Læknablaðið - 01.10.2014, Side 38
534 LÆKNAblaðið 2014/100
hjá Krabbameinsfélaginu og Baldur F. Sigfússon sérfræðingur í
geislalækningum ráðinn yfirlæknir hennar.
Félagið hóf skipulega leit að brjóstakrabbameini í nóvember
1987. Í markhópnum voru allar íslenskar konur á aldrinum 40-69
ára og tók hver leitarumferð um landið tvö ár. Því náði leitin til
allrar þjóðarinnar árið 1989 og varð þar með fyrsta skipulagða
brjóstakrabbameinsleitin í heiminum til að ná til heillar þjóðar.
Frá upphafi var leitin að mestu kostuð af fjárlögum ríkisins, en
Krabbameinsfélagið hefur annast framkvæmdina í samvinnu við
lækna á Landspítalanum og víðar. Íslensk-bresk rannsókn bendir
til þess að leitin hafi lækkað dánartíðni um 35-40% hjá þeim kon-
um sem hafa mætt.30
Síðustu ár hefur borið mikið á alþjóðlegri umræðu um að
óþarfagreiningar (ofgreiningar) séu fylgifiskar brjóstakrabba-
meinsleitar, það er að leitin finni hægt vaxandi eða „sofandi“
brjóstakrabbamein sem hefðu aldrei valdið skaða og því fari hópur
kvenna í meðferð að óþörfu. Umfang þessara óþarfagreininga er
enn nokkuð óljóst og umdeilt, en allt bendir til þess að það sé mun
minna en umfang óþarfagreininga sem tengjast leit að blöðruháls-
kirtilskrabbameini.31
Blettaskoðun og fræðsluátak gegn ljósabekkjum
Félag íslenskra húðsjúkdómalækna og Krabbameinsfélagið buðu
um árabil ókeypis blettaskoðun einn dag í byrjun sumars. Þessi
ókeypis þjónusta hófst árið 1991 og tilgangurinn var að greina
tímanlega varhugaverðar breytingar á húð, einkum sortuæxli.
Árið 2004 hófu sömu aðilar fræðsluátakið „Hættan er ljós“ þar
sem varað var við ljósanotkun fermingarbarna, en til viðbótar
stóðu að átakinu Geislavarnir ríkisins, Landlæknisembættið og
Lýðheilsustöð. Í kjölfarið dró verulega úr notkun ljósabekkja og
um áramótin 2010-2011 tóku gildi lög um 18 ára aldurstakmark á
notkun ljósabekkja, sem var eitt af baráttumálum átakshópsins.
Aðildarfélög og Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins
Frá upphafi hefur Krabbameinsfélagið unnið að stuðningi við
krabbameinsgreinda einstaklinga og aðstandendur þeirra og þar
hafa svæðafélög um allt land unnið öflugt starf ásamt stuðnings-
hópum félagsins. Á árunum 1968-1971 voru stofnuð fjölmörg
svæðafélög í kjölfar kynningar á leghálskrabbameinsleitinni og
var framlag félaganna einkar mikilvægt í því að koma leitarstarf-
inu á laggirnar utan Reykjavíkur. Nú eru svæðafélögin orðin 22
talsins og stuðningshóparnir 11: Framför, Frískir menn (virkt eftir-
lit), Góðir hálsar, Kraftur, Lungnahópurinn, Ný rödd, Ristilfélagið,
Samhjálp kvenna, Stómasamtök Íslands, Stuðningshópur kvenna
með eggjastokkakrabbamein og Styrkur. Þjónustumiðstöðvar eru
á Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Reyðarfirði, Selfossi
og Suðurnesjum. Félagið á með öðrum félagasamtökum átta íbúðir
fyrir sjúklinga og aðstandendur. Aðildarfélögin vinna mikilvægt
grasrótarstarf, meðal annars varðandi stuðning við sjúklinga,
fræðslu og fjáröflun.
Krabbameinsráðgjöf starfaði hjá félaginu árin 1995-2007 og var
markmið hennar að auðvelda almenningi aðgang að upplýsingum
og ráðgjöf varðandi krabbamein, ásamt því að veita tilfinninga-
legan stuðning. Ráðgjöfin fór fram í síma og með tölvupósti.
Árið 2007 var stofnuð sérstök Ráðgjafarþjónusta fyrir þá sem
greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Guðrún
Agnarsdóttir þáverandi forstjóri félagsins var aðalhvatamaðurinn
að þessari auknu þjónustu sem er til húsa á fyrstu hæð í Skógar-
hlíð 8. Fólk getur sótt þangað aðstoð við að ná jafnvægi í lífinu
eftir greiningu krabbameins með viðtölum, ráðgjöf og sálfélags-
legum stuðningi, auk þess að reglulega eru haldnar örráðstefnur
um ýmis málefni, svo sem forvarnir og félagsleg réttindi. Fjölmörg
námskeið eru í boði, til dæmis í núvitund, jóga, qi-gong og sjálfs-
eflingu. Einnig er boðið upp á þjónustu við ekkjur, ekkla og aðra
sem misst hafa náinn aðstandanda úr krabbameini. Árið 2014 var
tekin upp sú nýjung að halda námskeið fyrir lækna og hjúkrunar-
fræðinga sem sinna krabbameinssjúklingum, þar á meðal nám-
skeið í samtalstækni. Námskeiðin eru vel sótt og mikil ánægja
með þau. Loks vinnur Ráðgjafarþjónustan að hagsmunamálum
sjúklinga í samstarfi við stuðningshópana, til dæmis varðandi
endurhæfingu krabbameinssjúklinga og aukna kostnaðarhlut-
deild þeirra í greiningu og meðferð, en hún er mikið áhyggjuefni.
Afl félagsins
Starfsemin hefur alla tíð byggst á óeigingjörnu starfi, bæði for-
svarsmanna og starfsmanna félagsins og ekki síður frábæru, kraft-
miklu framlagi ótal einstaklinga í aðildarfélögum sem margir hafa
gefið áratugi af lífi sínu til málefnisins. Hin líftaug félagsins eru
gjafir og fjárstuðningur frá almenningi og fyrirtækjum sem sýnt
hafa velvild árum og áratugum saman.
Meðal fjáröflunarleiða eru útgáfa minningarkorta sem hófst
árið 1952, merkjasala frá 1953 og happdrætti frá því árið 1955. Árin
1958-1970 fékk Krabbameinsfélagið eina krónu af hverju heilla-
skeyti Landssíma Íslands. Árin 1963-1980 fékk félagið 25 aura af
hverjum seldum sígarettupakka. Frá árinu 1980 var félaginu veitt-
ur ríkisstyrkur eyrnamerktur leitarstarfinu. Átakið Bleika slaufan
er bæði fræðslu- og fjáröflunarátak og frá og með árinu 2000 hefur
félagið helgað októbermánuð þessu átaki. Mottumars hóf göngu
sína árið 2008 og hefur svipaðan tilgang, en beinist að körlum í
stað kvenna. Velunnarakerfi Krabbameinsfélagsins er einkar
mikilvæg fjáröflunarleið, en velunnarar eru fólk á öllum aldri sem
leggur félaginu lið með mánaðarlegri greiðslu.
Guðrún Agnarsdóttir þáverandi forstjóri Krabbameinsfélagsins setur bleiku slaufuna
í barm Jóhönnu Sigurðardóttur þáverandi forsætisráðherra í árveknisátakinu í október
2006. Hönnuður slaufunnar, Sif Jakobs, stendur til hliðar. Mynd Ómar Óskarsson.
S a G a l æ k n i S F R æ ð i n n a R