Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Qupperneq 80
Tímarit Máls og menningar
sem oft voru víst skorin við nögl. Eini möguleiki þeirra til verulegra
breytinga var að giftast upp fyrir sig. Glæsilegur kvenbúningur hefur
því hér eðli töfragripsins í ævintýrunum sem dugað gat eigandanum til
að ná í kóngsdótturina og ríkið.
Yfirnáttúrlegi þátturinn, þ.e. afskipti huldufólksins, þjónar líka þeim
tilgangi að fletta ofan af hinu rétta innræti vondu kvennanna og koma á
svolitlu réttlæti í veröldinni. En þar er stigsmunur á. Hvorki heimasæt-
urnar, mæður né systur góðu stúlknanna ganga svo langt að leggjast
með huldumanninum, einungis húsfreyjurnar. Þar í gæti falist ádeila á
tvöfalt siðgæði húsbændanna sem fylgdust grannt með hegðun vinnu-
fólks síns og voru ósparir á refsingarnar meðan þeir sjálfir leyfðu sér
hitt og þetta. Það eru líka húsfreyjurnar að viðbættri einni vondri
móður sem fá þyngstu refsinguna, kvalafullan dauðdaga. Hér hafa því
kúgaðar og þrautpíndar vinnukonur og barin börn e.t.v. getað fengið
ofurlitla útrás fyrir beiskju sína og hefnigirni í garð kvalara sinna.
Mér finnst einboðið að líta á mismunandi útgáfur sögunnar í ljósi
þessa margfalda hlutverks. Sögumenn eða konur hafa vafalaust gert
mismunandi mikið úr mismunandi atriðum eftir því hvað þeim sjálfum
lá á hjarta og hverjir áheyrendur voru. Þeir hafa svo aftur dregið
lærdóm af henni eða notið hennar hver með sínum hætti.
Amorsleikir í álfheimum
Hér má telja a.m.k. 12 sögur, flestar fremur stuttar og einfaldar að gerð,
byggðar utanum eina prófraun sem alltaf er sama eðlis. Aðalpersónur
eru tveir karlmenn: eldri og yngri, stundum faðir og sonur, eða æðri og
óæðri, langoftast prestur og ráðsmaður hans eða vinnumaður. Sá eldri
eða æðri á vanda til að hverfa að heiman við ýmis tækifæri, einkum á
helgum, enginn veit hvert, en stundum er haldið að hann sé með álfum.
Sá yngri eða óæðri sækir fast að fá að koma með og er að lokum veitt
það með því skilyrði að hann geri í öllu eins og hinn eða allt það sem
krafist verði af honum. Svo er haldið í álfheima, klett eða hól, þar sem
fyrir eru tvær konur, eldri og yngri, oft mæðgur. Þær bjóða upp á
ríkmannlegar veitingar og síðan gengur eldra parið í eina sæng og fer
vel á með þeim. Nýliðanum er ætlað að hvíla hjá þeirri yngri en hann
neitar þverlega, hrindir henni frá sér og slær hana þegar hún leitar á
hann, reynist áhugalaus eða getulaus þegar upp í er komið eða tekst
a.m.k. ekki að gera hana ánægða. Afleiðingin verður mikil reiði beggja
kvenna og oftast álög, hann verður stelsjúkur, versti kvennabósi eða
326