Sigfússon (Denni), f. 1. apríl 1968 og Harpa Bryndís Kvaran, f. 22. jan- úar 1974. Denni og Harpa hófu sambúð árið 1989 og saman eiga þau, auk Andra, Anton Inga, f. 6. maí 1994 og Aldísi Elvu, f. 31. október 2000. Denni og Harpa slitu sam- vistum árið 2001. Þá á Denni dótturina Írenu Þöll, f. 24. sept- ember 2004. Denni giftist Huldu Guðjónsdóttur árið 2005 en saman eiga þau dótturina Freydísi Kötlu, f. 25. febrúar 2008 og fyrir átti Hulda soninn Daníel Ottó Viney. Harpa Bryn- dís á soninn Guðmund Ísar Loga, f. 18. október 2011 með Sigurjóni Guðmundssyni. Fyrir átti Sigurjón þrjú börn, Ásgeir, Leó Smára og Hildi Björgu. Andri bjó með for- eldrum sínum á Ás- mundarstöðum í Ásahreppi og í Reykjavík sín fyrstu æviár, síðar bjó hann með móð- ur sinni og systk- inum á Ísafirði og síðustu æviár sín bjó hann í Reykja- vík. Með skóla vann hann við ýmis þjónustustörf, svo sem í Bónus og Krónunni. Andri Freyr nam forritun við Tækniskólann og stefndi á frekara nám í forritun að því námi loknu. Þrátt fyrir ungan aldur hafði Andri náð miklum árangri á sviði forrit- unar og þess má geta að hann hóf nýlega störf fyrir banda- rískt tölvufyrirtæki í tengslum við „Minecraft“-leikinn. Andri var ljúfur og lærdómsfús drengur og einstaklega góður sonur og bróðir. Útför Andra Freys fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 24. júlí 2014, og hefst athöfnin kl. 13. Elsku hjartað mitt, ég sit hérna og hugsa um hvað ég geti sett í minningargrein um þig, fal- legi strákurinn minn, en það er svo margt að ég gæti fyllt heilu og hálfu blöðin. Á sama tíma hugsa ég að ég ætti ekki að þurfa að vera að þessu núna, foreldrar eiga ekki að þurfa að kveðja börnin sín á þennan hátt. Þetta er enn svo óraunverulegt en í senn veit ég að þetta er satt, þú ert far- inn og kemur aldrei aftur. Ég stend sjálfa mig að því oft að bíða eftir að þú komir fram og bjóðir góðan daginn með þínu fallega brosi, setjist hjá mér og spyrjir: hvað segirðu, mamma, ertu ekki hress? Alltaf sama spurningin á hverjum degi, þér var alltaf svo umhugað um hvernig manni liði. Þú máttir aldrei vita af neinum sem liði illa því þá leið þér illa en gerðir samt allt sem í þínu valdi stóð til að hjálpa. Faðmlagið sem ég fékk frá þér daglega verður aldrei aftur, dill- andi hláturinn innan úr herberg- inu þegar þú talaðir við vini þína gegnum tölvuna farinn, mismæl- in sem voru svo skemmtileg og við gátum hlegið lengi og vel að þegar við spjölluðum við matar- borðið farin, en þau sem sögð voru eru geymd í minninguni og fá mig í dag til að brosa og gráta í senn. Þú varst svo einstaklega óheppinn oft með orðalag og urðu margir skemmtilegir brandarar til úr því. Stundirnar þar sem ég horfði á þig hugsa svo vel um litla bróður þinn, þegar þú útbjóst heita sam- loku handa ykkur báðum og svo settist þú með hann í fanginu og horfðir með honum á barnaefni meðan þið borðuðuð saman og svo tókst þú þér tíma til að kenna honum svo margt. Ég mun halda minningu þinni lifandi hjá bróður þínum, þótt hann sé of ungur til að skilja í dag þá mun hann alltaf fá að heyra um Andra stóra bróð- ur sem elskaði hann svo heitt. Hann spyr oft um þig og ég finn og sé að hann saknar þín, ég sakna þín, við öll söknum þín. Ég verð að trúa að þú sért nú kominn til langömmu þinnar sem þér þótti svo einstaklega vænt um, þú gafst þér tíma í hverjum frímínútum í skólanum til að heimsækja hana síðustu daga hennar hér hjá okkur og tókst af- ar nærri þér þegar hún kvaddi. Þetta lýsir þér svo vel, innileg ást og umhyggja fyrir öllum sem stóðu þér nærri. Þú heilsaðir allt- af öllum með faðmlagi og knúsi og björtu brosi og snertir