Són - 01.01.2007, Qupperneq 76
HEBA MARGRÉT HARÐARDÓTTIR76
ins óð“ og þögnin ríkir. Fossinn táknar ævitímann sem er senn á enda;
brátt mun dauðastundin nálgast. Líklega eru hliðstæður milli náttúru-
myndmálsins og tilfinninga ljóðmælandans. Hann er orðinn öldungur
og er farinn að hugsa um ráðgátu dauðans. Í næsta erindi verður hann
sjálfur órofa hluti af jörðinni:
Og jörðin verður sál — en sál mín jörð.
Nú sé ég bjarma gegnum efnis tjald
og grúfist dýpra grænan niðr í svörð.
Sál hans verður að moldu og moldin að sál, sbr. Biblíuna: „Því að mold
ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19). Hann
sameinast jörðinni, þ.e. uppruna sínum. Í fyrstu sonnettu mætti jafnvel
halda að ljóðmælandi væri fæddur af móður náttúru, hér hverfur hann
aftur til hennar. Miðað við efni sonnettusveigsins í heild lítur út fyrir að
hann sé aðeins í uppljómunarástandi en alls ekki dáinn, því að í
fimmtándu sonnettu bíður hann enn „fullrar birtu“. Í uppljómun sinni
sér hann „bjarma“ í gegnum dulu efnisins. Hann sér lengra en efnislegur
heimur gefur til kynna, honum birtist hin andlega vídd. Trúin á annað
líf kemur hér fram. Ljóðmælandi grúfir sig lengra niður í grassvörðinn,
hann finnur þar áreiðanlega „sætan ilm“ (sbr. sonnettu tvö). Það er eins
og hann sé að hjúfra sig upp að móður náttúru. Hann hræðist ekki hið
„hulda kynjavald“ því hann er sjálfur „sál af heimsins sál“. Hann segist
síðan „búa glaður við bergsins kalda stál“. Fimmta sonnetta hefst á þeim
orðum. Bergið, ásinn, hlíðin, móarnir, hvammurinn og fleiri staðir, sem
nefndir eru í sonnettusveignum, eru hluti af bernskustöðvum hans. Þar
finnst honum gott að vera. Í annarri sonnettu sagði ljóðmælandi frá því
að náttúran „heimtaði hann að ási og bjargastall“ og að honum yrði ekki
rótt fyrr en hann fyndi hjarta landsins slá við sitt. Bergið er þannig rétt
við hjarta landsins. Hann vill gjarnan vera þar „er birtan fyrsta tendrar
myrkan ál“. Þessi myndhverfing kallast á við ljóðlínuna „á höfin svörtu
ljóssins fyrsti bjarmi“ í fyrstu sonnettu. Birtan fyrsta gæti stafað frá sólin-
ni, sem veitir ljósi inn í annars myrka tilveru. Ljósið er merki um eilífð-
ina og hafið táknar tilveruna (sbr. fyrstu og fimmtu sonnettu, „heimsins
sær“). Ljóðmælandi er líklega enn að hugleiða ráðgátu dauðans, nú ekki
sinn eigin heldur dauða allra manna. Lýsingin á dauðanum, sem byrjaði
með náttúrulýsingu í fjórðu sonnettu, stigmagnast þegar dauðinn er
nefndur á nafn. „Allar stjörnur slokkna, er skærast brunnu“ og „við
teygum dauðans drykk úr lífsins skál“. Tímanum er líkt við strauminn
og kvikar öldur: