Dagblaðið Vísir - DV - 29.01.2010, Page 30

Dagblaðið Vísir - DV - 29.01.2010, Page 30
30 FÖSTUDAGUR 29. janúar 2010 HELGARBLAÐ vestur þremur árum fyrir flóðið og byggt húsið þá. MISSTI AÐRA DÓTTUR Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur í október sama ár og flóðið féll en Guðbrandur segir veruna á Patreksfirði einnig hafa verið óbærilega vegna þess að ástæðan fyrir flóðinu hafi verið fram- kvæmdir bæjarins í gilinu fyrir ofan húsið. „Við gátum bara ekki verið þarna lengur.“ Guðbrandur segir það víðs fjarri að það sé aðeins hans skoðun að breytingarnar í gilinu hafi orsakað að flóðið féll með meiri krafti en ella á hús hans. Allir fræðiaðilar sem hann hafi rætt við séu á sama máli og í greinargerð sem Guðbrandur hefur skrifað um atvikið vitnar hann meðal annars í orð Guðjóns Petersen, þá- verandi framkvæmdastjóra Almannavarna rík- isins, í Helgarpóstinum 10. desember 1987. „Ég held að menn hafi orðið sammála um að garður þessi hafi beint flóðinu í ákveðinn farveg.“ Guðbrandur reyndi strax að leita réttar síns en það gekk illa að hans sögn. „Það var hræði- legt að þurfa að rifja atburðinn upp aftur og aft- ur og á þeim tíma var maður bara virkilega illa á sig kominn andlega. Við höfðum svo einfaldlega ekki efni á að standa undir öllum málskostnað- inum því við töpuðum jú öllu í flóðinu.“ Ekki nóg með að Guðbrandur og fjölskylda hafi ver- ið illa á sig komin út af flóðinu heldur upplifðu þau óbærilegan harm enn á ný þegar þau hjón misstu aðra dóttur árið 1986. Hún lést sama dag og hún kom í heiminn. BARÐIST FYRIR GJAFSÓKN Lengi barðist Guðbrandur fyrir því að fá gjaf- sókn til þess að leita réttar síns en hann vildi fá fullt verð fyrir húsið sem og miskabætur fyrir hvernig hafði verið komið fram við hann og fjöl- skyldu hans. Eða kannski má segja hvernig ekki var komið fram við fjölskyldu hans því aðgerða- leysið var algjört af hálfu yfirvalda hvert sem komið var. Það var svo ekki fyrr en mörgum árum eftir að flóðið féll að Guðbrandur fékk loks gjafsókn, fyrir tilstilli Ólafs Þ. Guðbjartssonar, þáverandi dómsmálaráðherra. Guðbrandur höfðaði því mál gegn Patrekshreppi sem var þingfest í hér- aðsdómi í september 1991. Rúmum átta árum eftir atburðina. „Það voru fengnir tveir sérfræðingar til þess að fara yfir málið í héraðsdómi og þeir voru með- dómendur í málinu. Sérmenntaðir og reynslu- miklir menn um svona mál voru fengnir til þess að fara á staðinn og kynna sér aðstæður og öll þau gögn sem voru til á þeim tíma. Þeir komust báðir að þeirri niðurstöðu að þessi varnargarður og þær breytingar sem gerðar hefðu verið væru orsök þess að svona fór hjá okkur.“ Guðbrandur vann málið í héraðsdómi en því var umsvifalaust áfrýjað til Hæstaréttar. Guð- brandur tapaði svo málinu í Hæstarétti en hann segist hafa verið verulega ósáttur við þau vinnu- brögð sem þar voru viðhöfð. „Mynd dómaranna þar af þessu máli varð bara allt önnur. Þeir fóru ekki á staðinn til að kynna sér aðstæður, höfðu ekki neitt samráð við aðra sérfræðinga að mér vitandi og hundsuðu því með öllu álit verkfræð- inganna í héraðsdómi og tóku lögfræðiþekkingu sína fram yfir sérþekkingu þeirra.