Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Síða 85
Ljúflingar og fleira fólk
ástin og barnið. í sveitinni verður hún að lúta vilja föður síns, hann
velur henni eiginmann, þar er ástlítið hjónaband og barnlaust, a.m.k. er
aldrei minnst á að þau eigi börn.
Ef við skoðum atburðarásina í fyrri hluta sögunnar og þau öfl sem
þar takast á er ljóst að stúlkan er gerandinn eða a.m.k. vill vera það,
takmarkið sem hún keppir að er ást og hamingja, lausn undan
feðravaldinu. Henni til aðstoðar er frjálsræðið í selinu og huldumaður-
inn sem hjálpar henni að leyna hrösun sinni, og hann á einnig að færa
henni hamingjuna. En tilraunir hennar til að ráða lífi sínu sjálf rekast á
sjálfa samfélagsgerðina. Samkvæmt henni er hún aðeins andlag (objekt),
hlutur sem karlmenn ráðskast með, faðir hennar gefur hana öðrum
manni.
Komin í hjónabandið reynir hún þess vegna aðra leið. Hún er ekki
alveg búin að gefast upp, reynir enn að vera gerandinn, en í stað
hamingjunnar er takmarkið nú aðeins þolanlegt líf, einhvers konar sátt
við hlutskiptið fyrst það er nú einu sinni óhjákvæmilegt. Sér til hjálpar
grípur hún nú til bælingarinnar, reynir að tryggja að hún þurfi aldrei að
sjá elskhugann framar og hyggst þannig halda tilfinningum sínum í
skefjum. En andstæðingurinn, bófinn í sögunni, er enn sem fyrr karl-
veldið, nú persónugert í eiginmanninum sem ræður yfir henni, þvingar
hana til að hitta huldumanninn, rífur þar með upp gömul sár og neyðir
hana til að horfast í augu við tilfinningar sínar og kúgunina um leið.
Hann rýfur alla samninga og getur það, því hans er valdið. Báðar þessar
leiðir eru henni því lokaðar. Það verður henni óbærilegt, eina lausnin er
dauðinn.
Ég fæ ekki betur séð en þessir tveir valkostir, bælingin eða dauðinn,
séu einmitt þær lausnir sem algengastar eru og hafa verið í öllum sögum
af uppreisnarkonum, þar á meðal nútíma kvennabókmenntum. Þær
snúast einmitt oft um tilraunir kvenhetjunnar til að finna sjálfa sig og
ráða lífi sínu sjálf, meðan flest önnur öfl sögunnar vinna að því að halda
henni í hlutverki andlagsins. Selmatseljusöguna er ómögulegt að lesa
öðru vísi en sem ákveðna gagnrýni á karlveldið eða a.m.k. tjáningu
greinilegrar vitundar um kúgun kvenna.
Að andstæðingarnir í sögunni eru karlar og konur, en ekki bara
einstaklingar og samfélag, er undirstrikað á ýmsa vegu. Þannig er t.d.
aldrei minnst á móður stúlkunnar, oftast virðist hún enga eiga eða
a.m.k. á hún engan þátt í átökunum. Það er alltaf faðirinn sem er reiður
þegar hún er álitin ólétt, faðirinn sem lætur vakta hana, verður enn
331