Bókasafnið - 01.05.2013, Page 49

Bókasafnið - 01.05.2013, Page 49
49 bókasafnið 37. árg. 2013 Vinnum saman Jú, vissulega hljómar þetta eins og innantómt slagorð hjá stéttarfélagi, en þrátt fyrir það er staðreyndin sú að við vinnum miklu betra og meira verk ef við stöndum saman og hjálpumst að við að veita fólki þær upplýsingar sem það þarfnast. Mikil umræða hefur verið í gegnum tíðina um hvernig hægt sé að nálgast tilvonandi lánþega bókasafna. Þetta á svo sannarlega við hljóðbókasöfn líka. Í Svíþjóð er sá háttur hafður á að all- mörg almenningsbókasöfn dreifa hljóðefni til lánþega sænska hljóðbókasafnsins, Myndigheten för tillgängliga medier (MTM) og er því þjónustan mjög víða. Starfsmenn almenningsbóka- safna hala niður bókum frá MTM og brenna þær á diska á staðnum fyrir lánþegann. Þetta er mjög góð þjónusta, en þó er einn galli á gjöf Njarðar að bókasöfn eru ekki uppáhalds- staðir lesblindra af skiljanlegum ástæðum, og þeir leita því ekki þangað. Sífellt er leitað leiða til að ná til þeirra sem gætu bætt lífsgæði sín með aðgangi að hljóðbókum. Á Hljóðbóka- safninu hefur orðið sprenging í lánþegafjölda en ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að safnið er orðið mun tæknilegra en það var, auðveldara er að nálgast efnið rafrænt, en síðast en ekki síst hefur safnið staðið að fjölmörgum kynningarferðum á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Safnið hefur átt samstarf við allmarga skóla og bókasöfn á landsbyggðinni og hefur það skilað verulegum árangri enda eru nú tveir þriðju lánþega safnsins yngra fólk sem glímir við lesblindu. Talið er að í kringum 10% þjóðarinnar eigi erfitt með að nýta sér prentað letur af einhverjum ástæðum, stundum er talað um 15% eða 8% allt eftir því hver á í hlut. Á Íslandi eru það um 32.000 manns. Skráðir lánþegar á Blindrabókasafninu eru nú rúmlega 16.000, svo miðað við 10% viðmiðið eru aðrir 16.000 þarna úti sem gætu þurft á þjónustunni að halda. Það getur skipt sköpum fyrir þessa einstaklinga að vita af þjónustunni og þeim námsbókum sem eru í boði fyrir þá. Það opnast nýr heimur og oft virðist fótum troðið sjálfstraust rétta nokkuð úr kútnum við það. Það hefur nefnilega viljað loða við að þeir sem eru sjáandi en geta ekki lesið prentað letur séu taldir vit- lausir og þeir fá svo sannarlega að heyra það, líka í skólunum. Slíkt er auðvitað fjarri lagi. Við biðjum alla sem vettlingi geta valdið að koma upplýsingum um Hljóðbókasafnið á framfæri til þeirra sem gætu þurft á því að halda, vinnum saman, veit- um upplýsingar. Flökkusögur En svo við snúum okkur aftur að svindlaramálinu þá hafa starfsmenn bókasafna margir hverjir heyrt ótrúlegustu sögur í gegnum lánþega, einskonar flökkusögur, sem breytast sífellt í meðförum manna á milli og geta orðið illskeyttar, en eru oft skemmtilegar, eftir því hvernig á það er litið. Svo gæti verið um þessa sögu. Það er stundum þannig að örfá neikvæð atvik vilja blása út, þvælast fram og til baka og jafnvel margfaldast með tímanum á kostnað alls þess jákvæða sem við tökum kannski frekar sem gefnum hlut. Það eru góð ráð dýr þegar lánþegi hringir á eitt bókasafn með þær upplýsingar að starfs- maður almenningsbókasafns hafi ráðlagt viðskiptavini að svindla út bók af öðru safni. Hvernig á að bregðast við? Er eitt- hvað til í þessu yfirhöfuð? Þar sem ákveðið bókasafn var sér- staklega nefnt í þessu tilviki var ákveðið að skrifa kurteislegt