svo marga með einlægninni og hlýj- unni sem frá þér streymdi. Ég elska þig, elsku yndislegi strák- urinn minn, og ég sakna þín svo að mig verkjar en ég veit að þeg- ar minn tími kemur verður þú sá fyrsti sem bíður með bjarta bros- ið þitt, opinn faðm og tilbúinn að knúsa mig. Hvíldu í friði, elsku drengurinn minn. Ég bar þig barn í armi, þú brostir hlýtt til mín, sem bjartur geisli ennþá, sú fagra minning skín. Mér veiti Drottinn Jesú, þær vonir fái að rætast, að megum við hjá Guði, með brosi aft- ur mætast. (Guðrún Guðmundsdóttir frá Melagerði) Elska þig svo heitt. Þín mamma. Í dag kveðjum við mikilfeng- legan dreng. Elsku Andri minn, þegar þú komst í heiminn þá komstu með miklum krafti. Ég var svo óend- anlega glaður og stoltur yfir að fá þig í afmælisgjöf og þó þú tækir okkur svolítið á taugum fyrstu dagana, meðan þú varst mjög veikur, þá vorum við svo heppin að læknarnir unnu kraftaverk og við fengum að hafa þig lengur hjá okkur. Við vorum svo óendanlega heppin að fá að hafa þig hjá okkur og fá að fylgja þér í 18 frábær ár. Þú varst fljótur að læra, fljótur að tileinka þér nýja hluti og það var alltaf einstaklega gaman að fá að leiðbeina þér og kenna. Allt sem þú tókst þér fyrir hendur, það gerðir þú af heilum hug, áhuga og vandvirkni. Elsku Andri minn, þú kenndir okkur hinum svo mikið í góð- mennsku þinni og kærleika. Þú varst alltaf að passa upp á okkur hin, varst góður og umhyggju- samur við alla og alltaf heilsaðir þú og kvaddir alla með faðmlagi. Ég mun ávallt geyma í hjarta mér allar dásamlegu stundirnar sem við áttum saman. Efst í mín- um huga eru allar ferðirnar okk- ar upp í sumarbústað, þar sem við gerðum allt sem okkur datt í hug. Smíðuðum báta, kofa og bíla. Æfðum okkur að kasta með fluguveiðistöng, allar göngurnar okkar upp í fjall. Ekki má gleyma öllum spilunum sem við tókum, allar spilaborgirnar sem þú byggðir og endalaus hláturinn, grínið, glensið og kátínan sem fylgdi þér. Kvöldin og næturnar sem þið strákarnir úr hverfinu voruð að „Lana“ heima voru fjör- ugar og það var alltaf skemmti- legt að koma fram á morgnana og sjá ykkur 12-15 stráka sofa um alla íbúð, meira segja í baðkarinu. Ég sé þig enn fyrir mér fara um Árbæinn á grænu vespunni og þá mynd mun ég ætíð geyma í mínu hjarta Sumir hverfa fljótt úr heimi hér skrítið stundum hvernig lífið er, eftir sitja margar minningar þakklæti og trú. Þegar eitthvað virðist þjaka mig þarf ég bara að sitja og hugsa um þig, þá er eins og losni úr læðingi lausnir öllu við. Þó ég fái ekki að snerta þig veit ég samt að þú ert hér, og ég veit að þú munt elska mig geyma mig og gæta hjá þér. Og þó ég fengi ekki að þekkja þig þú virðist alltaf geta huggað mig, það er eins og þú sért hér hjá mér og leiðir mig um veg. Þó ég fái ekki að snerta þig veit ég samt að þú ert hér, og ég veit að þú munt elska mig geyma mig og gæta hjá þér. Og þegar tími minn á jörðu hér, liðinn er þá er ég burtu fer, þá ég veit að þú munt vísa veg og taka á móti mér. (Ingibjörg Gunnarsdóttir) Elsku hjartað mitt, hvíldu í friði. Þín er sárt saknað. Ég elska þig. Pabbi. Elsku Andri minn, þín verður sárt saknað. Ég á ennþá erfitt með að trúa því að þú sért farinn frá okkur. Það er svo erfitt að vakna á morgnana og fatta alltaf aftur og aftur að ég geti ekki far- ið í herbergið þitt og boðið góðan dag, þar sem þú sast í tölvunni og tókst af þér heyrnartólin til að hlusta á hvað ég hefði að segja. Engin orð geta lýst því hversu mikið ég elska þig, litli kúturinn minn, og mun alltaf gera. Ég vona að tíminn verði ekki lengi að líða fyrir þig þar til ég fæ að hitta þig á ný og taka utan um þig. Ég sagði það