Morgunblaðið - 04.05.2015, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 04.05.2015, Blaðsíða 23
þessum tíma. Ég þakka Páli kær- lega það traust sem hann sýndi mér, en ég lærði margt af honum á þessum árum sem ég bý enn að. Páll var brautryðjandi í starfi Háskóla Íslands. Sem rektor setti hann fram margar afgerandi hug- myndir sem hafa borið ríkulegan ávöxt. Eitt af því sem stendur upp úr er hugsjón hans um Háskóla- torg í hjarta háskólasvæðisins. Í fyrstu áttuðu sig ekki allir á nauð- syn slíkrar byggingar og töldu jafnvel aðrar framkvæmdir brýnni. Það var hins vegar til marks um framsýni Páls að hann sá fyrir mikilvægi torgsins og má segja að það hafi frá fyrsta degi orðið miðdepill samfélags Háskól- ans. Í upphafi rektorstíðar sinnar varð Páli einnig tíðrætt um nauð- syn þess að efla Háskóla Íslands sem rannsóknaháskóla og byggja upp framhaldsnám við skólann. Í fyrstu mættu þessar hugmyndir andstöðu, en Páll sá hvert háskól- inn var kominn og hvert hann stefndi. Nú deila fáir um að Há- skóli Íslands sé alþjóðlegur rann- sóknaháskóli með blómstrandi doktorsnám. Páll talaði fyrir samstarfi há- skóla innanlands, en samkeppni utanlands. Hann færði mörg rök fyrir þessu, t.a.m. að þótt Háskóli Íslands væri stór á íslenskan mælikvarða væri hann lítill í al- þjóðlegu samhengi og því ætti að efla hann innanlands en ekki veikja með samkeppni. Þetta var ekki vinsælt viðhorf á þeim tíma, en á síðari árum hafa sífellt fleiri stutt þessa skoðun. Páll talaði fyrir uppbyggingu vísindagarða á lóð Háskóla Ís- lands. Sú hugmynd var framúr- stefnuleg á sínum tíma, en er nú að verða að veruleika. Þessi dæmi sýna glöggt skýra sýn og framsýni Páls Skúlasonar varðandi málefni Háskóla Íslands. Eitt helsta hugðarefni Páls sem rektors var að efla Háskóla Ís- lands sem akademíska stofnun. Háskólahugsjónin var honum hjartans mál og stóð hann fyrir mörgum málþingum og umræðu- fundum með sérfræðingum um málefni háskóla. Við búum að þeirri umræðu nú þegar Háskóli Íslands fetar sig áfram í þá átt að vera afburða kennslu- og rann- sóknaháskóli. Páll var sannur andans maður, afar vel lesinn og ávallt áhugasam- ur um djúpa samræðu um allt sem máli skiptir. Háskóli Íslands býr að því að hafa haft Pál Skúlason sem sinn akademíska leiðtoga. Hann markaði djúp spor í sögu skólans. Við misstum hann alltof ungan og hans verður sárt saknað. Við Stefanía vottum Auði og að- standendum Páls okkar dýpstu samúð. Jón Atli Benediktsson. Þakklæti og góðar minningar flæða um hugann er ég minnist Páls Skúlasonar prófessors í heimspeki. Sem rektor Háskólans á Akureyri (1994-2009) varð ég þeirrar sérstöku gæfu aðnjótandi að kynnast og starfa náið með Páli Skúlasyni þegar hann varð rektor Háskóla Íslands árið 1997 og fram til 2005. Tryggð Páls við sitt heimahér- að var mikil og metnaður hans stóð til þess að á Akureyri væri rekinn öflugur háskóli. Í rektorst- íð sinni í HÍ beitti Páll sér fyrir farsælu samstarfi HA og HÍ á ýmsum sviðum kennslu og rann- sókna. Þannig var Páll upphafs- maður að því að kennsla í nútíma- fræði, þverfaglegu námi til BA-prófs, hófst við Háskólann á Akureyri árið 2000 og var sérstak- lega ánægjulegt og lærdómsríkt að vinna með Páli og Kristjáni Kristjánssyni heimspekingi að undirbúningi þessa náms. Þá studdi Páll með ráðum og dáð að komið var á fót hug- og félagsvís- indadeild við HA en starfsemi hennar hófst haustið 2003. Vegna stuðnings Páls við undirbúninginn var honum boðið sérstaklega til