Náttúrufræðingurinn

Árgangur

Náttúrufræðingurinn - 2009, Síða 57

Náttúrufræðingurinn - 2009, Síða 57
121 Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags Náttúrufarsannáll 2007 Árni Hjartarson og Droplaug Ólafsdóttir Veður Árið 2007 var með hlýrri árum og að ýmsu leyti dæmigert fyrir hin mildu ár sem áratugurinn á undan einkenndist af. Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar, sem Trausti Jónsson hefur tekið saman, má sjá að veturinn var tíðindalítill framan af, engin stórviðri og þorrinn heldur bitlítill. Það var ekki fyrr en í apríl að dró til tíðinda og þá vegna hlýinda. Heitir loftmassar flæddu í tvígang yfir landið. Í upphafi mánaðar gekk hitabylgja yfir austanvert land þannig að hiti í Neskaupstað varð 21,2°C. Slíkur hiti hefur ekki mælst svo snemma árs áður. Síðari bylgjan kom í mánaðarlok og gætti hennar um mestallt land. Þá féll landshitamet aprílmánaðar með 23,0°C hita í Ásbyrgi. Gamla apríl-metið var frá Hallormsstað 2003. Þessi hlýindi entust þó ekki lengi því maí var fremur kaldur, þótt hvergi væri hægt að tala um vorhret. Júní var hins vegar hlýr og sólríkur og ákaflega þurr, einkum norðaustanlands. Á Akureyri var þetta þurrasti júní frá upphafi mælinga, með 0,4 mm úrkomu. Þurrkarnir héldu síðan áfram í júlí og fram í ágúst, einkum um vestanvert land, grunnvatnsstaða varð óvenjulág og vatnsból þornuðu svo víða ríkti vandræðaástand. Um miðjan ágúst breytti um veðurlag; bjartviðri, hlýindi og þurrkar viku fyrir dumbungsveðri og rigningum og það veðurlag einkenndi síðsumarið og haustið og allmörg staðbundin úrkomumet voru sett í október. Desember var mjög úrkomusamur og hlýr en einkenndist þó helst af stórviðrum er krappar lægðir gengu yfir landið. Tjón varð í stormum um miðjan mánuð í Hafnarfirði, Borgarnesi og víðar og björgunar- sveitir áttu annríkt. Árið kvaddi síðan með enn einum storminum sem olli töfum á flugi og enn voru björg- unarsveitir á þönum út um borg og bý. Jöklar Úr jökulheimum var lítið um nýnæmi þetta árið og flestir eða allir jöklar létu heldur undan síga. Oddur Sigurðsson skrifar um sporðamælingar í Fréttabréf Jöklarannsóknarfélagsins og þar kemur fram að slíkar mælingar fara árlega fram við hátt í 50 jökla. Haustið 2007 hafði Heinabergsjökull einn gengið fram en þar sem hann er á floti í jökullóni hegðar hann sér ekki í samræmi við loftslag nema til langs tíma litið. Nú er enginn framhlaupsjökull í gangi og er það í fyrsta sinn í tæpa tvo áratugi sem svo hagar til. Reykjafjarðarjökull og Búrfellsjökull hafa verið í framhlaupsham undan- farin ár en höfðu báðir hörfað lítillega haustið 2007. Skriðuföll Gríðarmikið berghlaup varð við Morsárjökul. Aðal- hrunið varð 20. mars en síðan hljóp smærri fylla fram 17. apríl. Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur skoð- aði ummerki ásamt fleirum. Urðartungan á jöklinum er um 1600 m löng og um 720.000 m2 að flatarmáli. Brotsárið í fjallshlíðinni er um 330 m hátt. Rúmmál bergsins sem hljóp fram er talið um 4 milljónir m3, sem jafngildir um 10 milljón tonnum. Urðin er afar stórgrýtt og björg allt að 8 m í þvermál eru algeng. Ástæður hlaupsins eru undangröftur jökulsins í hlíðinni neðan brotsins. Áratugir eru síðan jafnmikið berghlaup hefur orðið hérlendis. Jarðskjálftar Árið var fremur rólegt á jarðskjálftasviðinu. Smáskjálft- ar voru tíðir við Herðubreiðartögl og undir Goðabungu í Mýrdalsjökli en engar stórar hrinur urðu á þessum stöðum. Mesta skjálftahrina ársins varð 70–80 km suð- vestur af Reykjanesi í febrúarlok. Stærstu skjálftarnir eru taldir hafa náð 4,7–4,8 stigum. Önnur hrina varð síðan nær landi á Reykjaneshrygg þann 10. apríl og þar náði stærsti skjálfti 4,6 stigum. Í apríl fór að verða vart við skjálftavirkni undir Upptyppingum sem hélt síðan áfram í hrinum út árið. Virkni þessi er óvenjuleg að því leyti hversu djúpt hún liggur í jarðskorpunni, eða á 15–20 km dýpi. Allt eru þetta smáskjálftar. Hrina skjálfta varð við Selfoss 20. nóvember og var stærsti skjálftinn í hrinunni 3,5 stig. Í nóvember urðu einnig skjálftahrinur við Lang- jökul, önnur um miðjan mánuð í Þjófadölum og á línu Berghlaup varð við Morsárjökul. Ljósm.: Þorsteinn Sæmundsson.

x

Náttúrufræðingurinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.