Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Blaðsíða 69
Samvitundin og Ijósvakinn
löndum Evrópu, og jafnvel var leitast við að vekja verkalýðinn til meðvit-
undar með blaðaskrifum. Einn hófsamur athugandi kemst svo að orði að
fréttablaðið hafi „frá upphafi verið raunverulegur eða hugsanlegur fleinn í
holdi hins ríkjandi valds“ (McQuail, 1983, bls. 20). Þegar leið á 19. öldina
urðu blöðin víða veldi í sjálfum sér, jafnvel svo að þegar árið 1829 komst
Carlyle svo að orði að ritstjórar dagblaðanna væru hin raunverulega Eng-
landskirkja um þær mundir. Slík framsýni, sem vitnast 19 árum áður en
Marx og Engels birta þann boðskap sinn að trúarbrögðin séu ópíum
fólksins, mætti kenna þeim auðmýkt, sem þykjast frumlegir og segja að
fjölmiðlarnir séu nú ópíum fólksins.
Anthony Smith (1979b) telur sjónvarpið á okkar dögum vera tæki sem
komi í stað fornra valdafesta og móti opinbert líf í eina heild. Smith líkir
sjónvarpinu við neðri deild breska þingsins á 18. öld og segir það þenja sig
yfir önnur festi og vera í senn loftvog og áhrifavald stjórnmálanna.
Það er hæfileg goðgá að mínu mati að tilnefna máttugustu fjölmiðlana
sem arftaka hinnar sameinandi þjóðkirkju, ekki síður á Islandi á ofanverðri
20. öld en á Englandi á fyrri hluta 19. aldar. Spurningin er hins vegar hvort
þessi nýja kirkja verður áfram máttug og sterk eða hvort hún sundrast í sér-
trúarhópa og glatar þar með mætti sínum og áhrifum.
Islensk þjóðfrelsisöfl nýttu sér prentlistina snemma, þótt ekki væri stutt á
milli útgáfudaga í jafnfámennu og strjálbýlu landi. Oslitin ganga dagblaða
hér á landi hófst ekki fyrr en á öðrum áratug þessarar aldar, en áhrif
blaðanna á hugarfar almennings og úrslit mála virðast hafa verið umtalsverð
fyrir þann tíma. Þannig telur Heimir Þorleifsson að andstaða ísafoldar og
Þjóðólfs við Uppkastið 1908 hafi haft „geysimikil áhrif“. Sögu íslenskra
dagblaða svipar til sögu dagblaða á öðrum Norðurlöndum sem er hins vegar
í veigamiklum atriðum frábrugðin blaðsögu annarra Evrópulanda. Dæmi-
gert dagblað á Bretlandi eða meginlandi Evrópu er í eigu eins aðila, jafnvel
einstaklings, sem kann að hafa hugsjón og vilja halda fram ákveðnum
málstað, en verður jafnframt að tryggja efnahagslega velferð fyrirtækis síns.
Blað hans verður því að njóta víðtæks trausts og vera hafið yfir grunsemdir
um að ganga erinda þröngra hagsmunahópa. Dæmigert norrænt (þ. m. t.
íslenskt) dagblað er í höndum hreyfingar sem nýtur stuðnings minnihluta
þjóðarinnar og lítur fyrst og fremst á blaðið sem tæki til að auka áhrif sín og
efla málstað sem hreyfingin berst fyrir.
Islendingar virðast hafa dregið sínar ályktanir af þessum kringumstæðum.
I víðtækri könnun sem Hagvangur hf gekkst fyrir meðal almennings árið
1984 var m. a. spurt um traust manna á ýmsum helstu máttarstoðum
þjóðfélagsins. I ljós kom að dagblöðin nutu minna trausts en nokkur annar
þeirra 9 aðila sem um var spurt. Hinir aðilarnir voru: Kirkjan, mennta-
57