háskólaráðsfundar HA í október 2002 þar sem ákvörðun um stofn- un deildarinnar var fyrst tilkynnt opinberlega. Í heimspeki sinni var Páll Skúlason óþreytandi við að skil- greina og túlka viðfangsefni með alkunnri rökvísi hvort sem þau fjölluðu um siðfræði, náttúru- vernd eða málefni háskóla. En hann lét þar ekki staðar numið, Páll var maður framkvæmda, eins og sést á mörgum þeim verkum er hann leiddi farsællega til lykta á meðan hann gegndi stöðu rektors Háskóla Íslands. Páll var formaður samstarfs- nefndar háskólastigsins 1997-2005 og lagði þar ávallt áherslu á að akademískt sjálfstæði háskóla væri virt og tryggt. Í formennsku sinni hafði Páll m.a. forystu um að allir þáv. háskólarektorar undir- rituðu árið 2005 sameiginlega yf- irlýsingu um frelsi og forsendur háskóla. Þetta er tímamótayfirlýs- ing sem heldur enn gildi sínu og styrkti starf háskólanna gegn vax- andi ágangi markaðsaflanna í að- draganda efnahagshrunsins. Eftir að Páll lét af störfum sem rektor HÍ hélt samstarf okkar áfram. Páll var tilnefndur sem fulltrúi háskólasamfélagsins í há- skólaráð HA 2008 og gegndi því hlutverki til ársins 2012. Seinni hluta ársins 2008 og fyrri hluta árs 2009 var Háskólinn á Akureyri að glíma við afleiðingar efnahags- hrunsins og þá munaði svo sann- arlega um að njóta reynslu og ráð- legginga Páls þegar þurfti að undirbúa og taka erfiðar ákvarð- anir til að tryggja áframhaldi rekstur og starfsemi háskólans. Þá hélt Páll opna fyrirlestra við HA sem ætíð voru vel sóttir og vöktu athygli og umræður. Há- skólafólk á Akureyri kveður Pál með miklum söknuði en jafnframt þakklæti fyrir hans mikla framlag. Í Hörgárdal höfðu Páll og Auð- ur reist sér hlýlegt sumarhús og ræktað myndarlegan skógarreit og eigum við hjónin góðar minn- ingar frá heimsóknum til þeirra í þann unaðsreit og ánægjulegum umræðum um landsins gagn og nauðsynjar og þá sérstaklega um þýðingu skógræktar og náttúru- verndar. Fjölskylda mín sendir Auði og fjölskyldu, öðrum ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur. Þorsteinn Gunnarsson. Ég kynntist Páli Skúlasyni fyrst í gegnum rit hans þegar ég sat valnámskeið í heimspeki í menntaskóla. Mér varð strax ljóst að þarna var á ferð upprennandi heimspekingur sem stóð báðum fótum í evrópskri hugmyndasögu. Seinna, þegar ég dvaldi við há- skólanám í heimspeki í Þýska- landi, hélt ég áfram að fylgjast með verkum hans og eitt sinn, þegar við Sigríður vorum stödd á Íslandi, höfðum við samband við Pál og spurðum varfærnislega hvort við mættum sitja einn tíma hjá honum. Páll tók okkur opnum örmum, en í stað þess að þylja yfir okkur spurði hann okkur spjörun- um úr um tíðindi af vettvangi heimspekinnar á meginlandinu. Strax við þessi fyrstu persónulegu kynni mætti okkur sú hlýja, áhugi og umhyggja sem við áttum eftir að njóta svo ríkulega í samskipt- um við Pál alla tíð. Leiðir okkar lágu þó ekki sam- an fyrir alvöru fyrr en haustið 1997 þegar Páll, sem þá var nýtek- inn við embætti rektors Háskóla Íslands, hafði samband og bað mig um að hitta sig. Áttum við góðan fund og daginn eftir hringdi hann og bauð mér að gerast aðstoðar- maður sinn. Störfuðum við náið saman næstu átta ár og var það lærdómsríkur og gefandi tími. Hér verða ekki rakin öll þau ný- mæli og framfaramál sem Páll beitti sér fyrir í rektorstíð sinni, en nefna má innleiðingu skipu- legrar stefnumótunar, eflingu Há- skóla Íslands sem rannsóknahá- skóla og uppbyggingu framhaldsnámsins, byggingu Öskju og Háskólatorgs, þróun