kannski ekki nógu oft, elsku Andri minn, en ég elska þig af öllu mínu hjarta og mun ávallt gera. Það er svo erfitt að ímynda sér að ég geti ekki horft á þig eignast konu og eignast börn þar sem þú hefðir staðið þig betur en nokkur annar maður í því hlut- verki. Þú varst svo ljúfur, ynd- islegur strákur, þú varst flottast- ur og bestur. Okkar bræðrasam- band var svo einstakt. Þó við deildum og tækjumst á hér heima tók okkur ekki langan tíma að sættast. Við þurftum ekki einu sinni að biðjast afsökunar, við bara horfðum hvor á annan og gleymdum þessu bara. Ég vildi óska að þú hefðir ekki lent í þessu slysi og vildi óska að við værum ennþá að skemmta okkur á Spáni, kæmum svo heim og beint í að spila leikina okkar saman. En þú hefur verið kallaður til himna, til ömmu og afa í eitthvert stórt og fallegt hlutverk. Ég lofa því að þegar minn tími kemur skal ég halda utan um þig og aldrei sleppa. Elska þig, kúturinn minn, sjáumst þarna hinumegin. Þinn bróðir, Anton. Það er fátt yndislegra þegar sólin skín í lífinu en að fá að fylgj- ast með barnabörnunum vaxa úr grasi, þroskast og dafna, takast á við verkefni og setja sér mark- mið. Andri Freyr var ljós í húsi, hæglátur en glaðlegur, skemmti- legur og stundum stríðinn og hafði gaman af því að segja brandara og sögur. Umfram allt var hann sérstaklega hjálpsamur og hlýr. Lengi vel sagðist hann vilja verða dýralæknir en það breyttist því tölvurnar heilluðu og Andri hóf nám á tölvubraut í Tækniskólanum haustið 2012. Við erum ennþá að reyna að með- taka þennan hörmulega atburð. Fjölskyldan er harmi slegin, skemmtiferð barnanna með pabba sínum breyttist í martröð. Þegar lífið býður upp á hörmung- ar hvort sem það er vegna slyss eða veikinda þá finnur maður hve mikilvægt er að lifa lífinu fallega. Að vanda sig í samskiptum, sýna virðingu og heilsa og kveðja fólk fallega. Þannig var einmitt Andri Freyr. Hann faðmaði mann og knúsaði meira en flestir þegar hann heilsaði og kvaddi og oft höfum við rætt um það hvað þau eru einstaklega yndisleg barna- börnin öll, alltaf svo mikil hlýja og knús með fallegum kveðjum. Núna höfum við faðmað Andra Frey í síðasta sinn að svo stöddu. Við biðjum guð að blessa þig, elsku drengurinn, foreldra þína og systkini. Afi Brynjar og amma Ingibjörg í Álfatúni. Elsku drengurinn okkar, mik- ill er harmur okkar fjölskyldunn- ar við fráfall þitt sem gerðist í einni svipan í hræðilegu slysi. Þú þessi fallegi, góðhjartaði glókoll- ur sem vildi öllum vel. Mikið eig- um við eftir að sakna þín, elsku Andri. Ég veit að langamma Kristel hefur breitt út faðm sinn og tekið vel á móti þér, elsku karlinn. Okkur afa langar að kveðja þig með þessu ljóði. Síðan hef ég vandlega í sál minni geymt ljós þinnar veru, þótt leiðir skildu – skín það enn skærar er skapadómur berst mér að vestan um blóð á stráum. Liðinn ert þú inn í ljóma bjartrar júlínætur, jafnhreinn sem forðum – drýpur dögg, drúpir gras, brosir í draumi barn sem ég unni. Ekkert fær dáið af eðli þínu, ekkert skyggt ástúð þína. Sofðu í fangi ljóðs míns, sofðu í fangi lands þíns, glókollur bláeygur, guðs barn – (Jóhannes úr Kötlum) Amma Helga og afi Þórir. Andri Freyr. Fallegt nafn á fallegum dreng. Nafn þitt kallar fram mörg orð í huga mér, orð eins og bjartur, ljúfur, góður, hamingjusamur, já- kvæður, hjálpsamur, lærdóms- fús, elskulegur og glaður. Þakk- læti er mér einnig ofarlega í huga þegar ég hugsa til þín, þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast þér, gæsku þinni og fyrir að fá að fylgjast með þér vaxa og verða að ungum manni sem allir í fjöl- skyldunni voru stoltir af. Þú hafð- ir svo hreina sál og