Morgunblaðið - 04.05.2015, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 04.05.2015, Blaðsíða 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 4. MAÍ 2015 Við Páll urðum stúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri hinn 17. júní 1965. Síðari hluta þeirrar skólagöngu var Páll farinn að hug- leiða ráðandi þætti mannlegrar hugsunar og breytni með fram- haldsnám í huga. Þann áhuga má ugglaust rekja að nokkru til heim- spekilegrar orðræðu hins tilfinn- inganæma mannvinar Þórarins Björnssonar skólameistara en einnig vöktu sum ritverka Sigurð- ar Nordal áhuga Páls. Samræður okkar Páls beindust því oftar en ekki inn á þær brautir og á heimili hans átti ég margar góðar stundir. Næstu ár, þegar Páll var við há- skólanám í Belgíu, áttum við sam- skipti bréflega. Þar fékk ég meðal annars að njóta hugleiðinga hans um frönsku skáldin Albert Camus og Jean Paul Sartre. Heimkominn hóf Páll kennslu við Háskóla Ís- lands og varð einn brautryðjenda í mótun heimspekikennslu þar. Það vakti einkum aðdáun mína hversu vel honum tókst að setja þau fræði fram á góðri íslensku þannig að skiljanleg væru bæði lærðum og leikum. Fjölmörg ritverk hans munu verða óbrotgjarn minnis- varði þar um. Í samræðum okkar Páls þurfti ekki að gera ráð fyrir afdráttarlausum svörum frá hon- um. Mögulegar lausnir voru vissu- lega til staðar en að baki þeirra kviknuðu nýjar spurningar. Þar vorum við ef til vill á slóð föru- manns á Sprengisandsleið til byggðar á Norðurlandi. Myndi hún sjást frá næstu hæð? Nei! því þá birtist önnur með nýju nærum- hverfi. Eftir nokkrar endurtekn- ingar sást til byggðarinnar en þá vaknaði stærri spurning. Hvað var það sem glitti í að baki henn- ar? Samræður við Pál kveiktu mér nýjar hugmyndir og viðhorf. Ætl- anir um fleiri samverustundir okkar á eftirlaunaskeiði brustu með veikindum hans. Þá naut hann sem ætíð stuðnings traustr- ar eiginkonu og von lifði um bata. Sú von brást, Páll er horfinn en minningin um þann góða vin mun veita mér gleði til lokadags. Kæra Auður! ég sendi þér, börnum og barnabörnum ykkar Páls og öðr- um aðstandendum innilegar sam- úðarkveðjur. Björn Pálsson. Þegar Páll Skúlason kom heim frá námi tókst honum, ásamt sam- starfsmönnum sínum, ekki aðeins að setja á laggirnar námsbraut í heimspeki til BA-prófs nánast úr engu, heldur stóðst námsbrautin fyllilega samjöfnuð við sambæri- legar stofnanir víða erlendis. En að auki sameinaði þessi náms- braut ólíkar og jafnvel andstæðar stefnur í heimspeki og hefur búið að því síðan. Páll var sjálfur fulltrúi evrópskrar heimspeki, sér í lagi túlkunarheimspekinnar, og horfði vítt á menningu, vísindi, trúarbrögð og listir. Þessa víðu sýn á samband heimspekinnar við aðrar fræðigreinar nýtti hann þegar hann lagaði kennslu í heim- spekilegum forspjallsvísindum að breyttum þörfum Háskólans, og í því námskeiði þróaði hann margar hugmyndir sínar, einkum þó þær sem lúta að gagnrýninni hugsun. Er enn haft á orði hvernig hann krotaði út töfluna með hugtökum, skýringarmyndum, pílum og örv- um, uns allt yfirborðið var þakið óreiðukenndum hugmyndum. Þá kom ef til vill hinn margrómaði hæfileiki Páls til að skipta hlutun- um í þrennt í góðar þarfir. Hann lét þó ekki við það sitja að treysta grundvöll heimspekinnar inn á við, heldur leit svo á að heim- spekin ætti hlutverki að gegna út á við. Bók hans, Pælingar, mark- aði ákveðin þáttaskil í því efni og gerði mikið til að færa heimspeki hans til