Vísindagarða og gæðamál. Með árunum þróaðist starfs- samband okkar í vináttu, einkum eftir að Páll lét af embætti rekt- ors. Áttum við þá oft samræður um heimspeki, háskóla, sjálfa okk- ur og spurningar lífsins. Stundum bað Páll mig um að lesa yfir texta sem hann hafði samið og ræddum við þá vanalega á eftir. Því fór fjarri að við værum alltaf sammála, en samræðan var ætíð lærdómsrík og gefandi. Í hugsun Páls um náttúru, siðferði, samfélag og menntun bjó iðulega djúpur sannleikur og viska. Hann var fræðimaður fram í fing- urgóma, unni sannleikanum og tók alltaf rökum. Síðustu ár átti Páll við þungbær veikindi að stríða. Í þeirri raun sýndi sig hvern mann hann hafði að geyma og fylgdi hann ótrauður heimspekilegri ástríðu sinni til hinsta dags. Með hverjum manni sem kveður fer heil veröld. Ég kveð Pál Skúla- son með þakklæti fyrir að hafa mátt eiga hlutdeild í veröld hans. Ég votta Auði og aðstandendum samúð mína. Magnús Diðrik Baldursson. Partir, cést mourir un peu. Á kveðjustund minnist ég Páls Skúlasonar, skólabróður og vinar, með þakklæti. Þessi franska hending í upphafi er úr ljóði eftir franska skáldið Edmond Ha- raucourt og mætti þýða lauslega – þegar við kveðjum einhvern deyr svolítið af okkur. Það var Þórarinn Björnsson, skólameistari og frönskukennari okkar Páls, sem fór með þessa ljóðlínu. Kennsla hans angaði af franskri menningu, sögu, bókmenntum og heimspeki. Eflaust hefur það haft áhrif á Pál. Páll unni landi sínu og naut þess að ferðast um óbyggðir. Sjálfur hef ég ávallt unnað nátt- úrunni, en Páll færði mér nýja vídd í ferð um hálendi Íslands, sem var sú fyrsta af mörgum slík- um með skólasystkinum og mök- um. Fyrsta ferðin var að Öskju. Í sæluhúsi skammt frá Öskju hitt- um við erlenda konu sem var að leita að Guði og taldi hann að finna við Öskju. Ekki furða. Þessar ár- vissu sumarferðir leiddu okkur á marga áfangastaði. Ég minnist Öskju, Laugarvalladals, Hafrahvammagljúfurs, Látra- bjargs, Ófeigsfjarðar og svo mætti lengi upp telja. Á kvöldvökum var ferðast í huganum um sögu, myndlist og bókmenntir sem tengdust sögu- slóðum. Árið 1995 kom út bók Páls, Hugleiðingar við Öskju. Þar fjallar hann m.a. um skáldin: „Skáld eru skrýtnir fuglar. Vængjablak orða þeirra sefar hinn óróa huga. Þau bera hann úr einsemd hinnar þöglu reynslu til móts við fegurð handan allra orða þar sem hann getur dvalið um ald- ur og ævi ósnortinn af sora heims- ins …“ Síðustu samverustundir okkar Páls á fallegu heimili þeirra Auðar voru undir lok febrúar sl. Ég færði Páli sérútgáfu af Ferðinni sem aldrei var farin eftir Sigurð Nor- dal. Verk hans höfðu snemma haft áhrif á Pál. Það var einkar fróðlegt að ræða við Pál um lífið og dauð- ann og hinstu rök tilverunnar – fróðlegt að hlusta á hann. Páll ræddi um dauðann af stóískri ró og yfirvegun. Þetta var notaleg samvera. Það var gaman að fylgjast með hversu útgáfan á verkum Páls gekk frábærlega vel og hvernig hann vann að henni og skráningu kenninga sinna til hinstu stundar, með hjálp góðra vina og læri- sveina. Páll afhenti mér nýjustu bók sína Veganesti – sem geymir brautskráningarræður hans sem háskólarektors. Þar skilgreinir Páll m.a. menninguna: „Hún er allt það sem eykur gæði lífsins, gerir lífið bærilegra eða betra og dregur úr böli og þjáningu. Ómenning er þá allt það sem rýrir gæði lífsins og spillir lífsmöguleik- um fólks. Kurteisi er menning en ruddaskapur er ómenning, hóf- semi er menning en bruðl er ómenning.