Hrund - 01.04.1967, Blaðsíða 5

Hrund - 01.04.1967, Blaðsíða 5
RITSTJÓRA- RABB HRUND á að vera vettvang- ur allra íslenzkra kvenna. Til þes? að svo megi verða, væntum við að konur láti í Ijós skoðanir sínar, bæði á blaðinu, efni þess og út- liti — og þeim fjölmörgu málum í okkar samfélagi, er varða konuna, heimilið, börnin, eiginmanninn, fjöl- skylduna — það er að segja þjóðina alla. Við þekkjum allar þau augnablik, er okk- ur liggur eitthvað svo á hjarta, að við teljum full- komna ástæðu til að koma því á framfæri, — umkvört- unum, fyrirspurnum, skoð- unum. Nú vitið þið hvert ber að skrifa — kvennablaðinu HRUND, P. 0. Box 268 — Reykjavík. ■ KONUR! Þetta fyrsta eintak af kvennablaðinu HRUND, sem þið nú fáið í hendur, er hvorki eins stórt í sniðum né fjölbreytt og við hefðum kosið. En sú er trú okkar, að með ykkar hjálp og áhuga, geti það orðið gott blað og fjölbreytt og jafnframt öflugur vettvangur allra íslenzkra kvenna, eldri sem yngri, í öllum greinum þjóðfélagsins, hvar sem er á landinu og á hvaða sviði,sem áhugamál þeirra kunna að vera. Þar með er ekki sagt, að blaðinu sé aetlað að beita sér sérstaklega fyrir kvenréttindum. Sú er skoðun okkar, sem að því standa, að konur á Islandi hafi nú orðið I flestum efnum sömu möguleika til mennta og starfa og karlmenn. Flestum — en ekki öllum. En úr því, sem enn er ábótavant, má eflaust bæta með tiltölulega litlu átaki, svo framarlega sem konurnar hafa sjálfar áhuga og nenning í sér til þess. Stefna blaðsins verður heldur ekki að draga taum húsmæðra umfram útivinnandi kvenna, né öfugt, enda teljum við, að þar á milli verði tæpast skilið, svo fjölmargar konur, sem nú orðið sameina þetta tvennt. Islenzkar konur lifa nú mikið breytingatímabil og má segja,að ríki einskonar millibilsástand á hög- um þeirra og aðstöðu. Þær eru ekki lengur bundnar eingöngu við börn og heimili, heldur hafa í æ meiri mæli farið út fyrir ramma heimilisins til mennta og starfa I ýmsum greinum þjóðfélagsins. Þær hafa víðast öðlast jafnrétti á sviði launamála — og réttindi þeirra í þjóðfélagsmálum eru flest hin sömu og karla. Engu að síður eiga þær við margvíslega erfiðleika að etja, sem karlmenn þekkja ekki. Enn standa þær of oft andspænis því að verða að velja afdráttarlaust milli heimilis og útivinnu; milli þess að verða mæður og eignast ekki börn — og of oft reka þær sig á, að réttindi, sem þeim eru ætluð á borði, hafa þær ekki í orði. Að mörgu leyti eru þetta vandamál, sem tíma þarf til að leysa. Þegar við lítum á hinn geysilega mun, sem er á tækifærum og lífsviðhorfi ungrar fermingarstúlku í dag og aldraðrar ömmu hennar, sem við fermingu átti tæpast fyrir höndum annað en basl og búsorgir, sjáum við að átök og öngþveiti eru óhjá- kvæmileg og eðlileg. Þar koma til mismunandi sjónarmið, mismunandi mat á gömlum og gildandi venjum, mismunandi trú á því, hvar lífshamingjunnar sé að leita. Við verðum því að bíða — og reyna að brúa þetta bil, þó það sé stundum erfitt og sætta okkur við milliþilsástandið í þeirri von og vissu, að dætrum okkar reynist róðurinn eitthvað léttari. Þegar vissum áfanga er náð, verða breytingarnar á stöðu kvenna ekki eins örar — og þá má búast við, að þeim og öðrum verði smám saman Ijóst, hvernig bezt verði og haganlegast að því unnið, að konur jafnt sem karlar geti notið lífsins, þeim sjálfum og þjóðfélaginu öllu til heilla. Þar með er ekki sagt, að konur eigi að bíða aðgerðarlausar. Þær ættu þegar að gera það, sem í þeirra valdi stendur til að njóta þeirra mannréttinda, sem þeim hafa þegar verið veitt og beita þeim áhrifum, sem þær þegar hafa til þess að gera þjóðfélagið það sveigjanlegt, að konunni reynist unnt að hlýða í senn kveneðli sínu sem eiginkona og móðir — og einstaklingseðli sínu sem manneskja, með margskonar áhugamál og hæfileika til menntunar og starfa. 5

x

Hrund

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hrund
https://timarit.is/publication/1091

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.