“ Guðbrandur segist ekki geta annað en sett spurningarmerki við þá niðurstöðu Hæstaréttar að ekki þætti sannað að varnargarðurinn hefði valdið því að flóðið féll á hús þeirra af svo miklum krafti þegar sérfræðingar í slíkum málefnum hafi komist að annarri niðurstöðu. „Menn voru bara í einhverri pólitík þarna í Hæstarétti. Það var ekki verið að skera úr um nein ágreiningsmál milli okkar og hreppsins.“ GEFST EKKI UPP „Það var rosalegt áfall að tapa þarna eina ferðina enn. Þetta fór sérstaklega illa í Vigdísi en ég tók þessu nú ekki alveg eins illa og neitaði hreinlega að gefast upp.“ Guðbrandur fór því að kynna sér hvort og hvernig hann gæti farið með málið fyr- ir Mannréttindadómstól Evrópu. „Ég náði svo númeri þar og málið virtist vera tækt en í mars 1994 fékk ég þá niðurstöðu frá dómnum að þeir sæju ekkert athugavert við niðurstöðu Hæsta- réttar.“ Guðbrandur segist kenna sjálfum sér að vissu leyti um það og að hann hafi ekki sent nægilega mikið af gögnum út. „Hefði ég gert þetta í dag hefði ég staðið mun betur að þessu og rökstutt mál mitt mikið betur.“ En þrátt fyrir enn eina höfnunina gafst Guð- brandur ekki upp. „Ég talaði við þá sérfræðinga frá Veðurstofunni sem höfðu farið vestur þarna fjórum dögum eftir flóðið. Sendi þeim bréf út af þessari túlkun Hæstaréttar að garðurinn hefði ekki verið orsök þess að flóðið féll á húsið okk- ar af svo miklum krafti. Þessir sérfræðingar gáfu þá út sameiginlega yfirlýsingu um það að þessi garður hefði aukið snjósöfnun, aukið kraft flóðs- ins og séð til þess að flóðið hefði farið lengra til austurs. Gögn frá Veðurstofunni um síðasta flóð sem féll þarna árið 1967 sýndu að það flóð féll til vesturs og dreifðist yfir aurkeiluna. Þannig að flóðinu var í raun beint á versta stað. “ Með þessum nýju gögnum frá Veðurstof- unni fékk Guðbrandur málið tekið upp að nýju í Hæstarétti. „Ég ákvað að fara í þetta aftur og var ekkert að ráða mér dýran lögfræðing. Enda var þetta ekki lögfræði heldur verkfræði. En niður- staðan var enn sú sama. Þetta var árið 2002.“ GREINDIST MEÐ KRABBAMEIN Baráttuandi Guðbrands var hins vegar ekki úti. Hann fór fram á það við Ofanflóðasjóð að gerð yrði opinber rannsókn á málinu í eitt skipti fyr- ir öll. „Því var hafnað en mér var vísað á Veð- urstofuna sem ég hafði reyndar beðið um slíka rannsókn strax árið 1991 en var hafnað vegna skorts á upplýsingum. En svo í framhaldinu á yfirlýsingunni frá veðurfræðingunum var farið í rannsókn sem var framkvæmd í Noregi. Þær niðurstöður bentu til þess, eins og allt annað, að garðurinn hefði verið orsökin. Það fyrsta sem ég heyrði samt af niðurstöð- um þessarar rannsóknar var að þær voru kynnt- ar fyrir bæjarstjórn Vesturbyggðar 11. janúar 2005. Þá fór ég að herja á hreppinn því ég hafði fengið það skriflegt frá Magnúsi Jóhannessyni, formanni Ofanflóðasjóðs og ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu, að ef hreppurinn bæði þá um að fara í málið þá yrði það gert.