Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Blaðsíða 76
Tímarit Máls og menningar
líklegt, að brauðbitarnir væru ókeypis, eins konar aukageta með
rándýru gininu. Það væri skaði að leifa þeim ef þeir kostuðu ekki
neitt. En ef þeir væru nú ekki ókeypis og hún æti þá alla og stikaði
síðan að lyftunni og hótelherberginu án þess að gera sig líklega til að
borga, hvað þá? Myndi barþjónninn með aulalegu húfuna með
skúfinn smeygja sér fimlega fram fyrir barborðið og veita honum
eftirför? Eða yrði upphæðinni laumað með háttvísi inn á milli
smámunanna á svimandi háum hótelreikningnum? Reynsluleysi hans
kom honum í sjálfheldu milli tvenns konar smásálarskapar: honum
var meinilla við að skilja brauðbitana eftir ef þeir væru ókeypis og
honum var ekki síður illa við að borða þá ef þeir væru á uppskrúfuðu
verði. Og auk þess var hann sárgramur henni fyrir þetta munaðar-
fulla og tilefnislausa hik: hafði hann ekki einmitt gifst henni til þess
að hún gæti tekið ákvarðanir af þessu tagi?
Hann teygði út handlegginn og tók einn bitann, ýtti síðan litla
fatinu yfir til hennar. Honum til gremju tók hún einn, hiklaust,
næstum viðutan og sýndist hreint ekkert þakklát honum fyrir að hafa
tekið ákvörðun; andlit hennar var sviplaust líkt og þetta veigalitla
vandamál væri horfið úr huga hennar. Og þegar hún tók til máls varð
honum ljóst að sú var einmitt raunin.
„Eg vildi óska,“ sagði hún með rólega ómstríðri rödd sinni og
ofuráherslum eins og henni var tamt, „að þú yrðir ekki svona
skelkaður þegar einhver reynir að selja þér eitthvað. Eins og til
dæmis maðurinn á markaðinum í dag. Var ekki hreinasti óþarfi að
komast í svona mikið uppnám?“
„Uppnám, hvað áttu við?“
„Nú, var ekki ástæðulaust að <epa á hann?“
„Eg æpti ekkert á hann,“ sagði hann. „Eg brýndi varla raustina.
Enda halda þeir áfram að angra mann nema maður æpi á þá.“
„Þú ættir að hunsa þá,“ sagði hún.
„Hvernig get ég hunsað þá þegar þeir hanga í frakkaerminni
minni?“
„Jæja þá,“ sagði hún og breytti um aðferð. „Af hverju hlærðu ekki
bara? Það gera allir aðrir. Þeir hlæja bara.“
„Hvernig veistu það?“
„Eg hef séð það sjálf. Frönsku hjónin sem við sáum í Marrakesh
með allan krakkaskarann utan í sér, þau hlógu bara.“
64