almennings. Páll var ötull fyrirlesari, hugmyndaríkur og ófeiminn við að koma skoðunum sínum á framfæri. Hann hafði ótvíræða leiðtogahæfileika og því kom það ekki á óvart að hann skyldi kjörinn rektor Háskóla Ís- lands. Í rektorstíð sinni notaði hann tækifærið til að reka erindi heimspekinnar við almenning og íslenskt þjóðfélag hvenær sem til- efni gafst. Að rektorstímabilinu loknu kom Páll aftur til starfa við námsbrautina eins og ekkert hefði í skorist og kenndi nokkur nám- skeið við góðan orðstír. Auk þess að kenna og ræða hugmyndir klassískra heimspek- inga og tala máli heimspekinnar í samfélaginu stundaði Páll frá upp- hafi sína eigin heimspeki, fór eigin leiðir og lét fátt aftra sér við þá iðju, enda var hans líf og yndi þar sem heimspekin var. Hann lét sér ekkert mannlegt óviðkomandi á því sviði, þó að náttúran, hugsun- in, stjórnmálin og háskólamálin væru þar efst á blaði. Hugmynd- um Páls um þessi efni geta les- endur kynnst í nýlegum bókum hans. Hann átti mikið efni í fórum sínum og fjölda nýrra hugmynda. Eftir að hann veiktist og sá fram á óvissa tíma naut hann aðstoðar fá- einna ungra heimspekinga við að búa til prentunar bækur sínar. Það er einkennilegt að hugsa sér heimspekina við Háskóla Ís- lands án Páls Skúlasonar og í viss- um skilningi er það ekki hægt. Páll var óþreytandi í áhuga sínum á heimspekinni, honum var það kappsmál að hefja skynsamlega rökræðu upp yfir dægurmálin, hann var alltaf óragur við að varpa fram hugmyndum til umræðu og hafði óbilandi trú á gildi rökræðu og heimspekilegrar hugsunar, jafnt fyrir velferð hvers einstak- lings sem almannahag. Námsbraut í heimspeki við Há- skóla Íslands, Björn, Erlendur, Eyja, Gunnar, Henry, Mikael, Róbert, Salvör, Sigríður, Svavar Hrafn, Vilhjálmur. Gæfa var það að fá að kynnast Páli Skúlasyni með mismunandi hætti á ólíkum tímabilum. Fyrst voru kynni menntskælingsins af heimspekiverkum hans. Þótt ung- lingurinn hafi botnað mátulega í umfjöllunarefninu, meðal annars flóknum kenningum Hegels og annarra heimspekinga um tengsl hugsunar og veruleika, þá tókst Páli að vekja með honum ein- hverja undarlega eftirvæntingu eða löngun eftir að skilja – eftir að koma hlutunum heim og saman. Þau áhrif áttu þátt í að breyta lífi mínu, og ég veit að svo var einnig um marga aðra. Þá voru það kynnin af kennaranum Páli. Minn- isstæðastir eru persónutöfrar og að því er virtist áreynsluleysi fyr- irlesarans Páls; gjarnan hélt hann leiftrandi fyrirlestra um marg- slungin efni án þess að styðja sig nema að litlu leyti við nótur. Næst var það reynslan af Páli sem samstarfs- og yfirmanni á Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Sú reynsla opinberaði mildan og húmorískan en líka ákveðinn stjórnanda sem vann markvisst að því að efla fræðslu og umræðu í samfélaginu um siðferði og sið- fræði. Hún leiddi líka í ljós stjórn- mála- og athafnamanninn Pál, sem naut þess að leiða fólk úr ólík- um áttum til samstarfs, og há- skólamanninn sem vildi efla æðri menntun í landinu. Þessu næst voru það kynnin, gegnum vinatengsl við Kolbrúnu og Róbert, af gæfumanninum Páli sem eiginmanni og fjölskylduföð- ur; farsæld er orðið sem á best við um þennan þátt í lífi hans. Loks er það svo samstarfið við Pál nú síðustu vikurnar fyrir and- látið. Atorkan og vinnusemin sem hann sýndi í alvarlegum veikind- um var einstök. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að eiga samræður við Pál þessa síðustu daga um aðal- ástríðuna í lífi hans – heimspekina. Páll trúði því að við værum skyn- semisverur sem gætu leitað heild- arskilnings á tilverunni og skapað saman réttlátt samfélag. Undir lok eins samtals okkar leit hann á mig alvarlegur í bragði og sagði: Það er létt að gera lítið úr þeim sem hafa hugsjónir – það er miklu auðveldara að rífa manneskjuna niður en að hafa trú á möguleikum hennar. Heimspeki Páls er full af von og trú á möguleika okkar til að hugsa og lifa saman sem skynsam- ar verur á jörðinni. Þess vegna á hún erindi við okkur um ókomin ár. Við Ástríður sendum Auði og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur. Jón Ásgeir Kalmansson. Páll Skúlason bjó, ásamt Mika- el Karlssyni og Þorsteini heitnum Gylfasyni, til íslenska heimspeki eins og við þekkjum hana nú. Þá á ég ekki einungis við að hann hafi búið til heimspekina sem háskóla- fag, sem er óumdeilt, heldur að þessir þrír bjuggu til þann sér- staka hugsunar- og ritunarhátt sem nú gengur undir nafninu „ís- lensk heimspeki“. Í vissum skiln- ingi er öll íslensk heimspeki neð- anmálsgreinar við skrif Páls og samverkamanna hans. Það er ekki ómerkur bautasteinn. Flestir heimspekingar hafa tekið út þroska um fertugt og eyða afganginum af ferlinum í að fín- pússa þær skoðanir sem þeir hafa þá þegar tileinkað sér. Páll var undantekning. Hann var í sífelldri framþróun sem heimspekingur og skrifaði mörg bestu verk sín á síð- ustu tveimur áratugum ævinnar. Hugur hans var fullvirkur fram í andlátið: þrunginn síkviku mann- viti. Hann var, auk þess að vera at- vinnuheimspekingur, það sem enskir kalla „man of letters“: lær- dómsmaður. Mörg útvarpsviðtölin við Pál eru klassísk, ekki síst þau sem Ævar Kjartansson tók. Páll var ekki maður fílabeinsturnsins og átti ekki í erfiðleikum með að tala við fólk. Ég átti ekki von á að hugsuður eins og Páll yrði atkvæðamikill há- skólarektor. En þar skjátlaðist mér hrapallega. Hæfni Páls sem mannasættis, góðgirni hans og færni til að laða það besta fram úr samstarfsfólki gerði hann að ein- hverjum besta rektor HÍ sem sög- ur fara af. Sú staðreynd styrkir mig í þeirri skoðun að það sé megn ógæfa Íslendinga að ekki tókst að telja Pál á að fara í framboð til for- seta lýðveldisins. Það hefði ekki verið amalegt að hafa Pál í forsæti þjóðarinnar á viðsjálum hruntím- um. Páll kenndi mér heimspeki í HÍ og leiðbeindi mér með BA-ritgerð. Þá og jafnan síðar, í margvísleg- um samskiptum á nótum heim- spekinnar, reyndist hann mér heilráður og góðráður. Ég á engar minningar um Pál nema ljúfar og tel hann með grómlausustu og spakvitrustu mönnum sem ég hef kynnst. „Hugsanir manns eru hrímp- erlur / stuttrar nætur / á stráum“ kvað skáldið. Hin stutta nótt Páls er liðin. En hrímperlur hugsana hans halda áfram að glitra í ársól- inni. Kristján Kristjánsson, Háskólanum í Birmingham. Síðasta vetrardag lauk langri vetrarferð Páls Skúlasonar. Í erf- iðum veikindum fann hann skjól í heimspekinni og vann af kappi að skrifum og útgáfu verka sinna, sýndi ótrúlegan andlegan styrk og æðruleysi. Páll var faðir akademískrar heimspeki á Íslandi. Hann var fyrsti prófessor greinarinnar eftir að farið var að bjóða upp á nám í heimspeki til BA-prófs. Hann var brautryðjandi í skipulagningu námsins og kenndi flestum þeim sem nú starfa við greinina hér á landi. Hann var líka faðir grein- arinnar í nærandi skilningi þess orðs. Hann var alltumvefjandi, áhugasamur og ráðagóður. Til Páls var alltaf gott að