“ Í ritinu Um vináttuna skrifar Cicero: „… að svo miklu leyti sem maður treystir á eigin mátt og brynjar sig svo dyggð og visku, að hann er engum háður, og telur sig smið sinnar eigin gæfu, þá leitar hann einnig eftir vináttu og leggur rækt við hana.“ Við Páll áttum samleið í liðlega hálfa öld; vorum bekkjarbræður í gagnfræða- og menntaskóla, og leiðir okkar sköruðust af og til all- ar götur síðan. Vinátta okkar styrktist enn á síðari árum og misserum – þökk sé Páli sem kunni öðrum betur að rækta vin- áttuna, enda átti hann stóran vin- hóp. Ég sendi Auði, börnum þeirra og ástvinum öllum innilegar sam- úðarkveðjur. Blessuð sé minning Páls Skúlasonar. Sverrir Kristinsson. Kveðja frá Háskóla Íslands Páll Skúlason var góður maður og hann er harmdauði öllu ís- lensku háskólafólki. Hvar sem gripið er niður í ritum hans, grein- um og ræðum, miðar hugsun hans að því að leiða fram með hófstillt- um og yfirveguðum hætti sjónar- mið sem bætt gætu samfélag fólks og samskipti. Það var augljóst að rödd Páls og sjónarmið áttu víða hljómgrunn. Páll þurfti ekki að brýna raustina. Sjónarmiðin voru skýr og þannig fram sett að eftir var tekið. Páll var jafnréttismaður. Sem rektor vildi hann greiða konum betur leið til áhrifa innan skólans. Hann kallaði konur til starfa í nefndum og ráðum og gaf þeim frjálsar hendur. Þannig greiddi hann sjónarmiðum þeirra leið og jók sjálfstraust þeirra og vilja til verka. Páll var umfram allt háskóla- maður. Hann skildi mætavel mik- ilvægi skólans á vegferð íslensks samfélags alla tuttugustu öldina. Hann skildi að skólinn þarf í senn að vera órjúfanlegur þáttur í nú- tíma samfélagsuppbyggingu, leit- andi þekkingarsmiðja sem er drif- kraftur atvinnulífs og verðmætasköpunar og loks sjón- gler sjálfsrýninnar sem gefur samfélaginu skarpa sýn á eigin ófullkomleika. Í þágu allra þess- ara sjónarmiða byggði hann upp með samstarfsmönnum sínum nám og rannsóknir á sviði heim- speki. Sem rektor lagði hann áherslu á uppbyggingu rannsókna og framhaldsnáms í víðum skiln- ingi og öflugt alþjóðlegt samstarf. Afrakstur af starfi hans fyrir há- skólann er mikill á öllum sviðum. Háskólatorg er í dag hjarta há- skólasamfélagsins. Það lýsir vel sýn Páls á háskólann að hann var fljótur að átta sig á að slík bygg- ing, rétt staðsett og rétt hönnuð, gæti orðið starfinu innan skólans lyftistöng og í raun skapað jafnt efnisleg sem óefnisleg verðmæti. Hann beitti sér af alhug til að gera þessa sýn að veruleika og með for- göngu vaskra aðila og fjárhags- styrk frá Happdrætti Háskóla Ís- lands og Háskólasjóði Eimskipafélagsins reis Háskóla- torg. Auk þess að vera miðstöð þjónustueininga fyrir stúdenta og tengiæð til annarra bygginga á lóðinni hefur þarna skapast vett- vangur fyrir fólk úr ólíkum áttum og á ólíkum aldri til að hittast og skiptast á skoðunum. Þannig hef- ur orðið til vettvangur til miðlun- ar, fræðslu og mótunar nýrra hug- mynda. Páll var mikill hvatamaður og stuðningsmaður Vísindagarða Háskóla Íslands sem verið er að byggja upp í Vatnsmýri. Þar mun sama sýn um háskóla sem þekk- ingarþorp verða að veruleika, með stúdentagörðum, verðmætaskap- andi atvinnustarfsemi og háskóla- starfi – vísindum, kennslu, ný- sköpun. Það skipti miklu fyrir samfélag- ið sem fóstrar Háskóla Íslands að maður eins og Páll skyldi veljast til forystu á sínum tíma. Hann hafði djúpan skilning á þeim arfi sem skólanum er trúað fyrir, hafði tilfinningu fyrir skyldum skólans við samfélagið í nútímanum og fyrir framtíðarhlutverki hans. Að