Dagblaðið Vísir - DV - 29.06.2012, Blaðsíða 36
Ásgrímsson, hefðu tekið ákvörðun
um þátttöku í stríðinu áður en ríkis-
stjórnarfundur um það var haldinn.
Tíminn átti svo eftir að leiða í ljós að
fréttin var rétt.
„Frumheimild mín var tímasetn-
ing á fréttvef CNN þar sem var mis-
munandi eftir því hvort maður var
að skoða amerísku eða evrópsku út-
gáfuna. Ég hafði verið að skoða þá
amerísku og tímasetningin varð til
þess að ákvörðunin féll röngu megin
hryggjar. Þetta var sem sagt spurning
um klukkustundir.
Seinna hefur þó verið leitt í ljós
með óyggjandi hætti að fréttin var rétt.
Það hefur bæði verið skrifað um það í
Morgunblaðinu og í bókum síðan.“
En þegar fréttin birtist sendu Hall-
dór Ásgrímsson, þáverandi forsætis-
ráðherra, og ráðuneytið frá sér harð-
ort bréf um að fréttin væri röng og
þetta væri dæmi um þau vinnubrögð
sem tíðkuðust gegn ríkisstjórn inni.
„Hann fordæmdi fréttina og þessi
vinnubrögð, sem hann var þá að gera
gegn betri vitund því hann hefur vit-
að að fréttin var rétt eins og tíminn
leiddi í ljós.“
Traust ofar öllu
Róbert ákvað strax daginn eftir að
fréttin birtist að segja starfi sínu lausu
og gerði það. „Mér fannst ég ekki
geta haldið áfram sem fréttamaður,
getandi ekki fært sönnur á fréttina.
Það fannst mér óþolandi og sérstak-
lega í ljósi þess að ég hafði verið tals-
maður faglegra vinnubragða sem
formaður Blaðamannafélagsins. Ég
þurfti að fara frá og koma þá kannski
að þessu síður. Hugsa mín mál og sjá
hvað myndi gerast.
Mér fannst maður þurfa að vera
trúr þessu prinsippi, hvort sem
það er sem blaðamaður eða stjórn-
málamaður, að maður þurfi að axla
ábyrgð með sýnilegum hætti. Ekki
bara; já, ég ber ábyrgð og biðst afsök-
unar, heldur að það séu einhverjar
raunverulegar afleiðingar.“
Róbert segir það of algengt að
menn rugli saman lagalegri ábyrgð og
skyldum sínum gagnvart lesendum
eða kjósendum. „Að menn séu sak-
lausir uns sekt er sönnuð. Spurningin
um trúverðugleika hefur ekkert með
þessa lagareglu að gera. Það verð-
ur að ríkja traust milli þín og þinna
lesenda eða milli þín og kjósenda
þinna. Ef eitthvað gerist sem kastar
skugga á þennan trúverðugleika og
þetta traust þá verður þú að fara frá.
Fara frá og endurnýja umboð þitt.
Þetta snýst ekki um það hvort þú hafir
brotið lög eða reglur. Heldur það eitt;
getur fólk treyst þér?“
Sögur af fólki
Eftir að Róbert hætti á Stöð 2 ákvað
hann að taka sér tíma til að hugsa
málin. En fljótlega var hann beðinn
um að taka þátt í myndun Talstöðv-
arinnar sem Illugi Jökulsson, Sigurð-
ur G. Tómasson og fleiri komu að en
hún var partur af útvarpssviði 365.
„Ég var ekki viss um að ég vildi
gera það að aðalstarfi. Einfaldlega
vegna þess að það var of stutt síðan
ég sagði upp á Stöð 2. Maður á aldrei
að taka slíkar ákvarðanir í uppnámi.
