Ólafía : rit Fornleifafræðingafélags Íslands. - 01.05.2012, Blaðsíða 7
Fjórða hefti Ólafíu, rits
Fornleifafræðingafélags Íslands, hefur
nú litið dagsins ljós. Það er mér
sérstakur heiður sem nýr formaður
félagsins að hafa fengið tækifæri til að
koma að vinnslu heftisins og skrifa
aðfaraorð.
Nú má segja að hefð hafi skapast
fyrir ritinu og hefur það jafnframt
áunnið sér ákveðinn sess innan þeirra
flóru sem við köllum íslenska
fornleifafræði. Þar vega þyngst hlutverk
og meginmarkmið ritsins.
Meginmarkmið ritsins eru að auka
fræðilegan metnað innan íslenskrar
fornleifafræði og að skapa hefð fyrir
hugtakanotkun á íslensku innan
fornleifafræðinnar hér á landi. Má halda
því fram að Ólafía sé brautryðjendaverk
í því sambandi.
Um leið og lögð er rík áhersla á
fræðilega úrvinnslu greina sem birtast í
Ólafíu er ávallt leitast við að höfundar
noti íslenskar þýðingar á erlendum
hugtökum. Með því að vinna með
hugtökin á þennan hátt erum við í raun
ekki bara að þýða þau heldur komast að
því hvað liggur þeim að baki, hver
merking þeirra er sem og tenging þeirra
við efnismenninguna.
Er það vænting þeirra sem standa að
útgáfunni að sú aðferðafræði muni
leggja sín lóð á vogarskálar fræðilegs
metnaðar innan fræðigreinarinnar.
Ritið sem slíkt hefur beinst að innra
starfi fræðigreinarinnar, þeim vísinda-
mönnum sem við hana starfa og þeirra
hugarefnum.
Fyrsta heftið, sem kom út árið 2006,
hafði þema og fjallaði um
kynjafornleifafræði. Með útgáfunni
sýndi það sig að rík þörf og rými var
fyrir slíkt fræðilegt rit og vakti heftið
verðskuldaða athygli.
Næsta hefti kom út árið 2007 og var
beint meira inná við og hugsað sem
vettvangur fyrir félagsmenn að birta
sínar rannsóknir.
Þriðja heftið, sem kom út árið 2009,
var íslensk þýðing uppgraftar-
skýrslunnar Torsten Capelle: Unter-
suchungen auf dem mittel-alterlichen
handelsplatz Gautavík, Island, sem
upphaflega kom út árið 1982.
Því má segja að heftið hafi til skiptis
beint kastljósi sínu inná við, að félaginu
sjálfu og félagsmönnum þess, og út á
við, að íslensku fræðasamfélagi.
Næst var því tilvalið að gefa nýlega
útskrifuðum fornleifafræðingum orðið.
Þema ritsins nú eru greinar byggðar á
meistararitgerðum í fornleifafræði frá
undanförnum árum. Höfundar efnis eru
sex: Ágústa Edwald, Kristborg
Þórsdóttir, Ragnheiður Gló Gylfadóttir,
Sandra Sif Einarsdóttir, Sindri
Ellertsson Csillag og Þóra Pétursdóttir.
Þess má ennfremur geta að fyrir
tilstuðlan veglegs styrks sem félaginu
barst frá Dr. Ólafíu Einarsdóttur sjálfri
Formannsspjall
__________
7