Tímarit Máls og menningar - 01.05.1942, Síða 75
Þórbergur Þórðarson: ^
Stríðsfréttir útvarpsins.
Ég er einn í tölu hinna mörgu, er ekki vita betur
en að styrjöld sú, sem nú geisar á sléttum Rússlands,
sé stórbrotnasti hildarleikur, er háður hefur verið, síð-
an mannkyn tók að byggja þessa jörð.
Ég er ennfremur í flokk þeirra — og hann er einn-
ig fjölmennur — sem líta svo á, að á úrslitum þessara
ægilegu blóðfórna velti það, hvort mannkynið nýtur í
framtíðinni frelsis og blómgunar eða hneppist undir
ok áþjánar og andlegs niðurdreps, sem ekki verður lýst
með orðum.
Allt þetta fólk telur sig þessvegna nokkru máli skipta,
hvernig útvarp ríkisins segir frá þessum lieimssögu-
legu atburðum. Og þar kem ég að því, að við, sem þenn-
an skilning höfum á styrjöldinni milli Sovétlýðveld-
anna og nazismans, erum mjög óánægð með hinn rúss-
neska skerf af stríðsfréttum útvarpsins.
Vikuna 3. til 9. marz í vetur taldi ég mínútu- og sek-
úndu-fjöldann, sem útvarpið í Reykjavík skammtaði
þá hverjum styrjaldaraðila til fréttaflutnings. Ég
skipti aðilunum í þrjá flokka. í fyrsta flokki taldi
ég brezka heimsveldið og' Bandaríki Norður-Ameriku,
það er að skilja þær stríðsfréttir, sem greindu frá af-
rekum þessara aðila í styrjöldinni, ástandinu i her-
numdu löndunum og Þýzkalandi og þvíumlíkt. I öðrum
flokki taldi ég rússnesku fréttirnar og í þriðja flokki
fréttir Þjóðverja. Taflan hér á eftir sýnir niðurstöður
mínar. Tölurnar i landadálkunum tákna mínútu- og sek-
úndu-fjöldann, sem útvarpsþulurinn varði til að lesa
hvern flokk um sig.