Dagblaðið Vísir - DV - 19.09.2014, Page 45
Menning 45Helgarblað 19.–22. september 2014
Að troða hreindýri
inn um skráargat
Huldar Breiðfjörð um kvikmyndaskrif og leikritun, París norðursins og Gauka
H
uldar Breiðfjörð komst fyrst í
sviðsljósið fyrir ferðasöguna
Góðir Íslendingar, sem hlaut
tilnefningu til Íslensku bók-
menntaverðlaunanna árið
1998. Síðan þá hefur hann sent frá
sér nokkrar bækur, en einnig látið að
sér kveða í kvikmyndaskrifum og nú
síðast leikritun. Nú á haustmánuðum
eru tvö ný verk eftir Huldar í menn-
ingarsviðsljósinu. Næsta föstudag
verður leikritið Gaukar frumsýnt á
Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu, en
það er frumraun Huldars í leikritun.
Á sama tíma trónir kvikmyndin Par-
ís norðursins, sem hann skrifaði, á
toppi aðsóknarlistans í kvikmynda-
húsum landsins aðra helgina í röð.
Feðgar byggja pall
París norðursins er þriðja kvik-
myndin í fullri lengd sem framleidd
er eftir handriti Huldars. Samstarf
hans og leikstjóra myndarinnar, Haf-
steins Gunnars Sigurðssonar, á sér þó
nokkurn aðdraganda. „Við kynntu-
mst þegar við vorum að læra kvik-
myndagerð í New York á árunum
2004 og 2007, hann í Columbia og ég
í NYU. Við urðum fljótlega góðir vin-
ir og töluðum mikið um bíómyndir
á þessum árum. Við þekkjumst því
vel og ég þykist yfirleitt vita hvaða
skoðun hann hefur á þessari og hinni
myndinni, og öfugt. Ég skrifaði fyr-
ir hann lokaverkefnið í skólanum og
upp úr því fórum við að tala um að
gera mynd í fullri lengd. Síðan kom
hann til mín með þessa hugmynd að
París norðursins – sem var enn mjög
einföld. Hann hafði séð fyrir sér feðga
fyrir vestan sem væru að byggja pall
og það gengi eitthvað brösuglega,
samband þeirra væri stirt. Svo væri
þarna einhver kona á sveimi. Ég tók
þetta eiginlega bara þaðan og sagan
fór að vinda upp á sig.“
Gagnrýnendur ekki
lengur sömu sannleiksvélarnar
Viðtökurnar hafa almennt verið góð-
ar þó að ekki séu allir gagnrýnendur
jafn hrifnir. Myndin fékk fjórar stjörn-
ur hjá DV en tvær hjá Fréttablaðinu
og nokkuð kaldar kveðjur. „Auðvitað
gerum við okkur grein fyrir því að við
erum með mynd sem er kannski ekki
endilega fyrir alla, kannski sem betur
fer. Þetta er svart og kómískt mann-
legt drama um ósköp venjulegt fólk.
Sumir vilja bara aksjónpakka þegar
þeir fara í bíó. En hún var á toppnum
aðra sýningarhelgina og það þykir
besti mælikvarðinn á hvernig mynd
er að spyrjast á Íslandi. Þannig að að-
standendur myndarinnar eru mjög
glaðir með viðtökurnar.“
Huldar segist ekki velta sér mikið
upp úr mögulegum viðtökum þegar
hann vinnur að verkum sínum en
auðvitað byggist upp spenna þegar
frumsýningarhelgin nálgast. Hann
segir þó mikilvægi hreinræktaðrar
kvikmyndagagnrýni fjölmiðla hafa
breyst. „Það hafa orðið miklar
breytingar á þessu gagnrýnenda-
landslagi. Einu sinni var þetta þannig
að það var einn krítíker á Moggan-
um og einn á DV og þeir voru ein-
hvers konar sannleiksvélar. En núna
er umræðan allt í kringum mann og
úti um allt. Alveg jafn sterk á Face-
book og í fjölmiðlum. Ég er eigin-
lega að upplifa í fyrsta skipti hversu
breið og lýðræðisleg hún er orðin.
