Fréttatíminn - 13.03.2015, Blaðsíða 34
Val milli tveggja kosta
É
Ég er orðinn svakalega leiður á því að
skafa bíla að morgni dags. Það snjóar
nánast upp á hvern dag og hefur gert að
minnsta kosti frá því í nóvember – og
kannski lengur – ég man það ekki svo
gjörla. Snjókomunni fylgir rok og gjarnan
frost í kjölfarið svo erfitt er að eiga við
bílrúðurnar. Þá fáu daga sem ekki snjóar
er grenjandi rigning – og rok í kaupbæti.
Tíðin hefur sem sagt verið hundleiðinleg
og alls ekki lík því sem hún á vanda til að
vetri á Stór-Kópavogssvæðinu. Vetrarveð-
ur á því svæði hefur verið heldur bærilegt
– eiginlega ekkert veður og helsta spurn-
ingin hvort ekki megi örugglega vænta
rauðra jóla. Skikkanlegt vetrarveður af því
tagi hefur gert það að verkum að menn
hafa þraukað og jafnvel sætt sig við heldur
tíðindalítil sumur hvað sólfar snertir. Yfir-
standandi vetur fylgir hins vegar í kjölfar
tveggja rigningarsumra í Kópavogi og ná-
grenni og þegar kominn er mars og ekkert
lát á djöfulskapnum fer að verða kominn
tími til að gera eitthvað í málinu.
Við hjónakornin leyfum okkur þann
munað að vera á sitt hvorum bílnum, hvað
sem líður ráðleggingum yfirvalda í stóra
nágrannasveitarfélaginu í norðri um að
nota strætó eða hjóla. Bæjarstjórnin í
Kópavogi er ekkert að djöflast í íbúunum
þótt þeir brúki einkabíl undir rassinn á
sér. Þessi munaður þýðir hins vegar að
skafa þarf af tveimur bílum alla þessa
snjó- og frostmorgna. Það er kalsamt verk
en þar sem ég er góður eiginmaður skef
ég af báðum vögnunum. Sennilega þætti
mörgum sjómanninum, sem berja hefur
þurft klaka af rá og reiða á skipi, þetta
heldur löðurmannlegt verk. Þótt sá sam-
anburður sé mér í óhag verður svo að vera.
Eilíft klakakrafs af rúðum er leiðigjarnt,
þótt ég noti öll tiltæk ráð til að sleppa sem
billegast.
Ef um blautan snjó er að ræða nota
ég heimiliskústinn og sópa snjónum af.
Kústurinn er fullvaxinn, þolir átök og með
honum er auðvelt að róta burt snjónum.
Því miður hefur ástandið sjaldnast verið
þannig í vetur. Oftar frýs klakinn á bílrúð-
unum og síðan snjóar ofan á þær. Þá þarf
fyrst að beita kústinum og síðan sköfunni.
Frosið vatn getur verið ótrúlega fast á
bílrúðum, jafnvel svo að verulega reynir
á króklopna fingur – svo ekki sé minnst á
jafnaðargeð þess sem á sköfunni djöflast.
Einhver gæti bent á það smáatriði að
bílskúr fylgir húsinu okkar og því væri
hægt að hafa bíl þar, heitan og tilbúinn
í hvað sem er á hverjum morgni. Það er
hins vegar tilgangslaust að nefna þetta
því skúrinn okkar er fullur af góssi, flestu
að vísu ómerkilegu, en það er þar samt.
Þess vegna kemst bíll ekki fyrir. Það var
draumur minn þegar við byggðum húsið
að koma bíl fyrir í skúrnum en sá draumur
hefur ekki ræst. Við vorum líka með bíl-
skúr þar sem við bjuggum áður en það fór
heldur aldrei neinn bíll þangað. Þá gat ég
kennt því um að skúrinn væri fullur af dóti
frá afkvæmum okkar en það dugar ekki í
dag. Við erum tvö eftir í kotinu og draslið
í skúrnum er okkar. Þar ægir öllu saman.
Sennilega mætti setja á laggirnar nýtt
heimili ef farið yrði í allar hillurnar. Þar
eru aflagðir skrautmunir, sem vafalaust
þóttu nauðsyn á sinni tíð, lampar, gard-
ínur, aflóga prentarar, rykfallin golfsett,
reiðhjól sem aldrei eru notuð, ferðatöskur
í röðum, ýmist brúkhæfar eða notaðar
undir gömul föt eða garn sem ekki varð
að sokkum, barnateikningar og leikföng
fyrri ára. Ótaldar eru þá allar bækurnar.
Þær komast ekki einu sinni fyrir í hillum
og bíða því örlaga sinna í kössum. Loks
eru í bílskúrnum tól sem eiga að vera þar,
dekk og verkfæri. Vandinn er sá að dótið
í skúrnum er svo mikið að ég finn hvorki
skrúfjárn né borvél þegar ég þarf að grípa
til slíkra nauðsynja þótt apparötin geti
dúkkað upp ef ég er að leita að einhverju
allt öðru.
Það er því með nokkurri öfund sem ég
horfi á nágrannakonu okkar taka bíl-
inn sinn út úr heitum bílskúr á hverjum
morgni – en um það þýðir ekki að fást.
Vegna góssins í bílskúrnum neyðist ég til
þess að fara út í garrann á hverjum morgni
og skafa. Þótt minn betri helmingur njóti
þess að fara út í skafinn bílinn er ekki þar
með sagt að hún sleppi undan veðrinu
frekar en hver annar. Það snjóar nefnilega
og frystir jafnt að nóttu sem degi. Þess
vegna þarf frúin að skafa bílinn fyrir heim-
ferð í vinnulok – eða ef hún þarf að erinda
yfir daginn. Hún er því orðin feiknaleið
á veðurfarinu, ekki síður en eiginmaður-
inn. Raunar er hún meira fyrir hlýindi og
sól en bóndinn enda dekkri á hörund og
hár en sú hánorræna skepna sem hún er
gift. Hún hefur því þróað með sér tiltölu-
lega einfaldar tillögur þegar á stendur
með veðurfar eins og nú. Hún vill burt, að
minnsta kosti tímabundið, í þeirri von að
ástandið verði aðeins skárra þegar hún
kemur til baka.
Mars ku vera vetrarmánuður á Íslandi,
að því er veðurfræðingar segja, þótt vorið
sé farið að láta á sér kræla á suðlægari
slóðum. Apríl er síðan eins og hann er,
þótt sumardagurinn fyrsti sé síðla í þeim
mánuði. Miðað við tíðina það sem af er
vetri – og langa reynslu af því sem fram
undan er hefur konan því sett mér tvo
kosti sem hljóða einfaldlega svona:
Þú ræður hvort þú kemur með mér til
Tenerife – eða Tenerife – og hananú!“
Jónas
Haraldsson
jonas@
frettatiminn.is
HELGARPISTILL
Te
ik
ni
ng
/H
ar
i
Hátúni 6a, 105 rvk | 552 4420
fonix@fonix.is | www.fonix.is
34 viðhorf Helgin 13.-15. mars 2015