UTBlaðið - 03.03.2007, Síða 37
37
Verkefni sem efla eiga Þjóðskrána
Nú er verið að setja af stað nokkur verkefni á vegum dóms- og
kirkjumálaráðuneytis sem ætlað er að efla Þjóðskrána á ýmsa lund. Þar
má nefna möguleika borgaranna á því að senda inn flutningstilkynningar
rafrænt yfir Netið að því gefnu að slíkar tilkynningar séu auðkenndar á
tilhlýðilegan máta. Fljótlega ætti því að vera óþarfi að mæta í afgreiðslu
Þjóðskrár eða sveitarfélags til að skrásetja nýtt lögheimili.
Annað sem lengi hefur verið beðið eftir er möguleikinn á því að skrá í
rafræna Þjóðskrá og fletta upp á löngum (fullum) nöfnum einstaklinga.
Þetta verður nú mögulegt ásamt því að sækja ýmis vottorð á Netinu, t.d.
fæðingarvottorð og búsetuvottorð.
Árlega fæðast 4-5.000 nýir Íslendingar og fæðingar og skírnarskýrslur
ættu eðlilega að berast til Þjóðskrár með rafrænum hætti. Á sama hátt
þarf Þjóðskrá að fá sendar dánartilkynningar.
Allir þessir möguleikar krefjast róttækra endurbóta á gagnagrunnskerfum
Þjóðskrár og m.a. skráningar á gögnum sem nú eru einungis til á pappír.
Þessir möguleikar krefjast einnig þess að unnt sé að auðkenna þann
sem nálgast þjónustu Þjóðskrár (þ.e.a.s. að viðkomandi sanni á sér deili
t.d. með notkun á notendanafni og lykilorði eða með rafrænu skilríki) og
jafnframt að unnt sé að taka við greiðslum rafrænt, þegar það á við. Þessir
þættir verða leystir með tilkomu rafræns þjónustulags.
Rafrænt þjónustulag – að gera hlutina sjálfur
Svokallað rafrænt þjónustulag hefur verið tilraunaverkefni um tíma hjá
dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og er unnið í nánu samráði við önnur
ráðuneyti. Í rafræna þjónustulaginu eru tölvukerfi ráðuneytisins tengd við
ytri notendur ásamt tölvukerfum annarra stofnana ríkisins. Þar er einnig
haldið utan um samræmdar aðgangsstýringar, notendaauðkenningar og
opnað fyrir greiðslumiðlun og þar með rafrænar bókanir til Tekjubókhalds
ríkisins. Endurnýtanleiki auðkenningar- og greiðslumiðlunarvirkni í
þjónustulaginu fyrir einstakar ríkisstofnanir
flýtir verulega fyrir þróun vefþjónustu fyrir
borgarana.
Rafræna þjónustulagið styður notkun
á rafrænu skilríki við auðkenningu en
jafnframt munu veflyklar RSK verða notaðir
við auðkenningu fyrst um sinn.
Fyrsta verkefnið sem nýtir sér rafræna
þjónustulagið er Leyfisveitingakerfi
Ríkislögreglustjóra, en þar mun
borgaranum verða gert kleift að sækja
um leyfi og fylgjast með leyfisumsókn
sinni, greiða fyrir viðkomandi leyfi og taka
loks við því á „rafrænan hátt“, allt á sinni
heimavinnustöð.
Rafræna þjónustulagið gegnir lykilhlutverki
í aukinni þjónustu Þjóðskrár en einnig í
ýmsum öðrum upplýsingatækniverkefnum
ráðuneytisins sem lúta að aukinni gagnvirkri
vefþjónustu.
Nauðsynleg þjónusta sótt beint til
viðkomandi stjórnsýslu
Með rafræna þjónustulaginu er verið að
auka möguleika borgarans á því að reka
erindi sitt eða sækja nauðsynlega þjónustu
beint inn til viðkomandi stjórnsýslu, þannig
að þegar það á við, miðað við viðkomandi
verklagsreglur, sé hann í raun að gera alla
hluti sjálfur, frá þeim stað og á þeirri stundu sem honum hentar.