“ Loksins sá Guðbrandur vonarglætu eftir áralanga baráttu en eins og önnur kynni Guð- brands af stjórnsýslunni höfðu verið tók það ægilegan tíma og fyrirhöfn að fá hlutina til að þokast áfram. Guðbrandur hafði þó átt í góð- um samskiptum við Guðmund Guðlaugsson, þáverandi bæjarstjóra Vesturbyggðar, og var hann farinn að vinna í því að málið yrði skoð- að af Ofanflóðasjóði og umhverfisráðuneytinu. Sumarið 2005 varð Guðbrandur hins vegar fyrir miklu bakslagi. „Ég greindist með krabba- mein í lunga. Sem var mikið áfall þar sem ég stóð í þessu stappi við Vesturbyggð og málin loksins að þokast áfram.“ Guðbrandur segist fyrst þá hafa fundið einhvern vilja frá stjórnsýsl- unni til að gera eitthvað í málinu. SENDA SJÁLFUM SÉR BRÉF Í desember 2005 komst svo niðurstaða í málið sem Guðbrandi líkaði þó ekki. Þannig að hann fékk lögfræðing í málið vegna veikinda sinna og málum miðaði vel áfram þangað til kom að sveitarstjórnarkosningum 2006. „Þá töpuðu sjálfstæðismenn meirihlutanum og nýr meiri- hluti tók við. Þá var þar æðsti prestur Úlfar B. Thoroddsen en hann var sveitarstjóri á þeim tíma sem flóðið féll og breytti gilinu á sínum tíma. Gerði það bara upp á sitt einsdæmi.“ Þá hljóp málið í harðahnút að sögn Guð- brands. Eftir mikið stapp og eftir að hafa þurft að skipta þrívegis um lögfræðing vegna þess að tveir þeirra héldu utan í sérnám fékkst loks- ins sú lausn að Vesturbyggð myndi greiða Guð- brandi sex milljónir króna. „Það var búið að nota öll úrræði og ekki hægt að fara með málið í þriðja sinn fyrir Hæstarétt. Ég gekk því að þessu gegn því að ég myndi hreinlega láta hreppinn í friði. Enda gat ég ekki annað gert. Hreppurinn var sloppinn af króknum.“ Málinu var hins vegar ekki lokið í augum Guðbrands. „Þessi samningur var þannig að það var engin viðurkenning á sekt, hvorki hreppsins né ríkisins. Ég samdi því þessa greinargerð um málið þar sem það er tíundað og sendi Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Það tók mig þrjá mánuði að fá fund. Það endaði með því að ég fékk fund með Hafdísi Gísladóttur, aðstoðar- manni hennar. Á meðan það tók mig til dæmis tvær vikur að fá fund með Siv Friðleifsdóttur á sínum tíma sem vildi allt fyrir mig gera. Eftir það var þessu erindi mínu svarað. Ekki af Svandísi heldur af Magnúsi ráðuneytisstjóra og það sagt að ráðuneytið hefði enga frekari aðkomu að þessu máli.“ Guðbrandur sætti sig ekki við þá niðurstöðu og sendi ráðuneytinu annað bréf þar sem hann benti á stjórnsýslulög þess efnis að þá bæri að vísa málinu áfram til þess aðila sem það varð- aði. „Þá var því vísað til Ofanflóðasjóðs þar sem Magnús, ráðuneytisstjóri, er einnig formaður og hann er því að senda sjálfum sér bréf.“ Ofanflóðasjóður segist engin lagaleg úrræði hafa til að takast á við málið en Guðbrandur neitar enn að gefast upp og minnir enn á stjórn- sýslulögin, að ef Ofanflóðasjóður telji erindið ekki eiga heima hjá sér sé honum skylt að vísa því áfram. „Sem er auðvitað bara ríkislögmaður sem tekur við öllum bótakröfum á hendur rík- inu.