gott hjarta. Þú varst ávallt boðinn og búinn að aðstoða þá sem þurftu á aðstoð að halda og varst foreldrum þín- um og systkinum svo góður. Þú varst gull af manni, þú varst fjár- sjóður. Boðberar kærleikans eru jarðneskir englar sem leiddir eru í veg fyrir fólk til að veita umhyggju, miðla ást, fylla nútíðina innihaldi og tilgangi, veita framtíðarsýn vegna tilveru sinnar og kærleiksríkrar nærveru. Þeir eru jákvæðir, styðja, uppörva og hvetja. Þeir sýna hluttekningu, umvefja og faðma, sýna nærgætni og raunverulega umhyggju, í hvaða kringumstæðum sem er án þess að spyrja um endurgjald. (Sigurbjörn Þorkelsson) Þetta ljóð hefði getað verið samið um þig því þú varst ná- kvæmlega þetta, jarðneskur eng- ill, boðberi kærleikans, sendur til okkar svo við gætum lært af gæsku þinni. Elskulegi Andri minn, takk fyrir samfylgdina, þín verður ávallt sárt saknað. Hvíl þú í friði, ljúflingur, og við sjáumst aftur við himins hlið. Þín frænka, Vigdís. Elsku Andri. Það er erfitt að hugsa til þess að við munum ekki hittast aftur. Við komum til landsins stuttu áð- ur en þú fórst til Spánar en náð- um ekki að hittast. En á þeirri stundu hugsaði ég: Jæja, við sjáumst þá bara næst þegar við komum. En svo verður ekki. Furðulegt hvernig lífið breytist á örfáum dögum og allt fer á hvolf. Hvernig má það vera að 18 ára gamall drengur er tekinn frá fjöl- skyldu sinni á þennan hátt? Við því eru fá svör. En ég og við hin huggum okkur við það að amma hafi tekið á móti þér og að þið vakið yfir okkur hinum saman. Skilaðu kveðju til hennar frá mér. Við söknum ykkar. Til þín ég hugsa, staldra við. Sendi ljós og kveðju hlýja. Bjartar minningarnar lifa ævina á enda. (Hulda Ólafsdóttir) Kristel, Hörður, Lilja og Unnur. Andri Freyr. Yndislegur drengur, fallegur og bjartur. Mér er svo minnisstætt þegar hann og vinur hans keyrðu Nínu heim eft- ir vinnuna sína í Krónunni. Þau komu með pizzu með sér, því þau missa alltaf af kvöldmatnum þeg- ar þau eru að vinna. Það var svo gaman að fylgjast með þeim tala saman, um alla heima og geima og framtíðarplönin, ég hugsaði hvað þau voru heilbrigðar og góð- ar manneskjur, hvað Nína væri í góðum höndum með svona góð- um vinum og fann fyrir gríðar- legu öryggi með dóttur mína í þessum frábæra félagsskap. Ólíkt mörgum unglingum fóru þau ekki inn í herbergi, heldur settust inn í eldhús og þegar ég var eitthvað að þvælast fram og til baka og fylgjast með þeim, þá bauð Andri mér að setjast hjá þeim og fá pizzu líka. Þó ég væri nú ekki hrifin af þykkri Dominos- pizzu, þá fannst mér þetta svo fal- lega boðið að ég settist hjá þeim og það var svo gaman, allveg ynd- isleg kvöldstund. Nínu langaði stundum að hætta í vinnunni, en tímdi því ekki vegna þess að það var svo gott að vinna með Andra, ég verð honum ævinlega svo þakklát fyrir hve góður hann var við hana. Ég átti í erfiðleikum með að vekja Nínu á miðviku- dagsmorgun, en loksins þegar hún kom fram sagði hún mér að hún hefði ekki getað sofið vegna þess að hún hefði fengið hræði- legar fréttir kvöldinu áður og vin- ur hennar hefði látist í slysi. Þeg- ar hún sagði mér hver það hefði verið, fékk ég sting í magann og sorgin helltist yfir mig, ég er enn sorgmædd og er að reyna að skilja hvers vegna, þetta situr svona mikið í mér, þó ég þekkti hann ekki mikið. Nína talaði svo mikið um hann og ég vissi hvað hann var góður við hana, svo þótti mér svo vænt um hvað hann stóð með henni, þegar hún átti erfitt, svo hafði hann einfaldlega heillað mig upp úr skónum með litlu pizzuveislunni. Nína spurði mig grátandi: af hverju hann? Hann var svo góður. Ég sagði henni að ég hefði oft tekið eftir því að