Bókasafnið - 01.09.2009, Qupperneq 10
10
Flokkunarhugtakið er tekið til athugunar og bókfræðileg
flokkunarkerfi skoðuð í sögulegu samhengi út frá straumum
og stefnum í þekkingarfræði á Vesturlöndum. Lýst er breyti-
legri hugmyndafræði og viðhorfum til flokkunar á hverjum
tíma. Loks er fjallað er um nýjar hugmyndir og þörf fyrir
sveigjanleg flokkunarkerfi í rafrænu umhverfi.
Flokkunarhugtakið
Á hverri öld eða hverjum tíma kemur fram ný heimsmynd
og nýjar hugmyndir um flokkun mannlegrar þekkingar.
Heimsmyndin og hugmyndafræðin er ekki sú sama í hinum
vestræna heimi sem hér er til umfjöllunar og í öðrum heims-
hlutum.
Fyrir tíma ritlistar í hverju samfélagi geymdu menn
þekkingu í minni sínu, og til að geta kallað hana fram hafa
menn þurft að flokka hana þar niður á ákveðinn hátt. Hægt
er að gera sér grein fyrir þessu með því að athuga kvæði
og sögur og annan fróðleik sem upphaflega hefur verið í
munnlegri geymd en síðan verið festur á blað. Færð hafa
verið rök fyrir því að kvæði, sögur og frásagnir í munnlegri
geymd séu aðferðir til að miðla þekkingu áfram til komandi
kynslóða. Þessi þekkingarmiðlun er að miklu leyti bundin við
ákveðnar persónur og hlutverk þeirra í þjóðfélagsmyndinni
(Anderssen, Jack, 2003).
Meðal gömlu heimspekinganna var flokkun mikilvægt
hugtak í þekkingarfræði. Aristóteles, lærisveinn Platons og
faðir frumspekinnar, taldi það hlutverk heimspekinnar að
flokka hugtök, sem var forsenda rökfræðikenninga hans.
Hann taldi að flokka yrði frá hinu einstaka til hins almenna
og hann skipaði hugtökum í stigveldi (Ólafur Jens Pétursson,
1989, s. 50-61).
Flokkun er aðferð til að skipa þekkingu í kerfi. Hægt er að tala
um þrenns konar flokkun þekkingar, þ.e. í fyrsta lagi einfalda
tegundaflokkun sem allir nota í daglegu lífi, í öðru lagi
þekkingarfræðilega flokkun, sem er millistig milli einfaldrar
og vísindalegrar flokkunar. Í þriðja lagi er svo hin vísindalega
flokkun, sem notuð er til að skipa vísindalegri þekkingu í kerfi
(Hjørland, 1997). Einnig má tala um heimspekilega flokkun
annarsvegar og bókfræðilega flokkun hins vegar (Graarup,
2003).
Langridge (1976) greinir fjögur lögmál við flokkun
þekkingar, þ.e. hugmyndafræðilega flokkun, félagslega
flokkun, flokkun eftir altækum hugmyndum um skiptingu
í vísindagreinar og flokkun eftir eðli þekkingar fremur en
markmiðum eða viðfangsefnum menntunar.
Flokkunarkerfi byggjast á því að tengja hugtök. Önnur
mikilvæg atriði við flokkun eru reynsla og sérþekking (Graarup,
2003). Flokkun og flokkunarkerfi eru í hugmyndafræðilegu
samhengi við félagsleg tjáskipti, heimsmynd og menningu á
hverjum tíma. Tjáskiptatækni í ljósi sögunnar, þ.e. munnleg
geymd, skrift, prentlist og tölvutækni hefur haft mikil áhrif á
flokkun og flokkunarkerfi (Andersen, Jack, 2003).
Hin bókfræðilega flokkun er viðfangsefni bókasafns- og
upplýsingafræðinnar. Hún er undirskipuð og háð þeirri
vísindalegu eða heimspekilegu. Hún er ekki flokkun fyrirbæra
heldur rita eða gagna sem fjalla um þau.
Bókfræðilegum flokkunarkerfum er yfirleitt skipt fyrst á
rökrænan hátt í fræðasvið eða efnissvið en síðan í tegundir
eða undirsvið sem tengjast innbyrðis. Flokkunarkerfið er
fyrirfram ákveðið kerfi þar sem þekkingu er skipað niður í
höfuðflokka, venjulega eftir fræðasviðum og innan þeirra eftir
skyldleika eða tengslum. Þekkingarsviðið er þannig hlutað
niður frá hinu stærra til hins smærra. Notandi flokkunarkerfis
getur valið um fyrirfram ákveðna möguleika. Mikilvægur
eiginleiki sem flokkunarkerfi hafa fram yfir efnisorðakerfi er
að geta lýst hugtökum á almennan hátt með því að nota til
þess yfirflokka.
Hugmyndafræði flokkunar – straumar og stefnur
Ólöf Benediktsdóttir