Bókasafnið - 01.09.2009, Qupperneq 12
12
bókasafnið
Hann taldi það mikinn vinnusparnað að hægt væri að finna
hverja bók á sínum stað í ákveðnum efnisflokki (Dewey, 1972).
Flokkunarkerfi Library of Congress kom fram skömmu
seinna og var byggt á Dewey kerfinu. Um 1895 fer af stað
hreyfing dokumentalista og farið er að hugsa fyrir sérhæfðum
kerfum fyrir vísindalega þekkingu. UDC kerfið sem samið var
með það fyrir augum að búa til kerfi fyrir sérfræðilega flokkun
er byggt á Dewey kerfinu og ber merki um sömu heimsmynd.
Það þótti mikil framför á sínum tíma sem kerfi fyrir sérfræði-
söfn en náði ekki að þróast í takt við tímann.
Þessi stóru almennu kerfi, sem reyna að spanna alla
heimsins þekkingu, hafa sett sitt mark á yngri kerfi og hefur
reynst erfitt að losa flokkunarkerfi undan þeirri heimsmynd
sem þau eru leifar af.
20. öldin
Eftir því sem þekking jókst á 20. öld varð stöðugt erfiðara
að hafa yfirsýn yfir þekkingarforðann og þörfin jókst fyrir
fræðilegar skilgreiningar á flokkun og sérhæfð kerfi á hinum
ýmsu þekkingarsviðum.
Indverjinn Ranganathan (1972) er talinn hafa átt stóran
þátt í nútímalegri hugmyndafræði flokkunarkerfa með því
að móta ákveðnar reglur til að fara eftir við flokkun. Hann
var stærðfræðingur og taldi að það væri affarasælast að nota
lögmál stærðfræðinnar við flokkun. Hann taldi nauðsynlegt
að undirbúa jarðveginn fyrir flokkun nýrrar þekkingar og til
þess væru rannsóknir nauðsynlegar og að það þyrfti að stofna
nýjar háskólastöður til að þróa nýjar töflur eða flokkunarkerfi.
Hann birti fyrstu útgáfu liðflokkunarkerfis síns árið 1933.
Ranganathan skipaði flokkunarfræðum niður á þrjú svið:
Hugmyndafræðilegt svið• (idea plan) þ.e. skilgreining
efnisins og skipting þess í liði eftir hinum fimm
grundvallarhugtökum sem hann lagði til að gætu verið
persónuleiki, efni, orka, rúm og tími (PMEST).
Munnlegt svið• (verbal plan) þar sem unnið er úr
hugmyndunum og þær mótaðar í orð.
Skrásetningarsvið• (notational plan) þ.e. hvernig töflurnar
eru byggðar upp með bókstöfum, tölustöfum og
greinarmerkjum.
Hann setti þrjár matsreglur um flokkun þ.e. útskýringar
(analyty), forsendur (postulate) og stak (isolate) í samsettu
efni.
Bandaríkjamaðurinn Henry Evlyn Bliss (1972) velti fyrir sér
tengslum heimspekilegrar eða vísindalegrar þekkingar annars
vegar og bókfræðilegrar þekkingar hins vegar og hvernig
hægt væri að laga þessar tvær tegundir flokkunar hvora að
annarri. Hann setti fram ítarlegar skilgreiningar á bókfræðilegri
flokkun og sagði m.a. að flokkar samsvöruðu hugtökum og
fræðiheitum. Flokkun hefði tvenns konar merkingu, þ. e. fyrst
og fremst að tengja staka hluti eftir líkindum en einnig að tengja
flokka. Hann talaði um raun (real) flokka og náttúrulega flokka
og að flokkun náttúrlegra hugtaka væri venjulega stöðugri en
flokkun tilbúinna eða huglægra hluta. Bliss skilgreindi einnig
hvernig flokkun byggðist á undir- og yfirflokkun, stigveldi,
samræmi, sérhæfingu o.s.frv.
Gagnrýni annars Bandaríkjamanns, Jesse H. Shera (1972),
á ríkjandi hefðir í flokkunarfræðum árið 1953 lýsir ágætlega
ástandinu í flokkunarfræðum á þessum tíma. Hann setti
fram skilgreiningu á dæmigerðu hefðbundnu flokkunarkerfi.
Það væri listi hugtaka sem eru mismunandi á sértækan og
augljósan hátt, hæf til að lýsa efnisinnihaldi bókar, fela í
sér alla þekkingu, í línulegri röð, einstæð og mikilvæg og
sem venjulega væri hægt að raða bókum eftir í hillu með
aðstoð skýringarkerfis eftir rökrænum lögmálum kerfisins.
Samkvæmt þessari skilgreiningu væru slík kerfi rökfræðilega
út í hött.
Shera taldi að flokkunarkerfi væru eins gölluð og þau
voru fyrir 30 árum og að það yrði stöðugt augljósara vegna
þess að safnkostur hefði bæði aukist og væri orðinn flóknari
að samsetningu. Hann taldi UDC kerfi Paul Otlet og Henri
LaFontaine hafa verið fyrstu tilraun til að rjúfa hefðina en
hafi misheppnast af ýmsum ástæðum. Kerfi Ranganathans
hafi verið næsta mikilvæga tilraunin til endurbóta í flokkun
og að hann hafi gert sér ljósa grein fyrir takmörkunum
bókfræðilegrar flokkunar. Helsta framlag hans hafi verið að
líta á efni eða hugsun sem einingu í flokkun en ekki bók eða
rit. Ranganathan hafi samt fallið í sömu gryfju og forverar hans
með því að nota töflur úr Dewey og UDC kerfinu og að kerfi
hans hafi orðið of flókið og festst í stigveldi. Að dómi Shera
gerði sprenging í útgáfu tímarita takmarkanir hefðbundinna
flokkunarkerfa enn ljósari. Með nýjum vísindagreinum, sem
fram komu eftir seinna stríð, hafi aðrir en bókaverðir fundið
þörf fyrir nýjar lausnir við flokkun. Helstu niðurstöður Shera
eru þessar í stuttu máli:
Flokkun snýst um „efni“.•
Forðast ber að festast í stigveldi.•
Þekking þróast.•
Flokkun verður að vera óháð eigindum eða formi •
safngagna.
Bókaverðir verða að huga að innihaldinu en ekki formi •
eða hillum.
Flokkun snýst um hugsun en ekki bækur, tímarit eða •
önnur form safnefnis.
Shera taldi í samræmi við þetta að hefðbundin flokkunarkerfi
hefðu gengið sér til húðar. Það væru ekki til nein altæk
flokkunarkerfi því það væri ekki til neitt altækt bókasafn. Hann
taldi jafnframt að hilluröðun ætti að vera sem hentugust fyrir
hvert safn, jafnvel einföld stafrófsröð gæti hentað ágætlega á
sumum stöðum.
Nýlegar kenningar um flokkun
Á síðari hluta 20. aldar og í upphafi þeirrar 21. má segja að
vísindalegar kenningar um þekkingarstjórnun og flokkun
bæði almennt og í einstökum greinum hafi blómstrað.
Fyrstu vísar að tölvuvæddum gagnasöfnum komu fram
um 1950 og breyttu hugmyndum manna um flokkun og