Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Blaðsíða 75
Margaret Drabble
Hassanturninn
„Ef ég væri alveg viss um að þær væru ókeypis," sagði hún, „þá
myndi ég borða þær.“
„Þær hljóta að vera ókeypis," sagði hann. „Drykkurinn kostar
ekkert smáræði.“
„En setjum svo, setjum nú svo,“ sagði hún, „að þær væru eins
fáránlega dýrar og drykkurinn? Ef hægt er að taka tólf shillinga fyrir
einn gin og tónik, þá geturðu ímyndað þér hvað hægt er að setja upp
fyrir þetta.“
Hann þagði því að hann hafði sjálfur verið að hugsa hið sama, þótt
hann kærði sig ekki um að viðurkenna það fyrir henni, vildi ógjarnan
að hún kæmist að því hve ótti hans í peningamálum var djúpstæður;
og honum gramdist að hún skyldi hafa orð á þessu. Því að hjá henni
voru slíkar vangaveltur aðeins til að hafa öll smáatriði á hreinu en
honum voru þær daglegt brauð. Hann starði þungbúinn á litlu
brauðferningana með sorglega girnilegum skreytingum úr sardínum,
rækjum og ólífum og velti fyrir sér hvað þær gætu hugsanlega kostað
í þessu fjarstæðukennda og veruleikafirrta fjármálakerfi sem hann var
nú flæktur í. Hvað var algert hámarksverð fyrir svona ferning? Fimm
shillingar? Fáránlegt, fáránlegt en því miður alls ekki óhugsandi, eða
hvað? Sjö shillingar og sexpens? Sjö og sex voru auðvitað öldungis
óhugsandi. Þótt fimm stjörnu hugarflugið í Marokkó væri teygt til
hins ýtrasta var óhugsandi að þeir kostuðu sjö og sex stykkið. Og ef
hún æti þá alla (og það væri alveg eftir henni að sporðrenna þeim
öllum ef hún byrjaði á annað borð eins og hún var orðin óseðjandi),
þá myndi það kosta hann rúmlega þrjú pund. En hvað voru þrjú
pund milli vina þegar öllu var á botninn hvolft? Eða öllu heldur milli
brúðar og brúðguma? Líklega hreint ekki neitt. Sér til undrunar fann
hann að jafnvel honum þótti það hreint ekki neitt. En vitaskuld of
mikið fyrir viðkomandi varning. Svo var auðvitað hugsanlegt, jafnvel
63