Dagblaðið Vísir - DV - 15.10.2010, Síða 37
á landinu,“ segir hún og hlær sínum smitandi
hlátri. „Við fengum virkilega huggulega íbúð á
Laugarvatni með þremur herbergjum og eld-
húsi undir súð. Ég gekk um vistina og sá um
hreingerningu og bauð stelpunum, sem sumar
voru eldri en ég, góða nótt.“
Sama ár, í desember, kom fyrsti sonurinn,
Rúnar, í heiminn. „Ég varð fljótt fullorðin og
var farin að spekúlera snemma í lífinu og til-
verunni. Ég var því tilbúin fyrir foreldrahlut-
verkið, þótt ung væri. Svo stoppaði ég bara og
hef lítið þroskast síðan,“ segir hún og hlær. Einu
og hálfu ári síðar fæddist Einar og stuttu síðar
Unnar. „Það eru ekki þrjú ár á milli Rúnars og
Unnars svo þetta var hitt þrístökkið hans Vil-
hjálms,“ segir hún hlæjandi og bætir við að svo
hafi hinir synirnir þrír, Garðar, Hjálmar og Sig-
mar komið í heiminn. „Garðar var litla barnið
í átta ár. Ég var komin með fjögur börn 23 ára
og hélt alltaf að það kæmi stelpa. Við vorum að
pæla í að reyna við stelpuna og það hefði verið
gaman að sjá hvort hún hefði verið 16. eða 18.
barnið. Annars segist Vilhjálmur vanda sig við
eina sort.“
Draumur á Bifröst
Eftir einn vetur á Laugarvatni fluttu ungu hjón-
in til Reykjavíkur. Gerður segir að ekki hafi
verið um auðugan garð að gresja þegar kom
að húsakynnum. „Við fengum loksins íbúð á
Lynghaganum. Leigusalinn þekkti Vilhjálm
úr íþróttunum og vissi hvar væri hægt að ná
á hann ef við myndum ekki borga. Villi fór að
kenna og var með 2.900 krónur í laun en leigan
fyrir kjallaraíbúðina var 1.500 krónur og við
urðum að borga eitt ár fram í tímann. Við urð-
um því að selja bílinn og áttum ekki krónu af-
gangs. Svo buðust honum afleysingar við Sam-
vinnuskólann á Bifröst og þar fékk hann íbúð
og hærri laun. Þar vorum við í fimm ár og gát-
um safnað okkur pening, sem er eitthvað sem
ungt fólk gerir ekki í dag,“ segir Gerður og bætir
við að henni hafi þótt erfitt að fara frá fjölskyldu
og vinum í Reykjavík. „Á þessum tíma var mað-
ur ekkert að þvælast á milli og við fórum aðeins
tvisvar, þrisvar suður. En á Bifröst er fallegt og
yndislegt að vera með börn svo þessi tími var
algjör draumur.“ Næst hélt fjölskyldan til Reyk-
holts þar sem Vilhjálmur réð sig sem skóla-
stjóra. „Þar vorum við í 15 ár og svo losnaði
staðan hér á Egilsstöðum og hér erum við búin
að vera í 32 ár. Við byggðum okkar eigið hús og
höfum unað okkur vel,“ segir hún en bætir við
að hún líti samt sem áður á sig sem Reykvíking.
Fjölskyldan skiptir öllu
Synirnir sex nældu sér allir í maka annars stað-
ar frá svo nú eru hjónin ein eftir á Egilsstöð-
um. „Ég á sex yndislegar tengdadætur og hef
sem betur fer alveg sloppið við að hafa skipti
á þeim. Þær eru voðalega góðar og elskulegar
og það er hamingja fyrir hverja móður að börn-
in manns elski lífsförunaut sinn. Það sýnir að
maður hefur verið einhvers virði fyrir börnin.
Það er svo dýrmætt þegar vel gengur og ég hef
aldrei fundið fyrir afbrýðisemi í þeirra garð. Ég
er bara glöð yfir því að þeir hafi fundið sér konu,
enda finnst mér sjálfri mikið öryggi í að eiga
mann,“ segir hún og bætir við að fjölskyldan
haldi góðu sambandi. „Barnabörnin eru orðin
19 talsins og eru á mismunandi aldri. Það kom
ekki til greina að þau þekktu ekki hvert ann-
að svo við ákváðum að koma á fót fjölskyldu-
móti þar sem ég og systkini mín hittumst með
maka, börn og barnabörn um hverja verslunar-
mannahelgi. Fjölskyldan skiptir mig öllu, hún
er undirstaðan sem allt byggir á. Við erum dug-
leg að skiptast á skoðunum og erum öll góð-
ir vinir og knúsumst og kyssumst. Strákarnir
hafa líka verið duglegir að koma með sínar fjöl-
skyldur til okkar en eftir því sem börnin stækka
því uppteknari verða foreldrarnir á íþróttamót-
um og öðru sem börnin stunda,“ segir hún en
bætir við að þeim Vilhjálmi þyki ekki einmana-
legt í kotinu þótt börnin séu farin að heiman.
