Bókasafnið - 01.09.2009, Qupperneq 38
38
Um bókasafn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands
Þórhildur S. Sigurðardóttir
Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands
Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands voru sameinaðir
í eina stofnun þann 1. júlí 2008. Samtímis var deildum
innan HÍ skipt á fimm fræðasvið: Félagsvísindasvið,
Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið
og Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
Menntavísindasvið hýsir nokkurn veginn sömu námsleiðir
og áður voru í Kennaraháskóla Íslands að viðbættri m.a.
uppeldis- og menntunarfræði sem flyst yfir á Menntavísinda-
svið í haust en var áður innan Félagsvísindadeildar HÍ. Sviðið
nýtir sama húsnæði og KHÍ áður, við Stakkahlíð, í Skipholti og
á Laugarvatni.
Þegar farið var að undirbúa sameiningu HÍ og KHÍ voru
stofnaðar verkefnishópar um ýmsa þætti sameiningarinnar.
Þeirra á meðal var verkefnishópur um upplýsingatækni,
safnþjónustu og kennsluþróun og var Kristín Indriðadóttir,
þá framkvæmdastjóri Menntasmiðju KHÍ, formaður hópsins.
Hópurinn skilaði skýrslu og tillögum í október 2007 og
lagði m.a. til að þegar í stað verði ráðist í að greina þarfir
sameinaðs háskóla á sviði upplýsingatækni, safnþjónustu
og kennsluþróun og að á grundvelli þeirrar greiningar og
núverandi stöðu móti HÍ sér stefnu til framtíðar.
Hópurinn lagði einnig fram tillögur til skemmri tíma í 17
liðum. Til dæmis var lagt til að starfseiningarnar sem fjallað
var um í skýrslunni störfuðu áfram með sama sniði og áður
þar til stefnumótunarvinnu væri lokið. Þær ættu jafnframt að
leitast við að finna leiðir og lausnir til að samþætta starfsemi
sína og til að þjóna nemendum og starfsfólki hins sameinaða
háskóla.
Verkefnisstjórn sameiningar fjallaði um tillögur hópsins
og lagði áherslu á að sú öfluga stoðþjónusta sem veitt var
í KHÍ, einkum á vettvangi Menntasmiðju, yrði ekki skert
við sameininguna heldur fengi að þróast í takt við áherslur
nýs Menntavísindasviðs. Raunar taldi verkefnisstjórnin
fyrirkomulag þjónustunnar í Menntasmiðju vera til eftirbreytni
fyrir fræðasvið hins sameinaða háskóla.
Í sameiningarferlinu lögðu nemendur og kennarar
KHÍ einmitt mikla áherslu á að halda í stoðþjónustuna í
Stakkahlíðinni, ekki síst í þjónustu Menntasmiðju, þ.e. safns
og smiðju, enda ljóst að ekki yrði flutt strax vestur á Mela í
nágrenni við þjónustustofnanir HÍ.
Svo fór að ákveðið var að bókasafnið yrði, a.m.k. fyrst um
sinn, rekið áfram á Menntavísindasviði með svipuðu sniði og
verið hefur og er það nú með sérfjárveitingu innan sviðsins.
Nokkrar breytingar hafa hins vegar orðið á verkefnum og
þjónustu í smiðju (sem nú er kölluð Menntasmiðja).
Bókasafn Menntavísindasviðs HÍ
Bókasafn Menntavísindasviðs HÍ er sem áður sérfræðisafn á
sviði kennslu, uppeldis, umönnunar og þjálfunar og á einkum
að þjóna starfsliði og nemendum sviðsins en er jafnframt, sem
eitt af söfnum HÍ, opið öllum starfsmönnum og nemendum
skólans sem og öðrum sem eiga erindi við efniskostinn. Og
sem áður er stefnan að bókasafnið og starfsmenn þess sé
ávirkur bakhjarl sem styður með margvíslegum hætti við
rannsóknir og kennslu á sviðinu.
Í bókasafninu er sérstakt kennslugagnasafn sem m.a. hýsir
sýningu á öllu námsefni frá Námsgagnastofnun og bókasafnið
er einnig miðstöð samstarfs verkefnastjóra vettvangsnáms við
heimaskólana sem eru samstarfsskólar Menntavísindasviðs.
Kunn eru markmið Háskóla Íslands að komast í hóp
hundrað bestu háskóla heimsins. Til að ná þeim markmiðum
þarf Háskólinn öfluga stoðþjónustu, m.a. bókasafn eða
bókasöfn sem hafa á að skipa kröftugu og meðvituðu
starfsfólki sem með sinni sérfræðiþekkingu greiðir leið
kennara og fræðimanna að rannsóknum og upplýsingum
alls staðar að. Forseti Menntavísindasviðs hefur t.d. lagt
sérstaka áherslu á að starfsmenn bókasafnsins finni og kynni
norrænar rannsóknir á sviði uppeldis- og menntamála. Brýnt