Það fylgir því alltaf ákveðið áfall að
missa vinnuna hvort sem þú segir
upp eða ert rekinn.“
En Róbert tók að sér að gera viku-
legan þátt sem hét Sögur af fólki. „Ég
vann að gerð þessara þátta í nokkra
mánuði og hafði virkilega gaman af. En
þarna kynntist ég Gunnari Smára Egils-
syni og við fórum að tala um þessa hug-
mynd að búa til fréttastöð. Þetta varð
til þess að þarna, nokkrum mánuð-
um eftir að ég hætti á Stöð 2, var ég
orðinn rekstrarlegur framkvæmdastjóri
fréttasviðsins.“ Þetta var upphafið að
hinni sálugu fréttastöð NFS.
„Við þetta starfaði ég svo næstu
tvö árin. Við að sameina öll fréttasvið
fyrirtækisins, tæknideildir og fleira.
Þetta hafði allt verið rekið hvert á
sínum staðnum en var allt sett undir
hatt þessarar nýju stöðvar.“
Hugsjón blaðamanna
Róbert sá um að stýra um 100 manns
sem að verkefninu komu en NFS var
í loftinu í 10 mánuði. „Þetta var mjög
gefandi tími en mjög lærdómsríkur
líka. Maður fékk mikla möguleika til
að skapa. Það var mjög skemmtilegt
fyrir gamlan blaðamann að komast
í þessa stöðu því stöðin var sett upp
af blaða- og fréttamönnum. Þetta var
ekki tilbúningur einhverra bauna-
teljara eða skilgreint út frá tækni-
deildinni. Þetta var algjörlega skil-
greint út frá sjónarmiðum þeirra sem
öfluðu efnisins.“
Róbert segir erfiðasta hluta starfs-
ins hafa verið að þurfa að segja upp
fólki. „Þetta var stór vinnustaður í
stöðugri þróun og þess vegna var
maður að segja upp fólki nánast í
hverjum mánuði. En þetta fékk ekki
þann tíma sem þetta þurfti til að verða
að því sem þetta hefði getað orðið.“
Róbert telur að hægt hefði verið
að finna hæfilega rekstrarstærð og
með aukinni dreifingu hefðu fleiri
möguleikar opnast. „Tölum nú ekki
um í ljósi þeirra atburða sem áttu sér
stað í kjölfarið. Hvort sem það var á
vettvangi borgarmálanna, stjórn-
málanna, efnahagsmálanna eða í
náttúrunni. Þá áttu sér stað atburðir
sem fönguðu athygli almennings svo
dögum og mánuðum skipti.“
Kæri Jón
Þegar Róbert fékk fregnir af því að
leggja ætti stöðina niður og segja
upp 30 manns ákvað hann að taka
ekki þátt í því. „Mikið af þessu fólki
hafði ég persónulega fengið til
vinnu og talið því trú um að þetta
væri verk efni sem væri þess virði að
taka þátt í. Mér fannst ég líka hafa
fengið ákveðin loforð frá eigendum
um langlundargeð til að láta þetta
verk efni ganga upp. Þegar ekki varð
af því ákvað ég að hverfa af vettvangi
og taka ekki þátt í þessum niður-
skurði.“
Róbert skrifaði í framhaldinu
frægt bréf sem hét Kæri Jón og var
opið bréf til Jóns Ásgeirs Jóhann-
essonar, eiganda 365 miðla. Í bréf-
inu bað Róbert Jón opinberlega að
loka ekki stöðinni, talaði um hlut-
verk hennar í lýðræðissamfélagi og
minnti á loforðin um að stöðin fengi
tvö til þrjú ár til að festa sig í sessi.
