Bókasafnið - 01.09.2009, Side 4
4
Mikil uppbygging á sér stað á framhaldsnámi við Háskóla
Íslands. Eru nú um 2000 nemar skráðir í framhaldsnám á
meistarastigi við skólann (Háskóli Íslands, 2009a). Árið 1993
var fyrst tekið að bjóða upp á framhaldsnám í bókasafns-
og upplýsingafræði en það ár hóf greinin að bjóða upp á
rannsóknatengt meistaranám eins og flestar aðrar greinar
innan félagsvísindadeildar. Nám á meistarastigi í bókasafns-
og upplýsingafræði hefur tekið umtalsverðum breytingum
undanfarin ár og hefur námsframboðið þróast og aukist
verulega. Í Kennsluskrá Háskóla Íslands fyrir framhaldsnám
fyrir háskólaárið 2009-2010 kemur fram að boðið er upp á þrjár
námsleiðir í bókasafns- og upplýsingafræði: diplómanám,
MLIS nám (Master of Library and Information Science), og
rannsóknatengt meistaranám (Háskóli Íslands, 2009b).
Ætlunin er að fjalla hér um þessar námsleiðir.
Diplómanám
Diplómanám hófst á haustmisseri 2008 en það er viðbótarnám
í bókasafns- og upplýsingafræði til 30e sem gert er ráð fyrir
að hægt sé að ljúka á einu háskólaári. Námið er sérstaklega
hugsað sem styttri námsleið fyrir fólk sem hefur ef til vill ekki
áhuga á að ljúka MA prófi en vill samt bæta við sig í námi.
Í boði eru eftirtaldar áherslulínur: stjórnun og stefnumótun,
upplýsinga- og skjalastjórn og rafræn samskipti hjá
skipulags heildum, og upplýsingafræði og þekkingarmiðlun.
Inntökuskilyrði í námið er BA próf eða sambærilegt próf með
lágmarkseinkunn 7,25. Nemar sem ljúka diplómanámi hljóta
ekki námsgráðu en þeir fá diplómablað um að náminu hafi
verið lokið.
MLIS nám (Master of Library and Information Science)
MLIS nám (Master of Library and Information Science) hófst
haustið 2004 og var við skipulagningu þess meðal annars
tekið mið af alþjóðlegum viðmiðunarreglum (Anne Clyde,
2004). MLIS nám er tveggja ára meistaranám (120e) sem
er ætlað fyrir nema sem hafa lokið grunnnámi í annarri
námsgrein en bókasafns- og upplýsingafræði. Að öðru leyti
eru inntökuskilyrði þau sömu og almennt er gerð krafa um
innan Háskólans, eða að meðaleinkunn sé ekki lægri en 7,25.
Þrjú atriði vógu einkum þungt þegar tekin var ákvörðun um
að bjóða upp á MLIS nám í bókasafns- og upplýsingafræði.
Í fyrsta lagi var það stefna Háskóla Íslands um að auka nám
á framhaldsstigi en greinin vildi taka þátt í þeirri þróun sem
var í gangi þar sem aðrar háskólagreinar voru í vaxandi
mæli að móta og setja upp nám á framhaldsstigi. Í öðru
lagi hafði verið nokkuð um það að nemar sem höfðu lokið
grunnnámi í annarri grein en bókasafns- og upplýsingafræði
innrituðust í námið. Þessum nemum, sem hafði farið heldur
fjölgandi, hafði boðist að taka svokallað starfsréttindanám
sem var tveggja ára nám á BA stigi (Anne Clyde, 2003). MLIS
náminu var því ætlað að leysa starfsréttindanámið af hólmi
og bæta jafnframt stöðu nemanna því með því bauðst þeim
að ljúka námi á framhaldsstigi í stað grunnnáms. Í þriðja lagi
lágu fjárhagslegar ástæður til grundvallar en með útskrift
framhaldsnema hafa greinar fengið fjárveitingu sem eru
mun hærri en með útskrift BA nema.
Nemar sem innritast í MLIS nám hafa engan grunn í grein-
inni, öfugt við þá sem innritast í rannsóknatengt MA nám.
Þess vegna er mikilvægt að tryggja að í gegnum námið öðlist
þeir styrka undirstöðu í grunnatriðum greinarinnar sem sé
ekki síðri en sú þekking sem nemar sem ljúka BA námi í
greininni tileinka sér. Þetta gerir það einnig að verkum að
mögulegt er að samkenna MLIS námið að hluta til með
BA náminu en að sjálfsögðu eru gerðar auknar kröfur til
MLIS nemanna varðandi lesefni, próf og verkefnavinnu,
auk þess sem þeir sækja fleiri tíma í flestum námskeiðum.
Þetta fyrirkomulag þekkist jafnframt víða, bæði í öðrum
námsgreinum við Háskóla Íslands og einnig í námi í
bókasafns- og upplýsingafræði við háskóla erlendis. Skipulag
MLIS námsins hefur þróast og tekið töluverðum breytingum
Framhaldsnám á meistarastigi í bókasafns- og
upplýsingafræði við Háskóla Íslands
Dr. Ágústa Pálsdóttir, dósent í
bókasafns- og upplýsingafræði,
félags- og mannvísindadeild
Háskóla Íslands