Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Side 111
Litir landsins
trúarástæðum, vegna skipunar frá stjórnvöldum eða hreinlega sem skraut þá
voru þau hluti af ákveðinni, fastmótaðri heimsmynd. Fegurð hlutarins eða
listrænt gildi verksins í sjálfu sér var aldrei upplifað án tengsla við tilgang
hans. Það má skýra þetta nánar með því að taka dæmi og þá er tilvísun
Guðbergs til inkamenningarinnar kjörin.
Inkarnir sjálfir lögðu aldrei stund á myndíð. Þeir voru yfirstétt: stjórn-
endur, skipuleggjendur og prestar. En þeir fengu til sín hagleiksfólk úr
ýmsum áttum til að vinna fyrir sig og skapa það sem við í dag nefnunj
hámenningu Inkanna. Það er furðu lítið vitað um þetta þjóðfélag sem
spönsku hermennirnir lögðu í rúst. Letur þeirra, ef það er þá letur, er
óráðið. Það er gáta hvernig þeim tókst að byggja steinmúra úr margra tonna
björgum án þess að hagnýta sér hjól eða járn.
Stórfenglegustu minjar perúanskrar menningar, ef frá eru talin hof
Inkanna, eru dýramyndirnar í Nazca. Við vestrænir ferðalangar getum
skoðað þessi mannvirki sem myndlistarverk. Tekið á leigu einhreyfilsrellu í
tuttugu mínútur og virt fyrir okkur þessar miklu dýramyndir sem eru svo
stórar að línur þeirra eru bílfærar. En það er misskilningur að ætla að
tilgangur indíánanna með þessum mannvirkjum hafi verið fagurfræðilegur.
Nema að þeir hafi kunnað að fljúga.
Perú nútímans á fáa myndlistarmenn, enda mikil fátækt í landinu. Lista-
mennirnir búa við fáeinar götur í einu af úthverfum Lima og lifa af því að
selja yfirstéttinni myndverk sín. Það er ekki ólíklegt að þeir reyni að
notfæra sér menningu indíánanna sem fyrirmynd að einhverju leyti og vafa-
laust eru á meðal þeirra andófsmenn sem beita hæfni sinni til að andæfa ríkj-
andi kúgun. En sem myndlistarmenn þurfa þeir að sækja mikið til vestur-
landa og þeir geta ekki verið án þeirra áhrifa. Spurningin er ekki um rofin
tengsl, heldur hvort tengsl hafi myndast yfirleitt. Ef slík tengsl hafa ein-
hvern tímann verið til þá fær hugmyndin um þjóðlega list merkingu — og þá
fyrst.
Indíánarnir sem lifðu af hörmungar nýlendutímans, afkomendur
Inkanna, hafa verið hugmyndaríkir við að tileinka sér vestræna menningu,
og þrátt fyrir aldalanga kúgun hefur þeim tekist að halda reisn sinni.
Þjóðbúningur indíánakvenna Andeshásléttunnar er saumaður úr gerviefni.
Þær hafa ekki lengur efni á að ganga í fötum úr alpacaullinni. Eða kannski
velja þær heldur gerviefnin vegna þess að þau gefa möguleika á skærari litum
og eru slitsterkari. Á meðan þær prjóna evrópskum túristum inkahúfur úr
ull alpacadýranna með mynstri sem um margt líkist því sem við höfum feng-
ið að láni frá grænlendingum, skrýðast þær harðkúluhöttum. Hattarnir eru
eins og bresku meðaljónarnir ganga með ef undan er skilinn skær liturinn.
Pils kvennanna eru stytt útgáfa af rykktum pilsum evrópskra hefðarkvenna.
101