Bókasafnið - 01.09.2009, Page 19
19
bókasafnið
hlutverk í fyrstu stefnumörkun um upplýsingaþjóðfélagið.
Yfirmarkmið og þungamiðja stefnumörkunar ríkisstjórnar-
innar er samkvæmt ritinu Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um
upplýsingasamfélagið að „Íslendingar verði í fararbroddi þjóða
heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og
aukinnar hagsældar“ (Ríkisstjórn Íslands, 1996, bls. 15). Þar er
meðal annars gert er ráð fyrir að:
Bókasöfn þróist í alhliða upplýsingamiðstöðvar sem
tryggi öllum viðskiptavinum sínum greiðan aðgang að
upplýsingum á tölvutæku formi, m.a. með tengslum
við innlendar og alþjóðlegar fræðslumiðstöðvar og
upplýsingaveitur. Jafnframt fái viðskiptavinirnir vegsögn
um nýjustu tækni við leit og notkun upplýsinga. Áhersla
verði lögð á að bóka- og tímaritaskrár bókasafna landsins
verði öllum aðgengilegar í rafrænu formi (Ríkisstjórn
Íslands, 1996, bls. 18).
Í kaflanum um menntun, rannsóknir og menningu er
mikil áhersla lögð á upplýsingatækni, það er nýtingu kosta
hennar, og kemur hugtakið fyrir í 10 af 12 undirmarkmiðum
(Ríkisstjórn Íslands, 1996, bls. 21). Í álitsgerð starfshópa sem
var fylgirit stefnunnar er sérkafli um bókasöfn (kafli 4.3
Bókasöfn) þar sem eftirfarandi kemur meðal annars fram:
Bókasöfnum er ætlað mikilvægt hlutverk við að innleiða
upplýsingatækni og veita almenningi, skólum og
rann sóknastofnunum aðgang að upplýsingalindum
heimsins. Síðan er í sömu málsgrein fjallað sérstaklega
um mismunandi safnategundir og um skólasöfn segir:
Skólasöfn ættu að tryggja að nemendur læri að nýta hvers
kyns upplýsingatækni við upplýsingaleit og geti unnið
sjálfstætt og skipulega úr mismunandi gögnum (Íslenska
upplýsingasamfélagið, 1996, bls. 19).
Stefnunni var svo fylgt eftir með ítarlegri stefnuritum
eins og Í krafti upplýsinga. Tillögur menntamálaráðuneytisins
um menntun, menningu og upplýsingatækni 1996-1999. Þar
var fjallað nánar um hlutverk bókasafna og meðal annars
gert ráð fyrir að eitt af hlutverkum skólasafna sé að veitt
sé fræðsla á sviði upplýsingaöflunar og upplýsingatækni
(Menntamálaráðuneytið, 1996). Ritið er mjög yfirgripsmikil
og vönduð stefnuskrá. Óneitanlega minnir titillinn á ritið
Information Power sem Bandarísku skólasafnvarðasamtökin
(American Association of School Librarians) og Félag um
fjarskipti og tækni í skólum (Association for Educational
Communications and Technology) gáfu fyrst út árið 1988.
Vissulega eru það orð að sönnu að mikill kraftur – og á
stundum vald – býr í upplýsingum og þekkingu.
Árið 2001 gaf menntamálaráðuneytið út verkefnaáætlun
í rafrænni menntun 2001-2003 undir titlinum Forskot til
framtíðar. Meðal annars er lögð áhersla á dreifmenntun sem
auki jafnrétti og aðgengi allra til náms og skapi áður óþekkt
tækifæri til menntunar (bls. 3). Þar segir að vefurinn menntagatt.
is hafi verið opnaður og sé gagnagrunnur með upplýsingum
um námsefni. Jafnframt er meðal annars lögð áhersla á að öll
bókasöfn í landinu tengist í einu bókasafnskerfi, á stafrænt
efni og aðgengi að bókakosti og fjölbreyttu stafrænu efni
(Menntamálaráðuneytið, 2001, bls. 11). Flest af þessu virðist
hafa gengið eftir, til dæmis var Gegnir.is, samskrá íslenskra
bókasafna opnaður í maí 2003.
Ný stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingamál var svo
gefin út í mars 2004 (gilti til 2007) undir titlinum Auðlindir í
allra þágu. Í inngangi kemur meðal annars fram að miðpunktur
umræðunnar eigi að vera hvernig borgarar landsins „geti
haft ávinning af tækninni til að bæta líf sitt og auka hagsæld
samfélagsins“ (Ríkisstjórn Íslands, 2004, bls. 4). Mikil áhersla er
eigi að síður lögð á upplýsingatæknina og nú bregður svo við
að bókasöfn eru ekki nefnd. Í framhaldi af útgáfunni var stefna
menntamálaráðuneytisins um upplýsingatækni í menntun,
menningu og vísindum 2005-2008 gefin út ári síðar undir
titlinum: Áræði með ábyrgð (Menntamálaráðuneytið, 2005).
Þar er áhersla lögð á að örugg og öflug upplýsingatækni sé
verkfæri til fjölbreyttra tækifæra og aukinna lífsgæða. Stefnan
byggir á þeirri framtíðarsýn að: „Allir hafi tækifæri til að
tileinka sér nauðsynlega færni og taka á eigin forsendum þátt
í samfélagi upplýsinga og þekkingar“ (bls. 8). Fjallað er um
upplýsingalæsi og það skilgreint sem „færni í að nýta sér tölvur
og upplýsingatækni til að afla sér upplýsinga og þekkingar
sem og getu til að vinna úr upplýsingum á gagnrýninn og
Svipmynd frá Bókasafni Vogaskóla. Ljósmynd: Berglind Guðmundsdóttir.