En það er kannski munur á þegar
kemur að bíói og bókum. Gagnrýn-
andinn er lengi vel sá eini sem hefur
lesið bókina þegar krítíkin hans birt-
ist og því er rödd hans mjög sterk. En
þegar kemur að bíómynd er gagn-
rýnandinn bara einn af mörg þúsund
manns sem hafa líka séð myndina
þegar dómur hans birtist.“
Að troða hreindýri
inn um skráargat
Næstkomandi föstudag þreytir Huld-
ar frumraun sína sem leikskáld,
þegar leikritið Gaukar verður frum-
sýnt í Borgarleikhúsinu. Verkið fjallar
um tvo menn sem hittast á hótelher-
bergi miðja vegu á milli Reykjavík-
ur og Vestfjarða, sá eldri er að leita
að góðum eiganda fyrir gæludýrið
sitt og sá yngri hefur áhuga á dýrinu.
„Þegar hann er kominn inn á her-
bergið tekur eldri maðurinn hann í
nokkurs konar persónuleikapróf til
að athuga hvort það sé ekki í lagi með
hann. Þá kemur upp ákveðið atriði
sem margir myndu telja smáatriði
en veldur því að skyndilega er fund-
ur þeirra í uppnámi,“ útskýrir Huldar.
Það er Jón Páll Eyjólfsson sem leik-
stýrir, en Hilmar Guðjónsson og Jó-
hann Sigurðsson leika aðalhlutverk-
in.
Hann segir það hafa verið
skemmtilega reynslu að skrifa fyrir
leikhús og um margt ólíkt kvik-
myndaskrifum. „Það að skrifa kvik-
myndahandrit er svolítið eins og
troða hreindýri inn um skráargat,
maður þarf að koma svo miklu fyr-
ir inn í formið og ekki alltaf gefið að
það gangi upp. Kvikmyndahandrit
er mjög stíft form en í leikriti hefur
maður aðeins meira rými og getur
dvalið lengur við ákveðin atriði.“
En hvernig varð leikritið til? „Ég
hafði gengið með þessa hugmynd í
einhvern tíma en fór svo með hana í
ritsmiðju á vegum FLH, Félags leik-
skálda og handritshöfunda. Það var
frábært að fá að vinna með fólkinu
þar og fyrstu drögin að þessu leikriti
urðu til í smiðjunni. Það voru mjög
áhugaverðir hlutir að gerast þarna,
til dæmis var Lilja Sigurðardóttir að
byrja á Stóru börnunum í þessari
sömu smiðju og hlaut svo Grímuna
í fyrra. Það virðist margt spennandi
framundan í íslenskri leikritun. Ein-
hverju síðar sýndi ég Borgarleik-
húsinu verkið og fólk þar á bæ fékk
áhuga. Þá komst Jón Páll í málið og
það hefur verið mjög skemmtilegt að
vinna þetta áfram með honum.“
Karlmenn, nálægð og samskipti
Bæði París norðursins og Gaukar
fjalla um togstreitu í samskiptum
tveggja karlkyns aðalsögupersóna.
Huldar segir þessi líkindi þó vera að
einhverju leyti tilviljun og ekki endi-
lega benda til þess að karlmannleg
samskipti og karlmennska sé honum
svo hugleikin.
„Ég skrifaði þessi verk á ólík-
um tíma og það er tilviljun að þess-
ar frumsýningar koma upp á svip-
uðum tíma. Þegar Haddi Gunni var
búinn að koma með pöntun á þess-
um tveimur feðgum og konunni fyrir
vestan velti ég lengi fyrir mér hvað ég
ætti að gera við þá hugmynd. Ég fór
svo að taka eftir því að það var fullt
af tækifærum í feðgasambandinu til
að skoða samskipti frá ýmsum sjón-
arhornum. Og þennan hlutverkaleik
sem við lendum oft í hérna á Íslandi.