leiðarlokum þakka ég Páli góða samfylgd og óeigingjarnt starf í þágu Háskóla Íslands sem var okkur báðum svo kær. Ég þakka honum hlýjan hug og vin- áttu í minn garð og færi Auði og fjölskyldunni allri innilegar sam- úðarkveðjur. Kristín Ingólfsdóttir. Nú er höggvið stórt skarð í rað- ir okkar bekkjarsystkinanna. Það er látinn góður vinur og vitur. Eft- ir standa minningarnar. Fyrir mörg okkar eru þær endurómur áranna í barnæsku fyrir norðan, og öll minnumst við þess indæla tíma, sem við áttum saman í Menntaskólanum á Akureyri. Ríkar eru líka minningarnar úr seinni tíð, frá bekkjarsamkvæm- um og ótal samskiptum í miklu minni hóp. „Orðstírr deyr aldrigi, hveims sér góðan getr“, segir í Hávamál- um. Orðstír þarf ekki alltaf að vera áunninn með stórvirkjum á opinberum vettvangi, þótt ekki hafi þar á vantað hjá Páli. Það eru líka margvísleg önnur mannleg samskipti, sem skapa orðstír. Hjá Páli gat það verið óvænt athuga- semd í samtali, sem varpaði nýju ljósi á umræðuefnið og bar vott um vandlega og oft djúptæka hugsun hans. Orðstír skapast fyr- ir slík samskipti, þegar þau geta snert einhvern streng og þannig orðið varanleg innra með okkur og geta með því jafnvel breytt lítið eitt viðhorfi okkar til lífsins. Nú horfum við á eftir félaga okkar og vini, kveðjum hann í hjarta og huga og hugsum til fjöl- skyldu hans, sem eftir stendur. Hún hefur misst mikið. Megi þeim og okkur öllum lengi geymast góð- ar minningar um Pál. Fyrir hönd okkar bekkjar- systkina Páls Skúlasonar, sem fyrir tæplega 50 árum luku stúd- entsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, Dr. Jóhannes Vigfússon (Insp. scholae MA 1965). Páll Skúlason skilur eftir sig mikla arfleifð í íslenskum hug- myndaheimi. Sú arfleifð nær til samfélagsins í heild en er grund- völluð á starfi Páls við Háskóla Ís- lands, sem hann helgaði alla starfsævi sína. Við samstarfsfólk hans á Hugvísindasviði horfum á bak óbilandi frumkvöðli og leið- toga, einungis fáeinum vikum fyr- ir formleg starfslok við sjötugs- aldur. Við höfðum rætt um hvernig halda ætti upp á þau tíma- mót, en nú hafa önnur skil orðið fyrri til. Við munum þó eftir sem áður eiga stundir þar sem við minn- umst Páls, hugleiðum og þingum um þau skilaboð sem frá honum bárust á frjórri starfsævi. Einung- is ríflega hálfþrítugur að aldri kom hann til starfa við Háskóla Ís- lands og var orðinn prófessor þrí- tugur, en sú velgengni og veg- semd var ekki meginmarkmið hans heldur einungis hluti af þeim grundvelli sem hann byggði starf sitt á næstu fjóra áratugina. Það er ekki nokkur leið að birta heild- armynd af starfsferli Páls í þessu skrifi – vinnu hans við uppbygg- ingu heimspekinnar sem náms- greinar, brautryðjandastarfi á vettvangi siðfræði, stjórnunar- störfum hans bæði innan hug- vísindanna og sem rektor skólans frá 1997 til 2005. Hagur og heill Háskóla Íslands, og hlutverk háskóla almennt, var meðal þess sem Páll ígrundaði af hvað mestum þrótti og andagift, og okkur kollegum hans ber hreinlega skylda til að halda þeirri umræðu áfram. Og hún snýr ekki einungis inn á við, því að þótt Páll liti á háskólann sem sérstakt sam- félag, þá lagði hann áherslu á stöð- ugt samtal hans við samfélagið allt um kring: Háskólanum bæri að hugsa um nærsamfélag sitt og leitast jafnframt við að skyggna heiminn og sögu hans. Með verk- um sínum minnti Páll okkur stöð- ugt á að hugtakið „veröld“ er sam- sett úr orðum fyrir manneskjuna og tímann. Hann lifði í samræmi við þessa hugsjón sína og