“ Guðbrandur bíður nú eftir svari vegna þess en hann hefur einnig verið að skoða þann möguleika að senda málið aftur fyrir Mannrétt- indadómstól Evrópu. Þar sem sá möguleiki sé fyrir hendi komi í ljós að fyrri niðurstaða hafi ekki verið rétt. „Ef það gengur ekki verð ég að senda erindi þangað um að það sé hreinlega ekki til hæfur dómstóll hér á landi til að skera úr um þetta mál.“ En líf Guðbrands og fjölskyldu hefur ekki bara verið ein þrautaganga. Árið 1987 eignuðust þau þriðju dótturina sem hefur vaxið og dafn- að. Aðspurður hvernig sonum hans tveimur hafi vegnað eftir flóðið segir Guðbrandur þá góða menn og kemst ekki hjá því að fella tár þegar honum verður hugsað til barna sinna og hversu vænt honum þykir um þau. „Þetta er það verð- mætasta hjá hverju foreldri. Það eru börnin.“ Þrautseigja Guðbrands er hreint út sagt ótrú- leg og hefðu flestir fyrir löngu gefið upp von- ina í baráttu sinni um að réttlætið nái fram að ganga. „Eins og ég segi má maður bara ekki gef- ast upp. Þá á maður ekki neitt eftir. Ef maður missir sjálfsvirðinguna og trúna á réttlætið þá er ekki mikið eftir.“ Guðbrandur segir líka réttlæt- iskennd sína hafa verið hvað mestan drifkraft. „Dóttir mín lét lífið fyrir mistök annarra. Menn verða bara að viðurkenna það. Ég fer ekki fram á það að einn eða neinn verði sóttur til saka vegna þess heldur vil ég bara að kerfið viðurkenni það svo að við getum klárað þetta mál og haldið áfram með lífið. En ég vil líka nota tækifærið til þess að þakka öllu því góða fólki sem hefur hjálpað okkur. Þetta hefur ekki bara verið neikvætt. Það er mik- ið af fólki sem hefur lagt okkur lið og við erum ævinlega þakklát fyrir það.“ DÓTTIR MÍN LÉT LÍFIÐ FYRIR MISTÖK ANNARRA. MENN VERÐA BARA AÐ VIÐURKENNA ÞAÐ. ÉG FER EKKI FRAM Á ÞAÐ AÐ EINN EÐA NEINN VERÐI SÓTTUR TIL SAKA VEGNA ÞESS HELDUR VIL ÉG BARA AÐ KERFIÐ VIÐUR- KENNI ÞAÐ SVO AÐ VIÐ GET- UM KLÁRAÐ ÞETTA MÁL OG HALDIÐ ÁFRAM MEÐ LÍFIÐ. Eins og vatn í rennu Á myndunum sést hvernig hvernig gamli árfar- vegurinn úr gilinu hafði verið dýpkaður og graf- inn niður svo að vatnið færi niður úr gilinu á ein- um stað (til vinstri í átt að húsi Guðbrands). Í stað þess að dreifast yfir aurkeiluna fyrir neðan gilið (hægra megin við árfarveginn). Eins og myndirn- ar sýna er farvegurinn niður úr gilinu líkur rennu sem stefnir beint á hús Guðbrands fyrir neðan. Á myndunum sést hús Guðbrands (bíl lagt þar fyrir utan) og bílskúr hússins þar sem flóðið lagð- ist þyngst á, ásamt eldhúsinu sem er þar á horn- inu. Guðbrandur tekur fram að strax í vikunni eftir að flóðið skall á hafi verið farið að grafa og vinna aftur í gilinu, enda mikið upplausnarástand á staðnum þegar ljóst var hvaða afleiðingar breyt- ingarnar hefðu haft. Á myndunum sjást einnig dómendur frá hér- aðsdómi kynna sér aðstæður á staðnum en Guð- brandur vann málið fyrir héraðsdómi en tapaði því tvívegis í Hæstarétti. Dómendur í Hæstarétti fóru ekki á staðinn til að kynna sér aðstæður. Dómendur úr héraðsdómi Skoða gilið við aðalmeðferð málsins árið 1991. Beint á húsið Myndirnar sýna glögglega hvernig farvegurinn beinir flóðinu beint á hús Guðbrands.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.