Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Blaðsíða 41
Útvarp allra landsmanna
stjórnaði það alveg sjálft bæði í tíma, rúmi og efnisvali. Þetta var bylting
almennings gegn hámenningu ríkisfjölmiðlanna.
Útvarp allra landsmanna
Kjarninn í vandamáli því sem ríkisfjölmiðlarnir hafa þurft að glíma við
undanfarin ár er greinilega tengdur því að þeir eru að reyna að vera „Rödd
þjóðarinnar“. Ekki bara að nafninu til heldur líka í vinsældum. Til að ná því
takmarki þurfa þeir að hafa vinsælt efni, verða þjóðarstöð og höfða til allra
landsmanna. Að nafninu til eru ríkisfjölmiðlarnir Þjóðarstöð. Þeir ná til
landsins alls, hafa vinsæla þætti, íþróttir og aðra afþreyingu. En samkvæmt
lögum þurfa þeir að sinna öllum landsmönnum og ekki eru allir eins. Um
leið og þeir fara að sinna mismunandi hópum breytist eðli ríkisfjölmiðlanna.
Þeir verða að Almennu þjónustuútvarpi, sem má ekki skeyta hót um
vinsældir. Þeirra von að verða vinsælt þjóðarútvarp er að engu orðin, þar
sem þeir þurfa að sinna börnum, harmonikkuunnendum, gömlu fólki,
miðaldra fólki, ungu fólki, bókafólki, klassísku fólki og svo framvegis. Þetta
sést best á dagskrá gufuradíósins, hún lítur út einsog einhver geðklofi hafi
sett hana saman, að minnsta kosti einhver sem gat ekki ákveðið hverju
skyldi útvarpa. Hvað varðar þessa togstreitu hjá ríkisútvarpinu milli þess að
vera Þjóðarstöð eða Almenn þjónustustöð er skemmst að minnast þess er
sjónvarpið ákvað að kaupa ekki nýjan flokk af „Dallas" sápuóperunni.
Astæðan var sögð sú að nýi flokkurinn væri of dýr. Fyrir Þjóðarstöð er
vinsælt efni sjaldan of dýrt. „Dallas“ er mikilvægur þáttur í vinsældum fyrir
Þjóðarstöð en svo virðist sem almenna þjónustustefnan hafi fengið að ráða
og því var „Dallas“ látið flakka. En þorsti almennings í hágæða lágmenn-
ingu er mikill og „Dallas“ birtist fljótt á bensínstöðvum á vikulegum
myndböndum.
Útvarpsráð
Þegar öllu er á botninn hvolft kemur í ljós að menningarstefna ríkisfjölmiðl-
anna er nokkuð flöktandi hugtak. Um það má kenna ráðinu sem á að halda
uppi ákveðinni menningarstefnu í dagskrárgerð þeirra. Það batterí er út-
varpsráð einsog allir vita. I gegnum tíðina hefur staðið mikill styrr um
útvarpsráð og hlutverk þess í rekstri ríkisfjölmiðlanna. „Það er pólitískt",
„það er ekki pólitískt“, eru upphrópanir sem heyrast á víxl. Þessi hróp eru
jafngömul útvarpi á Islandi. Þegar fyrsti útvarpsstjórinn, Jónas Þorbergs-
son, var settur heyrðust raddir á Alþingi sem efuðust um að hann myndi
gæta fyllsta hlutleysis í ákvörðunum sínum þar eð hann hafði verið ritstjóri
eins flokksblaðsins.3
29