leita, hann hafði trausta dómgreind, var skarpur greinandi og bar hag ann- arra fyrir brjósti. Páll var persónulegur heim- spekingur. Hann smíðaði sínar eigin kenningar og gerði sér far um að nálgast heimspekileg vandamál út frá eigin hugsun. Honum var ætíð umhugað um að koma heimspekinni á framfæri við almenning og sýna hve miklu það skipti hvernig við hugsum um heiminn og öll okkar viðfangsefni. Hann hafði því sífellt vakandi auga fyrir því hvernig heimspekin og heimspekingar gætu lagt ís- lensku samfélagi gott til og hvatti okkur til dáða. Í þessum anda setti hann Sið- fræðistofnun á laggirnar árið 1988 en helstu verkefni hennar fyrstu árin voru að standa að málþingum fyrir almenning og gefa út bækur á íslensku um siðfræðileg við- fangsefni. Með því móti vildi hann svala áhuga fólks á siðfræði og sýna fram á erindi hennar við okk- ur í daglegu lífi. Sjálfur var hann afbragðsfyrirlesari og almennar vinsældir hans urðu til þess að strax á fyrstu árum stofnunarinn- ar festist hún í sessi í huga al- mennings. Páll var óvenju miklum gáfum gæddur sem einkenndi allt hans fas. Hann var glaðlyndur og hafði örlátt og viturt hjarta. Það er mik- il gæfa og forréttindi að hafa verið nemandi hans, kollegi og eiga hann að vini. Salvör Nordal. Okkur minnir að um 30 nem- endur hafi skráð sig í nám í fyrsta sinn sem heimspeki var kennd til BA-prófs við Háskóla Íslands. Kennararnir voru kornungir, Páll Skúlason og Þorsteinn Gylfason, nýkomnir úr námi. Nýnemar ætl- uðu að hugsa djúpt enda djúpt hugsandi. Þorsteinn Gylfason var rökfast- ur sögumaður og ótrúlega skemmtilegur kennari. En Páll? Við lásum ákveðið efni undir tíma hjá honum, vel und- irbúin, en fórum úr tíma gjörsam- lega ringluð. Páll byrjaði venju- lega á efni dagsins og síðan kom þögn. En óforvarandis vorum við komin út í allt aðra sálma, hugur og hugsun í uppnámi, svörin við spurningum okkar óræð, jafnvel fálmkennd, engin rökhugsun? Hvernig á maður að ná prófi? Einhvern veginn gerði Páll okkur að heimspekingum án þess að það þyrfti að mæla það í gráð- um. Hann splundraði hugsun okk- ar, lét okkur hugsa út fyrir getu og samtímis var hann að hugsa hvernig jörðinni og fólkinu sem á henni býr farnaðist best. Þegar við nemendur Páls lásum útgefin rit hans urðum við sannast sagna undrandi á því hversu hugs- un hans og framsetning var skýr. Hann gerði með einfaldri og skýrri málnotkun heimspeki að al- þýðumenntun, alþýðueign. Heimspeki er ekki snobbgrein fyrir fáa útvalda, hún er engin snobbforréttindi háskólamanna. Hún er fyrir okkur öll, ef við bara nennum. Elsku Auður, þakka þér fyrir hvað þú varst alltaf góð við okkur. Júlíana Lárusdóttir og Halldór Halldórsson. Í dag kveðjum við Pál Skúla- son. Hann var kjörinn rektor Há- skóla Íslands árið 1997 og stýrði skólanum um átta ára skeið til 2005. Kynni okkar hófust þegar ég tók sæti í háskólaráði Háskóla Ís- lands árið 1998 sem einn af fjórum fulltrúum stúdenta. Þetta voru umbrotatímar í sögu háskóla- starfs, ný lög í smíðum um Há- skóla Íslands þar sem meðal ann- ars var deilt um upptöku skólagjalda; Háskólinn í Reykja- vík var stofnaður um þetta leyti og háskólaumhverfið allt gekk í gegnum miklar breytingar. Páll stýrði skólanum í gegnum þessa breytingatíma þar sem fundir háskólaráðs voru umræðu- vettvangur um stór og smá mál. Hann gaf sér ávallt tíma til að hlusta á ólík sjónarmið og gjarnan dró hann umræðuna saman í lok- in, oft með því að nefna þrjú lyk- ilatriði