Bókasafnið


Bókasafnið - 01.09.2009, Side 26

Bókasafnið - 01.09.2009, Side 26
26 bókasafnið má þó einnig skilgreina þröngt eða það sem í hefðbundnum skilningi er kallað listir. Í rannsókn minni miðast umfjöllunin við þá nálgun og þá einkum sjónlistir. Stefna íslenskra stjórnvalda í menningarmálum er að hluta til forskrifuð, en hefur sjálfsprottna nálgun þegar kemur að listrænum áherslum, frelsi til listrænnar tjáningar og skapandi starfi. Forskrifaðri stefnu er einkum ætlað það hlutverk að skapa farveg fyrir listræna starfsemi án þess að hlutast sé til um innihald, og einkennist fremur af markmiðum en leiðum til að ná þeim. Með lögum, árangursstjórnunarsamningum og fjárlögum leggja stjórnvöld ákveðnar línur sem menningarstofnanir þurfa að taka tillit til með einum eða öðrum hætti. Þegar því sleppir er lögð áhersla á skapandi starf og sjálfstæði þeirra sem það vinna fremur en meiriháttar stefnumótun. Starf listamanna snýst oftar en ekki um sköpun, nýjungar og tilraunastarfsemi. Grasrótin þarf því frelsi til listrænnar tjáningar, þar sem sjálfsprottin nálgun er mikilvæg og fastmótuð stefna getur jafnvel orðið óæskileg. Hlutverk forystunnar verður því að stýra hvar, fremur en hvernig „áin á að renna“. Íslensk menningarstefna er mestmegnis mótuð samkvæmt arkitektalíkani (e. architect model) Chartrands, þar sem stuðningur við menningu og listir er talinn hafa samfélagslegt og lýðræðislegt gildi (Chartrand og McCaughey, 1989). Litið er á menningu sem hluta af almennu velferðarkerfi og er áhersla lögð á að tryggja aðgengi allra. Stuðningur ríkisins við listastarfsemi hér á landi beinist fyrst og fremst að atvinnulistamönnum og listastofnunum sem byggja á starfsemi þeirra (Menntamálaráðuneytið, 2007). Arkitektinn leyfir vissa pólitíska íhlutun í gegnum ráðuneyti, en einnig ákvarðanir í gegnum listráð sem eru óháð stjórnvöldum (Duelund, 2003). Fjárveitingum úr sjóðum hér á landi er ætlað að vera á faglegum grunni. Fagráð ákveða yfirleitt framlög til einstakra listamanna, samanber starfslaun til myndlistarmanna og starfa samkvæmt reglu hæfilegrar fjarlægðar. Regla hæfilegrar fjarlægðar (e. arm’s length principle) hefur átt fylgi að fagna í menningarmálum bæði hér á landi og í nágrannalöndunum (Duelund, 2003). Upphaf reglunnar má rekja til stofnunar Arts Council of Great Britain árið 1945, þar sem henni var ætlað að koma í veg fyrir pólitísk afskipti menningarmála eins og tíðkast hafði í Sovétríkjunum og Þýskalandi Hitlers. Grunnhugmyndin að reglu hæfilegrar fjarlægðar er sú að stjórnmálamenn skuli ekki hafa afskipti af fjárveitingum til menningarmála að öðru leyti en því að ákveða tiltekna fjárhæð. Markmiðið er að halda stjórnmálamönnum og embættismönnum í hæfilegri fjarlægð og draga þannig úr líkum á pólitískum þrýstingi. Einnig að koma í veg fyrir íhlutun þeirra sem ekki hafa „vit á“ listum og tryggja að gæðamat sé í höndum sérfræðinga (Chartrand og McCaghey, 1989). Á tíunda áratug síðustu aldar komu fram hugmyndir um breytta stjórnunarhætti undir yfirskriftinni nýskipan í ríkisrekstri (Fjármálaráðuneytið, 1993). Með tilkomu þessa hafa m.a. menningarstofnanir þurft að bregðast við og aðlagast breyttum aðstæðum. Samkvæmt hugmyndafræði nýbreytninnar er gert ráð fyrir því að stjórnvöld móti farveginn, setji