Valsblaðið - 01.05.2012, Blaðsíða 4
4 Valsblaðið2012
Jóla hvað? Jólahugvekja 2012
Jólin eru framundan. Jólaaðventan er
tími eftirvæntingar. Orðið aðventa þýðir
koma. „Jólin eru’ að koma“, heyrum við
sungið í útvarpinu. En hver er eiginlega
eftirvæntingin. Við hverju búumst við?
Hvers væntum við á jólum?
Ég hef heyrt svo marga tala um það
undanfarnar vikur að það megi ekki byrja að skreyta of snemma
fyrir jólin, því það skemmi fyrir. Maður verði orðinn of leiður á
öllu skrautinu og jólaljósunum þegar loks kemur að sjálfum jól-
unum. Þau hafi ekki tilætluð áhrif þá, sem sagt að koma manni í
jólaskap. Þá er það einmitt þetta. Hvað eru jólin? Um hvað snú-
ast þau, og hvað kemur okkur í jólaskap? Hefur þú hugsað um
það? Eru það minningarnar um bernskujólin? Eru það kertaljós-
in? Eru það smákökurnar, eða jólahreingerningarnar? Er það
ilmurinn af hangikjötinu? Eru það falleg jólaævintýri? Eða jóla-
sveinarnir? Jólainnkaupin og jólagjafirnar? Eru það jólalögin í
útvarpinu eða það að heyra jólakveðjur lesnar í ríkisútvarpinu
rétt fyrir hátíðina? Er það aftansöngur á aðfangadagskvöld? Eða
að heyra kirkjuklukkurnar hringja inn jólin? Er það að pakka inn
jólagjöfunum og fara með þær og afhenda sem kemur okkur í
jólastuð? Eða það að taka upp jólapakkana? Er það að skreyta
jólatréð og húsið, setja upp jólaseríuna á runnana úti sem kemur
með réttu jólastemninguna? Eða er það jólasnjórinn? Ég heyri
stundum sagt: Ég er alveg farinn úr öllu jólastuði. Ég er ekki
kominn í neitt jólaskap. Allt þetta segir mér að þessir hlutir
skipti okkur máli og tengist einhverjum minningum og tilfinn-
ingum tengdum þessari hátíð. En stóra spurningin er þá: Snúast
jólin bara um stemningu? Nei. Allir þessir hlutir eru eiginlega
bara umbúðir, umgjörð.
Það er svo margt í umbúðunum sem felur innihaldið. Reyndar
held ég að fyrir mörgum séu jólin bara þessar umbúðir sem ég
var að lýsa. Eitthvað sem vekur hlýjar og góðar minningar og
tilfinningar en ekkert meir. Það vantar innihaldið.
Kannski gerum við okkur ekki grein fyrir því hvað innihaldið
og aðalatriðið er fyrr en aðstæður okkar verða öðruvísi. Ég man
eftir því þegar við fjölskyldan vorum að störfum í Eþíópíu og
héldum okkar fyrstu jól þar. Það var svo margt í ytri aðstæðum
sem vantaði til að komast í þessa jólastemningu sem við þekkt-
um frá Íslandi. Þarna var bara hiti og sviti, engar jólaskreytingar
eða jólaljós á götum úti. Það var einmitt þá sem innihaldið fór
að skipta miklu meira máli, því að umbúðirnar vantaði. Þá mátti
ekki vanta innihaldið.
Jóhannes skírari vildi vita fyrir víst hvort Jesús væri í raun sá
sem hann sagðist vera, frelsari frá synd og dauða. Hann vildi
vita: Eigum við að vænta annars?
Vitum við hvers við væntum um jólin? Ég er ósköp hræddur
um að það sem við væntum fyrir jólin séu bara umbúðir, en ekki
innihaldið. Ættum við ekki að vænta hans sem koma skal, frels-
arans?
Ég man eftir Glám og Skrám í jólabarnatíma sjónvarpsins
þegar jólasveinninn kom inn og sagði: „Krakkar mínir komið
þið sæl, ég er jólasveinninn.“ Þá fannst manni fyndið þegar þeir
svöruðu um hæl: Jóla hvað? Það er spurningin sem við erum að
velta fyrir okkur í dag. Jóla hvað? Því miður er íslenska orðið
sem við notum komið úr heiðnum sið og er skylt orðinu hjól.
Það tengist þessum tíma þegar verður viðsnúningur og daginn
tekur að lengja á ný. Í ensku er notað kristilegt orð um þessa há-
tíð: Christmas eða Krists messa. Það bendir á kjarnann. Jólin
snúast um Jesú Krist. Þau eiga að vera messa, tilbeiðsla til hans.
Þau eiga að vera honum til heiðurs. Það er mjög táknrænt fyrir
afkristnun Vesturlanda að verslunarmenn tala frekar um X-mas
til að stuða ekki þá sem ekki eru kristinnar trúar. Margir átta sig
ekki á þessu. En í raun eru þeir að setja X, sem í stærðfræðinni
er oftast látið standa fyrir það sem er óþekkt, í staðinn fyrir
frelsarann. Þeir hafa skipt út ástæðu jólanna með einhverju sem
enginn veit hvað er, öllum umbúðunum sem eru svo miklar að
enginn kemst að innihaldinu. Þetta er eins og risapakki með um-
búðum hverjum inni í annarri, hver annarri fegurri, og þegar
maður er loks kominn inn úr þá var ekkert í pakkanum.
Margir búa við erfiðar aðstæður um jólin og fyrir þeim er
þessi árstími ekki eitthvað sem vekur fagrar tilfinningar, heldur
kvíða og ótta. Skammdegið og þunglyndið herjar líka meira á
suma á þessum tíma. Særindi og eftirsjá, splundrað fjölskyldu-
líf. Allt eru þetta hlutir sem verða erfiðari fyrir suma um jólin.
Það er sama hvernig ástatt er fyrir okkur. Það sem skiptir mestu
máli við undirbúning jólanna er að við væntum þess sem koma
skal, Jesú sjálfs. Hann er sonur Guðs sem fæddist í þennan heim
til að bjarga okkur. Ef við veltum fyrir okkur aðstæðum Jóhann-
esar skírara, sem sá fram á að líf hans myndi brátt enda, þá áttum
við okkur á þörf hans á að vera viss. Á ég von um eilíft líf á himn-
um? Get ég verið viss um að ég eigi fyrirgefningu syndanna?
Hvað tekur við handan dauðans? Svarið var fólgið í Jesú, sem er
frelsari frá synd. Fæðing Jesú inn í þennan heim er ástæðan fyrir
jólahaldinu. Við fögnum þessari gjöf Guðs sem gaf einkason sinn
til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.
Guðlaugur Gunnarsson hefur m.a. starfað
sem kristniboði í Eþíópíu.
Valsmenn – bestu óskir um gleðileg jól og farsælt nýtt ár
HENSON