„Það er svo skrítið að við finnum alls ekki fyrir
einmanaleika. Við erum í heil miklum tengsl-
um við þá og fjölskyldur þeirra og skiptumst á
að vera hjá þeim á jólum. Svo fer maður í skírn-
ir, fermingar og afmælisveislur svo við erum á
talsverðum faraldsfæti. Annars erum við voða-
lega heimakær.“
Saknar fjörsins
Hún segir ekki mikið í boði fyrir fullorðið fólk á
Egilsstöðum og að hún sakni stundum þess sem
höfuðborgin hafi upp á að bjóða. „Hér er hvorki
bíó né leikhús og voða lítið við að vera, nema
maður sé í kvenfélagi eða slíku. Ég vil ekki binda
mig þannig heldur vil ég geta farið og notið og
verið laus við allar kröfur. Stundum sakna ég
fjörsins og upplifi mig fasta. Ég er með frjálsan,
villtan vilja, sem er skrítið því ég hef alltaf ver-
ið svo bundin. Í Reykjavík er ég samt eins og út-
spýtt hundskinn. Ég er skíthrædd í umferðinni
og hef aldrei þorað að keyra þar. Samt þykir mér
alltaf vænt um borgina. Hagamelurinn, Tjörn-
in og miðbærinn – þetta eru yndislegir staðir.
Ég held samt að ég yrði að eiga sumarhús til að
halda það út í Reykjavík. Ég er orðin svo góðu
vön og þyldi ekki við í íbúð. Hér þekkja allir alla
en samt erum við út af fyrir okkur í einbýlis-
húsinu okkar og getum þess vegna sett plötu á
fóninn á hæsta styrk. Ætli maður sé ekki orðinn
óhæfur til að búa innan um annað fólk?“
Kýta reglulega
Vilhjálmur kenndi til 73 ára aldurs en er í dag
hættur að vinna. Gerður segir kosti og galla að
hafa hann heima. „Við erum alltaf jafn góðir
vinir en kýtum samt reglulega. Oft spyr ég hann
hvernig þetta verði eiginlega þegar ég verð líka
hætt að vinna. Ég hef stundum áhyggjur af því
að honum leiðist einum heima og eins finnst
mér stundum gott að geta verið í friði þegar ég
kem heim. Ég nýt mín best þegar ég get lagt mig
þegar ég vil og lesið bók þegar mér hentar. Að
sama skapi er yndislegt að sjá hvað hann er feg-
inn að fá mig heim.“
Aðspurð segir Gerður andrúmsloftið á
Egils stöðum ágætt. „Andinn í skólanum er
góður en það eru margir daufir hér í samfélag-
inu. Hér er gott fólk en margir eiga erfitt vegna
hörmunganna. Vonandi tekst ríkisstjórninni að
koma þessu í lag. Það er algjör glæpur að svipta
fimmtuga karlmenn vinnunni. Við konurnar
getum bjargað okkur betur. Við tölum við vin-
konur okkar og fáum þannig útrás fyrir tilfinn-
ingar okkar. Við erum sterkari að því leytinu.
Þeir brotna niður og veikjast. Það er ekki hægt
að bjóða þeim upp á þetta.“
Sviðsljósið stundum slæmt
Gerður og Vilhjálmur hafa verið gift í 52 ár en
hún var aðeins 15 ára þegar þau trúlofuðu sig.
„Þetta er búið að endast ansi vel. Á þessum
tíma var ég rétt að byrja að hugsa um stráka
og því hefur þetta bara átt að fara svona. Við
bara elskum hvort annað,“ segir hún brosandi
og bætir við: „Auðvitað rífumst við og þrösum
annað slagið enda gerir það ekkert til, ef það
endar vel. Við erum gjörólík en komum til móts
við hvort annað.“ Aðspurð segir hún leyndar-
málið að svo löngu og farsælu hjónabandi það
að vera dugleg að ræða saman. „Hjón verða að
tala saman, reyna að skilja hvort annað, fyrir-
gefa hvort öðru og segja hlutina eins og þeir
eru.“
Síðan þau Vilhjálmur fóru að vera saman
hefur nánast alltaf einhver í fjölskyldunni verið
í sviðsljósinu. „Ég er ofsalega stolt af fjölskyldu
minni og það hefur ekkert með athyglina sem
hún hefur fengið að gera. Ég vil bara að þeir
séu ánægðir. Það getur líka verið slæmt að vera
í sviðljósinu. Einar fékk t.d. mikla athygli þegar
hann var að keppa en er aldrei nefndur í dag
og þó á hann örugglega ennþá Íslandsmetið í
spjótkasti. Vilhjálmur studdi hann í íþróttinni
en ýtti honum aldrei áfram enda hafa dreng-
irnir fengið að ráða sinni för sjálfir. Við höfum
verið of upptekin af okkur sjálfum til að skipta
okkur of mikið af.“ Aðspurð segir hún velgengni
Sigmars ekki hafa komið sér á óvart. „Það kom
snemma í ljós að hann þurfti að láta taka eftir
sér og það hefur hann frá mér. Sjálf var ég alltaf
syngjandi og dansandi.“
Heimavinnandi í 23 ár
Gerður hefur alltaf verið óhrædd við að viðra
skoðanir sínar, sem hún segir ekki alltaf vin-
sælar, meðal annars á meðal tengdadætranna.