Eins og til dæmis þegar fólk mæt-
ir á AA-fund þar sem fólk talar um
óskilgreinda aðila en helmingurinn
á fundinum veit nákvæmlega um
hvern er verið að ræða. En auðvitað
verða allir að spila með því annars
virkar fyrirkomulagið ekki. Þessa
skrítnu togstreitu á milli fjarlægðar
og nálægðar sem er alltaf að koma
upp í litla samfélaginu. Og auðvitað
fjallar myndin líka um karlmennsk-
una en þá aðrar hliðar á henni en
yfir leitt og vonandi í nýju ljósi.“
Hvað er það þá sem hann vill ná
fram með listaverkum sínum, hvað
vill hann að fólk upplifi? „Mér leið-
ast bækur og kvikmyndir þar sem
höfundurinn er að bera á borð ein-
hvern boðskap. Mér finnst það ekki
hlutverk skáldskaparins lengur. En
ég geri ráð fyrir því að maður vilji
bregða stækkunargleri á eitthvað, í
mínu tilviki eitthvað í kringum okk-
ur hérna og kannski oft að sýna það
í húmorísku ljósi. En þegar maður
er kominn út í það vill maður líka
snerta fólk með einhverjum hætti í
leiðinni og skilja það eftir með nýjar
spurningar, frekar en svör. Það er til
dæmis margt í París norðursins sem
feður geta velt fyrir sér.“
Þurfa að halda
mörgum boltum á lofti
Hvernig eru aðstæður til að lifa af
listinni á Íslandi? „Það er örugglega
jafn mikið hark og það hefur alltaf
verið. Ein aðferðin er sú að vera
með nóg af boltum á lofti, svo bara
sjá hvað fer í gang. En takturinn þarf
að vera svolítið hraður hjá skapandi
fólki hér á landi ef það ætlar að lifa af
þessu. Og stundum setur það mark
sitt á hlutina. Engu að síður eru ótrú-
lega góðir hlutir í gangi hérna mið-
að við hvað þetta er lítið land, lítill
markaður og litlir peningar.“
Getur þá verið að þrátt fyrir
grósku í listum hér á landi geri að-
stæðurnar íslenskum listamönnum
ókleift að búa til virkilega stór og
djúpstæð listaverk? „Það má al-
veg velta því fyrir sér. Maður heyrir
fólk stundum biðja um stóru breiðu
skáldsöguna sem tekur mörg ár að
búa til. En það er auðvitað fjárhags-
lega erfitt fyrir íslenskan höfund að
sitja í mörg ár yfir sama verkinu.
Jonathan Franzen gæti ekki leyft
sér að vera í tíu ár að skrifa íslenska
skáldsögu. Hins vegar eru margar ís-
lenskar skáldsögur sem voru skrif-
aðar á tveimur árum miklu betri en
það sem hann gerir á 10 árum. Þetta
er því afstætt.“
Eins og íslenskum listamanni
sæmir heldur Huldar nokkrum bolt-
um á lofti þessa stundina, hvort
heldur er af illri nauðsyn eða dugn-
aði. „Ég er að skrifa bók og líka með
nýtt leikrit í höfðinu. Við Hafsteinn
Gunnar erum að þróa aðra kvik-
mynd en við vitum ekki en hvenær
hún fer í tökur, það er háð fjármagni
og öllu því. En verkefnastaðan er
mjög fín í augnablikinu.“ n
„Einu sinni var þetta
þannig að það var
einn krítíker á Mogganum
og einn á DV og þeir voru
einhvers konar sannleiks-
vélar. En núna er umræð-
an allt í kringum mann og
úti um allt.
Kristján Guðjónsson
kristjan@dv.is
Hið húmoríska
stækkunargler
Huldar Breiðfjörð
segist vilja bregða
stækkunargleri á um-
hverfið í kringum sig og
sýna í húmorísku ljósi.
Mynd SiGtryGGur Ari
tilbúin fjarlægð
Sigurður Skúlason í
hlutverki sínu í París
norðursins. Mynd SKjáSKot
úr StiKlu PAríS norðurSinS
„Mér leiðist
verk þar sem
höfundurinn er að
bera á borð einhvern
boðskap