Læknablaðið - 01.06.2015, Page 21
LÆKNAblaðið 2015/101 309
Y F i R l i T S G R E i n
um skurðsjúklingum sem sýna fram á tengsl verkja og óráðs eftir
aðgerð er ekki ólíklegt að verkir hafi sambærileg áhrif á hjarta-
skurðsjúklinga. Afturskyggn lýsandi rannsókn á 100 inniliggjandi
sjúklingum með óráð leiddi í ljós að hjá þeim sem voru útsettir
fyrir óráði við innlögn voru ómeðhöndlaðir verkir líklegri til að
ýta undir óráð heldur en aðrir áhættuþættir.8 Varhugavert er því
að forðast með öllu sterk verkjalyf fyrir einstaklinga í óráði eða í
hættu á óráði, heldur er beinlínis mikilvægt að veitt sé áhrifarík
verkjameðferð.
Óráð eftir opna hjartaaðgerð getur haft ýmsar afleiðingar í för
með sér, svo sem hærri dánartíðni, lengri gjörgæsludvöl, lengri
sjúkrahúsdvöl og auknar líkur á útskrift á annað sjúkrahús, öldr-
unarstofnun eða endurhæfingardeild. Geta til að sinna daglegum
athöfnum reyndist frekar skert hjá þeim sem fengu óráð. Aukin
tíðni fylgikvilla á borð við sýkingar voru jafnframt algengari meðal
þeirra sem fengu óráð. Aðrar rannsóknir á hjartaskurðsjúklingum
hafa einnig sýnt fram á aukna sýkingarhættu hjá þeim sem fá óráð
eftir hjartaaðgerð, meðal annars sýkingu í bringuskurði og aukna
hættu á sýklasótt.57,63,64
Forvarnir gegn óráði beinast að því að draga úr þekktum
áhættuþáttum, en marga þeirra er hægt að hafa áhrif á, svo sem
að koma almennu líkamlegu ástandi í betra horf. Á þann hátt má
fækka óráðstilfellum, draga úr einkennum og stytta tímann sem
ástandið varir. Ráðgjöf öldrunar- eða óráðsteymis myndi jafnframt
falla undir forvarnir65 en óráðsteymi hafa gagnast vel þar sem þau
hafa verið starfrækt og reynst góð til að draga úr kostnaði og stytta
legutíma.12
Mikilvægt er að greina þá sem eru í aukinni hættu á að fá óráð
eftir skurðaðgerð og gagnlegt væri að hafa einhvers konar áhættu-
mat í höndum, sambærilegt við það sem hefur verið þróað til að
meta hættu á óráði hjá hjartaskurðsjúklingum.52,60 Slíkt áhættu-
mat hefur einnig verið þróað fyrir aðra hópa skurðsjúklinga, svo
sem þá sem fara í mjaðmaaðgerð.19 Hollendingar hafa rannsakað
áhættuþætti óráðs hjá hjartaskurðsjúklingum í yfir áratug og hafa
greint fjölda áhættuþátta hjá þessum sjúklingahópi.34 Þá þekkingu
má nota til að hanna gátlista sem metur hættu á óráði. Með því að
greina þá sem eru í áhættu væri hægt að hafa sérstakar gætur á
þeim hópi og veita markvissa fyrirbyggjandi meðferð. Þarna gætu
komið inn þættir eins og að skima markvisst fyrir vitrænni skerð-
ingu hjá sjúklingum sem leggjast inn til aðgerða. Það hefur sýnt
sig að reglubundin skimun fyrir óráðseinkennum hjá sjúklingum
í áhættuhóp eykur líkur á því að vandamálið greinist snemma og
flýtir þar af leiðandi fyrir viðeigandi íhlutun en forvörn er einkum
mikilvæg fyrir það að lyfjameðferð við óráði sem þegar er fram
komið er ekki árangursrík.16
Nokkrar meðferðir hafa verið þróaðar með það markmið að
draga úr óráðstilfellum. Meðal þeirra er HELP-forvarnarmeðferðin
(Hospital elder life program)66 en sýnt hefur verið fram á góðan
árangur af henni. HELP miðar meðal annars að hreyfingu fljótt
eftir aðgerð, eflingu hugarstarfs og góðri næringu.66 HELP hefur
verið prófuð á litlu úrtaki hjartaskurðsjúklinga (n=32) þar sem
niðurstöður sýndu fram á fækkun áhættuþátta óráðs hjá þeim sem
fengu þá meðferð.67 Aðrar sambærilegar forvarnarmeðferðir hafa
verið þróaðar og prófaðar65 meðal annars ráðgjöf frá öldrunar-
hjúkrunarfræðingi og öldrunarlækni þar sem áhersla var meðal
annars á að efla hugarstarf, bæta skynjun, auka áttun og hreyfingu,
veita eftirlit með vökva- og næringarinntekt og aðstoða við að leysa
verkja- og svefnvandamál. Nýverið voru gefnar út Klínískar leið-
beiningar um greiningu, forvarnir og meðferð við óráði á Land-
spítala32 en þær byggja á leiðbeiningum NICE (National Institute
of Clinical Excellence). Þar er áhersla lögð á að greina áhættuþætti
fyrir óráði innan sólarhrings frá innlögn, skima eftir einkennum
óráðs hjá þeim sem teljast í áhættuhóp og veita þeim fjölþætta
fyrirbyggjandi meðferð.32
Samantekt
Óráð er algengt en jafnframt alvarlegt vandamál sem getur komið
upp eftir opnar hjartaaðgerðir. Meðal áhættuþátta eru hár aldur,
vitræn skerðing, bráðaaðgerð, lágt útfall hjarta, lengri tími á hjarta-
og lungnavél, gáttatif og sýkingar. Afleiðingar óráðs eru fjölmargar
og geta verið varanlegar. Óráð er hægt að fyrirbyggja að einhverju
leyti með því að sporna við þekktum áhættuþáttum. Það er því
mikilvægt að þekkja þá og greina snemma svo hægt sé að veita
fyrirbyggjandi meðferð.