„Þarna fór ég framhjá forstjóra
fyrirtækisins sem þá var orðinn Ari
Edwald og talaði beint við þjóðina og
eigendur þess. Ég vissi því að dagar
mínir á stöðinni væru taldir. Ég væri
í raun að rita opinbert uppsagnar-
bréf í leiðinni. Enda var mér sagt
upp tveimur eða þremur dögum síð-
ar. Fljótlega eftir það var svo stöðinni
lokað.“
Ungur og róttækur
Eftir þetta lá leið Róberts í pólitíkina
á ný en eins og fyrr sagði var hann
virkur í pólitík allt frá unglingsár-
um. Hann vann til að mynda fyrir Al-
þýðubandalagið og R-listann í kosn-
ingum á árunum 1994 og 1995 auk
þess að vera í forystu fyrir ungliða-
hreyfingu Alþýðubandalagsins.
Róbert var róttækur á þessum
árum sem voru mikil umbrotsár í
vinstri pólitík á Íslandi og undan-
fari þess að Samfylkingin var stofn-
uð. „Ég hafði talað fyrir sameiningu
þessara flokka, Alþýðubandalags, Al-
þýðuflokks, Kvennalista og Þjóðvaka,
og árið 1997 lýsti ég því yfir ásamt
forystu ungra jafnaðarmanna að við
myndum ekki kjósa flokkana í næstu
kosningum ef þeir byðu sig fram hver
í sínu lagi. Þetta var svona upphafið
að sameiningunni en það hafði ver-
ið töluverður mótþrói hjá eldri kyn-
slóðinni.
Á þessum tíma hafði verið stofn-
að félagið Gróska sem var myndað af
ungliðahreyfingum þessara flokka.
Við stofnun þess man ég að Mar-
grét Frímannsdóttir sagði við okk-
ur Björgvin G. að nú yrði ekki aftur
snúið.“
Fyrir fullt og fast
Eftir að Róbert lét af störfum hjá NFS
tók hann til starfa sem aðstoðarmaður
þáverandi samgönguráðherra, Krist-
jáns Möller, auk þess sem hann bauð
sig fram í alþingiskosningunum 2007.
Róbert var varaþingmaður næstu tvö
árin en komst svo inn á þing í kosn-
ingunum 2009 og hefur setið þar síð-
an. Það var í aðdraganda kosning-
anna 2009 sem hann tók ákvörðun um
breyta lífi sínu til frambúðar.
„Þetta var ekki eitthvað sem mér
var ýtt út í og það kom öllum á óvart
í kringum mig þegar ég tók ákvörðun
um að segja skilið við áfengi fyrir fullt
og fast. Enginn hafði orðið var við að
ég væri í einhverjum vandræðum. Í
sjálfu sér var ég ekki kominn í neitt
þrot, heldur tók ég bara ákvörðun
um að það væru meiri mínusar við
þetta en plúsar.
Ég held að þetta sé með betri
ákvörðunum sem ég hef tekið. Þó
mín fjármál og fjölskylduaðstæður
hafi verið með besta móti hafa lífs-
gæði mín bara aukist svo gífurlega.
Ég er í betra formi en þegar ég var
18 ára. Orðinn 41 árs,“ segir Róbert
en hann stundar orðið langhlaup
af miklum krafti og hljóp sitt fyrsta
maraþon í fyrra. „Mér finnst stund-
um þegar ég er að hitta gamla félaga
að ég sé að hitta fyrrverandi jafn-
aldra mína. Þetta fer svo illa í fólk að
mörgu leyti og fólk fer ekki vel með
sig. Því miður eyddi ég of mörgum
árum í að komast að því að líf mitt er
mun betra án áfengis.“
Sjúkdómur sem þróast
Þó að veikindi föður Róberts hafi haft
mikil áhrif á líf hans þakkar hann líka
reynslu sinni að hann sé betri mað-
ur í dag.
„Ástæðan fyrir því að ég hætti
að drekka er að stórum hluta sú að
ég sá hvernig fór fyrir honum. Ég
veit að þetta er sjúkdómur sem þró-
ast áfram. Hann staldrar ekki við og
verður alltaf verri og verri. Ef þú ert
með þetta á annað borð þá endar
þetta þarna. Það er bara spurning
um hversu langan tíma það tekur.
Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að
eiga fimm börn og ætlaði bara ekkert
að bjóða þeim upp á þetta. Að horfa
upp á svona lagað. Við getum dregið
jákvæðan lærdóm af mistökum feðra
okkar og alger óþarfi að láta söguna
endurtaka sig.“
Lærði að verða betra foreldri
Róbert er mikill fjölskyldumaður og
segist njóta þess meira með hverju
árinu sem líður. Hann á tvö barna
sinna úr fyrra hjónabandi með Sig-
rúnu Elsu Smáradóttur – Smára sem
er tvítugur og Ragnheiði sem er 17
ára. Stjúpdótturina Þorgerði, sem er
12 ára, og þau Láru, átta ára, og Ólaf,
sex ára, með Brynhildi Ólafsdóttur
eiginkonu sinni.
„Ég var mjög ungt foreldri og eft-
ir því sem árin líða lærir maður þetta
betur. Að gefa sér þann tíma sem
þarf. Maður var alltaf upptekinn af
því að leita að pössun. Komast í hitt
og þetta. Ball, árshátíð eða á Þjóðhá-
tíð og svo framvegis.
Svo er það þannig að samvistin
með börnunum er að gefa manni svo
miklu meira en aðrir hlutir. Þetta er
ekki spurning um að vera að gefa af
sér heldur er maður að fá svo mik-
ið til baka. Ég held því fram að ég
sé búinn að læra að verða betra for-
eldri. Þetta er spurning um að gefa
sér tíma og við reynum að gera það
hjónin. Við ferðumst mikið og þau
eru stundum eins og flóttamanna-
börn, alltaf á ferðinni. Það er stund-
um um það rætt að fá að vera heima
um helgina.“
„Ég vil framar“
Eftir að Róbert sagði skilið við áfeng-
ið hefur hann ekki bara meiri orku í
fjölskyldulíf, fjallgöngur og langhlaup
heldur í starf sitt líka. Hann hefur
mikinn metnað og ætlar sér langt.
„Ég hef sumpart upplifað það
þannig að ég hafi setið á aftari bekkj-
unum í þinginu síðustu þrjú árin. Mér
finnst ég hafa náð að vinna ágætlega
út frá þeirri stöðu og það hefur verið
lærdómsríkt, en ég vil framar. Ég hef
metnað til þess að vera í forystu Sam-
fylkingarinnar í næstu kosningum og
sitja í næstu ríkisstjórn.
Þrátt fyrir að ræturnar séu í Suður-
kjördæmi þá hef ég verið búsettur
í Reykjavík síðustu 20 árin og á þar
gott tengslanet og stóran stuðnings-
hóp og því hef ég ákveðið að bjóða
mig fram þar í næstu kosningum.
Þar fyrir utan hef ég aldrei litið á
mig sem sérstakan kjördæmaþing-
mann og er alfarið á móti núverandi
kjördæmaskipan. Hlutverk mitt og
allra þingmanna er að hugsa um hags-
muni landsins í heild. Landsbyggðar-
þingmenn eiga frekar að vera tengilið-
ir milli þings og hinna dreifðari
byggða fremur en gæslumenn hags-
muna. Mér fannst mikilvægt að byrja
minn pólitíska feril í Suðurkjördæmi
og taka slaginn í Eyjum. Ef maður
kemst óbeygður frá þeim slag þá ætti
maður að þola flest annað.“ n
36 Viðtal 29. júní–1. júlí 2012 Helgarblað
Hætti fyrir sjálfan sig og börnin Róbert ásamt elstu börnunum sínum, Smára og
Ragnheiði. Mynd EinKaSaFn„Ég hef metnað til
þess að vera í for-
ystu Samfylkingarinnar í
næstu kosningum og sitja
í næstu ríkisstjórn.“
Hættur fyrir fullt og fast Róbert sagði skilið við áfengi og segir líf sitt hafa gjörbreyst til batnaðar. Mynd SigTryggUr ari