stefnu og sinni eftirliti út frá forskrifaðri nálgun, jafnframt því að auka valddreifingu til stofnana. Enda þótt áherslan sé á „skapandi starf og sjálfstæði þeirra sem það vinna“ hafa stjórnvöld með tilkomu nýrra stjórnunaraðferða einnig lagt ríkari áherslu á formlega stefnumótun stofnana í anda forskrifaðrar nálgunar. Stefna listbókasafna og helstu áhrifaþættir Eins og áður segir eru íslensk listbókasöfn yfirleitt lítil. Tvö þeirra sem umfjöllunin snýst um eru einmenningssöfn og annað þeirra hefur einungis starfsmann í hlutastarfi. Við slíkar aðstæður má telja ólíklegt að jafn mikið sé lagt upp úr formlegri stefnumótun eins og á stærri söfnum með flóknari verkaskiptingu. Enda kemur í ljós að áhersla á nákvæma forskrifaða stefnu hefur verið mismikil. Þó má merkja aukinn áhuga í þá áttina og er það í anda breyttra tíma. Þar sem skjalfest stefna er fyrir hendi, einkennist hún fremur af markmiðum en leiðum, en skapar þó óneitanlega ákveðinn ramma til að vinna eftir. Forskrifuð nálgun birtist einkum í heildarstefnu, aðfangastefnu og jafnframt í lögum og reglugerðum. Enda þótt mismikil áhersla hafi verið lögð á formlega stefnu hingað til er ekki þar með sagt að söfnin hafi liðið fyrir stefnuleysi. Starfsemi allra safnanna tekur mið af stefnu hvort sem hún er skjalfest eða ekki, markar breytingar eða áframhald þess sem verið hefur. Stefna listbókasafna mótast meir af framkvæmd en formlegum áætlunum, ferli og eftirliti. Stefnan hefur því sjálfsprottna nálgun sem á sér stoð í hefðum og venjum, samráði og sveigjanleika og tekur mið af aðstæðum hverju sinni. Stueart og Moran (2002) telja einmitt að öll bókasöfn hafi stefnu, hvort sem hún er skjalfest eða ekki og í stað skjalfestrar stefnu eða til að bæta hana upp, skapist oft stefna sem byggi á hefðum og venjum. Umhverfi er talið mikilvægur áhrifaþáttur þegar kemur að mótun stefnu. Forskrifuð nálgun er talin henta betur í stöðugu umhverfi og fyrirsjáanlegu, meðan sjálfsprottin nálgun er talin henta betur stofnunum sem starfa í síkviku umhverfi (Mintzberg og Waters, 1985). Umhverfi listbókasafna er sambland af hvoru tveggja. Það er fyrirsjáanlegt í þeim skilningi að þetta eru skipulagsheildir sem standa á nokkuð gömlum merg og búast má við að starfi áfram. Listbókasöfn eru samofin starfsemi þeirra lista- og menningarstofnana sem þau tilheyra og hlutverk þeirra er fyrst og fremst að þjóna. Þetta kemur glöggt fram t.d. í aðfangastefnu safnanna og áherslu á söfnun og varðveislu þeirra gagna sem varða sögu móðurstofnunar. Starfsemi listastofnana snýst um listsköpun sem oftar en ekki hrærist í umhverfi sem er síkvikt og ófyrirséð. Byrnes (2003) telur að áætlanagerð þurfi þess vegna að vera sveigjanleg og opin fyrir nýjungum og breytingum. Svipað gildir þá um áætlanir bókasafna listastofnana. Starfsumhverfi bókasafna hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og viðbúið er að breytingar verði viðvarandi. Tækninýjungar hafa gjörbreytt miðlun upplýsinga og m.a. skapað samkeppni um viðskiptavini. Treacy og Wiersema (1993) telja mikilvægt að tryggja stöðu sína með því að leggja áherslu á afmarkaðan hóp viðskiptavina og bjóða upp á nýjungar. Listbókasöfnin sem hér um ræðir hafa

x

Bókasafnið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.