Són - 01.01.2007, Page 75
„NÚ HEYRI’ EG MINNAR ÞJÓÐAR ÞÚSUND ÁR“ 75
Náttúran er sannur veruleiki hans, allt annað er blekking. Hann
drekkur eilífð úr brunnum náttúrunnar, næring hans er eilífðin. Ljóð-
mælandi heyrir kall heiðarinnar daga og nætur. Síðasta línan er einnig
upphafið á annarri sonnettu og tengir sonnetturnar þannig saman.
Önnur sonnetta hefst svo:
Og daga og nætur hljómar hennar kall,
sem heimtar mig að ási og bjargastall,
svo huga mínum hvergi verður fritt,
unz hjarta landsins slá ég finn við mitt.
Ljóðmælandi finnur tengslin milli sín og landsins, náttúran kallar svo
sterkt á hann að honum verður ekki rótt fyrr en hann finnur hjarta
landsins slá við sitt. Í öðru erindi bregður fyrir rómantískri náttúru-
mynd. Ljóðmælandi sér fjörð og fjall roðna við koss sólarinnar og
hjarnið, sem hvílir á gnípum, „teygir andlit sitt að himins vörum“.
Í þriðja erindi biður hvert grasstrá: „Komdu heim til mín, / með sætan
ilm og mjúka mold ég bíð“. Hér er ákall náttúrunnar sýnt í verki.
Grasið býður ljóðmælanda heim. Það mun bíða eftir honum og taka
vel á móti honum þegar hann kemur, þegar hann sameinast moldinni.
Í fjórða erindi kallar landið hann til sín og bernskuminningarnar í
Dölum ákalla hann líka:
Mig kalla ljósrauð kvöld, mitt land, til þín,
mig kallar morgunsól í votri hlíð.
Mig kallar bernskudalsins draumblá tíð.
Í þriðju sonnettu hverfur ljóðmælandi aftur til minninga bernskudalsins
sem voru draumi líkastar. Þá var hann heimakær smaladrengur sem
heyrði á tal álfa. Á meðan draumurinn „svífur yfir vötn hugans“ stillist
ólgan sem „fyrrum vall“ í huga hans. Draumurinn hverfur, en hann vill
hverfa aftur til þeirrar kyrrðar sem hann fann í æsku. Hún endar svo:
„en ég vil aftur sitja um sumarnótt / í rökkurkyrrð við fossins hvíta
fall“. Í fjórðu sonnettu hefur langur tími liðið og myndum er brugðið
upp af náttúrunni við fossinn. Rökkurkyrrðin er sú sama, en nú „föln-
ar, máist, dagsins rauða blóð“. Rauði liturinn táknar lífskraftinn sem í
deginum bjó en nú er orðinn lítill sem enginn. Myndhvörfin virka eins
og dagurinn sé að þrotum kominn. Grösin, sem „hættu sér á klettsins
fremsta pall“, eru hulin úðaryki og njóta sín ekki lengur. Fossinn sem
áður var kraftmikill er orðinn daufur, hann „syngur ekki lengur styrks-