Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Blaðsíða 55
Agústa Snæland
Nóvembermorgunn
Morgunninn er bjartur og fagur. Þegar við stígum út um kofadyrnar
og öndum að okkur tæru loftinu, flæðir það um líkamann. Næstum
áfengur unaður fylgir hverjum andardrætti.
Ain, sem um sinn skorðast í djúpu gili, tekur augað og beinir því
áfram um víðáttu láglendisins, þar sem hún bugðast letilega til hafs.
Þegjandi göngum við af stað, skynjum og skoðum allt, sem fyrir
ber. Þögnina, friðsæld og tign ósnortinnar náttúru. Fölbrúnt, visnað
gras, — hvert strá bryddað hrímkögri — brakar undir fæti og glitrar í
sólskininu. Lauf og lyng eru enn tendruð loga haustlitanna og frosin
ber, leifar kinda og hrafna bjóða rjúpunni málsverð þegar að kreppir.
Kjarrið teiknar hvítan snjóinn svörtu flúri um hæðir og hóla en
fjöllin rísa upphafin og fjarræn til móts við himininn.
Eina hljóðið sem heyrist er niður í ánni þegar hún ryðst fram
gljúfrið. I straumkastinu er hún grængolandi með hvítu löðri, en í
hyljum grá og köld eins og miskunnarleysið.
Handan við ána gengur maður með byssu um öxl, og með honum
fer hundur. Verur í flugulíki, óraunverulega smáar, sem bregður fyrir
um stund en hverfa bakvið hæð.
Gangan er létt, líkaminn farinn að vinna fyrirhafnarlaust með
samhæfðum hreyfingum en vitundin frjáls, opin fyrir áhrifum um-
hverfisins. Víða sjást spor í snjónum eftir rjúpuna — hér hefur hún
komið af flugi, vappað milli þúfnakollanna og kroppað lyng í sarpinn
— og hér flogið upp. Hvar ertu núna, litla, hvíta systir? Gættu þín
vel, hætta er á ferðum.
Það fer að snjóa og við snúum heim á leið. Snjókornin sem bráðna
á vanganum og vanginn eru eitt, allt er eitt. Þegar við nálgumst
kofann heyrist skot handan við ána.
Mér finnst augnablik eins og það hafi hæft mig í hjartað.
43