Rafræna þjónustulagið er hugsað sem almennt samþættingarkerfi. Það
verður rekið sem sjálfstæð eining á vegum forsætisráðuneytisins og
möguleikar þess til að opna á aðgengi að stjórnsýslukerfum almennt
séð eru ekki bundnir við kerfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins heldur
eru þeir öllum opnir. Þætti dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í rafræna
þjónustulaginu verður fyrst og fremst sinnt af Þjóðskrá en ástæða er
til að hvetja aðrar stofnanir til að kynna sér möguleikana sem rafræna
þjónustulagið býður.
Vegabréf – skírteini – rafrænt nafnskírteini
Nýir möguleikar í samskiptum eru sífellt að koma fram sem geta aukið
sjálfvirkni og skilvirkni upplýsingakerfa. Fjöldi opinberra verkefna er í
vinnslu og tengslum við Þjóðskrá þar sem hagnýting og samþætting á
upplýsingakerfum á tvímælalaust eftir að auka skilvirkni.
Þáttur Þjóðskrár bæði sem rekstrareiningar og sem miðlægs gagnasafns
við slíka samþættingu er alltaf að verða mikilvægari og um leið
tæknivæddari.
Nýlega tók Þjóðskrá við allri útgáfu á vegabréfum af Útlendingastofnun
og nú er verið að hefja útgáfu á svokölluðum dvalarleyfisskírteinum
útlendinga fyrir Útlendingastofnun. Þá mun framleiðsla ökuskírteina sem
gefin eru út af Ríkislögreglustjóra væntanlega flytjast til Þjóðskrár í vor en
hún hefur undanfarið farið fram erlendis.
Undirbúningsvinna er hafin við fyrirhugaða útgáfu á rafrænu nafnskírteini
sem mun taka við af gamla nafnskírteininu. Þetta nýja skilríki mun gagnast
handhafa sem ferðaskilríki innan Schengen-svæðis Evrópu og kemur
þannig í stað vegabréfs en jafnframt innihalda rafrænt skilríki sem nota má
til auðkenningar í rafheimum, t.d. þegar nálgast á þjónustu Þjóðskrár svo
sem þegar senda á inn flutningstilkynningar eða til að undirrita tölvupóst.
Umhverfisvæn upplýsingakerfi – græna leiðin
Það þarf ekki að fjölyrða um hagræðinguna eða jákvæðu umhverfisáhrifin
þegar 25-30.000 flutningstilkynningar innanlands til Þjóðskrár taka að
berast rafrænt til gagnagrunnsins. Í þessum tilvikum er vægt áætlað
miðað við 30 mínútna ferðalag með
flutningstilkynningarvottorð á pappírs-
formi til næstu sveitarstjórnarskrifstofu
eða á skrifstofu Þjóðskrár, að hægt væri
að spara um 2.000 vinnudaga á ári auk
ýmiss annars hagræðis.
Hjá flestum stofnunum og fyrirtækjum
innan sem utan stjórnsýslunnar er reglu-
lega krafist ýmissa opinberra vottorða
sem fylgigagna viðkomandi erinda. Með
tilkomu rafrænna skilríkja og almennrar
notkunar á rafrænu þjónustulagi er orðið
enn auðveldara að flytja nauðsynleg og
samnýtanleg gögn á milli upplýsingakerfa.
Þjónusta hins opinbera er í raun opin
allan sólarhringinn og borgarinn ekki háður því að mæta í eigin persónu á
ákveðna starfstöð viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis.
Verulegur beinn og óbeinn fjárhagslegur sparnaður af hinu almenna og
þverfaglega hagræði, að ógleymdum ómælanlegum tímasparnaði hjá
öllum hlutaðeigandi, verður ein af árangursríkustu og umhverfisvænstu
aðgerðum samfélagsins gegn pappírs- og möppuflæði.
Höfundar vinna hjá Ásverk verkfræðistofu.
Í þessum tilvikum er vægt áætlað,
miðað við 30 mínútna ferðalag
með flutningstilkynningarvottorð
á pappírsformi til næstu sveitar-
stjórnarskrifstofu eða á skrifstofu
Þjóðskrár, að hægt væri að spara
um .000 vinnudaga á ári.
Sigurður Jónasson.
Þorsteinn Helgi Steinarsson.