Hrund - 01.04.1967, Blaðsíða 9

Hrund - 01.04.1967, Blaðsíða 9
senda mig til Alexandríu til að njósna fyrir þá, aðallega um flug og flugvelli. — En hvers vegna þig, íslenzka stúlku? — Ja, ég veit það nú eiginlega ekki, — kannski einmitt vegna þess að ég var ís- lenzk, hafði gott vegabréf og málakunnáttu, — hugguleg ung kona, sem var ekki þekkt nafn, hvorki leikkona, söngkona né neitt þess háttar; hafði hvergi getið mér orð, hvorki til góðs né ills, ef svo mætti segja. Þetta sögðu þeir að væri mikils virði fyrir þá. — Og hvernig brástu við þessu? — Ég eyddi málinu til að byrja með og reyndi að fela mig fyrir þeim, — en þeir fundu mig aftur, sátu fyrir mér á ýmsum stöðum og reyndu að telja mig á að vinna fyrir þá. Þeir áttu auðveldan leik — gátu alltaf fundið mig, meðal annars vegna þess, að þeir nutu aðstoðar ítalanna — Ítalía og Þýzkaland voru á þeim dögum eins og bróðir og systir. Þeir buðu mér gull og græna skóga, sögðu, að ég gæti unnið ein eða með öðrum og jafnvel farið hvert sem ég vildi, til að sjá hvernig þeir ynnu. Eftir nokkra daga sá ég, að ég gat ekki færzt undan lengur og sagði þá algjört nei. „Þetta getur maður ekki gert nema fyrir sitt eigið land“. Síðan spurði ég blátt áfram, hvort þeir mundu drepa mig, ég bjóst við því. En þeir sögðu: „Nei, ekki ef þú þegir“. í íslenzkum búningi. Myndin var tekin i boði hjá frú Eleanor Roosevelt árið 1953. f fangabúðum fasista í 3 ár — Og einhvernveginn hafði ég vit á að þegja og allt gekk um tíma sinn vanagang. Ég umgekkst þá meðal annars hátt sett fólk frá mörgum þjóðum og allt virtist vera í lagi, enda þótt ég vissi, að nazistarnir létu alltaf fylgjast með mér. Kannski hefði verið hægt að halda svona áfram, ef ég hefði ekki hagað mér svo óskynsamlega að reyna að losna við þann, sem fylgdi mér eftir. Stund- um tókst mér það, — en svo komu þeir einn morguninn. Ég man, að það var að koma haust — og orðið kalt í veðri. Ég sagði við lögregluþjónana sem komu: „Ég geng ekki með ykkur, ég geng ekki með pólitíum". Og áður en ég vissi af var ég fangi. Mér höfðu aldrei dottið fangabúðir í hug, að- eins dauðinn. En nú sat ég þarna — í þrjú ár og einn mánuð. Kuldinn var verri en veggjalýsnar, mýs og rottur — Hvernig það var? Hræðilegt — þó verst fyrsta árið. Við vorum í litlu þorpi, hátt uppi í íjöllum. Þetta var kvennafang- elsi, gluggalaus smáhús og á nóttunni háð- um við baráttu við veggjalýsnar. Ég varð öll stokkbólgin. Við reyndum meðal ann- ars að brenna járnrúmin, þær virtust lifa í þeim. Einhvernveginn komumst við samt yfir þetta — og líka mýs og rottur, að mestu leyti að minnsta kosti. Verri var kuldinn. Ég man ég fékk bréf gegnum Rauða kross- inn frá systur minni, þar sem hún sagðist hugga sig við að vita, að ég væri í sólarlandi. En kuldinn var slíkur þarna, á veturna, að úlfarnir hímdu fyrir utan húsveggina hjá okkur og ýlfruðu. — Þannig leið tíminn. Maður gerir sér ekki gjörla grein fyrir tímanum í fangelsi. Se volete crepare, crepate ... Um veturinn var ég óskaplega veik, ég held að enginn hafi búizt við, að ég lifði af þau veikindi, en með vorinu skreið ég sam- an og þá bað ég um að fá að sjá lækni. Svarið var: „Þú ert fangi — ef þú vilt drep- ast þá drepstu“. Ég get tæpast náð tóninum nema á ítölsku, — ,,Se volete crepare, cre- pate“ verstu orð, sem notuð eru um óað- laðandi dýr. — Svo fór maður að venjast þessu öllu. Stundum er eins og ég sjái alls ekki eftir að hafa verið þarna. En ég hef oft fundið, að fólki finnst ég dálítið skrítin. — Það er nú svo, held ég, að manneskja, sem verið hefur Á íslandi 1967 lengi fangin, verður aldrei alveg eins og annað fólk. Mér hefur til dæmis alltaf síð- an fundizt ég hafa svo mikla þörf fyrir að vera ein . . . Það var eins og Kristín hefði horfið burt úr stofunni um stund. Augu hennar urðu fjarræn og við sátum þegjandi. Mér var orða fátt eftir þessa frásögn og veittist erfitt að slíta hugann burt frá þeirri mynd, er hún hafði dregið upp. Skyndilega leit Kristín upp, hristi höfuð- ið snöggt og sagði glaðlega: „En hvað er ég að tala um þetta, sem er löngu liðið. Ég hef sagt miklu meira en ég ætlaði — og nú skul- um við taka upp léttara hjal............ m.bj. 9

x

Hrund

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hrund
https://timarit.is/publication/1091

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.