bréf til forstöðumanns og bera þetta undir hann. Brást hann drengilega við, taldi reyndar afar ólíklegt að þetta hefði átt sér stað á nefndu safni en ætlaði til öryggis að taka málið upp á næsta starfsmannafundi og ræða hvað er sagt og hvað ekki. Góð vísa er aldrei of oft kveðin. Einhverjum kann ef til vill að finnast að full mikið sé þusað vegna lítils símtals en oft veltir lítil þúfa þungu hlassi og sögur um misnotkun á þjónustu Hljóðbókasafnsins hafa því miður skapað orkufrek vandamál sem eru að auki algerlega ófrjó, það eina sem kemur út úr þeim er tímasóun. Sem betur fer er meirihluti lánþega heiðar- legt fólk og verði það vart við að verið sé að misnota safnið er það tilkynnt umsvifalaust. Það gerist sem betur fer afar sjaldan að við þurfum að rekja slík mál, en það hefur verið gert með góðum árangri. Það er alltaf einhver prósenta sem svindlar, hvort sem það er á tryggingafélögum, velferðarkerfinu, bóka- safninu eða Netinu. Við segjum stundum að ef risarnir, til dæmis Sony eða Warner Brothers, geta ekki spornað gegn ólöglegu niðurhali, hvernig er hægt að ætlast til þess að ein lítil ríkisstofnun á Íslandi geti það? Við einbeitum okkur að því jákvæða og reynum að byggja upp eins góða þjónustu og efni leyfa fyrir þann hóp sem okkur er ætlað að þjóna. Reynslan sýnir okkur að menn séu almennt allir að vilja gerðir þótt við fáum stöku sinnum skrýtnar sögur í hausinn. Ef viljinn er fyrir hendi – er allt hægt Það er hægt að gera svo margt sé viljinn fyrir hendi. Blindra- bókasafnið stóð frammi fyrir því fyrir nokkrum árum að þurfa á nýju framleiðslu- og útlánakerfi að halda. Eftir þriggja ára ferðalag um heima tölvuþjónusta, Internetsins, ýmissa fyrir- tækja, landskerfa bókasafna á Íslandi og ýmissa kerfa erlendis fæddist nýtt bókasafnakerfi sem hefur verið skýrt Librodigital. Þetta kerfi var sérstaklega hannað fyrir Hljóðbókasafnið, eða réttara sagt fyrir þarfir rafrænna bókasafna hvar sem er. Fyrir- tækið Prógramm ehf tók að sér að hanna kerfið út frá óskum og skýringum starfsmanna safnsins svo úr varð samvinnuverkefni, þar sem eignaraðild skiptist til helminga milli einkafyrirtækis og fyrirtækis í opinberum rekstri. Á dögunum hlaut safnið við- urkenningu fyrir nýsköpun í opinberri stjórnsýslu fyrir verk- efnið. En leiðin að settu marki gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Einhver fyrirtæki sýndu verkefninu áhuga, að því er virtist ein- göngu vegna þess að þarna virtist blasa við hinn margfrægi ríkis-speni. Aðrir töldu útilokað að fara í svona verkefni fyrir minna en tugmilljónir. Eitt erlent kerfi stóð til boða fyrir 50 milljónir, Landskerfi bókasafna réðu ekki við eintakalaus útlán og svo má lengi telja. Að lokum var hannað glænýtt kerfi sem sinnir þörfum safnsins fullkomlega fyrir sléttar 5 milljónir. Kerf- ið hefur nú verið markaðssett og geta áhugasamir lesið meira um þetta á libro.is. Þetta dæmi sýnir að ef menn taka höndum saman er hægt að sigrast á óárennilegustu hindrunum. Hljóð- bókasafnið mun halda áfram að leita leiða til að bæta þjón- ustuna við þá sem ekki geta nýtt sér önnur bókasöfn og er óskandi að það verði í vaxandi mæli í samvinnu við aðrar þjón- ustustofnanir. Mikilvægi samvinnunnar verður sjaldan of oft lofað. Vinnum saman og veitum réttar upplýsingar eða eins og máltækið segir „gæfan fylgir góðri nennu.“

x

Bókasafnið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.