Læknablaðið - 01.04.2014, Side 20
220 LÆKNAblaðið 2014/100
beitt kröftugra sogi, en minni undirþrýstingi frá 70 til 100 mmHg
þegar meðferðinni er beitt við opið kviðarhol.19
Umbúðir og sárasugur
Aðallega er notast við tvær tegundir sáraumbúða; svampa eða
grisjur. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á sambærilegan árangur
þessara umbúða, óháð stærð sársins.20-22 Grisjur mynda þó þéttari
örvef en svampar.23 Svamparnir eru úr pólýúretani með 400-600
µm stórum götum sem jafna undirþrýstinginn í sárinu. Grisjurnar
eru hins vegar gerðar úr léttofnum trefjum sem svipar til hefð-
bundinna sáragrisja. Auðvelt er að sníða svampinn til í sárið með
skærum, í einu eða fleiri lögum, en grisjur eru vættar í saltvatni og
lagðar í nokkrum lögum í sárið. Plastfilma er síðan límd yfir sárið
og hún látin ná út á húðbarmana þannig að sárið sé loftþétt. Síðan
er slanga, sem tengd er sárasugu, fest við umbúðirnar í gegnum
1-2 cm gat á filmunni. Vökvanum úr sárinu er safnað í sérstakt hólf
á sárasugunni sem hægt er að skipta um sérstaklega.
Í dag eru í boði sárasugur af mismunandi stærðum (mynd 2).
Stærri tækin eru ætluð sjúklingum á sjúkradeildum með stór og
vessandi sár, en minni tækin fyrir sár sem hægt er að meðhöndla
á göngudeild eða í heimahjúkrun. Nýlega kom á markað tæki sem
rúmast í buxnavasa. Á því er ekkert safnhólf heldur safnast sára-
vessi í umbúðir sem hafðar eru í sárinu í allt að viku. Þessi litlu
tæki geta nýst við minni og grynnri sár en einnig til að styðja við
húðágræði.24
Yfirleitt er skipt á umbúðum annan til þriðja hvern dag en
þegar hraður gróandi er í sárum getur vefur fest í umbúðunum
og er þá skipt oftar um umbúðir.25 Stundum eru umbúðir hafðar
lengur, eða í allt að 5 daga eins og við bringubeinssýkingar eftir
opnar hjartaskurðaðgerðir.26
Hvort sem notast er við svamp eða grisjur er oftast beitt stöðugu
sogi. Þó er hægt að stilla tækin þannig að þau sogi í 5 mínútur með
tveggja mínútna hvíld á milli. Ósamfellt sog getur flýtt sárgræðslu
en verkir eru meiri og það hentar síður við sár sem mikið vessar
úr.25,27
Ábendingar og árangur sárasogsmeðferðar
Árangur sárasogsmeðferðar hefur verið rannsakaður við flestar
tegundir sára. Algengustu ábendingar eru langvinn sár og sýkt
skurðsár en meðferðinni er einnig oft beitt við opið kviðarhol og
undirbúning húðágræðslu.4-12
Sýkt skurðsár
Við grunnar skurðsýkingar nægir yfirleitt meðferð með sýkla-
lyfjum, auk þess sem yfirborð sársins er stundum opnað. Við
dýpri sýkingar, sérstaklega þegar gröftur og drep eru til staðar, er
sárið opnað frekar og það látið gróa frá botni (secondary healing). Ef
holrýmið er stórt og vessamyndun mikil, er hefðbundið að beita
meðferð með saltvatnsgrisjum sem skipt er um nokkrum sinnum
á sólarhring. Í slíkum tilvikum kemur sárasogsmeðferð einnig
til greina, en hún getur flýtt fyrir gróanda sársins og auðveldað
síðbúna lokun á því (delayed primary closure).3,28 Ótvíræður kostur
sárasogsmeðferðar er að ekki þarf að skipta á sárinu oft á dag og
er jafnvel hægt að stýra meðferðinni á göngudeild eða í heima-
hjúkrun.29
Bringubeinssýkingar
Skurðsýkingar eru algengt vandamál eftir opnar hjartaaðgerðir
(mynd 3). Oftast er um yfirborðssýkingar að ræða, annaðhvort
á ganglim þar sem bláæð er tekin fyrir kransæðahjáveitu,
eða í bringubeinsskurði.30,31 Tíðni yfirborðssýkinga í þessum
skurðsárum er í kringum 10% hér á landi, sem er svipað og í
framskyggnum rannsóknum erlendis.30,32,33 Í 1-5% tilfella ná sýk-
ingar í bringubeinsskurði dýpra og geta þá valdið lífshættulegri
miðmætisbólgu (mediastinitis). Jafnframt eru lífsgæði sjúklinga
sem lifa sýkinguna af oft verulega skert.34-36
Fyrir tilkomu sárasogsmeðferðar var dánartíðni eftir djúpar
bringubeinssýkingar allt að 43%.10 Hér á landi var þetta hlutfall
lægra, eða 4 af 41 sjúklingi (10%) sem meðhöndlaðir voru á tíma-
bilinu 1997-2004.34,37 Frá 2005 hafa allar þessar sýkingar verið
meðhöndlaðar með sárasogsmeðferð og hefur enginn af rúmlega
20 sjúklingum sem greinst hafa síðan látist úr slíkri sýkingu.37
Erlendis hefur einnig verið lýst mjög góðum árangri og dánartíðni
eftir sárasogsmeðferð er oftast undir 1%, þótt hærra hlutfalli hafi
verið lýst.38 Íslensku rannsóknirnar hafa ekki aðeins bent til lægri
dánartíðni eftir sárasogsmeðferð heldur hefur endurkomutíðni
djúpra sýkinga lækkað marktækt, eða úr 35% í 5% (p=0,02).37 Áhrif
á lengd legutíma eru hins vegar eru ekki jafn skýr og niðurstöður
rannsókna misvísandi.38
Sárasogsmeðferð hefur einnig verið beitt við langvinnar sýk-
ingar eins og sýkta fistla í bringubeini en þær krefjast oft tíðra
endurinnlagna og langvarandi meðferðar með sýklalyfjum. Lang-
vinnar sýkingar í bringubeinsskurði eru þó mun sjaldgæfari en
bráðar sýkingar sem greinast oftast á fyrsta mánuði eftir aðgerð.39,40
Mynd 2. Þrjár mismunandi tegundir sárasugu: - fyrir stór sár, til dæmis þau sem mikið vessar úr, - fyrir minni sár,
til dæmis þau sem hægt er að meðhöndla á göngudeild eða heima hjá sjúklingi, - fyrir grunn sár, hægt er að koma
tækinu fyrir í buxnavasa.
Y F I R L I T