Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Side 73
Guðrún Bjartmarsdóttir
Ljúflingar og fleira fólk
Um formgerð, hugmyndafræði og hlutverk íslenskra
huldufólkssagna
í barnæsku minni í norðlenskri sveit var ég svo heppin að þekkja
einhvern síðasta fulltrúa þeirrar munnlegu sagnahefðar sem nú er ekki
lengur til í landinu. f>að var kona á níræðisaldri, karlæg að mestu en
óþrjótandi brunnur sagna og ævintýra sem sum hver munu nú öllum
gleymd. Þau hafði hún m.a. numið af móður sinni sem á stundum hélt
lífinu í börnunum með því að fara á milli bæja og segja sögur. Við
krakkarnir þreyttumst seint á því að sitja kringum rúm gömlu konunn-
ar og súpa í okkur ævintýrin, sum þeirra lærði ég og hélt áfram að segja
systkinum mínum þegar sú gamla var öll. Ekkert þeirra er mér þó jafn
minnisstætt og ein bernskuminning hennar sjálfrar sem ég skal reyna að
rekja hér eins og hún lifir í mínu minni.
Kotið var orðið matarlaust og einhver hátíð í vændum, líklega
páskar. Móðirin hafði lagt í leiðangur niður í sveit að reyna að kaupa
börnum sínum matarbita fyrir sögur, gangandi með sleðakríli í eft-
irdragi til að flyta fenginn heim. Svo brast á stórhríð og það dróst að
hún kæmi aftur. Börnin kúrðu í einu og sama fletinu til að halda á sér
hita og verjast myrkfælninni, kofarnir nánast fenntir í kaf. Loks
heyrðist eitthvert krafs og brölt á þekjunni og skelfingin helltist yfir
þau, enda ísbirnir og draugar ríðandi húsum jafn nálægir börnum þeirra
tíma og helsprengjan nú til dags. Þá var snjónum sópað ofan af
strompinum og rödd móðurinnar kallaði niður til þeirra, hún hafði þá
haft sig heim með hátíðamatinn á sleðanum.
Ekki veit ég hvort þessi saga er nákvæmlega sannleikanum sam-
kvæm, sennilega er hún það ekki, frekar en aðrar sagnir úr munnlegri
geymd. Það skiptir heldur ekki öllu máli, heldur hitt, að hún opnaði
krakkanum mér óvænta og hrikalega sýn inn í það líf sem var fátækra
barna og einstæðrar móður á öldinni sem leið.
Ég trúi að kynni mín af þessari gömlu sagnakonu og veröld hennar
séu ein ástæða þess að ég hef lengi rennt hýru auga til þjóðsagnanna og
319