Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.12.2014, Síða 46
46 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 28.12. 2014
Þ
etta er tíminn, þegar horft er um öxl
og skyggnst til þess liðna áður en
reynt er að grufla í framtíðinni, því
fátt er þar fast eða í fókus og spár
rækilega litaðar af von og þrá. Mað-
urinn er ekki jafn ágætlega settur og
rómverski guðinn Janus var, en önnur ásjóna hans
vissi aftur, en hin fram. Það fer vel á því, að mánuður-
inn sem er handan við hornið, brennur og flugelda sé
nafni Janusar.
Janus var hliðvörður, guð breytinga og hins
ókomna. Það gerði honum hægara um vik að sjá í
senn aftur og fram.
Sagan er í mörgum útgáfum
Minnið, netið og sagnfræðin hjálpa okkur, aumum
mönnunum, eitthvað, er við skyggnumst aftur, jafn-
vel um langan veg. En þessi hjálpargögn eru fjarri
því að vera örugg, enda skolast margt til á löngum
tíma.
Rétt sagnfræði er ekki til, en menn hafa komið sér
saman um eina niðurstöðu sem er sennilegri en hinar.
Ekki þó eins formlega á gömlu kirkjuþingunum. Ís-
lendingar eiga magnaðar frásagnir skrifaðar á skinn.
En það gengur í bylgjum, eins og tónlist á vinsælda-
listum, hvort sagnfræðingar og fræðimenn telji rétt
að taka mikið mark á þeim. Stundum hefur fræði-
mannatískan verið vinsamleg „staðreyndum“ gömlu
skinnanna, en þess á milli þótt fínast að gera lítið úr.
Utan við standa svo leikmenn, vellesnir margir og
fróðir, sem telja á hinn bóginn minni ástæðu til að
taka mark á fræðimönnum en skinnum. Svona fylk-
ingar eru fagnaðarefni og uppgrip fyrir andann í
þessu landi. Og það eykur svo enn á gleðina að stund-
um koma í ausandi rigningu teikn upp úr jörðinni,
eins þrumur úr heiðskíru lofti, eins og steinkista Páls
biskups í Skálholti. Reyndist allt það, sem sagt hafði
verið á gulnuðum blöðum, þá ganga betur upp en það
sem nútímamenn upplifa á splunkunýjum leiðar-
vísum, þegar þeir tengja uppþvottavél.
Bretar virðast meiri einfeldningar en Íslendingar
og efuðust ekki eitt augnablik þegar þeir fundu Rík-
harð konung þriðja liggjandi undir bílastæði. Það
þótti mörgum ömurlegur umbúnaður um hátignina.
En svo benti einhver konunghollur á, sínum mönnum
til huggunar, að væru bílastæðagjald og sektir fyrir
ógreidd gjöld reiknuð hin sömu fyrir legstað kóngs
og greitt væri nú fyrir stæðið ofan á, þá væri það ekki
lægra endurgjald en fengist fyrir gullslegin grafhýsi
ættingja hans. Það er stundum haft til marks um
heimildargildi fornra sagna Íslendinga að augljóst sé
að höfundurinn skáldi í eyðurnar, eins og væri hann á
fésbók. Og virðist þá ekki bæta úr skák að sá höf-
undur skáldar betur í eyður en nokkur sagnfræð-
ingur væri fær um að gera, ef Snorri Sturluson og
slíkir eru taldir frá. Rómantískir lesendur fornra
sagna og ómenntaðir með öllu í fræðunum hafa svo
sína niðurstöðu fyrir sig. Hún er sú, að þeir sem
skrifa betri texta en öðrum hefur auðnast að gera síð-
ar, og það þótt þeir hafi haft 8 aldir til að æfa sig, og
að auki vandir að virðingu sinni, skuli njóta vafans.
Það sem þeir þóttust vita með allöruggri vissu hafi
þeir skrifað samkvæmt því. Það þýðir ekki að allt sé
það þar með 100% rétt. En það þýðir heldur ekki að
neitt af því verði mikið réttara hjá öðrum síðar. Snill-
ingsmennin undirstrika þetta með því að skálda
óhrædd í eyðurnar. Þeir þóttust vita að fáir yrðu til
þess að rugla þessu tvennu saman. Enda hafa þeir
sem fyrstir fengu að lesa afurðir snilldar og vinnu-
þreks verið valinkunnir sómamenn sem mundu langt
fram. Slíkir hafa vitað sjálfir hvenær alkunnur fróð-
leikur birtist og hvenær var verið að skálda í eyð-
urnar í þágu söguþráðarins og listrænnar fegurðar.
Öðrum en þess háttar mönnum hefur ekki verið
treyst til að fletta þessum djásnum fyrstum manna.
Að líta skammt yfir langt
En í þeim spakvitru umræðum sem verða eftir örfáa
daga og Janus stjórnar af röggsemi, eins og vant er,
þarf ekki að horfa langt aftur í aldir, þar sem myrkur
sögunnar er þéttast. Margur mun minnast þess, að á
liðna árinu voru 100 ár frá því að mannkynið (odd-
vitar þess) blés til heimsstyrjaldarinnar fyrri, ógur-
legs hildarleiks, þótt ofsagt sé að kalla hann heims-
styrjöld. En þá má hafa í huga að heimsstyrjöldin
síðari er talin framhald hinnar. Svo illa hafi verið
gengið frá hinni fyrri, að sú síðari hlaut að koma. Og
Nú er tími
Janusar
Reykjavíkurbréf 26.12.14