þeg- ar einhver er tekinn frá okkur í blóma lífsins, þá er það svo oft þessi einstaki sem við hefðum síst viljað missa. Ég sagði henni að ég héldi að hann væri nú að komast yfir í annað líf, þar sem allt þetta góða fólk fer og þar sem hann er sé eftirsóknarvert að vera. Ég sé fyrir mér að ástin sé þar að bíða hans og allt þetta yndislega fólk sem þar lifir hafi verið orðið óþol- inmótt að fá hann yfir, einmitt vegna þess að hann var svo ynd- islegur. Við munum alltaf minn- ast hans með hlýju í hjarta. Ég vil gjarnan lítið ljóð láta af hendi rakna. Eftir kynni afargóð ég alltaf mun þín sakna. (Guðrún V. Gísladóttir) Nína Lee Dagbjartardóttir og Dagbjört Snæbjörnsdóttir. 7. júlí síðastliðinn gleymist seint. Hulda hringdi í okkur þar sem við vorum á Ítalíu. Við heyrðum strax að eitthvað alvar- legt hafði gerst. Við vonuðum svo innilega að við hefðum rangt fyrir okkur. En því miður gerðum við það ekki. Þetta var hræðilegra en við gátum ímyndað okkur. Andri Freyr, sonur Denna og Huldu, hafði fallið úr rússíbana fyrr um daginn og látist. Engin orð fá lýst þeim tilfinningum sem helltust yfir okkur við þessar fréttir. Andri Freyr var einstaklega ljúfur og góður drengur. Aldrei heyrðum við hann halla orði á nokkurn mann. Það var virkilega gaman að koma á kassa í Bónus þegar hann var að vinna. Heilsaði öllum eins og þeir væru gamlir vinir og kvaddi þannig að fólk vissi að það var velkomið aftur. Við urðum þeirrar gæfu aðnjót- andi að fara með fjölskyldunni til Spánar fyrir 7 árum. Aldrei gleymist hvað Andri skemmti sér vel og sérstaklega þegar farið var í skemmtigarðinn og rússíbaninn sem síðan varð honum að bana var að hans mati toppurinn á til- verunni. En lífið er eins og rússí- bani, einn daginn eftir að hafa mjakast upp í tilverunni, er eins og fótunum sé kippt undan manni og maður hrapar að manni finnst endalaust. Góður drengur er fallinn, hans er sárt saknað en þó er sárasta sorgin hjá hans nánustu. Kæru foreldrar, stjúpforeldrar, systk- ini og stjúpsystkini, megi Guð gefa ykkur styrk og huggun. Þau segja þig látinn, þú lifir samt og í ljósinu færð þú að dafna. Því ljósi var úthlutað öllum jafnt og engum bar þar að hafna. Frá litlu hjarta berst lítil rós, því lífið þú þurftir að kveðja. Í sorg og gleði þú senda munt ljós, sem að mun okkur gleðja. (Guðmundur Ingi Guðmundsson) Fjölskyldan Maríubaugi 77. Halldóra, Sigurður, Guðjón og Sara. Elsku hjartans Andri okkar, hjálpsamur, hlýr, glaður og dug- legur eru nokkur af þeim fáu lýs- ingarorðum sem hægt er að nota til þess að lýsa þér. Það er svo margs að minnast um þig, allt frá leikskólatímanum, öllum sund- ferðunum og ekki má gleyma sumóferðunum. Það koma upp svo margar minningar, svo mörg bros, mörg knús og hlátrasköll. Það var svo ótrúlega mikil ró yfir þér þó svo að þú hafir verið svo hress og hnyttinn strákur, alltaf svo þægilegt að vera í kringum þig. Við kvöddum þig með stóru knúsi og kossum og sögðum þér að skemmta þér vel í fríinu og dagana áður en þú kvaddir vitum við að þú skemmtir þér vel. Við erum svo þakklát fyrir að hafa kynnst þér og vitum að heimur- inn varð betri þegar þú komst í heiminn. Takk fyrir að vera alltaf þú og taka öllum eins og þeir eru. Andri ljúfur drengur var alltaf gott að faðma eins og litla ljónið sá ljósið litla fagra. Kæru foreldrar, stjúpforeldr- ar, systkini og aðrir aðstandend- ur, við sendum ykkur okkar inni- legustu samúðarkveðjur. Missir ykkar er mikill og sorgin sár. Megi æðri máttur styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Hrefna Sif og Benjamín Andri. Andri Freyr Sveinsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.