eins og hann átti einnig til í kennslu sinni. Ég lærði það af honum að það getur verið rétt að skipta um skoðun og það er mikil- vægt að hlusta á aðra og halda áfram að læra alla sína ævi. Og við stúdentar glöddumst því að við fundum að hlustað var á okkar sjónarmið og mark á þeim tekið sem varð okkur hvatning til að beita okkur í málefnum skólans. Þegar ég gegndi embætti mennta- og menningarmálaráð- herra fannst mér einboðið að leita til Páls um ráð. Þar tók hann þátt í ráðgjafarhópi um stefnumótun í háskóla- og vísindamálum. Hann tók einnig þátt í vinnu við aðal- námskrá samfélagsgreina og lagði þar áherslu á þátt heimspeki og siðfræði í allri almennri menntun. Hann var mér einnig til ráðgjafar í smærri málum en ávallt þótti mér hann ráða mér heilt, af yfirvegun og yfirsýn þess sem hefur bæði þekkingu og ástríðu í menntamál- um. Samfélagið er fátækara að Páli gengnum enda munar um slíka rödd. Eftir hann liggja hins vegar mikil verðmæti í bókum og grein- um; það er mikilvægt að við leitum áfram í þann sjóð við uppbygg- ingu samfélags okkar. Eiginkonu, börnum og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína. Katrín Jakobsdóttir. Við Systa höfum verið svo lán- söm að fá að eiga Pál og Auði og fjölskyldu þeirra að okkar nánustu vinum í meira en 40 ár – eða „alltaf“ eins og Auður sagði. Við kynnt- umst þegar ég var nemandi Páls og upp frá því höfum við deilt lífinu saman í blíðu og stríðu, störfum og tómstundum, innanhúss og utan og á stundum upp um fjöll og firnindi og yfir djúpar og straumþungar ár. Páll var einlægur félagi, kær vinur og mikill fjölskyldumaður. Þau Auður voru samhent og góð hjón. Börnin þeirra og makar, barnabörnin og vinir þekkja það. Við skrif sín tók Páll mest mark á Auði, hún var hans helsti gagnrýn- andi, ráðgjafi og sálufélagi. Í glímu Páls við erfið veikindi mánuðum saman sýndu þau bæði hvað í þeim bjó og hver styrkur þeirra var, æðruleysi og bjartsýni. Hver þraut var viðfangsefni til að yfirstíga. Páll var einstakur maður, í leik og starfi, skipulagður og viljinn einbeittur, ódeigur við vandasöm verk og ávallt yfirvegaður og mál- efnalegur. Hann var jafnlyndur og glaðsinna, en undir bjó stórt skap, óbilandi þor og ríkur metnaður, í senn fyrir sig og sína, en ekki síð- ur fyrir mannlífið almennt, fyrir því að allir menn fái sem best lifað lífi sínu í sátt við sig, aðra menn og náttúruna. Það var hans vilji. Um það eru verkin hans. Páll kom fram við aðra eins og hann ætl- aðist til að aðrir kæmu fram við sig. Hann var einstaklega gjaf- mildur á hugmyndir sínar og tím- ann sem hann nýtti til hins ýtrasta með dyggri stoð Auðar allt þar til yfir lauk. Og verkin tala. Páll var í reynd margra manna maki sem lifði lífi sínu til fulls, naut þess út í ystu æsar og nýtti hverja stund, ef ekki við fræðimennsku eða önnur störf, þá við hestamennsku, ferðir um landið eða utan lands og alls- kyns ævintýri sem minningin lað- ar nú fram. Hann fór jafnan fremstur upp brattar hlíðar eða yfir illfærar ár og stóð svo hinum megin og teymdi okkur yfir með brosmildu augnaráði. Páll var góður kennari, fræði- maður og rektor, trúr háskóla- hugsjóninni sem hann lagði svo mikla rækt við. Markmið hans voru í senn háleit, raunsæ og rök- studd. Sem rektor var hann há- skólanum farsæll leiðtogi og sam- starfsmaður og um leið kröfuharður og harðastur við sig. Hann var rektor nótt sem nýtan dag, vakinn og sofinn. Samráð og samvinna einkenndu