Skírnir - 01.01.1981, Síða 10
8
PÁLL SKÚLASON
SKÍRNIR
feld heimspekin var íslendingum á 18du öld, eru afdrif tilskipunarinnar
1743 um skólana, er býður að kenna skuli í skólunum hugsunarfræði, sið-
fræði og náttúruspeki; en engin af vísindagreinum þessum var kennd, og
íslendingar brutu þannig beinlínis boð konúngs, er auðsjáanlega miðaði
til að efla framfarir þjóðarinnar, og hafa þeir þó jafnan verið hinir fúsustu
til að hlýða boðum stjórnarinnar, einkum þeim er minnst gagn hefir orðið
að. Um sama leiti voru og jafnvel þeir menn, er bezt voru mentaðir, ekki
lausir við hleypidóma á móti heimspekinni, tek ég til dæmis Eggert Ólafsson,
einn hinn merkasta og margfróðasta mann er ísland hefir átt; bregður
stundum fyrir í kvæðum hans kala til heimspekilegrar rannsóknar og mann-
legrar speki, og þakkar hann drottni að hann hafi forðað sér frá villulær-
dómum heimspekinnar, og leitt sig aptur til kristilegrar trúar. Það lítur
svo út sem þessi skoðunarmáti sé orðinn rótgróinn í þjóðaranda íslendinga,
og lýsi sér hjá sumum einsog kali eða óbeit á mentun og vísindum, en hjá
flestum einsog andlegur svefn og fjörleysi.
Ég læt lesendum eftir að finna önnur og nærtækari dæmi í
bókmenntum okkar um þessa skoðun, að menn megi prísa sig
sæla og lofa guð fyrir að hafa ekki ánetjast heimspekilegum
fræðum.2 Það ætti ekki að vefjast fyrir neinum að finna slík
dæmi. En sprettur þessi andúð á heimspeki einfaldlega af „sér-
visku og hleypidómum"? Um það vil ég leyfa mér að efast.
Nær væri að halda því fram að „sérviskan", sem hér um ræðir,
eigi sér trausta stoð í helstu bókmenntahefð íslendinga, og að
„hleypidómarnir" séu varnarhættir þessarar bókmenntahefðar.
Höfundur ritdómsins virðist raunar luma á slíkri skýringu þeg-
ar hann ræðir um hve íslensk tunga sé auðug og fjölorð í sögu-
málinu: Kenningin væri þá sú að hið öfluga ráð sem íslendingar
fundu upp til að sjá við heimspekinni hafi ekki verið fólgið í
vanrækslunni einni saman, heldur í frásagnarlistinni og eflingu
hennar um aldir. Þessa kenningu vil ég reifa svolítið og gagn-
rýna áður en ég ræði nánar um tengsl heimspeki og frásagna.
II
Hugsun okkar hefur verið öguð af þeirri list að segja sögur
í bundnu máli og óbundnu. Ögun hugsunarinnar og um leið
tamning tungunnar sem er bundin þessum tiltekna tjáningar-
máta, frásagnarlistinni og þeim hugsunarhætti sem henni er
samofinn, hafa til þessa gerst á kostnað annars konar tjáningar-