varði miklum tíma í að ræða á opinber- um vettvangi um þá ábyrgð sem fylgir lífi okkar sem hugsandi vera. Í seinni tíð lagði hann vax- andi áherslu á ábyrgðina gagnvart náttúrunni og framtíð hennar. Baráttu- og hugsjónamaðurinn Páll Skúlason birtist ekki síst í því hvernig hann tókst á við erfiðan sjúkdóm af æðruleysi. Í jólabréfi til vina og vandamanna, eftir erf- iða aðgerð á sjúkrahúsi í Svíþjóð 2013, skrifar hann að þrautir sínar séu lítilfjörlegar miðað við annað böl í heiminum. Og hann hélt áfram að íhuga og skrifa af eld- móði, allt fram á sína síðustu daga. Undanfarið hafa birst bækur með ýmsum greinum hans og fyrir- lestrum og annað efni bíður enn birtingar. Við getum hlustað eftir rödd Páls í þessum bókum, þótt við munum trega að fá ekki lengur notið hennar í samræðum. Því fátt var betra en að tala við Pál í góðu tómi, þar sem vakið var máls á ýmsu og þræðir fengu að leika frjálst, krítískir en líka kátir, og tengdust svo hver öðrum í eins- konar vefnaði – raunverulegum veraldarvef. Ég þakka Páli Skúlasyni öll hans giftudrjúgu störf á vettvangi hugvísinda við Háskóla Íslands, kveð hann með virðingu og sökn- uði, og votta Auði og öðrum ást- vinum dýpstu samúð. Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Þegar ég leiði hugann að því hvaða orð íslenskrar tungu lýsti best lyndiseinkennum Páls Skúla- sonar heimspekiprófessors og fyrrverandi háskólarektors kem- ur mér fyrst í hug orðið þjóðræk- inn, sem merkir þann er rækir siði og menningu þjóðar sinnar. Aðrir eru betur til þess fallnir en ég að lýsa hinu mikla framlagi Páls til fræða og vísinda á sviði heimspeki og rökfræði hérlendis sem erlendis. En sem leikmaður treysti ég mér til að fullyrða að Páll hafi með orðræðu sinni í gegnum tíðina gert þessar fræði- greinar að almenningseign og þar með að vopni jafnt í höndum leikra sem lærðra. Þegar efnahagshrun- ið varð á Íslandi síðla árs 2008 steig Páll fram á sjónarsviðið og átti á mannamáli í útvarpsþáttum og víðar rökræðu við þjóðina. Þar greindi hann orsakir hrunsins og hverjar yrðu líklegar afleiðingar þess í bráð og lengd og taldi kjark í samfélagið. Er það álit margra að íslenska þjóðin hafi vegna orð- ræðu Páls mætt örlögum sínum á þessum tímamótum í meira jafn- vægi en ella hefði orðið, og fyrir bragðið varð Páll í lifanda lífi að eins konar þjóðareign. Páll Skúlason var glaðvær mað- ur, hlýr og ljúfur í lund. Hann hafði einstaklega góða návist, var hógvær og lítillátur, en þó fastur fyrir, og hafði vegna visku sinnar og þekkingar miklu að miðla sam- ferðamönnum sínum. Hann var óþreytandi við að rökræða, upp- fræða og leiðbeina með það að markmiði að rækja og bæta siði og menningu þjóðar sinnar og var sem slíkur áhrifamikill. Um hann má segja eins og Snorri sagði forð- um í Ólafs sögu helga um Erling Skjálgsson á Sóla að öllum mönn- um kom hann til nokkurs þroska. Ég varð þeirrar gæfu aðnjót- andi að eiga langar og góðar sam- vistir með Páli Skúlasyni, þegar leiðir okkar lágu saman á megin- landi Evrópu um nokkurra ára skeið. Af hans fundi fannst mér ég alltaf koma auðugri í anda. Fyrir þær samvistir og fyrri kynni frá dögum okkar beggja í Háskóla Ís- lands færi ég honum þakkir og minnist hans um leið með þeim orðum Jóns Ögmundssonar Hóla- biskups um Ísleif Gizurarson, að þá kemur mér hann í hug er ég heyri góðs manns getið. Þorgeir Örlygsson. MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 4. MAÍ 2015

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.