starfshætti hans. Hann beitti sér fyrir því að allir háskólar yrðu að lúta skýrum gæðakröfum, stuðlaði að eflingu rannsóknanáms, kom háskóla- fundinum á laggirnar, hafði for- ystu um að háskólinn setti sér heildstæða vísinda- og mennta- stefnu og stefnumið um einstök málefni. Og hann naut verðskuld- aðrar virðingar í samfélagi háskól- anna í Evrópu og víðar og var iðu- lega fenginn til að flytja fyrirlestra eða sinna störfum við gæðamat háskóla. Við Systa, Andrés og Ásgeir söknum Páls og erum einkar þakklát fyrir að hafa eignast vin- áttu hans og Auðar. Það hefur ver- ið gæfa að fá að ferðast með þeim í gegnum lífið. Páll verður ávallt með okkur. Við kveðjum kæran vin og samstarfsmann og vottum Auði, börnunum, barnabörnum og vinum okkar dýpstu samúð. Þórður Kristinsson. Lífsleið allra er vörðuð kenni- leitum, viðburðum og fólki, sem ráðið hefur stefnu og æviverkum manns. Páll var frá því við vorum sex ára og allt til dauðadags slík stefnumarkandi varða í mínu lífi. 19. apríl síðastliðinn ræddum við saman um hlutverk ljóðsins í lífinu og var ljóðavarðan ein af mörgum vegvísum sem hann benti mér á fyrir löngu, þannig eignað- ist hjarta mitt ljóðið og það varð mér að vefnaði margra tónklæða. Hetjan Páll var sex ára kominn í sjöttu rim stigans sem hafði verið reistur við svalirnar á Þórunnar- stræti 104 á Akureyri án þess að feður okkar og starfsfélagar tækju eftir, enda uppteknir við flutninga. Þetta afrek líður mér seint úr minni, enda hefur Páll alltaf með verkum sínum og atgervi endur- unnið sér stað hetjunnar í mínum augum. Sterkari, nánari og hollráðari vin er vart hægt að eignast. Hann studdi mig og eiginkonu mína af fullkominni einlægni og væntum- þykju á þeirri erfiðu leið sem við lentum á vegna veikinda minna og margs háttar erfiðleika í kjölfarið. Æðruleysi, ræktarsemi og ein- læg vinátta eru þau orð sem mér finnast eiga vel við Pál. Ég læt hér fylgja orð sem lýstu tilfinningu minni og huggunarorð- um við fréttina af láti kærs vinar, miðvikudaginn 22. apríl s.l.: „Maður er kraminn á hjarta og í þögninni skynjar maður djúpa og hola raust, grafarþögn. Páll gerði mun á því að syrgja við lát náinna og þess að sakna þeirra síðar. Mikilvægast er að þakka fyrir aðgengið sem maður hefur notið að þeim sem kveðja. Páll var stór hluti af sjálfum mér, skilur eftir sig djúpa sorg í bland við takmarkalaust þakklæti. Ég væri ekki ég án hans og hans víða fjölskyldu- og vinaf- aðms. Ég finn innra með mér að Páll náði að koma mér með sér upp á sjónarhólinn, fá mig til að fylgja sér í vonarskarð þaðan sem víð- sýnt er um leið og hvert skref var yfirvegað og hjólin í sköpunar- verkinu sjálfu gengu öruggar í hans leiðsögn. Nú er sorgin,sem ræður ríkj- um, síðar verður það söknuður og þakklæti. Hvortveggja fylgir ævigöng- unni það sem eftir er. Gangan um vonarskarðið held- ur áfram. Vináttan lifir. Við hjónin færum þér, elsku Auður, innilegar samúðarkveðjur og einnig til allrar þinnar stóru fjölskyldu og náinna vina. Megi hugsunin stjórna heimin- um! Valete. Jón Hlöðver og Sæbjörg. Páll Skúlason er látinn langt fyrir aldur fram. Ég kynntist hon- um stuttu eftir að hann tók við sem rektor Háskóla Íslands árið 1997. Ég var þá fulltrúi í vísinda- nefnd háskólaráðs. Páll skipaði mig formann nefndarinnar árið 1999 og gegndi ég formennskunni út rektorstíð hans. Samstarf okk- ar var bæði náið og afar gott á Páll Skúlason

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.