Tímarit Máls og menningar - 01.05.1951, Page 40
158
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
hennar á herðatré. Hún fann til ógleði þegar þau gengu inn teppa-
lagðan ganginn. Þau gengu gegnum tvær stórar stofur búnar dýrindis
húsgögnum, hann á undan, hún á eftir. Þriðja stofan var minnst, það
sást úr henni inn í hinar stofurnar gegnum slípaðar vængjahurðir,
sem aðgreindu þær. 011 voru herbergin upplýst af vegglömpum, sem
gáfu frá sér daufa birtu.
Skóbljóð þeirra hvarf í þykkum gólfteppum, hitinn var kæfandi og
ekkert hljóð rauf þögnina nema tifið í Borgundarhólmsklukku, sem
stóð við einn vegginn. Ekkert orð hafði farið á milli þeirra meðan þau
gengu gegnum herbergin. Hún gekk líkt og í draumi, vissi vart af sér.
Hún var að brjóta heilann um eitthvað, sem hún varð að muna en
gafst upp við það. Upp við einn vegginn var sóffi, fyrir framan hann
smáborð. Hann leiddi hana til sætis í sóffanum, hún settist og fann um
leið til óendanlegrar þreytu.
Hann bar fram vín og sígarettur, konfekt og vindla. Hann snerist
eins og skopparakringla, opnaði einn skápinn af öðrum og bar fram
vistir. Hann hellti í glösin, settist á stól andspænis henni við borðið,
hyssaði sér í stólnum, kumraði dálítið, bauð henni sígarettu, kveikti
sjálfum sér í vindli, rétti henni annað glasið og skálaði. „Skál, drekktu
telpa mín.“ Hann svolgraði úr glasinu, smjattaði, sleikti út um og dæsti
af ánægju.
Henni sýndist hann tútna út eins og loftbelgur, stækka um allan
helming. Hún þreif glasið sitt og draldc það í botn.
„Sú þykir mér kunna á því lagið, það er til einhvers að gefa svona
kvenfólki vín, þetta líkar mér. Skál telpa mín.“ Hann hló tröllslegum
'hlátri svo undir tók í stofunni.
Hún fann hitann af víninu læsast um sig eins og eld og sogaði
áfergjulega reykinn úr sígarettunni. Hún fann að hann horfði á hana
en varaðist að líta á hann á móti og fór að virða fyrir sér umhverfið,
og allt í einu hvarf allur dofi úr líkama hennar.
Um leið og hún sá allt skrautið, skynjaði allan þennan óhóflega
íburð, alla stólana, allar gólfábreiðurnar, kristalinn, silfrið, allt sem
hann gat keypt hana fyrir, fylltist hún hvítglóandi hatri. Hún fann
hvernig það flæddi um líkama hennar eins og heitur málmstraumur,
fann hvernig blóðið hitnaði og varð svart í æðum hennar og fékk
heiskt bragð í munninn. Hún fann hvernig stofan fylltist af hatri,