Til að mynda finnst henni fæðingarorlof feðra
óþarft og íslenskar konur vinna of mikið. „Kon-
ur fara alltof snemma að vinna og það er synd
hvað börnin eru sett lítil á leikskóla. Tengda-
dætrum mínum finnst ég fanatísk og þær koma
með þau rök á móti að það sé ekki hægt að setja
börnin út á götu eins og í gamla daga. En þær
vita hvernig ég er og þótt ég reiti þær stundum
til reiði þykir þeim vænt um mig. Ég hef ekkert
á móti leikskólum en finnst börn of lítil þegar
þau geta ekki sagt til þegar þau þurfa að pissa.
En þetta er bara mín skoðun. Það liggur öllum
á að fara að vinna svo hægt sé að kaupa dýra
hluti. Börnum er alveg sama um peninga og
lúxus. Mínum börnum fannst ágætt að vera
saman í herbergi. Það eru þá frekar stelpur sem
vilja vera út af fyrir sig. Það er óskaplegt vinnu-
álag á ungu fólki. Það kaupir sér strax dýr hús
í stað þess að safna fyrir draumaíbúðinni. Mér
finnst ég hafa haft það óskaplega gott að geta
verið svona lengi heima. Ég var heima í 23 ár
og byrjaði að vinna 38 ára. Þá var ég líka tilbúin
að komast út og hitta annað fólk,“ segir Gerð-
ur sem einnig hefur sterkar skoðanir á hjóna-
skilnuðum.
Skilnaðarfaraldur í samfélaginu
„Fólk er alltof fljótt að hlaupa til og skilja. Það
er eins og það sé einhver faraldur í gangi. Svo
framarlega sem makinn hefur ekki gert neitt
ljótt af sér er um að gera að staldra aðeins við
og muna hvað það var sem gerði það að verk-
um að við heilluðumst af þessari manneskju til
að byrja með. Varla voru það foreldrarnir sem
píndu ykkur til að giftast. Hvað hefur gerst sem
er svona svakalegt að það sé ekki hægt að laga
hlutina?“ spyr hún og bætir við að konur séu
orðnar mun frjálsari en þær voru og því ekki
jafnháðar mönnum sínum fjárhagslega. „Eins
held ég að það sé ekki gott að vera í of miklu
vinkonustandi. Allt slíkt hefur áhrif. Ef vinkon-
an er að skilja getur það smitað út frá sér. Það er
alltaf hægt að finna einhver vandamál og gera
úlfalda úr mýflugu.“
Fylgir sínum manni
Gerður hefur helgað líf sitt Vilhjálmi og son-
unum. „Draumurinn var að verða leikkona
en þegar ég óx úr grasi vildi ég verða íþrótta-
kennari. Ég var komin inn í skólann og búin
að borga inn á námið en fór ekki. Þarna var
ég komin með þrjú börn. Mamma og tengda-
mamma ætluðu að sjá um börnin fyrir mig en
námið tók níu mánuði og ég hefði bara kom-
ið heim um jólin. Eitt kvöldið horfði ég í augu
þeirra og sagði við þá að nú þyrfti mamma
að fara til að mennta sig. Þeir störðu á mig til
baka og ég vissi að ég gæti ekki farið frá þeim.
Ég gat ekki látið einhvern annan sjá um börn-
in mín og ég hefði aldrei haldið þetta út,“ seg-
ir hún en bætir við að hún horfi sátt til baka.
„Þetta var mitt val og ég sé ekki eftir neinu.
Auðvitað hefði verið gott að vera með kenn-
arapróf en ég hef alltaf fylgt mínum manni.
Svoleiðis hefur það þurft að vera og ég sé ekki
eftir neinu.“
indiana@dv.is
FÖSTUDAGUR 15. október 2010 VIÐTAL 37
Við bara elskum
hvort annað Stelpurnar sem ég vann með voru eldri en ég og sögðu að þessi maður væri allt-
af að horfa á mig. Ég skildi ekki
hvað þessi gamli maður væri
að glápa.
Ég hef stundum áhyggjur af því
að honum leiðist ein-
um heima og eins finnst
mér stundum gott að
geta verið í friði þegar
ég kem heim. Hamingjusöm Gerður og Vilhjálmur
trúlofuðu sig þegar hún var 15 ára. MYNDIR KOX